Gleðigangan

Gleðigangan er hápunktur Hinsegin daga. Í henni sameinast lesbíur, hommar, tví- og pankynhneigðir, trans fólk, intersex fólk og aðrir hinsegin einstaklingar í einum hópi ásamt fjölskyldum sínum og vinum til að staðfesta tilveru sína, sýnileika og gleði, ásamt því að minna á þau baráttumál sem skipta hvað mestu máli hverju sinni. Hinsegin dagar skipuleggja gleðigönguna og stýra hvaða atriði fá aðgang að henni en atriðin sjálf eru sprottin úr grasrótinni.

Einstaklingar og hópar geta skipulagt atriði og sótt um þátttöku í göngunni en Hinsegin dagar setja sem skilyrði að öll atriði miðli skýrum skilaboðum sem varða veruleika hinsegin fólks á einn eða annan hátt.

Uppstilling og gönguleið

Að þessu sinni leggur gleðigangan af stað frá Hallgrímskirkju á Skólavörðuholti, stundvíslega kl. 14:00 og bíður ekki eftir neinum. Gengið verður eftir Skólavörðustíg, Bankastræti, Lækjargötu, Fríkirkjuvegi og endað á Sóleyjargötu við Hljómskálagarðinn þar sem taka við glæsilegir útitónleikar að göngu lokinni.

Uppstilling göngunnar hefst við Hallgrímskirkju kl. 12.

Skráning og þátttaka

Þátttakendur sem ætla að vera með atriði í gleðigöngunni skulu sækja um það til Hinsegin daga eigi síðar en 1. ágúst. Nauðsynlegt er að skrá atriði með því að fylla út rafrænt umsóknareyðublað á hinsegindagar.is/gledigangan.

Nánari upplýsingar veita göngustjórarnir Eva Jóa, Anna og Steina en hægt er að senda þeim póst á gongustjorn@hinsegindagar.is. Öryggisstjóri er Þórhallur og hægt er að senda honum spurningar varðandi öryggi í göngunni í pósti á netfangið thorhallur@hinsegindagar.is.

Hinsegin dagar leggja áherslu á að þeir sem vilja ganga með, en hafa ekki sótt um þátttöku og eru ekki með sérstakt atriði, bíði með að slást í hópinn þar til síðasti vagninn hefur farið framhjá.

Auglýsingar bannaðar

Hinsegin dagar eru stoltir af því að gleðigangan í Reykjavík er ein af fáum sambærilegum göngum í heiminum þar sem auglýsingar fyrirtækja og þjónustu eru óheimilar. Með auglýsingabanninu er undirstrikað að gangan er grasrótarviðburður og þátttakendur taka þátt til að styðja baráttuna og málstaðinn en ekki til að styrkja eða auglýsa fyrirtæki.

Í örfáum undantekningartilvikum eru auglýsingar heimilar en þá þarf að sækja sérstaklega um undanþágu til göngustjórnar. Athugið að allar ósamþykktar auglýsingar á bílum og fatnaði þarf að hylja áður en gangan fer af stað. Brot á þessum reglum verður til þess að atriði er hafnað eða vísað úr göngunni.

Að gefnu tilefni minnum við á að ófiðraðir steggir og fjaðralausar gæsir eru ekki velkomin í gleðigöngu Hinsegin daga. Við göngum í þágu mannréttinda og mannvirðingar og biðjum gæsa- og steggjapartí vinsamlegast að virða það og finna sér annan vettvang.
Sjá nánar
hér.

Myndir frá gleðigöngunni 2018: