Í júní 1999 stóðu Samtökin ʼ78 að hátíðahöldum á Ingólfstorgi en á vormánuðum hafði það runnið upp fyrir nokkrum eldri hommum að 27. júní það ár yrðu 30 ár liðin frá Stonewall-uppreisninni svokölluðu í New York. Lögreglunni í New York, sem stundaði rassíur á stöðum samkynhneigðra, er til vorkunnar að hún gerði sér ekki grein fyrir á hvers konar tímasprengju hún var að stíga á þessum degi. Þetta var nefnilega útfarardagur Judy Garland, átrúnaðargoðs homma, og þeir höfðu safnast saman á Stonewall-barnum til að fylgjast með útförinni í sjónvarpi.
Hommarnir, og auðvitað lesbíurnar líka sem þó sigldu meira undir radarnum, höfðu í áratugi búið við fjandsamlega löggjöf og fjandsamlega lögreglu. En á þessum degi var þeim meira en misboðið. Þegar lögreglan var að draga hommana inn í Svörtu Maríurnar segir þjóðsagan að skáldið Allen Ginsberg hafi gengið hjá og sagt „ætlið þið virkilega að láta bjóða ykkur þetta?“ Við þetta byrjuðu hommarnir að streitast á móti lögreglunni og það endaði með þriggja daga óeirðum í Greenwich Village.
Þarna liggja rætur Hinsegin daga í Reykjavík því árið 1970 voru fyrstu Gay Parades, eða gleðigöngurnar eins og við köllum þær á íslensku, farnar í nokkrum borgum Bandaríkjanna. Síðan þá hefur göngunum fjölgað bæði þar og um allan heim og nú er engin borg með borgum nema hún státi af Hinsegin dögum og gleðigöngum.
Þennan dag í júní 1999 var ég ásamt um fimmtán hundruð manns á Ingólfstorgi og fylgdist með glæsilegri hátíð með tónlistaratriðum og ræðuhöldum. Við það að verða vitni að þessu kviknaði á peru í kollinum á mér. Hátíð samkynhneigðra sem hvergi hafði verið auglýst opinberlega dró að sér fimmtán hundruð gesti, sem flestir voru vinir og ættingjar homma og lesbía.
Það rann upp fyrir mér að það hefði átt sér stað viðsnúningur meðal þjóðarinnar. Tuttugu ára þrotlaus barátta Samtakanna ʼ78, sem meðal annars fengu það verkefni í vöggugjöf að upplýsa hræddan almenning um sannleikann um alnæmið, hafði skilað þeim árangri að ættingjar og vinir og stór hluti þjóðarinnar var tilbúinn til að standa við hlið homma og lesbía.
Til að gera langa sögu stutta setti ég mig í samband við þann fámenna hóp sem skipulagði hátíðahöldin á Ingólfstorgi og sagði að nú yrði að hefjast handa við að skipuleggja enn stærri hátíðahöld að ári með göngu að erlendri fyrirmynd. Ekki voru allir hrifnir af hugmyndinni og það kostaði fyrirhöfn að fá fólk til liðs við hana. Mest óttaðist fólk að mjög fáir myndu mæta í slíka gleðigöngu en raunin varð önnur. Um tólf þúsund gestir mættu í fyrstu gönguna og þegar ég lét af störfum fyrir Hinsegin daga rúmlega tíu árum síðar hafði hátíðin breyst úr eins dags hátíð í fimm daga hátíð með um 80 þúsund þátttakendum og gestum.
Hinsegin dagar voru stofnaðir haustið 1999 sem sjálfstætt félag. Hugmyndafræði þeirra er að gleðin sé áhrifaríkasta vopnið, ekki hnefinn og reiðin yfir örlögum okkar fólks í gegnum tíðina. En ekki er allt sem sýnist. Með gleðinni minnumst við sigra þeirra hugrökku sem fóru fremst í baráttu samkynhneigðra og uppskáru háðung, niðurlægingu, fangelsun, líkamsárásir og jafnvel dauða. Augljósustu fórnarlömbin voru dragdrottningarnar og karlmenn sem þóttu kvenlegir, en þeir voru ekki þeir einu.
Með gleðinni sýnum við menningu okkar og sögu en allt of oft gleymist að hún er einstök og sérstök. Því þótt við höfum víða unnið þann sigur að verða jöfn fyrir lögunum og gagnkynhneigðir vorum við ekki, erum við ekki og verðum aldrei streit.
Nú á tuttugu ára afmælinu minnumst við áfram sigranna og fórnanna sem færðar voru en við megum aldrei gleyma hver við erum. Fullnaðarsigurinn getur aldrei og má aldrei verða sá að verða streit. Þannig myndum við vanvirða sögu okkar, baráttu og fórnir þeirra þúsunda sem sköpuðu okkur betri heim. Heim þar sem við getum sungið stolt: „Ég er eins og ég er, hvernig á ég að vera eitthvað annað?“
Til hamingju við öll.
Heimir Már Pétursson, framkvæmdastjóri Hinsegin daga í Reykjavík 1999 til 2011