Frá borgarstjóra

Í ár fögnum við 20 ára afmæli Hinsegin daga í Reykjavík. Frá upphafi hefur hátíðin glætt borgina lita- og lífsgleði en það sem gerir Hinsegin dagana svo einstaka er sameiningarmátturinn sem einkennir þá. Almenningur hefur frá fyrstu tíð gripið tækifærið til að sýna samstöðu með hinsegin fólki með því að fylkja liði og taka þátt í gleðinni.

Hinsegin dagar hafa alltaf verið ein fjölsóttasta borgarhátíðin í Reykjavík. Hápunktur hátíðarinnar er gleðigangan og óhætt er að segja að hvergi annars staðar í heiminum safnist um þriðjungur landsmanna saman í miðborginni til að fagna fjölbreytileikanum eins og raunin er hér. Það er því ljóst að öflug barátta hinsegin fólks hefur skilað ótrúlegum árangri hér á landi síðustu ár – en við vitum líka að henni er hvergi nærri lokið og enn er verk að vinna að berjast gegn fordómum og fyrir fullum réttindum allra.

Frá því að Reykjavíkurborg setti sér sérstaka mannréttindastefnu árið 2006 höfum við unnið markvisst að því að allir fái notið sín í Reykjavík. Við verðum samt alltaf að minna okkur á að baráttan heldur áfram – því það er hættulegt að sofna á verðinum og ganga að mannréttindum sem gefnum af því við teljum okkur standa vel að vígi.

Að baki réttindabaráttu liggur þrotlaus vinna einstaklinga sem leggja allt að veði. Hinsegin dagar í Reykjavík urðu til fyrir 20 árum fyrir tilstuðlan slíkra einstaklinga – og enn í dag er hátíðin að fullu undirbúin og framkvæmd af sjálfboðaliðum sem eiga miklar þakkir skildar.

Það verður enn skemmtilegra að fylgjast með Hinsegin dögum nú í ár þegar varanlegur regnbogi mun prýða miðborg Reykjavíkur sem áminning um baráttu hinsegin fólks. Það eru ekki bara litríkar heldur einnig táknrænar kveðjur til hinsegin samfélagsins af tvennum ástæðum. Annars vegar minnumst við þess að 50 ár eru liðin frá Stonewall- uppreisninni í New York sem hratt pride- bylgjunni af stað um allan heim. Og hér í Reykjavík fögnum við 20 ára afmæli Hinsegin daga.

Fyrir hönd Reykjavíkurborgar óska ég ykkur til hamingju með farsæla réttindabaráttu, gleðilegrar hátíðar og síðast en ekki síst ótrúlega góðrar skemmtunar!

Dagur B. Eggertsson
borgarstjóri