Við erum fulltrúar hinsegin ungmenna á Íslandi, sem þýðir að við sjáum um væntingar og þarfir yngri kynslóðarinnar. Ungmennaráðið var samþykkt í mars 2021, en við hófum ekki störf okkar fyrr en í janúar síðastliðnum. Í ráðið er valið með kosningum á vegum Hinsegin félagsmiðstöðvarinnar í ágústmánuði. Þetta árið eru Sólbjartur Oddviti, Andreas Tinni, Teddy Coda Birna, Refur Leó, Sóley, Nóam Óli og Dagbjartur Jóhannsson í stjórn. Við viljum koma með ný, fersk sjónarmið inn í Samtökin og tala fyrir hönd ungmenna.
Í síbreytilegum heimi er stanslaus þörf á túlkun og tjáningu. Fólk er að koma út úr skápnum yngra en nokkur sinni fyrr og því er þörf á að bregðast við því með meiri stuðningi. Við viljum opnara samfélag og öruggari rými til að gera ungmennum kleift að sýna heiminum hver þau eru. Okkur finnst óþolandi að fólk, þá mestmegnis börn og unglingar, séu að gelta á hinsegin fólk og fólk sem passar ekki inn í þröngt box kynjatvíhyggjunnar. Ungt fólk virðist ekki átta sig á því hve skaðleg þessi hegðun getur verið. Það að gelta á hinsegin manneskju er ekki skaðlaust grín. Það að gelta á manneskju lítillækkar þolendur þess. Það gefur til kynna að þolandi sé ekki meira virði en hundur. Það að hinsegin manneskjur þurfi að forðast hluti/aðstæður, og að þau séu ekki örugg úti á götu er ekki í lagi. Jafnvel þótt hatur liggi ekki alltaf að baki þessari hegðun þá dregur það ekki úr skaðleika geltsins. Ungt fólk telur sig vera bara að taka þátt í skrítnu net-trendi en þetta eru hreinlega ekkert annað en fordómar. Það þarf að fræða ungt fólk um hversu skaðlegir fordómar geta verið. Það er sorglegt að árið 2022 þurfi hinsegin fólk enn að lifa við fordóma. Það að hinsegin ungmenni þurfi að vera hrædd þegar þau eru ein niðri í bæ er bakslag í mannréttindabaráttu alls staðar í heiminum. Við verðum að passa það að Íslandi fari ekki aftur þegar kemur að mannréttindum. Það hefur aldrei verið betra að vera hinsegin hérlendis, við viljum halda því þannig.
Við brennum fyrir jafnréttisfræðslu fyrir öll skólastig og höfum nýtt orku okkar í ýmis verkefni eins og fjáröflun til að gefa trans unglingum bindera. Við óskum þess að halda áfram verkefnum okkar og opna umræðuna fyrir fleirum næsta haust, með jafn miklum krafti og ástríðu og áður fyrr.
Hinsegin dagar eru afar mikilvæg hátíð, bæði til að fagna hve langt við erum komin í réttindabaráttunni, en einnig til að minna á það að enn er langt í land. Við munum aldrei hætta að hafa hátt, við erum hinsegin og stolt.
Kæru lesendur, við vonum að framtíðin sé bjartari, að íslenska hinsegin útópían geti loksins orðið að raunveruleika. Við óskum ykkur gleðilegra hinsegin daga og lukku í framtíðinni!