Dr. Ynda Gestsson verður með leiðsögn um sýninguna föstudaginn 16. ágúst kl. 15.30 á ensku.
Ókeypis aðgangur er á sýninguna og leiðsögnina.
Sýningin varpar ljósi á sögu hinsegin myndlistar á Íslandi; sérstaklega þann hluta sem snýr að Samtökunum ´78 og þætti þeirra í að byggja upp stuðningsnet fyrir hinsegin myndlistarfólk. Auk þess sem helstu atriði þessarar sögu eru rakin.
Á Íslandi hefur menningarlegur ósýnileiki staðið í vegi fyrir því að hinsegin myndlistarfólk hafi náð flugi í myndlistarumræðunni; hvað þá þegar kemur að því að listafólkið fjalli um og takast á við sögu sína og mannréttindabaráttu með aðferðir myndlistarinnar að vopni. Á sýningunni gefst tækifæri til að kynnast þessari mikilvægu sögu, viðfangsefnum listafólksins og hugmyndum þeirra um sig og listina. Sýningin er því krafa um það að listafólkið njóti sannmælis og menningarlegt-, félagslegt-, pólitískt og sögulegt framlag þeirra verði metið á þeirra forsendum. Sýningin dregur fram hvernig menningarleg verðmæti verða til í hinsegin samfélaginu og nauðsyn þess að hlúð sé að þeim og þau gerð sýnileg.