Höfundur: Ragnhildur Sverrisdóttir
Ég var orðin fertug þegar Gleðigangan hlykkjaðist í fyrsta sinn niður Laugaveginn. Reyndar var ég hvergi nærri, því ég bjó í útlöndum. En ég hef gengið flestar Gleðigöngur undanfarin 20 ár og með hverju árinu hefur gangan orðið fjölbreyttari og skemmtilegri. Hún hefur hins vegar aldrei verið fölskvalaus gleði fyrir alla, til þess hafa of þungir og erfiðir hlutir brunnið á of mörgum. Það þurfti mikið hugrekki fyrir marga að slást í hópinn. Gleðin sem því fylgdi var mikil, en harmurinn stundum skammt undan.
Á þessum 20 árum hefur réttindamálum hinsegin fólks fleygt fram. Ég nenni ekki að tíunda það allt saman, þetta vitið þið öll sem hafið þurft að telja hvert jákvæða skrefið á eftir öðru, halda þeim til haga og treysta því að við þokumst alltaf áfram, áfram.
Við vitum að við erum ekki komin alla leið, ekki öll okkar. Það nenni ég ekki heldur að tíunda, því það þekkjum við of vel. En óneitanlega er ástæða til að staldra við á 20 ára afmæli göngunnar og velta fyrir sér hver staðan verði eftir önnur 20 ár? Göngum við enn? Í eintómri gleði af því að öll réttindi hafa náðst fram fyrir alla? Eða með hnefann á lofti, öskureið yfir bakslaginu sem kom þegar mannhatarar komust til valda og tóku af okkur þau sjálfsögðu réttindi sem stærsti hluti þjóðarinnar nýtur nú?
Í þessum vangaveltum mínum um gönguna eftir 20 ár tók ég þann kostinn að hafa samband við fjölda hinsegin fólks og spyrja hvernig það héldi að staðan yrði. Flest fólk er bjartsýnt og sannfært um að við náum ekki bara að verja núverandi árangur, heldur einnig að bæta töluvert við. Og öll eiga enn stærri drauma. Vonast til að eftir 20 ár verði fleiri og róttækari pælingar í tengslum við kyn, kynvitund og kyntjáningu, að umræðan um kyneinkenni og tilvist intersex fólks og fjölbreytni líkama verði sýnilegri. Og vonast til að það að þrýsta börnum í kynja- og kynhneigðarnormið þyki ekki lengur ábyrgt og eðlilegt uppeldi. Það er auðvitað byltingarkennt í sjálfu sér! Hvað gerir fólk þegar heimurinn er ekki lengur svo einfaldur að í boði verði bara blár aksjónkall fyrir stráka og bleik Barbie fyrir stelpur? Það er langlíklegast að heimurinn hrynji. Sú skoðun kom reyndar hvergi fram hjá álitsgjöfum, enda sendi ég fyrirspurnir bara vítt og breitt um hinsegin samfélagið og þar virðist fólk ekkert sérlega áhyggjufullt yfir slíkri hrunhættu.
Hatursöflin vekja ótta
Það er grunnt á ótta hinsegin fólks við hatursöfl og skyldi engan undra.
Forsetaframbjóðandi, sem einu sinni kallaði frumvarp um kynrænt sjálfræði það heimskulegasta sem hann hefði heyrt og tengdi við múslimafóbíu, vakti óbragð. Lítill stuðningur við hann, vissulega, en við sjáum svo mörg dæmi um að skoðanasystkin hans séu á blússandi siglingu í ýmsum öðrum löndum. „Ef að þjóðernispopúlistar á borð við Guðmund Franklín eða Miðflokkinn ná völdum verða slagorðin mjög einföld: „Afturhvarf til 2020“, „Ég má víst vera til“ og „Við gátum þetta einu sinni, við getum þetta aftur“, hljóðar eitt svarið sem ég fékk.
Og annað er af svipuðum toga: „Ég held að við séum að sigla inn í tímabil fasisma í hinum vestræna heimi og við gætum þurft að takast á við innfluttar, hatursfullar hugmyndir,“ skrifar einn álitsgjafi, sem hefur áhyggjur af að bakslag geti komið í réttindabaráttuna. En þó aðeins tímabundið. Okkur verður ekki haldið niðri.
Þriðji ritar: „Við erum á tímamótum. Við sjáum hvað er að gerast í Póllandi, BNA og víðar. Þetta er ekki bara aukin hægri öfgastefna, populismi og íhaldssemi heldur einnig stóraukið eftirlit stórabróður með hegðun þegnanna. Hvort hinsegin fólk neyðist til að fara aftur inn í skápinn til að lifa af eða hvort við náum að svífa inn í framtíðina á bleiku skýi kemur í ljós. Baráttan endar aldrei.“
Fjórði segir að krafan um að fagna fjölbreytileikanum verði áreiðanlega enn áberandi eftir 20 ár. Kröfurnar 2040 verða um að allir megi tjá sig eins og þeir vilja, eiga börn, skapa alls konar fjölskyldur, fara út fyrir normið – en þrýstingur um að fylgja „normi“ gæti alveg verið enn öflugri árið 2040 ef öfgaöflin ná festu í samfélögum heimsins. „Ég hef miklar áhyggjur af því að með auknum fjölbreytileika og meira frelsi til að tjá sig og vera alls konar þá muni ótti á meðal margra aukast og birtast með auknum fordómum og jafnvel sviptingu á tjáningarfrelsi, hugsanlega verðum við bara að fara í hringi og berjast gegn svipuðum fordómum eftir 20 ár,“ segir í einu svarinu og þar vísar bréfritari m.a. til ótta sumra við aukinn sýnileika trans ungmenna. „Með auknum sýnileika og meðvitund í samfélagi hefur ungt fólk leyft sér að setja spurningarmerki við kyn og leika sér með kyntjáningu. Margt fólk á erfitt með þetta, skilur það ekki og er hrætt og það birtist t.d. í eins konar hræðsluáróðri til foreldra. Eins birtist það í stöðugum efasemdum og börnin þurfa stöðugt að sanna sig og fá seint eða ekki þá þjónustu sem þau þurfa sem getur haft mjög alvarlegar afleiðingar.“
Sýnileikinn sífellt meiri
Vonandi þurfa þátttakendur í göngunni ekki að óttast lögregluofbeldi eða rasisma og internetdurgarnir, sem býsnast yfir sóun á skattfé, verða horfnir. Trans og intersex fólk verður búið að öðlast öll þau réttindi og allan þann skilning sem það dreymir um. Sama gildir um eikynhneigt og fjölkært fólk. Sýnileiki ólíkra hópa verður sífellt meiri – enda meginhlutverk Gleðigöngunnar að skapa hinsegin fólki vettvang til að staðfesta tilvist sína fyrir allra augum.
Og þó. Kannski verða hinir ýmsu hópar ekki meira áberandi. Kannski verður áherslan einmitt fyrst og fremst á einstaklinginn? Eru líkur á að eftir 20 ár munum við einfaldlega sætta okkur við gríðarlega fjölbreytta flóru mannlífsins og hætta að setja merkimiða á hvern og einn? Sumir vonast a.m.k. til þess og það er til verri framtíðarsýn.
„Við erum oft svo upptekin af því að tryggja sýnileika allra hópanna að við gleymum að horfa á það sem við eigum sameiginlegt,“ skrifar einn og veltir fyrir sér hvort eftir 20 ár verði bara einn hópur: Hinsegin fólk.
Af svipuðum meiði eru vangaveltur – og tilheyrandi bjartsýni – þess sem sagðist hafa trú á að vakning samkenndar mannkyns muni fleyta okkur enn lengra í réttlætisátt. Byltingar #metoo, Druslugöngunnar og Black Lives Matter hafi opnað augu fjölmargra fyrir ýmiss konar misrétti og sú réttlætiskennd sem fylgi þeim muni vaxa á næstu árum og áratugum. „Jafnrétti er ekki kaka sem klárast þótt fleiri hópum sé boðið að borðinu“, skrifar sá álitsgjafi og bætir við um stöðuna eftir 20 ár: „Kannski kemur nýr hópur hinsegin fólks, sem hefur ekki átt orð til að lýsa sínum upplifunum áður sem mun þurfa pláss, nýyrði, lagaleg og félagsleg réttindi o.s.frv. Kannski verðum við ennþá að berjast fyrir réttindum þeirra hópa sem eru þekktir í dag en hafa annaðhvort misst réttindi, eða hafa verið skilin eftir í einhverjum nýjum forréttindum sem munu koma upp. Ég held að það mikilvægasta sé bara að við stefnum á gönguna eftir 20 ár í sameiningu og sameflingu, því eins og stórfjölskyldan sem við líkjum okkur oft við, þá kemur okkur ekki alltaf fullkomlega saman, en við ættum samt að verja hvort annað með kjafti og klóm frá allri hættu eða ógn.“
Álitsgjafarnir eru ekki fæddir í gær og þótt þeir séu flestir jákvæðir og fullir bjartsýni þá vita þeir að fordómar og þekkingarleysi er enn til staðar þrátt fyrir að lagalega séum við komin nokkuð langt. Það vill líka stundum gleymast að þrátt fyrir að það sé auðveldara að vera hinsegin í dag en áður fyrr og fordómar hafi minnkað til muna þá geta innri fordómar og sjálfshatur verið alveg jafn slæmt nú og fyrir 20 eða 40 árum. Við værum heldur betur komin langt eftir 20 ár ef við værum laus undan þeirri byrði.
Þá verður fjandinn laus
Það er líklegt að við þurfum að ganga um með kröfuskilti eftir 20 ár, með skilaboðum um mannréttindi, frelsi og réttinn til að vera og elska.
Þá gerum við það. Því eins og einn álitsgjafinn sagði: „Ef við höldum ekki umræðunni lifandi, tökumst ekki á um málefnin, sjálfsmyndirnar og pólitíkina þá gerir það einhver í staðinn fyrir okkur. Og þá fyrst verður fjandinn laus.“
Við höfum áhyggjur, áreiðanlega réttmætar. Að breytt landslag í pólitík verði til þess að réttindi verði tekin af okkur. En aðallega erum við stolt og glöð með gönguna okkar. Og við eigum líka að muna hversu margir koma í gönguna og hversu margir fagna okkur á hliðarlínunni. Þar er styrkurinn okkar og hverfur varla á einni nóttu.
Vonandi verð ég í göngunni eftir 20 ár. Vonandi brosandi út að mínum 80 ára gömlu eyrum, samt hálfklökk yfir að öll réttindi alls hinsegin fólks skuli tryggð. En ef staðan verður ekki svo góð, þá mæti ég með steyttan hnefann. Og við verðum mörg.