EIGN ALLRA
Árið 1978 hannaði og saumaði San Francisco-búinn Gilbert Baker fána með röndum regnbogans. Litirnir áttu að tákna samfélag samkynhneigðra. Á þrjátíu árum hefur fáninn orðið þekktari sem tákn þeirra en bleiki þríhyrningurinn sem um langt skeið var helsta auðkenni réttindabaráttunnar. Fyrir þetta framtak sitt hefur Gilbert Baker stundum verið kallaður Betsy Ross samkynhneigðra, en hún saumaði fyrsta fána Bandaríkjanna.
Sögu bleika þríhyrningsins má rekja til Þýskalands nasismans þegar hommar voru látnir bera merki með bleikum þríhyrningi í fangabúðum nasista.
Árið 1989 vakti regnbogafáninn þjóðarathygli í Bandaríkjunum þegar leigjandi vann mál gegn leigusala sem hafði bannað honum að flagga fánanum af svölum íbúðar sinnar í Vestur-Hollywood. Nú er regnbogafáninn viðurkenndur af Alþjóðlegu fánanefndinni og blaktir við hún á hátíðisdögum hinsegin fólks um allan heim.
SAGA LITANNA Í REGNBOGAFÁNANUM
Litir hafa löngum verið mikilvægir í sögu hinsegin fólks. Á Viktoríutímanum í Englandi var græni liturinn tengdur við samkynhneigð. Fjólublár varð tákn fyrir baráttu samkynhneigðra seint á sjöunda áratugnum og vinsælt slagorð þeirra tíma var „Purple Power“ Bleikt er eins og áður var nefnt liturinn í bleika þríhyrningnum og hefur líka á ýmsum tímum átt samleið með samkynhneigðum.
Gilbert Baker notaði upphaflega átta liti í fánann sinn: bleikan, rauðan, appelsínugulan, gulan, grænan, bláan, indigo og fjólubláan. Hann sagði þessa liti tákna kynverund, líf, lækningu, sól, náttúru, list, jafnvægi og anda, og að þeir vísuðu í landið handan regnbogans sem sungið er um í Galdrakarlinum í Oz. Þegar Gilbert Baker hélt af stað með fyrsta fánann sem hann hafði saumað og litað í höndunum í fánaverksmiðju til þess að láta fjöldaframleiða hann, reyndist liturinn „hot pink“ ekki vera fáanlegur. Fyrsta útgáfa fánans var því með sjö röndum.
Þegar hinn samkynhneigði Harvey Milk og George Moscone, borgarstjórar í San Francisco, voru myrtir í nóvember 1978 skyldi nýi fáninn prýða göngu sem samtök samkynhneigðra stóðu fyrir eftir harmleikinn. Þá var indigo-liturinn fjarlægður svo að tala randanna yrði jöfn því að þrír litir fánans skyldu fylgja annarri hlið göngunnar og þrír litir hinni. Þar með voru rendur fánans orðnar sex, jafnmargar og þær eru í dag.
REGNBOGAFÁNINN OG HINSEGIN DAGAR
Á heimsþingi InterPride í Montreal 2003 tók Heimir Már Pétursson, einn stofnenda Hinsegin daga og þáverandi framkvæmdastjóri hátíðarinnar, við tíu metra bút úr þriggja mílna löngum regnbogafána frá Gilbert Baker. Þriggja mílna regnbogafánann hafði Gilbert saumað ásamt fjölda sjálfboðaliða þetta sama ár til að minnast þess að 25 ár voru liðin frá því að regnbogafáninn var hannaður. Hinn langi fáni var síðan klipptur niður í allmarga búta sem voru gefnir til Pride-hátíða víða um heim. Gilbert áritaði bútinn sem Heimir Már fékk að gjöf og var búturinn einn af þeim síðustu sem eftir voru. Í framhaldinu færði Heimir Már Hinsegin dögum fánann og er hann borinn árlega í gleðigöngu Hinsegin daga.
Frá því að regnbogafáninn varð að tákni í baráttu hinsegin fólks hafa margir aðrir gert fánann að tákni sínu. Þannig hafa friðarhreyfingar í Suður-Evrópu, einkum á Ítalíu, gert regnbogafánann að merki sínu í friðargöngum. Gilbert Baker hefur sagt í fjölda fyrirlestra að hann sé ánægður með að sem flestir sem berjast fyrir góðum málstað geri regnbogafánann að sínum fána. Hann líti ekki svo á að hann eigi fánann þótt hann hafi verið fyrstur til að hanna hann og sauma. Regnbogafáninn sé eign allra sem berjist fyrir mannréttindum hvar sem er í heiminum.