Gunnlaugur Bragi Björnsson var fyrr í kvöld kjörinn nýr formaður Hinsegin daga í Reykjavík á aðalfundi félagsins. Gunnlaugur Bragi tekur við af Evu Maríu Þórarinsdóttur Lange sem setið hefur í stjórn félagsins frá árinu 2011, þar af sem formaður frá árinu 2012.
Önnur sem kjörin voru í stjórn Hinsegin daga eru Karen Ósk Magnúsdóttir, gjaldkeri, Vilhjálmur Ingi Vilhjálmsson, ritari, Helga Haraldsdóttir, meðstjórnandi og Ragnar Veigar Guðmundsson, meðstjórnandi.
Gunnlaugur Bragi er viðskiptafræðingur frá Háskólanum í Reykjavík með áherslu á upplýsingamiðlun og starfar á samskiptasviði Arion banka.
Gunnlaugur hefur setið í stjórn Hinsegin daga frá árinu 2013 og allan þann tíma gegnt embætti gjaldkera félagsins. Áður en Gunnlaugur gekk til liðs við Hinsegin daga var hann m.a. gjaldkeri Samtakanna ‘78 2012-2013 og sinnti tímabundið starfi framkvæmdastjóra sama félags árið 2013.
Gunnlaugur Bragi Björnsson:
„Framundan eru spennandi tímar í hinsegin samfélaginu. Í ár eru 40 ár liðin frá stofnun Samtakanna ‘78 og á næsta ári fagna Hinsegin dagar í Reykjavík 20 ára afmæli. Ef litið er yfir sögu þessara tveggja félaga sést þrotlaus mannréttindabarátta hinsegin fólks á Íslandi sem sannarlega hefur borið gríðarlegan árangur.
Þrátt fyrir mikinn árangur erum við reglulega minnt á að enn er verk að vinna, bæði hér heima og erlendis. Sem dæmi má nefna að fjandsamlegar athugasemdir sem lýsa fordómum í garð hinsegin fólks sjást nær daglega á samfélags- og fréttamiðlum og reglulega fáum við fréttir af hinsegin fólki sem beitt er líkamlegu og andlegu ofbeldi. Ísland hefur dregist aftur úr samanburðarþjóðunum þegar kemur að réttindum og lífsgæðum hinsegin fólks og líklega eiga flestir hinsegin einstaklingar sögur af óviðeigandi framkomu og athugasemdum í sinn garð, hegðun sem hefur viðgengist í okkar garð svo árum skiptir.
Hlutverk Hinsegin daga er að þakka fyrir það sem vel er gert og fagna þeim árangri sem náðst hefur. Á sama tíma skapa Hinsegin dagar mikilvægan vettvang til umræðu og fræðslu og hvetja til áframhaldi baráttu og árangurs, innan sem utan landssteinanna. Við í stjórn Hinsegin daga munum áfram leggja höfuðáherslu á að sinna þessu hlutverki, auðmjúk og full þakklætis í garð þeirra sem ruddu brautina – hún var sannarlega þyrnum stráð.“
Hinsegin dagar verða haldnir í Reykjavík dagana 7.-12. ágúst 2018 og sem fyrr verða tugir fjölbreyttra viðburða á dagskránni. Líkt og fyrri ár nær hátíðin hámarki með gleðigöngu og útihátíð í miðborg Reykjavíkur á laugardegi sem að þessu sinni verður 11. ágúst. Dagskrá og yfirskrift Hinsegin daga 2018 verður kynnt í júlí.