Forsíðuviðtal

Í ár héldu Hinsegin dagar í fyrsta sinn samkeppni um forsíðu tímaritsins, en sigurtillagan prýðir einmitt þetta blað sem nú liggur á víð og dreif á biðstofum, kaffihúsum og hinum ýmsu verslunum um land allt. Markmiðið með keppninni var að skapa vettvang fyrir hinsegin listafólk og þeirra list. Alls bárust keppninni 32 tillögur og má með sanni segja að dómnefnd hafi verið sett krefjandi verkefni að velja aðeins eina af þeim fjölmörgu spennandi tillögum sem bárust.

Dómnefnd var skipuð þeim David Terrazas, yfirhönnuði hátíðar og tímarits, Ásgeiri Helga Magnússyni, formanni Hinsegin daga, og Sigtý Ægi Kárasyni, hinsegin myndskreyti og hönnuði, en Sigtýr sá um hönnun forsíðunnar 2020.

Til þess að gæta allrar sanngirni í vali var verkum sem bárust í keppnina skilað til dómnefndar undir nafnleynd. Vinningstillagan hlaut verðlaun upp á 100.000 krónur og var niðurstaða dómnefndar kynnt í Máli og menningu við lúðraþyt og lófatak þann 27. júní síðastliðinn. Við fengum að forvitnast aðeins um sigurvegara keppninnar.

Catherine Soffía Guðnadóttir, she/her, 23 ára

Ég er fædd og uppalin á Akranesi og bý þar enn. Í barnaskóla var uppáhalds greinin mín myndlist. Þegar ég fór svo í fjölbraut var ekki boðið upp á neinar listgreinar þannig að ég einbeitti mér að tungumálum.

Ég útskrifast árið 2017 sem stúdent úr Fjölbrautaskóla Vesturlands. Eftir það var ég á krossgötum í lífinu og ætlaði í allt aðra átt en í dag. Ég hélt í langan tíma að ég gæti aldrei þénað af áhugamálinu mínu sem er listin, svo kynnist ég Dýrfinnu Torfadóttur gullsmið á Akranesi fyrir tilviljun. Hún ásamt fjölskyldu minni segja mér að þetta sé tilgangur minn; að skapa.

Stuðningur þeirra gerði mér kleift að þreyta inntökupróf í fornám við Myndlistaskólann í Reykjavík, þar sem ég byrja í námi í haust.

Hvaða þýðingu hefur hinseginleikinn fyrir þér?

Þegar ég hugsa um hinsegin dettur mér svo margt í hug. Að sjálfsögðu er það fyrst og fremst regnhlífarhugtak yfir svo marga, heilu samfélögin af fólki sem hafa loksins fundið sitt pláss í heiminum.

Fyrir mér er hinsegin besta uppgötvun lífs míns, bein tenging við allt það góða í lífi mínu. Ég glímdi lengi við mína andlegu heilsu og fann svo að eigin óhamingja átti beinar rætur að rekja til þröngsýni og innri fordóma. Hinseginleiki kemur umræðu af stað. Umræðu sem þörf er á. Hinsegin fólk kann að hafa hátt og er óhrætt. Þegar ég hugsa um hinsegin hugsa ég líka um það hversu margir sterkir hinsegin/kynsegin brautryðjendur komu á undan mér og gerðu fólki eins og mér kleift að vera ég sjálf.

Hvað býr að baki forsíðumyndinni?

Það sem býr að baki forsíðumyndarinnar er að sjálfsögðu þema hátíðarinnar í ár; Hinsegin á öllum aldri. Ég ákvað að blanda þemanu við mína eigin hinsegin reynslu.

Það sem sést fyrir miðju myndarinnar er eldri kona að labba með yngri stelpu. Þetta á sem sagt að vera eldri ég og yngri ég. Sú eldri er að fræða þá yngri um allt það sem hún hefur komist að í lífinu. Yngri er þröngsýn, lærir í skólanum ljót og niðrandi orð um hinsegin fólk og kann illa við aðra sem eru öðruvísi.


Þær ganga saman Skólavörðustíginn á regnbogagötunni og sú eldri er að fræða þá yngri um alla fánana og um það hvaða fánar tilheyra hverjum.

Ég myndi segja að þær eigi gott spjall um lífið, tali um alla erfiðleikana; að þvinga sig til að vera „eðlileg“, skilja ekki sjálfa sig og eiga hvergi stað í heiminum.

En líka um það góða; að kynnast nýjum heimi í miðju samkomubanni, aflæra allt það sem maður hélt og koma út úr skápnum 23 ára sem samkynhneigð, eftir erfiða og langa baráttu.

Hvernig var myndin unnin?

Myndin er unnin á skemmtilegan hátt. Ég lærði aðeins að mála á þessu ári á kvöldnámskeiði hjá Myndlistaskólanum í Reykjavík. Þar kynntist ég vatnslitum og féll algjörlega fyrir þeim. Þegar ég sá forsíðukeppnina auglýsta á Instagram voru tveir dagar til stefnu og ég ákvað þá að kýla á þetta. Ég vissi strax hvað ég vildi gera. Útfærslan var fljót að smella saman hjá mér; ég vildi sýna sögu mína á litríkan hátt ásamt því að sýna fjölbreytileika hinsegin fólks og nýtti mér vatnslitina til þess.

Ég fór til Reykjavíkur og stillti mömmu minni og ömmu upp á Skólavörðustíg og smellti mynd af þeim. Fór svo heim og byrjaði strax að teikna, ég vildi hafa alla fánana til staðar og teiknaði þá inn líka. Eftir það málaði ég myndina og hætti ekki fyrr en ég var sátt. Fannst svo eitthvað vanta upp á þegar ég var búin að mála allt saman og bætti við regnboganum á síðustu stundu!

Hvaða þýðingu hafði það fyrir þig að vinna forsíðukeppnina?

Þegar ég frétti að ég hefði unnið forsíðukeppnina var ég í skýjunum! Þetta staðfesti fyrir mig að ég gæti gert erfiða og krefjandi hluti, ég gæti notað eitthvað sem ég lærði fyrr á árinu og nýtt það í verk sem mér þykir svo vænt um og segir sögu mína og annarra. Þetta sýndi mér líka að aðrir sjá hvað býr innra með mér, og trú dómnefndarinnar á verki mínu skilaði mér þessum sigri.


Við verðlaunaafhendinguna hélt ég að ég myndi loksins trúa því að þetta hafi allt saman gerst, en mér finnst þetta ennþá svo ótrúlegt! Ég get hreinlega ekki beðið eftir að sjá verkið mitt og þessa sögu mína prýða forsíðu tímaritsins.

Hver eru næstu skref hjá þér?

Næstu skref hjá mér eru mjög spennandi. Nokkrum tímum eftir gleðigönguna þann 7. ágúst stíg ég upp í flugvél og held til Ítalíu á námskeið í marmarahöggi. Ég mun dvelja þar í þrjár vikur og kem svo beint heim til þess að hefja nám við Myndlistaskólann í Reykjavík, í fornáminu þar. Hver veit hvað gerist svo!

Texti: Símon O. Símonarson, hann, 47 ára