Hvar er hinsegin íþróttafólkið?

Eftir Svein Sampsted

People standing on a athletic winning platform

„Hvar er allt hinsegin íþróttafólkið?“, hugsaði ég með mér í bílferðinni á Unglingalandsmótið árið 2008 í Þorlákshöfn á meðan Páll Óskar söng Þú komst við hjartað í mér í útvarpinu. Á þessum tíma var ég 14 ára gamall samkynhneigður, sís íþróttastrákur í skápnum sem sárvantaði fyrirmyndir og að heyra jákvæða umræðu um hinsegin íþróttafólk. Þess í stað heyrði ég að hommar gætu ekki verið í íþróttum og eina sýnilega hinsegin fólkið sem ég tók eftir var Páll Óskar og Vala Grand, sem eru flottar fyrirmyndir en ég átti samt erfitt með að samsama mig þeim sem hinsegin íþróttamaður. 

Fyrirmyndir gegna því mikilvæga hlutverki að ryðja brautina fyrir næstu kynslóðir með því að svara spurningunni: hvað gerist þegar ég kem út úr skápnum?

Ég man rosalega vel eftir því þegar ég var að keppa í 200 m hlaupi á sama tíma og Gleðigangan var í gangi og ég ákvað að keppa í regnbogasokkum sem ég togaði eins hátt upp og ég gat. „Hvað ætli hinum keppendunum finnist um þetta?“, hugsaði ég með mér með smá kvíðahnút í maganum á meðan ég var að stilla startblokkirnar.

Sveinn Sampsted

Þegar ég kom út úr skápnum 17 ára gamall tók við algjör óvissa um hvaða viðbrögð ég myndi fá frá mínum æfingafélögum, þjálfurum og áhorfendum í stúkunni. Viðbrögðin sem ég fékk voru allskonar en heilt yfir jákvæð. Margir furðuðu sig á því að ég hefði verið hræddur við að koma út og nefndu að þau myndu styðja hinsegin iðkendur sem kæmu út úr skápnum. En því miður er það ekki staðan allstaðar og hinsegin íþróttafólk er ennþá að verða fyrir fordómum í íþróttum í dag. Málið er að þó svo að þau viti sjálf innra með sér, að þau styðji hinsegin fólk veit ég það ekki. Það stendur ekki utan á þeim, þannig hvernig veit ég hvort þau gera það? 

Ég man rosalega vel eftir því þegar ég var að keppa í 200 m hlaupi á sama tíma og Gleðigangan var í gangi og ég ákvað að keppa í regnbogasokkum sem ég togaði eins hátt upp og ég gat. „Hvað ætli hinum keppendunum finnist um þetta?“, hugsaði ég með mér með smá kvíðahnút í maganum á meðan ég var að stilla startblokkirnar. Á því augnabliki komu hinir strákarnir skokkandi til mín, gáfu mér knús og óskuðu mér til hamingju með daginn (Pride sem sagt). Þeir sögðu síðan: „En við ætlum samt að vinna þig“, blikkuðu mig og fóru svo aftur að stilla startblokkirnar sínar. Sýnilegur stuðningur sem þessi skiptir ótrúlega miklu máli. Regnbogatákn (nælur, fánar, límmiðar) eru einnig einföld leið til að sýna stuðning og það sem ég hefði óskað að mínir þjálfarar hefðu sagt er: „Hey, krakkar, þegar iðkandi í mínum hóp kemur út úr skápnum mun ég styðja við bakið á þeim iðkanda, eins og öllum öðrum iðkendum!“

Í þessu tímariti Hinsegin daga mun ég reyna að svara spurningunni sem 14 ára Svenni þráði að vita svarið við: „Hvar er allt hinsegin íþróttafólkið?“. Stutta svarið er að sjálfsögðu: „Úti um allt“, og við munum nota bæði íslenskar og erlendar fyrirmyndir til að sýna fram á það! Við tókum örviðtöl við íslenskt íþróttafólk og síðan verður skoðað hvaða hinsegin íþróttastjörnur skara fram úr þessa dagana í íþróttahorni Svenna Sampsted.

Smelltu á nafn íþróttaiðkandans til að lesa um þeirra upplifun af því að vera hinsegin í íþróttum:

Hanna // Ísold // Frost // Sigþór // Örn // Gunnhildur // Magnús Orri // Steindór // Antonía // Stefán Þór

Hanna

Hver er þín íþróttasaga?
Ég æfði frjálsar íþróttir með ÍR frá því ég var smá kríli til 18 ára aldurs og byrjaði að æfa körfuknattleik með Haukum þegar ég var 12 ára. Ég spilaði líka með Skallagrími og ÍR áður en ég fór í háskóla í Bandaríkjunum á íþróttastyrk haustið 2018. Þar spilaði ég með Georgian Court University í fjögur ár og er núna að klára keppnisréttinn minn í háskólaíþróttum í New York University, þar sem ég mun spila í eitt ár í viðbót. 

Ég er stolt af því að hafa verið hluti af endurreisn meistaraflokks kvenna í körfuknattleik hjá ÍR á sínum tíma, það verkefni var ótrúlega gefandi og skemmtilegt. Auk þess er ég mjög stolt af ferlinum hér í Bandaríkjunum, ég var fyrirliði Georgian Court í þrjú ár og við komumst í fyrsta skipti í sögu skólans í NCAA-úrslitakeppnina árið 2021, eftir mikla og krefjandi liðsuppbyggingu. Að hafa verið hluti af viðsnúningi  háskólaprógrammsins og að  koma því á réttan kjöl til þess að ná alvöru árangri var ómetanlegt.

Hvernig skilgreinir þú þig undir hinsegin regnhlífinni?
Ég er lesbía.

Átt þú þér einhverjar hinsegin fyrirmyndir í íþróttum?
Sue Bird og Megan Rapinoe eru mér miklar fyrirmyndir innan vallar sem utan.

Áttu skemmtilega sögu af þér í íþróttum sem tengist hinseginleikanum?
Eitt það fallegasta sem ég hef upplifað sem hinsegin íþróttakona átti sér stað í janúar 2023 þegar ég tók við viðurkenningu frá Háskólaíþróttasambandi Bandaríkjanna,  NCAA, fyrir að vera í úrslitum í vali á konu ársins. Ég fékk tækifæri til þess að tala um mikilvægi hinsegin réttindabaráttu fyrir framan þúsundir. Eftir að athöfninni lauk kom til mín kona sem sagðist vera móðir trans stráks og væri að berjast fyrir hinsegin réttindum innan sambandsins. Hún hélt í hendurnar á mér og grét og endurtók aftur og aftur hversu mikilvægur sýnileikinn og skilaboðin sem ég kom með fram á sjónarsviðið þarna væru og ég gat ekki annað en grátið með henni. Þessi samskipti sýndu mér hvað hinsegin sýnileiki er mikilvægur. Það að ég steig fram í þessum úrvalshópi kvenna og talaði opinskátt um hinsegin málefni skipti alvöru máli. 

Hvaða skilaboð viltu koma með til annars hinsegin fólks í íþróttum?
Vertu manneskjan sem þú þurftir á að halda þegar þú varst yngri. Hinsegin sýnileiki innan íþróttahreyfingarinnar er ómetanleg gjöf fyrir unga hinsegin iðkendur. Fleiri hinsegin fyrirmyndir eru fyrsta skrefið til þess að gera íþróttir að öruggum stað fyrir alla. Vertu þú, og ef það hjálpar einum ungum iðkanda að geta speglað sig í þér þá er það þess virði.

Hver eru næstu skref í átt að jafnrétti innan íþróttahreyfingarinnar?
Hinsegin sýnileiki í íþróttum hefur aukist gríðarlega undanfarin ár og umhverfið tekið hröðum breytingum til hins betra. Þar kemur mikilvægi hinsegin fræðslu einnig inn og framtak Samtakanna ´78 í að veita íþróttafélögum hinsegin fræðslu skiptir sköpum. Þó eru enn vígi sem virðast ekki ætla að falla þegar kemur að hinsegin fordómum, sérstaklega karla megin. Það þarf að finna leiðir til þess að brjóta niður þessa múra og enn og aftur er það sýnileikinn sem  leggur grunninn. 

Ég held að málefni trans fólks innan íþróttahreyfingarinnar séu næsta stóra baráttumálið þegar kemur að jafnrétti. Ýmis mál innan hreyfingarinnar hafa því miður verið lituð af skaðlegri og transfóbískri umræðu. Ég held að það sé mikilvægt að endurskoða transfóbískar reglugerðir og fara vandlega  í saumana á því hvernig við leysum þessi mál. Þetta þarf að vera gert í samráði við og með ráðgjöf frá hinsegin samtökum og sérfræðingum og finna þarf lausnir sem vernda trans íþróttafólk, sérstaklega trans börn innan hreyfingarinnar, og gerir því kleift að stunda íþróttir á öruggan hátt í öruggu umhverfi.

Eitthver önnur skilaboð sem þú vilt koma á framfæri?
Áfram hinsegin íþróttafólk!

Hanna Þráinsdóttir
25 ára // hún
@hannathrains

Ísold

Hver er þín íþróttasaga?
Ég hef æft karate með karatedeild Fylkis síðan haustið 2015. Ég er í landsliðinu og hef verið í nokkur ár og farið í nokkrar landsliðsferðir. Árið 2022 var ég valin Fylkiskona ársins og ég varð smáþjóðameistari í tveim flokkum það sama ár og árið 2018 varð ég Íslandsmeistari. Ég hef verið að þjálfa með félaginu í 4 ár og það er svo frábært að sjá þessa krakka stækka og bæta sig og svo sérstaklega þegar þau fara að keppa. Ég þjálfaði einn fyrir  ÍM unglinga og hann tók titilinn. Það var svo góð tilfinning að sjá hann svona ánægðan.

Hvernig skilgreinir þú þig undir hinsegin regnhlífinni?
Bara sem hinsegin manneskja. Eða já, pansexual manneskja.

Átt þú þér einhverjar hinsegin fyrirmyndir í íþróttum?
Tja, kannski hún María Helga Guðmundsdóttir, fyrrum formaður Samtakanna ´78. Hún var í karate og alltaf svo flott og góð við mig og veit alveg hvað hún syngur.

Áttu skemmtilega sögu af þér í íþróttum sem tengist hinseginleikanum?
Þegar ég sá nýlega að Fylkir hefur sett upp regnbogafána á mörgum stöðum. Svona smáir hlutir eru mikilvægir fyrir sýnileikann. 

Hvaða skilaboð viltu koma með til annars hinsegin fólks í íþróttum?
Íþróttir eru fyrir öll. Þetta er svo gefandi. Sjálfstraustið verður betra  og svo andleg og líkamleg heilsa. Jú, vissulega er  tvíhyggja og gauragangur í mörgum íþróttagreinum en það má ekki láta það stoppa sig. 

Hver eru næstu skref í átt að jafnrétti innan íþróttahreyfingarinnar?
Ég er ekki viss. Mér finnst eins og hreyfingin sé ekki endilega að útiloka hinseginleikann en hún er ekki endilega heldur að styðja  hann opinberlega. Fylkir hins vegar hefur sett upp regnbogafánann víða og bara þessi litla gjörð veitir mér  einhverja gleði og vekur upp stolt hjá mér.

Eitthver önnur skilaboð sem þú vilt koma á framfæri?
Þú átt að eiga heima á þeim stöðum sem  veita þér gleði❤️

Ísold Klara Felixdóttir
19 ára // hún/hán
@isoldklarafel @fylkirkarate

Frost

Hver er þín íþróttasaga?
Ég byrjaði að æfa bogfimi hjá bogfimifélaginu Boganum fyrir  rúmlega ári síðan. Margt hefur gerst á þessum stutta tíma og ég verð að viðurkenna að ég bjóst ekki við að ég myndi byrja að keppa eða setja Íslandsmet. En ég er mjög ánægður  að hafa fengið tækifærið og gert eitthvað með það.

Hvernig skilgreinir þú þig undir hinsegin regnhlífinni?
Ég er kynsegin og queer.

Átt þú þér einhverjar hinsegin íþrótta fyrirmyndir?
Billie Jean King myndi ég segja að væri ein  af mínum fyrirmyndum. Hún er ótrúleg og breytti mörgu fyrir íþróttir eins og við þekkjum þær í dag.

Áttu skemmtilega sögu af þér í íþróttum sem tengist hinseginleikanum?
Rétt fyrir Íslandsmeistaramótið utandyra síðasta sumar sannfærðu vinir mínir mig um að taka regnbogafánann minn með á mótið. Á mótinu sjálfu  dróg ég upp fánann og þá hljóp vinkona mín og sótti sinn. Það er ótrúlegt að við skulum ekki hafa týnt þeim því á þeim degi var svo hvasst að skotmörkin fuku niður þegar við vorum að hita okkur upp fyrir keppni! Þrátt fyrir óveðrið hélt keppnin áfram og þegar formaður Bogfimisambands Íslands sá hvað við vorum að gera bað hann okkur að koma nær útsláttarkeppninni. Þannig að einhvers staðar á youtube er myndband af okkur standandi í bakgrunninum með fánana á meðan aðrir eru að keppa. Við fengum líka að vefja fánana utan um formann Bogfimisambandsins þegar vinir mínir voru að keppa!

Hvaða skilaboð viltu koma með til annars hinsegin fólks í íþróttum?
Ekki gefast upp, sama hvernig ástandið er, ef þú nýtur þess að stunda íþróttina. Vertu þrjósk/þrjóskt/þrjóskur og stattu upp og haltu áfram. Þegar upp er staðið  er það bara hugarfarið þitt sem getur stoppað þig. Enginn annar getur sagt þér hvað þú mátt og mátt ekki gera.

Hver eru næstu skref í átt að jafnrétti innan íþróttahreyfingarinnar?
Það hefur verið mikið samtal í gangi innan íþróttahreyfingarinnar um trans fólk í íþróttum og því miður eru ekki öll viðbrögð við því jákvæð. Þó  eru nokkur félög nú þegar farin að skoða þessi mál eða  voru jafnvel   þegar opin fyrir alla, sama hvort þú vildir keppa eða ekki. En ég trúi að framtíðin sé björt og vonandi verða fleiri íþróttafélög samstíga okkur og skoða reglugerð upp á hvað sé hægt að gera betur í þeirra íþrótt.

Eitthver önnur skilaboð sem þú vilt koma á framfæri?
Ef þú ert að leita þér að íþrótt til að taka þátt í, hví ekki að prufa bogfimi? Það mun enginn dæma þig fyrir hver þú ert þar sem við erum öll furðuleg á okkar eigin hátt. Og ekki gleyma að vera þú sjálfur. Það eru kannski ekki allir sáttir við það en það mun alltaf vera einhver með þér í liði, þú ert aldrei einn á báti.

Frost Ás Þórðarson
22 ára // hann/hán
@forestfrost400

Sigþór

Hver er þín íþróttasaga?
Akureyri handboltafélag og fyrsti leikmaður endurstofnaðs KA. Byrjaði í meistaraflokki 15/16 ára gamall og spilað með meistaraflokk  þar til ég hætti 27 ára. Við tókum einhvern titil með Ak en það sem stendur upp úr er að koma KA aftur í efstu deild og halda okkur þar.

Hvernig skilgreinir þú þig undir hinsegin regnhlífinni?
Skilgreini mig almennt mjög lítið og þá frekar fyrir fólkið í kringum mig, en ætli það sé þá ekki sem samkynhneigður.

Átt þú þér einhverjar hinsegin fyrirmyndir í íþróttum?
Aldrei séð fyrirmyndina i handboltanum,  ef ég á að vera hreinskilinn.

Hvaða skilaboð viltu koma með til annars hinsegin fólks í íþróttum?
Þér finnst þetta  flókið og  mögulega geta haft slæm áhrif á ferilinn þinn en eftir á að hyggja þá segi ég, fuck it! Láttu þér líða sem best. Ef það er út —þá æði. Ef ekki —þá alveg jafn mikið æði, nema ég held miðað við mína reynslu að það sé þægilegra og skemmtilegra. Jú, þú munt klárlega upplifa aðra klefastemningu, ekki include á sama grínið og pottþétt  oft sem menn verða vandræðalegir og þar fram eftir götum.

Þetta er samt alltaf klikkað debate við sjálfan þig um að annaðhvort vera í allri „stemningunni“ eða vera þú sjálfur og þá í stemningu annars staðar. Ég valdi held ég síðri kostinn, en á sama tíma myndaði ég ómetanleg sambönd í gegnum  straight vináttur. Síðan þegar fram líða stundir og það kemur að því að ég segi við mína bestu að ég sé í sambandi með karlmanni þá veit mitt besta fólk nú þegar að það er hann en ekki hún sem ég er að hitta og kemur engum á óvart! 

Eitthver önnur skilaboð sem þú vilt koma á framfæri?
Taktu þér tíma. Þú munt njóta.

Sigþór Árni Heimisson
30 ára

Örn

Hver er þín íþróttasaga?
Ég byrjaði í handbolta þegar ég var yngri með ÍR og byrjaði svo í áhaldafimleikum þegar ég var þriggja ára og fór yfir í hópfimleika þegar ég var tíu ára. Ég var í Gerplu þangað til í desember 2015, þá fór ég yfir í Stjörnuna. Ég flutti til Danmerkur og fór í Vejstrup Efterskole til að fókusa meira á fimleika. Þar unnum við danska meistaramótið fyrir efterskole.  Ég er stoltur af því að komast í landsliðið og fyrir að lenda í 2. sæti með karlalandsliðinu árið 2021.

Hvernig skilgreinir þú þig undir hinsegin regnhlífinni?
Samkynhneigður/hommi.

Átt þú þér einhverjar hinsegin fyrirmyndir í íþróttum?
Því miður á ég mér engar.

Áttu skemmtilega sögu af þér í íþróttum sem tengist hinseginleikanum?Það er aðallega bara stuðningurinn sem ég fæ frá liðinu mínu. Það er rosalega algengt í íþróttum og hópíþróttum þar sem eru bara karlar að æfa að það ríki rosalega mikil hómófóbía.

Hvaða skilaboð viltu koma með til annars hinsegin fólks í íþróttum?
Keep on going. Alltaf gaman að við séum fleiri.

Hver eru næstu skref í átt að jafnrétti innan íþróttahreyfingarinnar?
Það vantar meiri fræðslu. Ég man þegar ég var yngri að fólk misskildi mig mjög mikið og var með svolitla fordóma.

Örn Frosti
21 árs // hann
@Ornfrosti

Gunnhildur

Hver er þín íþróttasaga?
Þegar ég var yngri skráði ég mig í flestar íþróttir, fótbolta, körfubolta, ballet, karate, hafnabolta, frjálsar og handbolta, en fótbolti var alltaf númer eitt og nú í dag hef ég æft fótbolta í 27 ár. Ég er alin upp hjá Stjörnunni en fór svo út í atvinnumennsku 2013 og var henni í 10 ár. Fyrstu fimm árin var ég  í Noregi og svo fimm ár í Bandaríkjunum. Ég á að baki 100 leiki með A-landsliðinu og stærstu afrekin þar voru að komast á EM 2017 og 2022 og svo að vinna Þýskaland úti í undankeppni HM. Með Stjörnunni stendur helst upp úr fyrsti titillinn með félaginu 2011, þegar við urðum Íslandsmeistarar, og árið á eftir  þegar við urðum við bikarmeistarar.

Hvernig skilgreinir þú þig undir hinsegin regnhlífinni?
Ég sjálf.

Átt þú þér einhverjar hinsegin fyrirmyndir í íþróttum?
Ég verð að segja konan mín, Erin Mcleod. Hún er búin að vera baráttukona fyrir þessu málefni í mörg ár. Hún hefur alltaf notað sitt platform til að segja sína skoðun og standa með  þeim sem kannski hafa enga rödd.

Áttu skemmtilega sögu af þér í íþróttum sem tengist hinseginleikanum?
Ég spilaði fyrir Orlando Pride. Þessi klúbbur er með 49 regnbogasæti í stúkunni tileinkuð þeim sem létust í Pulse-skotárásinni. Þannig að þessi klúbbur stendur  með þessari baráttu í fylki þar sem hinseginleikinn er ekki velkominn. Eitt árið var lagt fram  frumvarp sem hét „don´t say gay (bill)“, sem átti að banna   kennurum að ræða kynhneigð og kynvitund í skólum í Florida, þannig við skipulögðum að við myndum labba út í leik í bolum sem stóð á  GAY, til að mótmæla þessu frumvarpi. Við gerðum það sama þegar Florida setti frumvarp í gang sem bannað trans börnum að æfa íþróttir, þá löbbuðum við út í bolum sem stóð á protect trans kids“.

Hvaða skilaboð viltu koma með til annars hinsegin fólks í íþróttum?
Íþróttir eru fyrir alla. Punktur. Vertu þú sjálf/ur/t.

Hver eru næstu skref í átt að jafnrétti innan íþróttahreyfingarinnar?
Kvennaknattspyrna er komin mjög langt í málum hinseginleikans en ég get ekki sagt það sama um allar íþróttir. Það sem má bæta er fræðsla innan íþróttahreyfingar fyrir alla, leikmenn, þjálfara, foreldra og dómara. Ég veit að Samtökin bjóða upp á þessa fræðslu þannig að vonandi nýta félögin sér þá þjónustu. Ég vona að framtíðin verði þannig að öllum líði vel, nákvæmlega eins og þau vilja vera, í sinni íþrótt, að það verði  tekið vel á móti öllum.

Eitthver önnur skilaboð sem þú vilt koma á framfæri?
Þessi heimur þarf meiri ást, ást til okkar sjálfra og ást til hvers annars. Við eigum öll skilið að líða vel til að geta verið  besta útgáfan af okkur sjálfum. More love.

Gunnhildur Yrsa Jónsdóttir
34 ára // hún
@Gunnhilduryrsa

Magnús Orri

Hver er þín íþróttasaga?
Ég hef verið í fimleikum frá því ég var fimm ára gamall. Ég byrjaði að æfa hjá fimleikadeild Keflavíkur árið 2007 og hef verið þar síðan. Ég æfi fimleika með Special Olympics og hef unnið Íslandsmeistaratitil átta sinnum. Ég hef einnig farið á Heimsleika Special Olympics sem haldnir voru í Abu Dhabi árið 2019. Þar keppti ég við þá bestu á mótinu og hafnaði í 4., 5., 6. og 7.  sæti á öllum áhöldum sem er mjög góður árangur miðað við að ég var allan tímann að keppa við þá bestu.

Hvernig skilgreinir þú þig undir hinsegin regnhlífinni?
Þetta er góð spurning, ég skilgreini mig bara sem hinsegin. Ég kom fyrst út úr skápnum fyrir einu ári síðan og líður mér bara mjög vel með það að vera ekki að fela neitt hver ég er því það eiga allir að fá tækifæri á að sýna sig og sanna, hverjir þeir eru og úr hverju þeir eru gerðir.

Átt þú þér einhverjar hinsegin íþrótta fyrirmyndir?
Ég er ekki með neina sérstaka fyrirmynd í huga en það kemur vonandi með tímanum.

Áttu skemmtilega sögu af þér í íþróttum sem tengist hinseginleikanum?
Seinustu tvö Íslandsmót í fimleikum hef ég sett á mig regnbogafyrirliðaband og verið með það sýnilegt á meðan ég keppi. Ég hafnaði í 1.  sæti í apríl síðastliðnum og var þá með bandið á mér.

Hvaða skilaboð viltu koma með til annars hinsegin fólks í íþróttum?
Bara ekki vera feimin(n) að stunda þína íþrótt af krafti og hafa ánægju af því. Við erum öll eins, hvort sem við erum hinsegin eða ekki. Við erum/búum öll á sömu plánetu og öll eiga að fá að blómstra eins og þau eru og á sínum forsendum.

Hver eru næstu skref í átt að jafnrétti innan íþróttahreyfingarinnar?
Það er alltaf gott að hafa fræðslu og mætti hafa  hana í fleiri greinum,  eins og í fimleikum og svona.

Magnús Orri Arnarson
hann
@maggiklipp

Steindór

Hver er þín íþróttasaga?
Ég er alinn upp í fótbolta. Frá 6 ára aldri, með kannski smá fríum inn á milli sem var ekki oft, hef ég æft og spilað með knattspyrnufélaginu Sindra á Höfn. Ég fór á Pollamót á Laugarvatni og á þeim tíma var mjög stórt að fá að hitta Loga Ólafsson þar sem hann var landsliðsþjálfari Íslands. Þessi ár sem ég var að spila og alast upp þá unnum við alltaf leikina okkar á móti liðunum á Austurlandi og vorum við mjög stór og góður árgangur. Svo í seinni tíð þegar maður hugsar til baka þá eru það svona nokkrir hlutir sem standa upp úr, eins og Pollamótið sem var haldið þá og svo þegar ég var í 4. flokki tókum við þátt í fyrsta ReyCup-mótinu sem haldið var. Það eru nokkur ár síðan það var og vorum við mjög stoltir yfir því að fá að taka þátt þar sem þessi mót eru mikið breytt í dag. Svo á ég nokkra leiki að baki í meistaraflokki Sindra og maður gleymir aldrei þegar maður skorar fyrsta markið sitt. En það skemmtilegasta í þessu eru öll gay fótboltamótin sem ég hef farið á, þau eru eitthvað í kringum tíu held ég. Ég hef misst af nokkrum flottum eins og þegar Styrmir, liðið okkar, fór til Argentínu. Ég hef eignast góða vini úti um allan heim á þessum mótum og er enn í góðum samskiptum við þá. 

Einnig vil ég nefna að fá að keppa á Evrópumótum, heimsmeistaramótum og svo er GeyGames mér mjög minnisstætt. Í gegnum þennan vinskap  hef ég fengið að spila með öðrum hommaliðum  frá t.d. Stokkhólmi, Kaupmannahöfn, Hamborg, Leeds og Fort Lauderdale, og svo hafa önnur lið boðið mér að taka þátt líka en ég ekki enn haft tækifæri til spila með þeim.

Ég á enn eftir að vinna gull á þessum mótum en silfur og brons getur maður ekki verið ósáttur við. Það síðasta, og eitt af þeim afrekum sem ég er stoltastur af, er að árið 2021-2022 var ég aðstoðarþjálfari meistaraflokks karla hjá Sindra og í fyrra tókum við okkur til og unnum 3. Deildina. Eftir það afrek og eftir mikið álag og ferðalög ákvað ég að taka mér frí frá þjálfun.

Hvernig skilgreinir þú þig undir hinsegin regnhlífinni?
Ég er hommi.

Átt þú þér einhverjar hinsegin fyrirmyndir í íþróttum?
Svo sem ekki þar sem það var ekki mikið um hinsegin fyrirmyndir á mínum yngri árum og alls ekki talað um það. Núna í seinni tíð hafa menn hætt að spila sínar íþóttir og komið út. Sem betur fer er þetta hægt og rólega að breytast og verðum við bara að virða það á okkar hátt og halda áfram að berjast fyrir því sem við brennum fyrir og halda okkar vegferð áfram. En flottir leikmenn hafa komið fram á sjónarsviðið, eins og Thomas Hitzlsperger og Robbie Rogers,  og ég ber mikla virðingu fyrir  Tom Daley sunddýfingarmanni.

Hvaða skilaboð viltu koma með til annars hinsegin fólks í íþróttum?
Fyrir mér eru það tvö atriði sem skipta mestu máli:Vertu þú sjálfur og ræddu við liðsfélaga þína og þjálfara og finnið ykkar sameiginlegan grundvöll til að geta unnið vel og farsællega saman. Það er það sem ég gerði og mér var tekið eins og ég err, sem einumaf þeim, og við fundum okkar farveg til að vinna vel saman í.

Hver eru næstu skref í átt að jafnrétti innan íþróttahreyfingarinnar?
Það er helst tvennt. Þetta er ekki beint vandamál bara fyrir okkur heldur eitthvað sem ég held að allir í íþróttum ættu að taka til sín og það er þessi eitraða klefamenning, sem er ekki bara til hér á Íslandi og ekki bara í afreksíþróttum heldur líka í skólaíþróttum. Þetta þarf virkilega að laga og er eitthvað sem við öll getum gert eitthvað í og aðstoðað hvert annað með. Svo er það hvernig við sem stuðningsmenn högum okkur. 

Eitthver önnur skilaboð sem þú vilt koma á framfæri?
Við erum öll saman í einu liði og það er liðið sem vill frið á jörðu og að allir geti lifað saman í sátt og samlyndi. Og svo fyrir vini mína þá er stærsta málið í dag innrásarstríðið í Úkraínu. Áfram Úkraína.

Steindór Sigurjónsson
37 ára

Antonía

Hver er þín íþróttasaga?
Bardagaíþróttir. Uppgjafarglíma. Mjölnir MMA.

Hvernig skilgreinir þú þig undir hinsegin regnhlífinni?
Kona, kynsegin, trans feminine (kvensegin).

Átt þú þér einhverjar hinsegin fyrirmyndir í íþróttum?
Fallon Fox. Alana McLaughin.

Áttu skemmtilega sögu af þér í íþróttum sem tengist hinseginleikanum?
Áður en ég kom út lifði ég tvöföldu lífi og þóttist vera harður gaur í kringum æfingarfélagana en klæddist kvenmannsfötum og málaði mig þegar ég var í öðru umhverfi. Einn daginn komst yfirþjálfarinn að því að ég væri trans og bauð mig velkomin eins og ég er. Ég brotnaði saman og fór að gráta fyrir framan æfingarfélagana. Eftir það hætti feluleikurinn og ég hóf kynleiðréttingarferli. Ég vonast til að keppa í kvennaflokki þegar ég er tilbúin.

Hvaða skilaboð viltu koma með til annars hinsegin fólks í íþróttum?
Við eigum rétt á að stunda íþróttir eins og allt annað fólk.

Hver eru næstu skref í átt að jafnrétti innan íþróttahreyfingarinnar?
Það þarf að tækla transfóbíu og vera opnari fyrir fólki utan kynjatvíhyggjunnar.Eitthver önnur skilaboð sem þú vilt koma á framfæri?
Við þurfum að hætta að gera ráð fyrir því að allir séu bara sís og innan kynjatvíhyggjunnar.

Antonía Arna
36 ára // hún/hín

Stefán Þór

Hver er þín íþróttasaga?
Ég æfði fimleika og listskauta þegar ég var lítill krakki, byrjaði síðan að æfa klifur hjá Klifurfélagi Reykjavíkur ellefu ára. Ég er stoltastur af því að hafa unnið Íslandsmeistaratitilinn bæði árin í 18-19 ára flokki og lent í 3. sæti í fullorðinsflokki 2023. Í útiklifri er ég stoltastur af því að hafa klifrað leiðina Föðurlandið (5.13c) sem var erfiðasta leið á Norðurlöndunum þegar hún var boltuð.

Hvernig skilgreinir þú þig undir hinsegin regnhlífinni?
Held ég sé alveg samkynhneigður, hef að minnsta kosti hingað til bara verið hrifinn af gaurum.

Átt þú þér einhverjar hinsegin íþrótta fyrirmyndir?
Hjördís Björnsdóttir klifrari.

Áttu skemmtilega sögu af þér í íþróttum sem tengist hinseginleikanum?
Það eina sem mér dettur í hug er þegar ég sagði liðsfélögum mínum í fyrsta sinn. Við vorum í Danmörku á Norðurlandamóti og  vorum inni á herbergi að spjalla um hvort við værum skotin í einhverri eða einhverjum. Þá allt í einu hugsaði ég með mér hvort ég ætti að segja að ég fílaði gaura meira. Ég var með rosa mikinn kvíðahnút í maganum en þegar kom að mér sagði ég að ég væri frekar hrifinn af „einhverjum“ en af „einhverri“. Það kom smá vandræðaleg þögn í kjölfarið, fólk var greinilega að hugsa hvað ég væri að meina, en síðan var bara öllum alveg sama.

Hvaða skilaboð viltu koma með til annars hinsegin fólks í íþróttum?
Þú getur bæði verið hinsegin og íþróttum. Það er enginn að biðja þig um að velja á milli.

Hver eru næstu skref í átt að jafnrétti innan íþróttahreyfingarinnar?
Ég vildi að það væri fleiri fyrirmyndir til þess að líta upp til. Ég veit ekki um neina heimsklassaklifrara sem eru opinberlega samkynhneigðir. Ég veit að það hefði gert mikið fyrir mig að hafa einhvern til að líta upp til því mér hefur oft liðið eins og  ég væri einhver aumingi vegna þess að ég er hommi og ætti ekki heima í klifrinu eða íþróttum almennt. Einhvern veginn hafði ég fengið þá hugmynd frá samfélaginu að hommar væri bara aumingjar og það þyrfti að velja á milli þess að vera samkynhneigður eða framúrskarandi í íþróttum. En það er náttúrulega bara algjört bull!

Eitthver önnur skilaboð sem þú vilt koma á framfæri?
Kynhneigðin þín er bara ótrúlega lítill hluti af því sem gerir þig að þeim sem þú ert. Þú mátt alveg vera hvernig sem þú vilt og hafa gaman af hverju sem er og samt fíla sama kyn.

Stefán Þór Sigurðsson
20 ára // hann
@stefan_ths