Gleðigangan mín!

Stolt í hverju skrefi

Gleðigangan árið 2020 verður ekki ein heldur fjölmargar minni gleðigöngur, sem fara fram víðs vegar um höfuðborgarsvæðið og um land allt! Frá upphafi Gleðigöngunnar hafa einstaklingar og hópar skipulagt eigin atriði og þau munu nú einnig skipuleggja eigin gönguleið. Hver og einn getur rölt með sjálfum sér, vinum eða fjölskyldu, í hæfilega stórum hópum og með smitgát í fyrirrúmi. Vinahópur gengur upp Helgafellið eða meðfram Ægisíðunni, annar röltir kringum Rauðavatn, sá þriðji er fjölskylda sem gengur í Gróttu, sá fjórði vinnufélagar sem ganga Hafnarstrætið á Akureyri og fimmti áhöfnin sem stikar Fjarðargötuna á Seyðisfirði.

Gleðigöngurnar, í öllum sínum fjölbreytileika, leggja af stað kl. 14 laugardaginn 8. ágúst, hvar sem þátttakendur vilja ganga, sýna stuðning sinn við réttindabaráttu hinsegin fólks og fagna fjölbreyttu samfélagi. Vonandi bera sem flestir regnbogafána eða skreyta sig regnbogalitum og senda skýr skilaboð um veruleika hinsegin fólks á einn eða annan hátt. Við biðjum alla þátttakendur að fara um gangandi, hjólandi eða á hjólaskautum og fara eftir öllum umferðarreglum.

Stærri hópar, sem hafa tekið þátt í göngunni undanfarin ár, t.d. Intersex Ísland, Trans Ísland, BDSM á Íslandi, Ásar á Íslandi, Samtökin ’78 og Dragsúgur, þurfa að skrá sig hjá Hinsegin dögum svo yfirsýn fáist yfir hverjir ganga hvar. Hægt verður að fylgjast með framgangi gleðiganga á hinum ýmsu miðlum og þátttakendur eru hvattir sem aldrei fyrr til að deila reynslu sinni á samfélagsmiðlum.

#stoltskref #takeaproudwalk #reykjavikloves #reykjavikpride2020 #reykjavikpride #glediganganmin