Hinsegin píku-unaður

Aldís Þorbjörg Ólafsdóttir, sálfræðingur og kynlífsráðgjafi

Hver hefur ekki heyrt mýtur um kynlíf hinsegin fólks? Og kannski sérstaklega kynlíf hinsegin kvenna og fólks með píku? Stóra mýtan felur í sér þá hugmynd að allar hinsegin konur séu með píku eða að öll með píku séu konur. Hér verða mýtur skoðaðar sem tengjast fyrst og fremst kynlífi tveggja einstaklinga með píku.

Mýturnar eru alls konar! Allt frá því að hinsegin konur og fólk með píku stundi ekki kynlíf eða stundi bara munnmök eða skærist aldrei eða séu stöðugt að skærast. Kíkjum nánar á málið!

Munnmök

Mýtan segir að hinsegin fólk með píku stundi eingöngu munnmök. 

Munngælur einskorðast sjaldnast eingöngu við píkuna heldur er það skemmtilega við þær að allur líkaminn er leiksvæðið. Munnmök geta verið lykilþáttur í kynlífinu en sum hafa ekki áhuga á því að veita eða þiggja munnmök. Margt annað getur verið stærri eða mikilvægari þáttur í kynlífi parsins/leikfélaganna.

Skæra

Mýtan segir að hinsegin fólk með píku skærist aldrei eða séu stöðugt að skærast!

Þegar talað er um að skæra þá er verið að lýsa því þegar tvö með píku nudda píkum sínum saman. Til eru tæki sem geta aukið enn við unaðinn þegar verið að skærast, t.d. sleipiefni, titrarar og margt fleira. Sum pör hafa ekki áhuga á því að skærast og stunda það sjaldan eða aldrei. Fyrir önnur pör/leikfélaga er þetta lykilþáttur í þeirra kynlífi.

Strap-on

Mýtan segir að aðallega fólk með masc eða butch (karllæga) kyntjáningu hafi áhuga á því að nota strap-on.

Strap-on eru kynlífstæki, titrarar eða dildóar, sem haldið er uppi með ýmist buxum eða böndum og eru ætluð fyrir innsetningu í leggöng eða endaþarm. Að hafa áhuga á því að nota strap-on á maka eða leikfélaga hefur ekkert með kyntjáningu að gera. Sum hafa ekki áhuga á því að nota strap-on, hvorki til að veita unað né þiggja. Fyrir önnur er kynlíf með strap-on heldur betur þeirra tebolli.

 

Rassaleikir

Mýtan segir að hinsegin fólk með píku hafi ekki áhuga á rassaleikjum.

Endaþarmurinn er stútfullur af næmum taugaendum sem hægt er að örva á marga ólíka vegu.  Sum hafa engan áhuga á rassaleikjum á meðan önnur hafa áhuga á því að örva, nudda eða putta sinn eigin rass eða annarra. Áhugi á rassaleikjum hefur ekkert með kyn, kynvitund eða kynhneigð að gera.