Frá því að Hinsegin dagar voru fyrst haldnir í Reykjavík árið 1999 hefur hátíðin fyllt borgina af lífi, lit og gleði ásamt því að minna okkur á réttindabaráttu hinsegin fólks. Hinsegin dagar hafa gegnt stóru hlutverki í réttinda- og hagsmunabaráttu í landinu – ekki bara hinsegin fólks heldur hefur hátíðin verið öðrum hópum mikilvæg fyrirmynd.
Það er samt gleðin og samtakamátturinn sem gerir Hinsegin dagana svo einstaka og gera þá að þeirri borgarhátíð sem hún sannarlega er. Almenningur hefur um árabil gripið tækifærið og tekið þátt í hátíðahöldunum og sýnt þannig samstöðu sína með hinsegin fólki í verki.
Hinsegin dagar hafa verið ein fjölsóttasta borgar- og fjölskylduhátíðin í Reykjavík og Gleðigangan hefur dregið um þriðjung landsmanna í miðborgina á hverju ári til að fagna fjölbreytileikanum. Skipuleggjendur hátíðarinnar í ár hafa sýnt mikla ábyrgð og framsækni með því að endurskipuleggja dagskrána og fyrirkomulag
Gleðigöngunnar í samræmi við þær takmarkanir sem eru á fjöldasamkomum vegna Covid-19 heimsfaraldursins.
Þótt hátíðin verði með öðru sniði vegna fjöldasamkomubannsins er þörfin fyrir Gleðigönguna og sýnileika hinsegin fólks ekki minni. Slagorðið í ár – Stolt í hverju skrefi – fagnar þeim skrefum sem tekin hafa verið í átt að bættum réttindum hinsegin fólks á Íslandi og minnir okkur á að baráttunni er ekki lokið.
Nú reynir á samtakamáttinn sem aldrei fyrr – að hver og einn skipuleggi eða taki þátt í minni gleðigöngum hvar sem er á landinu með baráttu gegn fordómum og fyrir fullum réttindum allra að vopni. Gleðjumst saman á Hinsegin dögum, um alla borg og allt land.
Fyrir hönd Reykjavíkurborgar óska ég ykkur til hamingju með farsæla réttindabaráttu sem þið megið sannarlega vera stolt af. Gleðilega hátíð og góða skemmtun!
Dagur B. Eggertsson
Borgarstjóri
Mayor of Reykjavík