Í júní á síðasta ári hélt hópur hinsegin kvenna sinn fyrsta viðburð undir heitinu Hinsegin Ladies Night. Hugmyndin kviknaði hjá Ástrósu Erlu Benediktsdóttur eftir heimsókn til Öldu Karenar Hjaltalín í New York-borg. Þær vinkonur sóttu meðal annars viðburði á vegum Ellis Presents sem eru tileinkaðir konum sem heillast af konum. Þegar heim var komið varð Ástrósu tíðrætt um að mikil þörf væri fyrir slíkan vettvang hér heima. Þegar henni bauðst tækifæri til þess að halda viðburði á Miami bar á Hverfisgötu rann upp fyrir henni að hún ætti sjálf að ríða á vaðið.
Til að byrja með var viðburðurinn hugsaður fyrir konur sem heillast af konum, þess vegna ber hópurinn nafnið Hinsegin Ladies Night. Þegar fyrsti viðburðurinn var auglýstur vaknaði spurningin, hvað með kynsegin einstaklinga? Öll eru velkomin sem langar að vera með, tví- og pankynhneigð, intersex, asexual, lesbíur, polyamorous, trans, og allt hinsegin fólk sem heillast af konum hvernig sem það skilgreinir sig innan LGBTQIAP+. Meginmarkmiðið er skapa vettvang, að þessi hópur eigi samastað til að kynnast, skapa tengsl og styrkja samfélagið okkar.
Viðtökurnar við fyrsta viðburði Hinsegin Ladies Night fóru fram úr björtustu vonum, þar sem færri komust að en vildu. Viðburðirnir hafa síðan verið mánaðarlega og oft og tíðum er boðið upp á fjölbreytta dagskrá, svo sem pöbbarölt, stjörnuspeki, grínista og opinn mæk, drag, bingó, förðun, plötusnúða og kokteila. Í samkomubanninu var Instagram-síða Hinsegin Ladies Night opnuð fyrir áhugasömum hinsegin einstaklingum, sem hver á eftir öðrum tóku síðuna yfir, ræddu hugðarefni sín og styttu okkur hinum stundir á tímum COVID-19. Hápunkti fyrsta starfsársins var náð þegar Hinsegin Ladies Night héldu upp á ársafmæli sitt með útilegu í Árnesi í Þjórsárdal helgina 12.–14. júní.
Hópurinn sem stendur á bak við viðburðina er hvergi nærri hættur heldur ætlar að færa út kvíarnar. Draumurinn er að hafa starfið það fjölbreytt að allir geti fundið eitthvað við sitt hæfi. Mánaðarlegir skemmtiviðburðir verða á sínum stað, framvegis á föstudögum, en markmiðið er að bjóða upp á annars konar samkomur á virkum dögum, t.d. Burlesque-dansnámskeið, hugleiðslu, göngu, umræðuhópa um ýmis málefni, sjálfstyrkingarkvöld og sjálfsvarnarnámskeið svo eitthvað sé nefnt. Ástrós hvetur alla sem hafa áhuga á að taka þátt að hafa samband við Hinsegin Ladies Night með því að senda skilaboð á hinseginladiesnight á Instagram.
Þessi viðburður er tileinkaður öllum hinsegin konum og kynsegin fólki sem heillast af konum. Meginhugmyndin er að skapa öruggt umhverfi til að koma saman og skemmta sér, kynnast og styrkja samfélag okkar. Öll eru velkomin óháð aldri, sambandsstöðu eða skilgreiningu.