Lesbía er sameinandi hugtak

Viðtal við Ilariu Todde

// Bjarndís Helga Tómasdóttir

Efnisviðvörun: umræða um ofbeldi og nauðganir.

*Í greininni er nokkuð talað um kyntjáningu en höfundur hefur kosið að nota orðin femme og masc fremur en íslensku orðin kvenlegt og karlmannlegt þar sem þau ná ekki fyllilega utan um þá hugmyndafræði sem fjallað er um.

Lesbófóbía er ekki orð sem við heyrum oft enda flest vön að tala um hómófóbíu þegar vísað er til hvers kyns fordóma gagnvart hinsegin fólki. Ilaria Todde er samskipta- og rannsóknarstjóri EL*C, eða EuroCentralAsian Lesbian* Community, en hún flutti tvö erindi á ráðstefnu IDAHOT+ Forum í Reykjavík í maí síðastliðnum. Samtökin EL*C leggja áherslu á þær áskoranir sem mæta lesbíum sem felast, að sögn Ilariu, bæði í hómófóbíu og kvenhatri. Í erindum sínum talaði hún um fordóma á grundvelli kyntjáningar og voru lesbófóbía og transfordómar sérstaklega til umfjöllunar.

Hvað er lesbía?

Áður en lengra er haldið er rétt að nefna að samtökin EL*C nota orðið lesbía á mun víðtækari hátt en við eigum að venjast á Íslandi. Á vefsíðu þeirra segir að notkun orðsins lesbía sé „liður í baráttunni fyrir auknum sýnileika og valdeflingu“ og því noti þau orðið með stjörnu – lesbía* – „til þess að ná utan um og bjóða allar velkomnar sem skilgreina sig sem lesbíur, femínista, tvíkynhneigðar, trans eða hinsegin, auk þeirra sem finna tengingu við réttindabaráttu lesbía.“ Þá segir Ilaria mikilvægt að nota orðið lesbía því að það hafi á sér neikvæðan blæ í mörgum löndum, þar sem það hefur lengi verið notað í niðrandi merkingu. „Orðið hefur verið notað í þeim tilgangi að kyngera og blætisvæða lesbískar, tvíkynhneigðar eða hinsegin konur og því vilja margar konur sem eru ekki gagnkynhneigðar ekki nota orðið eða tengjast því,“ segir hún. Lesbískt klám er til að mynda gríðarlega vinsælt á klámmiðlum en þau sem hafa stundað lesbískt kynlíf geta að öllum líkindum verið sammála um að það sem þar birtist á ekkert skylt við kynlíf lesbía, heldur er um að ræða fantasíu gagnkynhneigðra karla þar sem kynlíf hinsegin kvenna er látið þjóna þeirra hag og smekk. Því falla klámmyndaleikkonurnar einkum að hugmyndum gagnkynhneigða regluverksins um það hvað teljist aðlaðandi, svo sem að vera kvenlegar eða femme.

Hugmyndafræði EL*C felur í sér að hægt sé að nota orðið lesbía á fleiri en einn veg: það geti bæði verið sjálfsmyndarhugtak en einnig hugtak fyrir breiðan hóp hinsegin kvenna og fólks sem lesið er sem konur. „Við viljum ekki skylda fólk til þess að skilgreina sig sem lesbíu. Að mínu viti er ætlunin ekki að útiloka fólk, heldur snýst þetta fyrst og fremst um að átta sig á því að staða okkar sem kvenna í samfélaginu markist jafnt af kynhneigð okkar sem og kynvitund,“ segir Ilaria. Lesbía sé því sameinandi hugtak en ekki einangrandi eða útilokandi. Innan þess geti hinsegin konur og fólk sem er lesið sem konur, hvort sem um er að ræða sís eða trans, sameinast gegn þeirri samþættu mismunun og fordómum sem þau verða fyrir vegna kyns síns, kyntjáningar og kynhneigðar. Breyturnar séu þó fleiri og mikilvægt sé að missa ekki sjónar á því. Til að mynda verði tvíkynhneigðar konur fyrir fordómum bæði innan og utan hinsegin samfélagsins. Þá verði lesbíur sem einnig eru trans jafnframt fyrir transfóbíu og svört lesbía verði bæði fyrir lesbófóbíu og kynþáttafordómum svo fátt eitt sé nefnt.

Hvað er þá lesbófóbía?
Ilaria útskýrir að lesbófóbía nái í raun utan um samþætta mismunun á grundvelli hómófóbíu og kvenhaturs og tengist því ekki eingöngu kynhneigð heldur einnig kyni og kyntjáningu. „Lesbófóbía er hugtak sem byggist á greiningu á aðstæðum þar sem litið er til allra þátta sem varða líf þess fólks sem um ræðir. Þegar við tölum um hómófóbíu hugsum við um fordóma sem tengjast kynhneigð og gerum ráð fyrir því að manneskja hafi orðið fyrir áreiti vegna þess að hún sé ekki gagnkynhneigð. Þetta er auðvitað oft veruleikinn og í mörgum tilfellum verður fólk fyrir aðkasti sérstaklega vegna kynhneigðar sinnar. Vandamálið er hins vegar að ef um er að ræða konu sem er ekki gagnkynhneigð eru fordómarnir tengdir kyni ekki síður en kynhneigð.“

Samkvæmt Ilariu er ekki hægt að horfa fram hjá því að í samfélagsgerð okkar sé sú hugmynd rótgróin að tilvera kvenna skuli lúta forsendum karlmanna. „Sem lesbíur eða tvíkynhneigðar konur göngum við í berhögg við þessa skipan og því mætum við mótlæti í samfélaginu, hvort sem það er áreiti eða jafnvel alvarlegar líkamsárásir.“ Þessi alvarlegustu dæmi sem Ilaria nefnir eru svokallaðar „leiðréttandi nauðganir“ þar sem konu, eða manneskju sem er lesin sem kona, er nauðgað af karlmanni til þess að „leiðrétta“ kynhneigð hennar eða í því skyni að niðurlægja og refsa henni. Slíkar árásir þekkjast víða um heim og á Íslandi eru dæmi um konur sem hefur verið nauðgað vegna kynhneigðar sinnar eða kyntjáningar. Þá er mikilvægt að horfast í augu við raunveruleikann af hugrekki og æðruleysi svo að hægt sé að gera breytingar til batnaðar. Ilaria segir að með því að tala um lesbófóbíu séum við í raun og veru að ganga úr skugga um að við skiljum fyllilega hvað ofbeldi gegn hinsegin konum og fólki sem er lesið sem konur þýði.

Masc, butch eða mascrona
Ilaria talar mikið um hvernig femme kyntjáning fólks sem skilgreinir sig sem konu, eða er lesið sem kona, hafi áhrif á það áreiti sem það verður fyrir. Sjálf er Ilaria sískynja kona með mjög skýra masc kyntjáningu. Erindi hennar á ráðstefnu IDAHOT+ Forum snerti á því hvernig slíkar konur, eða fólk sem samfélagið les sem konur, sem hafa masc kyntjáningu upplifa heiminn. Sjálf kemur Ilaria frá eyju undan ströndum Ítalíu og kom snemma út sem lesbía. „Mér finnst eins og ég hafi eiginlega verið að undirbúa mig fyrir að halda þetta erindi allt mitt líf. Ég er frekar karlmannleg í fasi en ég kem frá strjálbýlu svæði á eynni Sardiníu. Ég minnist þess samt ekki að hafa orðið sérstaklega fyrir aðkasti á unglingsárum mínum á Sardiníu vegna þess að ég væri lesbía, heldur vegna þess að ég væri það sem þar er kallað mascrona, sem er niðrandi orð og má gróflega þýða sem karlkonu. Kona sem hagar sér eins og karlmaður er það alversta sem kona getur verið.“

Þá ögrar Ilaria viðteknum hugmyndum samfélagsins um kynjatvíhyggjuna með tilvist sinni þar sem hún er stundum lesin sem kona en stundum sem karlmaður en það reyndist henni oft erfitt á sínum yngri árum. „Það tók mig langan tíma að læra að vera stolt af því að vera mascrona. Ég er mascrona! Ég er butch og það er eitthvað sem ég tel að hjálpi mér skilja þessar samfélagslegu hugmyndir um karlmennsku.“ Ilaria vísar hér í bók Jacks Halberstam, Female Masculinity (1998), og segir að karlmennska helgist ekki af því að fæðast sem karlmaður. „Að tileinka okkur það sem telst karlmannlegt gerir okkur – þ.e lesbíum, trans mönnum og kynsegin fólki – auðveldara um vik að ígrunda það hvernig eitruð karlmennska er uppbyggð og hvernig hún hefur áhrif á allt samfélagið, þar á meðal karlmenn. Þess vegna held ég að þetta sé gagnlegt á sama tíma og þeim konum sem eru karlmannlegar í fasi er refsað grimmilega af samfélaginu fyrir að taka þetta vald til sín. Þannig gerir samfélagið kröfur til kvenna um að þær eigi ekki að líta út fyrir að vera lesbíur og þar með að konur eigi ekki að vera karlmannlegar heldur verði þær að vera kvenlegar.“

Femme og samfélagið

„Kyntjáning er breyta sem sameinar allt hinsegin samfélagið. Fólk verður fyrir áreiti vegna kyntjáningar sinnar, hvort sem um er að ræða samkynhneigða karlmenn sem teljast of kvenlegir eða lesbíur sem eru of karlmannlegar. Trans fólk verður líka fyrir árásum vegna kyntjáningar sinnar,“ segir Ilaria. Þetta sé þó sérstaklega flókið í tilfelli femme lesbía sem eru ekki ekki eingöngu útsettar fyrir áreiti og ofbeldi þegar þær brjóta gegn hugmyndum samfélagsins um hlutverk kvenna, til dæmis með óhefðbundinni kyntjáningu, heldur einnig þegar þær sýna dæmigerð einkenni um kvenleika. „Það er brotið á konum hvort sem þær fylgja eða brjóta í bága við viðmið samfélagsins um kvenleika.“

Það áreiti sem femme lesbíur verða fyrir snýr einnig að hlutverki kvenna innan feðraveldisins og þeim væntingum sem samfélagið gerir til þeirra, þá sérstaklega þegar kemur að karlmönnum, hefðbundnum kynhlutverkum og barneignum. Þetta eru þær kröfur sem samfélagið gerir til kvenna um kvenleika, sem endurspegla undirliggjandi hugmyndir um það hvernig sá kvenleiki tilheyri í raun karlmanninum, segir Ilaria. „Viðhorfið er það að við séum ekki sjálfum okkur nægar, heldur sé tilvist okkar í þágu karlmannsins, ýmist til þess að uppfylla óskir þeirra eða til þess að vera kastað fyrir róða af þeim, en með því að standa á eigin fótum rústum við mörgum af þeim hugmyndum eða væntingum sem samfélagið gerir til okkar. Þá má oft greina það viðhorf að sé lesbía kvenleg í fasi eða teljist fríð samkvæmt stöðlum samfélagsins sé hún einhvers konar sóun á sjálfri sér, sem vekur upp spurninguna: sóun fyrir hvers sakir? Ef litið er á málið út frá hefðbundnum kynhlutverkum liggur þó í augum uppi að málið snýst um glataða möguleika á barneignum. Talið er að ef kona eigi í hlut, og hvað þá kona sem er lesin sem kona, þá beri henni að hegða sér eins og góðri konu sæmi og ala börn fyrir feðraveldið.“

Baráttan endalausa

Það má teljast líklegt að íslenskar lesbíur geti fundið sig í ýmsu af því sem Ilaria Todde hefur að segja. Femme konur þekkja vel kynferðislegar aðdróttanir og áreiti karlmanna og masc konur þekkja margar of vel neikvæð viðbrögð samfélagsins við tilveru sinni. Hinsegin samfélagið í heild sinni þekkir áreiti, fordóma og ofbeldi og endalausa baráttu fyrir réttindum, sýnileika og sátt í samfélaginu. Það er því svo sannarlega mikilvægt að við sameinumst þvert á hópa í baráttunni, öllum til heilla. 

Sú samstaða má samt ekki útiloka að við beinum sjónum okkur að sértækum vandamálum hópa innan breiðfylkingar okkar. Við vitum betur en kannski nokkur annar þjóðfélagshópur að við þurfum ekki að vera eins og við þurfum ekki að skilja hvort annað til fulls til þess að standa sterk með hvort öðru. Það er okkur í raun lífsnauðsynlegt að skilja hvað það er sem aðgreinir okkur um leið og við tökum afstöðu með því að láta það vera það sem sameinar okkur í baráttunni.

Viðtalið birtist fyrst í Tímariti Hinsegin daga 2023.