Fjölbreytt dagskrá á Regnbogaráðstefnu

Dagskrá Regnbogaráðstefnu Hinsegin daga hefur nú verið kynnt og er stútfull af áhugaverðum dagskrárliðum. Hinsegin 101 verður á sínum stað, þar sem farið verður yfir grundvallaratriðið í hinsegin samfélaginu og að þessu sinni verður einnig boðið upp á Bangsar 101, þar sem Bangsafélagið mun fjalla um bangsasamfélagið, líkamsvirðingu og fjölbreytileika. BSDM verður einnig með kynningu á BDSM og býður velkomin öll áhugasöm um hvernig megi nota BDSM sem leið til nándar. Alþjóðlegi vinkillinn verður svolítið rauður þráður á ráðstefnunni í ár, en fjallað verður um bleikþvott í samhengi við stríð og frið í tveimur erindum; annars vegar pallborði sem stýrt er af Uglu Stefaníu og hins vegar umræðuviðburði á vegum Alex Benjamins Jørgensen, hinsegin aktivista sem ólst upp í Líbanon en býr nú í Noregi og starfar fyrir Osló Pride. Þá kemur Lars Kaupang og fjallar um Arctic Pride í Tromsö og hann og Helga Haraldsdóttir, formaður Hinsegin daga, munu ræða saman um hvernig hinseginhátíðir á einangruðum stöðum í norðri geta unnið saman. Að lokum verður málstofa um kynheilbrigði innan hinsegin samfélagsins og þá fer fram listamannaspjall Bjarna Snæbjörnssonar og Grétu Kristínar Ómarsdóttur, sem ætla að spjalla saman um hinsegin menningu.

Regnbogaráðstefna Hinsegin daga fer fram 8. ágúst frá 9-15 í Iðnó. Þú getur kynnt þér dagskrána betur á vef Hinsegin daga.