Hinsegin félagsmiðstöð

Hinsegin félagsmiðstöð Samtakanna ’78 og Tjarnarinnar er fyrir hinsegin ungmenni á aldrinum 13–17 ára. Félagsmiðstöðin hefur verið starfrækt í núverandi mynd frá árinu 2016 þegar Hrefna Þórarinsdóttir var ráðin forstöðukona hennar. Fram að því hafði hópurinn verið ungliðahreyfing Samtakanna ’78 og alltaf tóku nokkrir fullorðnir sjálfboðaliðar að sér að halda utan um hópinn. Í dag hefur félagsmiðstöðin sprengt utan af sér húsnæði Samtakanna vegna stærð hópsins sem mætir og er því með aðstöðu í Spennistöðinni við Austurbæjarskóla. Þrátt fyrir að vera ein best sótta félagsmiðstöð landins, þar sem hátt í hundrað ungmenni mæta á hverja opnun, þá er aðeins einn launaður starfsmaður starfandi við félagsmiðstöðina í dag.

Hér eru greinar eftir nokkur hinsegin ungmenni sem hafa stundað Hinsegin félagsmiðstöðina undanfarin ár en þau lýsa hvernig félagsmiðstöðvarstarfið hafði áhrif á þau.

Lengi taldi ég mér trú um að það að koma út úr skápnum skipti engu máli, að enginn þyrfti að vita. Svo var það einn daginn að ég vildi mæta á Hinsegin daga og fylgjast með gleðigöngunni. Og þá fékk ég spurningar sem ég gat ómögulega svarað þó ég vissi alveg svarið. En það var þá sem ég komst að því að ég hafði rangt fyrir mér, að ég hefði verið að ljúga að mér sjálfum; ég var ekki sáttur með mig, ég var að þagga niður í mér, ég var fölsk manneskja. Og ég vildi breyta því.

Ég hafði áður séð að það var til félagsmiðstöð en ég þorði aldrei að fara, en eftir gleðigönguna ákvað ég að fara. Ég vildi ekki segja neitt um þetta við foreldri mitt þar sem ég var nýkominn úr skápnum og það hafði tekið því illa vegna það hafði aldrei búist við því að ég væri „hommi“ og vildi ekki sætta sig við það. Það tókst þó ekki og foreldrið tók því ekki svo vel, en ég endaði með að fá leyfi. Þetta var fyrsta skiptið sem ég var innan fólk á mínum aldri eftir erfiðleika með andlega heilsu og skóla. Ég hafði kynnst nýjum vinum sem voru hinsegin í nýja skólanum sem ég hafði fært mig yfir í vegna vanda við nám. Og ég komst að því að þau fóru í þessa félagsmiðstöð og fékk að koma með þeim. Það var rosalega yfirþyrmandi að koma þangað inn og hitta fullt af fólki sem ég vissi ekkert um. En ég ýtti mér áfram sama hversu lítið ég treysti á að vera innan hópsins. Það var eitt af því erfiðasta sem ég hafði gert en fallegu sjálfboðaliðarnir og æðislegu vinirnir sem ég kynntist gerðu þetta allt þess virði. Og mest af öllu get ég þakkað þeim fyrir að aðstoða mig við að treysta. Treysta öðrum og aðallega mér sjálfum. Áður fyrr hefði mig ekki dreymt um að standa uppi á sviði, í dag er ég orðin stjarnan. Ég get hóað út í heiminn hversu mikill hommi ég er og vil að allir sjái hver ég er.

– Ég heiti Stefán Örn Andersen og ég er hommi.

Ég heiti Harpa Kristjana Steinþórsdóttir og ég er 18 ára.
Ég hef verið að mæta í félagsmiðstöð Samtakanna ’78 í sirka 4 ár eða síðan ég var 14 ára. Fyrstu nokkur skiptin mín voru erfið og óþægileg en ég átti vinkonu sem var búin að vera að mæta í sirka ár á undan mér þannig að ég átti hálfgert öryggisnet á staðnum. Um leið og ég byrjaði að opna mig fyrir fólki á staðnum þá urðu þriðjudagar fljótt uppáhaldsdagarnir mínir.

Ég var nýorðin 14 ára þegar ég kom út fyrir fyrstu manneskjunni sem var besta vinkona mín og tók hún því mjög vel, enda var ástæða fyrir því að hún var fyrsta manneskjan sem ég sagði frá. Nokkrum vikum eftir það kom ég út fyrir mömmu minni og nokkrum mánuðum seinna var ég byrjuð að mæta reglulega í 78.

Árið 2017 var mjög erfitt ár fyrir mig og flutti ég þá frá mömmu minni til pabba míns. Þar átti ég erfitt með að mæla út hvernig hann myndi bregðast við því að ég væri ekki gagnkynhneigð. Ég vissi svo sem alltaf að hann myndi ekki hætta að elska mig eða eitthvað svoleiðis en ég var samt sem áður dauðhrædd. Síðan kom pride 2019 og ég fékk þá að vera á vagni í göngunni með félagsmiðstöðinni. Ég man eftir því að standa á vagninum með vinum mínum og bara finna ástina og stuðninginn í loftinu. Það er það sem gaf mér styrkinn til að koma loksins út fyrir pabba mínum. Það kvöld birti ég póst á Facebook og Instagram og sagði frá pride-reynslunni minni og kom út fyrir öllum í kringum mig.

Ég veit fyrir víst að án miðstöðvarinnar og sjálfboðaliðanna sem starfa þar væri ég ennþá inni í skápnum fyrir mjög mörgum í lífi mínu og þessi staður og fólkið sem hittist þar mun alltaf eiga mjög stórt pláss í mínu hjarta. Fólkið er alltaf tilbúið til að hjálpa þér (Shoutout á Hrefnu sem hefur komið mér í gegnum svo marga erfiða hluti á síðustu árum.). Mér hefur aldrei liðið eins mikið eins og ég ætti stað í heiminum og þegar ég hitti fólkið mitt úr 78.

Án félagsmiðstöðvarinnar væri ég ekki manneskjan sem ég er í dag. Ég væri leið og lokuð og á stað sem enginn unglingur ætti að vera.

Takk Samtökin ’78 fyrir að gefa unglingum eins og mér stað til að vera þau sjálf og stað til að finna út úr því hvað það þýðir að vera maður sjálfur. Takk fyrir að gefa okkur stuðninginn. Takk fyrir allt.

Ég heiti Salka Snæbrá, ég er 17 ára gömul og ég er samkynhneigð.
Ég komst að þessu eftir mjög, mjög mikið af pælingum, ég var löngu komin út þegar ég áttaði mig á því að ég væri nú bara lesbía. Þegar ég var 13 ára (árið 2016) fór ég í gleðigönguna, eins og flest ár áður. En í þetta skiptið var það öðruvísi. Mér leið svo illa, á degi sem var venjulega svo fullur af gleði, sérstaklega fyrir mig sem hafði meira að segja fengið að vera í göngunni nokkrum sinnum. En þarna stóð ég, í miðri göngunni, og leið eins og að ég væri að ljúga að öllum í kringum mig. Ég var ekki þarna til að fagna sjálfri mér. Því að ég var þarna að styðja „þetta fólk“, ég var ekki ein af „þeim“. 

Ég kom út úr skápnum fyrir þáverandi vinahópnum mínum tíu dögum seinna, nokkrum vikum áður en ég byrjaði í áttunda bekk. Næsta ár var mögulega versta ár sem ég hef gengið í gegnum hingað til, það er erfitt að koma út úr skápnum í áttunda bekk. Ef einhver hefði sagt litlu mér að ég mætti sko alveg pæla í því að ég væri kannski lesbía hefði ég kannski bjargað mér frá næstu þremur árum, þar sem ég neyddi sjálfa mig til þess að vera hrifin af öllum strákum sem ég sá.

Þetta var vegna gagnkynhneigðra viðmiða sem ég hafði samþykkt að ég myndi þurfa að uppfylla. Vissulega laðaðist ég að stelpum, en ég myndi nú örugglega giftast manni, svo þetta var allt í lagi. Ég var sko ekkert lesbía, mér fannst stelpur bara milljón sinnum fallegri, skemmtilegri og áhugaverðari en strákar. Ég get ekki hætt að hugsa um það hvernig ég væri ef þessi viðmið væru ekki svona ótrúlega áberandi í umhverfinu okkar. Kynfræðslan og einfaldlega tungumálið sem er notað um kyn, kynlíf og kynhneigð í grunnskólum ýtir mjög svo undir þessa jaðarsetningu. Þegar það var talað um hinsegin fólk í kynfræðslutímunum í grunnskólanum mínum var alltaf talað um okkur eins og enginn af okkur væri samt þannig. Ég var bara ein lína í náttúrufræðibókinni minni, því að allt mitt kom þessu greinilega ekki við. Ég lærði að setja smokk á banana en enginn sagði mér frá því sem er í boði fyrir fólk eins og mig. Af hverju er ég alltaf spurð að því hvort að ég eigi kærasta en ekki kærustu? Þessi ályktun sem allir virðast draga, að maður sé gagnkynhneigður og sískynja, er löngu orðin úrelt, af hverju þarf fólk alltaf að búast við þessu? Því að þó að ég sé löngu komin út úr skápnum er ég samt alltaf að koma út úr skápnum.

Þegar ég var 14 ára fór ég á opnun hjá Hinsegin félagsmiðstöðinni, sem var þá ungliðahreyfing Samtakanna ’78. Þetta var fyrsti staðurinn þar sem mér fannst ég tilheyra. Ég var ekki lengur skrýtin og öðruvísi, ég var bara ég og allir hinir voru bara þau sjálf líka. Ég átti loksins heima einhvers staðar. Það er líklegast það sem bjargaði mér, því að þó ég væri alveg ótrúlega stolt af því að vera komin út fannst mér enginn í mínu nærumhverfi skilja mig. Eftir að ég byrjaði að hitta svona mikið af hinsegin unglingum breyttist allt. Ég er búin að læra svo mikið um þetta ótrúlega fallega samfélag sem ég er svo heppin að fá að vera hluti af. Það að mín kynslóð sé fyrsta kynslóðin sem fær þetta rými er svo ótrúlega mikilvægt, því við fáum að vera frumkvöðlar. Án Hinsegin félagsmiðstöðvarinnar væri svo margt sem ég hefði ekki. Þessir krakkar eru fjölskyldan mín. Það er ekki hægt að tala um félagsmiðstöðina án þess að tala um Hrefnu. Hrefna er manneskjan sem ýtti mér út úr skelinni. Hún sér um félagsmiðstöðina okkar og alla krakkana sem koma þangað. Hún og sjálfboðaliðarnir eru svo ótrúlega flott og sterkt fólk og ég get tekið þau öll mér til fyrirmyndar. Að lokum vil ég í raun þakka þeim fyrir allt sem þau hafa gert fyrir mig. Takk fyrir að hjálpa mér að vera ég.

Hæ ég heiti Saga, ég er 16 ára og nota fornafnið hann.
Ég elska kærustuna mína og Killing Eve, Killing Eve er þáttaröð um tvær konur sem eru að elta hvor aðra (ein er leigumorðingi, ein er rannsóknarlögreglukona) og svo verða þær helteknar og ástfangnar af hvor annarri.

Mér þykir mjög vænt um Samtökin og ég hlakka alltaf til þess að koma í hverri viku, ég hitti bestu vini mína þar og þetta er staður þar sem ég get verið ég sjálfur, notað fornöfnin sem mér líkar við og klætt mig eins og ég vil. Þegar ég fann út að ég væri nonbinary þá hræddi það mig en að hafa stuðningshóp (bæði vini og fólkið sem vinnur þarna) hjálpaði mér að koma út. Ég held að án þess hefði ég aldrei komið út úr skápnum og þá væri vanlíðan mín mun meiri. Í skólanum samþykkja mig ekki allir en ég veit að þegar ég kem í Samtökin er þetta safe space þar sem ég get verið ég sjálfur.