Hvaða bakslag?

Þorbjörg Þorvaldsdóttir


Undanfarið hefur orðið bakslag heyrst æ oftar í íslenskri umræðu í samhengi við baráttu hinsegin fólks. Fyrst þegar það birtist í fjölmiðlum tengdist það skerðingum á réttindum hinsegin fólks í ríkjum á borð við Pólland og Ungverjaland, síðar í tengslum við Bretland og Bandaríkin. Nú notum við bakslag því miður ekki aðeins um réttindabaráttu hinsegin fólks erlendis, heldur einnig um stöðuna hér á Íslandi.

Innflutt orðræða
Eftir að afturhaldsöfl í Bandaríkjunum áttuðu sig á því að baráttan um samkynja hjónabönd hefði tapast var tekin meðvituð ákvörðun um að reyna að einangra trans fólk frá bandafólki sínu. Það er grunnurinn að þeim áróðri sem á okkur dynur hér á landi. Hann kemur frá fólki og öflum sem vilja ekkert frekar en að hinsegin fólk – og þá sérstaklega trans fólk – skríði aftur í felur.

Þessi áróður hefur haft áhrif hér á landi og nær til ólíkra hópa með ólíkum afleiðingum þar sem fólk er misjafnlega móttækilegt fyrir honum. Ákveðinn hópur fólks á hinum pólitíska jaðri er orðinn sannfærður um hættuna af hinsegin fólki og er farinn að beita sér gegn okkur, m.a. með fullyrðingum um ógnina sem þau telja af okkur stafa og með beinni hatursorðræðu. Í þessari hættulegu orðræðu er hinsegin fólk málað upp sem ógn við börn. Síalgengara er að sjá athugasemdir þar sem fólk skrifar undir fullu nafni og mynd að hinsegin fólk, trans fólk, Samtökin ‘78 og þau sem styðja baráttu okkar séu barnaníðingar. Þá er einnig algengt að sjá fólk nota hugtakið trans hugmyndafræði. Þannig er gert lítið úr réttindabaráttu trans fólks án þess að nefna fólkið sem umræðan snertir beint.

Orðræða af þessu tagi er algengust á samfélagsmiðlum, í kommentakerfum og í skoðanagreinum sem birtast í jaðarfjölmiðlum eða á bloggsíðum, eða á áróðurslímmiðum í almannarýminu. Hættuleg orðræða hefur þó einnig birst í stærri fjölmiðlum, sem er mikið áhyggjuefni.

Áhrif áróðurs gegn hinsegin fólki á þá hópa sem eru ekkert sérstaklega móttækilegir fyrir honum eru mun lúmskari. Meðal þeirra nær hann að sá efasemdum, þannig að vel upplýst og vel meinandi fólk – jafnvel hinsegin fólk – fer að hafa áhyggjur af áhrifum aukinna réttinda og sýnileika trans fólks á velferð barna, öryggi kvenna, íþróttir kvenna og stöðu homma og lesbía. Sumt eru alvöru áhyggjur, en annað er yfirskin – því ítrekaðar yfirlýsingar um meintar áhyggjur þvert á réttar upplýsingar getur líka verið áhrifarík áróðurstaktík.

Samhliða þeirri umræðu sem fer fram í heimi fullorðinna er hatursorðræða mjög útbreidd meðal ungmenna og hinsegin ungmennin okkar fá að finna fyrir henni á degi hverjum. Áróður, hatursorðræða, lygar og upplýsingaóreiða á netinu og í fjölmiðlum hafa nefnilega þau áhrif að mörk þess sem telst vera í lagi í raunheimum færast til. Því miður hafa mörkin færst undanfarið og Samtökin ‘78 sjá það í öllu sínu starfi.

Af netinu inn í raunheima
Sýnileiki hinsegin fólks í almannarýminu hefur vakið meiri neikvæð viðbrögð undanfarið. Á síðasta ári voru regnbogafánar skornir niður um allt land í kringum Hinsegin daga, meðal annars á Hellu, í Reykjavík og á Austurlandi. Krotað var í tvígang yfir hinsegin fána fyrir utan Grafarvogskirkju og nýnasistatákn voru sprautuð á skilti Hinsegin daga í miðborg Reykjavíkur. Fleiri atvik sem áttu sér stað í kringum Hinsegin daga rötuðu ekki í fjölmiðla.

Nasistatákn voru krotuð á vegglistasýningu Hinsegin daga árið 2022

Samtökunum ‘78 berast reglulega fregnir af ofbeldi og áreitni gagnvart fullorðnu hinsegin fólki. Við heyrum af líkamsárásum á fullorðna homma, að rusli hafi verið hent í fólk á leið út af hinsegin viðburði. Alls konar fólk á öllum aldri hefur svo undanfarið ár lent í því að gelt sé á þau í hinum ýmsu aðstæðum daglegs lífs. Enn er gelt að hinsegin fólki, þá helst í grunn- og framhaldsskólum og meðal ungmenna.

Í ákveðnum grunnskólum og oft innan ákveðinna árganga í skólum hefur fræðsla Samtakanna ‘78 fengið mjög óblíðar móttökur, m.a. hefur verið gelt að fræðurum okkar og þau setið undir ókvæðisorðum og hatursskilaboðum á endurgjafarmiðum. Þetta einskorðast ekki við Samtökin ‘78, en fyrst þegar sýningin Góðan daginn faggi var sýnd 10. bekkingum var boðið upp á að ungmennin skrifuðu nafnlausar spurningar á miða. Á einni sýningunni voru allar spurningarnar hatursskilaboð.

Ítrekað hefur verið setið fyrir hinsegin ungmennum í félagsmiðstöð Samtakanna ‘78 og Tjarnarinnar. Starfsfólk og sjálfboðaliðar þurfa því jafnan að fylgja krökkunum út og gæta þess mjög vel hverjum er hleypt inn í rýmið. Jafnvel á hinsegin viðburðum í almannarýminu hefur verið setið fyrir hinsegin ungmennum, gelt að þeim og hatursorð hrópuð. Ung börn eru ekki undanskilin, en eitt alvarlegasta atvikið sem við vitum af í vetur var þegar ráðist var að 10 ára barni eftir hinsegin félagsstarf. Gerendur eru jafnan aðrir unglingar og ofbeldi í skólum er því miður veruleiki fjölda hinsegin barna og ungmenna. Það heldur svo áfram þegar heim er komið, á samfélagsmiðlum. Því miður búa alls ekki öll börn við stuðning á heimili sínu heldur.

Starfsfólki Samtakanna ‘78 hefur á þessu ári verið ógnað og Samtökin ‘78 hafa þurft að huga í auknum mæli að öryggismálum. Fólk sem hefur gleypt við áróðri gegn trans fólki sakar starfsfólk Samtakanna ‘78 um barnaníð í raunheimum og sýnir mjög ógnandi hegðun, reynir að koma í veg fyrir fræðslu í grunnskólum eða yfirtaka spurningatíma í foreldrafræðslum. Einnig hefur starfsmaður orðið fyrir líkamsárás í miðbæ Reykjavíkur vegna starfa sinna. Áróður og hættuleg orðræða hafa raunveruleg áhrif.

Hvað er til ráða?
Miðað við reynslu annarra landa megum við búast við áframhaldandi andstöðu. Áróðurinn heldur áfram og við þurfum að læra að bera kennsl á hann og hafna honum hátt og skýrt. Það hefur aldrei verið eins mikilvægt að við látum í okkur heyra, hvort sem það er á kaffistofunni, í fjölskylduboðinu eða meðal vina. Við eigum öll okkar áhrifahring og eins og staðan er núna getum við ekki treyst á að þetta líði hjá án aðkomu okkar allra.

Áhrifin af þessu bakslagi eru nefnilega lúmsk. Það eru ekki aðeins mörk samfélagsins sem færast, heldur einnig mörk þess sem við sjálf sem hinsegin fólk erum tilbúin að láta yfir okkur ganga. Erum við tilbúin til þess að búa í samfélagi þar sem fólk innan okkar raða þarf að óttast um öryggi sitt? Við þurfum að muna að við eigum öll rétt á því að lifa lífinu óáreitt nákvæmlega eins og við erum og að réttindi allra hópa hinsegin fólks haldast í hendur. Látum bakslagið þétta raðir okkar, fræðumst, stöndum hvert með öðru og tökumst á við þetta saman.