Hinsegin barátta fyrir frelsi allra

Höfundur: Ugla Stefanía Kristjönudóttir Jónsdóttir

Þann 25. maí 2020 var George Flynn myrtur af lögreglumanni í Minneapolis í Bandaríkjunum. Morðið leiddi af sér óeirðir sem vöktu öldur úti um allan heim — meðal annars á Íslandi. Friðsamleg mótmæli breyttust fljótt í alvarleg átök í Bandaríkjunum, þar sem yfirvöld skipuðu lögreglu að beita valdi gegn mótmælendum og kölluðu til hervald.

Þessi átök og það sem gerðist á sér langa sögu en lögregla og yfirvöld víða um heim hafa í áraraðir og áratugi beitt svart fólk kerfisbundnu lögregluofbeldi. Það ofbeldi sem svart fólk hefur þurft að lifa við er eitt og sér nóg til að valda mikilli reiði, sér í lagi þegar fólk dregur í efa að það hafi upplifað það á eigin skinni. Þetta er eitthvað sem hinsegin fólk þekkir vel — en oft og tíðum hefur fólk reynt að réttlæta fordóma sína gegn okkur eða gert lítið úr atburðum eða fordómum gegn okkur. Réttindabarátta hinsegin fólks er samofin réttindabaráttu annarra minnihlutahópa en svart hinsegin fólk, heimilislaust fólk, kynlífsverkafólk og hinsegin fólk á jaðrinum átti stóran þátt í því að hrinda af stað byltingunni sem leiddi til nútímaréttindabaráttu og baráttu gegn lögregluofbeldi.

Stonewall-uppþotin

Ekki er hægt að gleyma því ofbeldi sem lögreglan beitti borgara í Stonewall Inn í Bandaríkjunum sem leiddi til Stonewall-óeirðanna sjálfra árið 1969 — en þær hafa gjarnan verið taldar marka byrjun þess sem við þekkjum sem Pride. Óeirðirnar leiddu af sér fyrstu formlegu kröfugönguna af þessu tagi á Christopher-stræti í New York-borg sem var nefnd Christopher Street Liberation Day Parade.

Ómögulegt er að segja nákvæmlega til um hver atburðarásin var þetta örlagaríka kvöld. Margar sögur fara af því hvernig óeirðirnar byrjuðu og sögusagnir eru mismunandi eftir því við hvern er rætt. Ekki er þó hægt að neita því að sá hópur sem sótti Stonewall-barinn var fjölbreyttur hópur hinsegin fólks, sem var oft og tíðum útskúfað úr samfélaginu vegna fordóma og ofbeldis. Þar á meðal voru svartar trans konur, kynsegin fólk og dragdrottningar — og má þar sérstaklega nefna Mörshu P. Johnson og Sylviu Riveru.

Sögur segja meðal annars að Marsha hafi klifið ljósastaur fyrir utan Stonewall-barinn þegar óeirðirnar áttu sér stað og hent tösku með múrsteinum ofan á húddið á lögreglubíl — en þekkt var á þessum tíma að kynlífsverkafólk geymdi múrsteina í töskum sínum til að verja sig gegn ofbeldisfullum einstaklingum.

Marsha P. Johnson var svört kynlífsverkamanneskja sem á sínum tíma skilgreindi sig sem dragdrottningu. Það gerði Sylvia Rivera líka og báðar voru þær meðal stofnenda Gay Liberation Front og Street Transvestite Action Revolutionaries (STAR), sem var sett á fót til að hjálpa heimilislausu hinsegin fólki.

Óljóst er hvernig þær myndu nákvæmlega skilgreina sig í dag en það hefur gjarnan verið sagt að þær hafi verið trans konur. Báðar töluðu þær um að þær væru dragdrottningar, klæðskiptingar eða bara einfaldlega þær sjálfar. Kyntjáning þeirra var nær alltaf kvenlæg og þær notuðust við kvenkyns fornöfn. Það sem þær minna okkur á er að kynvitund og kyntjáning er oft og tíðum flókin og erfitt er að yfirfæra nútímaskilgreiningar á fólk sem ólst upp í allt öðrum tíðaranda fyrir rúmum fimmtíu árum síðan.

Bylting okkar allra

Hvað sem því líður er augljóst að Marsha og Sylvia tilheyrðu báðar trans samfélaginu líka og þær voru mikill drifkraftur í óeirðunum sjálfum. Báðar léku þær svo lykilhlutverk í því að vekja athygli á málefnum hinsegin fólks í þeim mótmælum og viðburðum sem áttu sér stað í kjölfarið.

Óeirðirnar hafa verið mjög umdeildar innan hinsegin samfélagsins þar sem mismunandi hópar hafa reynt að eigna sér þær á einn eða annan hátt, eða jafnvel þurrka út þátttöku trans fólks, svarts fólks, heimilislausra og kynlífsverkafólks. Það hefur oft valdið miklum sárindum innan hinsegin samfélagsins og myndað ákveðið stigveldi um hver má og má ekki vera hluti af byltingunni. Allar slíkar hugmyndir hundsa það sem óeirðirnar stóðu virkilega fyrir en það voru mótmæli gegn lögregluofbeldi og þeim fordómum sem hinsegin fólk upplifði þá og gerir enn þann dag í dag.

Augljóst er að fjölbreyttur hópur hinsegin fólks kom að óeirðunum og mörg þeirra upplifðu ofbeldi og lifðu við heimilisleysi sökum fordóma og útskúfunar. Andi mótmælanna og það sem varð til þann dag, og leiðir hinsegin baráttuna enn í dag, er að mínu mati mun mikilvægara en hver kastaði fyrsta múrsteininum eða hver var hvar hvaða kvöld.

Hinseginparadísin Ísland?

Þrátt fyrir að þessir viðburðir sýnist oft vera okkur fjarlægir hér á Íslandi þá hefur hinsegin fólk hérlendis sannarlega þurft að berjast fyrir sínum réttindum og fyrstu kröfugöngurnar á Íslandi börðust meðal annars fyrir atvinnuöryggi á vinnustöðum. Ýmislegt hefur runnið til sjávar síðan þá og þrátt fyrir að Ísland hafi leitt í gegn mikilvægar réttindabætur fyrir hinsegin fólk undanfarna áratugi þá er enn langt í land.

Hinsegin fólk, sérstaklega flóttafólk, hælisleitendur, trans fólk og intersex fólk, upplifir enn mikla fordóma á Íslandi og lagaleg réttindi þess hafa ekki verið tryggð til fulls. Ekki þarf að líta lengra aftur en til ársins 2019 til að sjá að hinsegin manneskja var handtekin af lögreglunni í sjálfri Gleðigöngu Hinsegin daga og á undanförnum árum hafa sést dæmi um að hinsegin flóttafólki og hælisleitendum hafi verið vísað úr landi af lögreglu og yfirvöldum. Fordómar leynast enn víða, til dæmis innan íþróttaheimsins, og hinsegin fólk má ekki gefa blóð líkt og annað fólk sökum hinseginleika þess.

Það er því mikilvægt nú sem áður að við gleymum ekki sögunni og öllum þeim fjölbreytta hópi sem hefur komið að baráttunni hérlendis. Þrátt fyrir að Hinsegin dagar séu vissulega hátíð þar sem mikilvægt er að fagna og sletta aðeins úr klaufunum þá er sömuleiðis mikilvægt að við sofnum aldrei á verðinum. Víðs vegar um heim eru að rísa undiröldur fordóma og haturs og hinsegin fólk — sér í lagi hinsegin fólk sem tilheyrir fleiri minnihlutahópum líkt og svart trans fólk — er hvað viðkvæmast.

Baráttan fram undanÁ Íslandi er slík undiralda líka að rísa en í forsetakosningunum 2020 hlaut Guðmundur Franklín yfir 13.000 atkvæði. Hann hefur verið kenndur við hægrisinnaðan popúlisma í anda Donalds Trumps Bandaríkjaforseta og Bolsonoro, forseta Brasilíu. Það er mikið áhyggjuefni að svo stór hópur á Íslandi finni sig knúinn til að styðja við orðræðu sem beinist gegn réttindum hinsegin fólks og annarra minnihlutahópa. Það er að mínu mati ógn við samfélag okkar og lýðræði.

Höldum því ótrauð áfram og höldum áfram að skapa samfélag þar sem við getum öll lifað í sátt og samlyndi — eins hýr og við getum mögulega verið. Baráttunni er langt frá því að vera lokið.

Svo ég hafi nú eftir Mörshu P. Johnson sjálfri: „No Pride for some of us, without liberation for all of us.“