Lífshættuleg mannréttindabarátta hinsegin fólks í Egyptalandi

Höfundur: Vera Illugadóttir

„Það er enginn munur á skeggjuðum trúarofstækismanni, sem vill drepa mann vegna þess að hann trúir því að hann sé öðrum æðri í augum guðs síns, og eigi þess vegna að drepa alla sem eru öðruvísi en hann — og sléttrökuðum, vel klæddum manni með nýjan síma og flottan bíl sem trúir því að hann sé æðri í augum síns guðs, og eigi því að pynta og fangelsa alla sem eru öðruvísi en hann.“
— Sarah Hegazi, 2018

Föstudagskvöldið 22. september 2017 var spenna og eftirvænting í loftinu í úthverfi Kaíró, höfuðborgar Egyptalands, þar sem 35 þúsund manns höfðu safnast saman undir berum himni til að berja augum eina frægustu rokkhljómsveit Arabaheimsins: Mashrou’ Leila. Líbönsku fjórmenningarnir í Mashrou’ Leila hafa starfað saman frá 2008 og á síðustu árum vakið eftirtekt um gervallan Arabaheiminn sem og utan hans fyrir grípandi, dansvæna tónlist sem sker sig úr í annars nokkuð einsleitum heimi arabískrar dægurtónlistar. Þeir þykja fremstir í nýrri öldu arabískra rokkara. 

En sveitin hefur einnig vakið athygli — jákvæða og neikvæða — fyrir beinskeytta texta sem taka á erfiðum samfélagsmálum: spillingu, fátækt, ofríki yfirvalda og réttindum kvenna og hinsegin fólks. Söngvara Mashrou’ Leila, Hamed Sinno, hafa einhverjir líkt við Freddie Mercury, ekki aðeins vegna sönghæfileika hans og þess að hann skartar jafnan yfirvaraskeggi — heldur er Sinno hinsegin og talar opinskátt um það, einn sárafárra frægðarmenna í Arabaheiminum sem gerist svo djarfur. Það hefur ekki verið bandinu átakalaust. Þeir eru umdeildir víðast hvar í íhaldssömum samfélögum Arabaheimsins. Árið 2016 var Mashrou’ Leila til að mynda meinað að koma fram í Jórdaníu, þar sem þeir eiga skara aðdáenda, vegna andstöðu jórdanskra þingmanna við kynhneigð Sinnos. Fyrirhuguðum tónleikum á menningarhátíð í heimalandi þeirra Líbanon í ágúst 2019 var aflýst eftir mótmæli kristinna trúarleiðtoga. Á síðari árum hefur sveitin mest komið fram í Evrópu og Norður-Ameríku, þótt aðdáendurnir séu eftir sem áður flestir í Miðausturlöndum.

Litadýrð og regnbogafánar

Þetta föstudagskvöld í Kaíró 2017 voru tvö ár síðan Mashrou’ Leila spilaði síðast í Egyptalandi og aðdáendur tóku vel undir við frægustu lög sveitarinnar. Risaskjáir blikkuðu og útisviðið glitraði í litum og ljósum. Svo juku nokkrir ungir aðdáendur enn á litadýrðina — drógu upp regnbogafána hinsegin fólks og veifuðu yfir mannskaranum. „Þetta kvöld var töfrum líkast,“ sagði söngvarinn Sinno síðar. Tónleikunum lauk og áhorfendur héldu heim á leið, margir í gleðivímu — ekki aðeins yfir tónlistinni, heldur vegna þess að þetta var í fyrsta sinn sem þau höfðu séð regnbogafánanum veifað opinberlega í Egyptalandi.

„Enginn var hræddur. Við upplifðum frelsi í eitt andartak. Við vorum að gera eitthvað sem við höfðum haldið að við gætum aldrei gert,“ sagði einn ungu fánaberanna, Ahmed Alaa, í viðtali síðar meir. Hann lýsti þessu sem einhverjum bestu mínútum lífs síns. „Við vorum eins og keisarar í okkar eigin keisaradæmi. Við vorum að sigrast á hatri. Eins og enginn gæti stöðvað okkur.“ Eflaust fór hann svo sáttur til sængur en morguninn eftir vaknaði Alaa við að myndir af honum og félögum hans með fánann á tónleikunum voru alls staðar í egypskum fjölmiðlum. Og það kom ekki til af góðu.

Hundruð fangelsuð fyrir „siðspillingu“

Ólíkt ýmsum öðrum ríkjum í þessum heimshluta er samkynhneigð ekki beinlínis bönnuð með lögum í Egyptalandi. Það hefur þó aldrei reynst egypskum stjórnvöldum erfitt að ofsækja samkynhneigða, trans fólk og annað hinsegin fólk með ýmsum öðrum lagalegum leiðum. Yfirleitt bera yfirvöld fyrir sig áratuga gömul lög gegn „siðspillingu“, sem einnig hafa verið notuð til að ofsækja fólk í kynlífsvinnu. Samkvæmt skýrslu egypsku mannréttindasamtakanna Egyptian Initiative for Personal Rights (EIPR) voru 185 handtekin þar í landi og sökuð um „siðspillingu“ eða að „hvetja til siðspillingar“ á árunum 2000 til 2013 — langflest þeirra samkynhneigðir karlmenn og trans konur.

Árið 2013 steypti egypski herinn, með herforingjann Abdel Fattah Al-Sisi í broddi fylkingar, fyrsta og eina lýðræðislega kjörna forseta Egyptalands, íslamistanum Mohamed Morsi, af stóli. Æ síðan hafa Al-Sisi, sem nú er forseti, og stjórn hans unnið að því að herða tök sín á egypsku samfélagi og reynt að slökkva alveg þær vonarglætur lýðræðis og mannréttinda sem kviknuðu í arabíska vorinu og mótmælunum á Tahrir-torginu í Kaíró 2011. Meðal annars hefur Al-Sisi ofsótt hinsegin fólk af auknum krafti, líklega í von um að ganga þannig í augun á íhaldssömum trúaröflum í egypsku samfélagi, sem enn syrgja fall Morsis.

Í sömu skýrslu mannréttindasamtakanna EIPR, frá vorinu 2017, segir að frá árslokum 2013 og fram í mars 2017 hafi að minnsta kosti 232 Egyptar verið handteknir fyrir meinta siðspillingu — fleiri á tæpum þremur og hálfu ári en síðustu þrettán árin þar á undan. Í meirihluta tilvika voru handtökurnar afrakstur grimmilegrar tækni sem siðferðisdeild egypsku lögreglunnar notar til að ná í hinsegin fólk og byggist bókstaflega á að veiða það í gildru. Lögreglumenn fara þá huldu höfði á samfélagsmiðlum og stefnumótasíðum þar sem karlar geta sóst eftir kynnum við aðra karlmenn eða trans konur. Lokka svo fórnarlambið á stefnumót, þar sem það er handtekið. Þau sem verða uppvís um slíka „siðspillingu“ geta átt yfir höfði sér margra ára fangelsisdóma.

Tugir handteknir

Egypskir fjölmiðar loguðu. Myndin af glöðu ungmennunum með regnbogafánann á tónleikunum fór út um allt. Í frétta- og spjallþáttum í útvarpi og sjónvarpi var þetta uppátæki harðlega fordæmt. Regnbogafáninn var, samkvæmt álitsgjöfum þar, tákn siðspillingar. Hinsegin fólk var sagt almennt hneigðara til glæpa en aðrir sómakærir Egyptar — eiturlyfjaneyslu og -sölu, rána, morða. Hinsegin fólk væri jafn hættulegt samfélaginu og hryðjuverkamenn.

Stjórnvöld lögðu við hlustir og sáu færi. Hljómsveitinni Mashrou’ Leila var auðvitað umsvifalaust bannað að koma aftur fram í Egyptalandi — tugþúsundum egypskra aðdáenda til vonbrigða — en öllu alvarlegra var að í hönd fór einhver grimmilegasta herferð stjórnvalda gegn hinsegin fólki í landinu til þessa. Á næstu dögum og vikum voru að minnsta kosti 75 ungar hinsegin manneskjur handteknar fyrir að hafa verið á hinum alræmdu tónleikum Mashrou’ Leila eða tengst einhverjum sem þar var. Eða eitthvað svoleiðis — það þurfti sjaldnast mikið tilefni.

Ahmed Alaa, sem hafði upplifað bestu andartök lífs síns þegar hann veifaði regnbogafánanum yfir mannfjöldanum, var handtekinn 1. október, rúmri viku eftir tónleikana. Hann var í bíl með félaga sínum þegar lögreglumenn umkringdu bifreiðina, börðu á húddið og skipuðu honum að koma út. Svo var hann fluttur í einangrunarklefa þar sem hann var meira og minna næstu þrjá mánuðina.

Vinkona Alaa, Sarah Hegazi, 28 ára forritari, var líka handtekin. Þau höfðu kynnst í samtökum sem börðust gegn öðru samfélagsmeini í Egyptalandi, heimilisofbeldi, og deildu áhuga á að bæta stöðu hinsegin fólks í heimalandinu. Hegazi hafði líka veifað regnbogafánanum þetta kvöld. Annar tónleikagestur náði mynd af henni þar sem hún situr á öxlunum á vini sínum með fánann á lofti. Hún skælbrosir — þetta var í fyrsta sinn á 28 ára ævi sem hún opinberaði samkynhneigð sína fyrir öðrum en sínum nánustu ættingjum og vinum.

Óþefur og sársaukavein

Hegazi var handtekin heima hjá sér. Lögreglumenn bundu fyrir augun á henni og fluttu hana á lögreglustöð þar sem hún var pyntuð með rafmagnslostum og aðrir fangar hvattir til að ráðast á hana, líkamlega og kynferðislega. „Óþefur og sársaukavein,“ skrifaði hún síðar. „Ég sat í stól, hendurnar á mér bundnar og tusku troðið í munninn á mér af einhverri ástæðu sem ég skildi ekki. Ég sá engan og enginn talaði við mig. Ekki löngu síðar fékk ég krampa og missti meðvitund, ég veit ekki hvað lengi.“

Í fangelsinu var henni haldið í einangrun dögum saman. Fangaverðirnir vildu að hún játaði að samkynhneigð væri geðsjúkdómur. Sökuðu hana um að tilheyra ólöglegum samtökum. Eftir þriggja mánaða varðhald var hún loks látin laus gegn tryggingu. Hún var heppin — margir aðrir sem voru handteknir þessa haustdaga 2017 fengu að endingu áralanga fangelsisdóma.

En Sarah Hegazi var í raun alls ekki heppin.

Áhrif arabíska vorsins
Í skýrslu Human Rights Watch (HRW) frá 2018 um mannréttindabaráttu hinsegin fólks í Arabalöndunum vildu margir aðspurðra ítreka að þó að staðan væri víðast hvar slæm væri mikilvægt að draga ekki upp alneikvæða mynd af málefnum hinsegin fólks í þessum heimshluta. Þau væru ekki aðeins fórnarlömb heldur einnig baráttufólk, þó svo að baráttan væri oft og tíðum erfið. Þó svo að arabíska vorið 2010–2011 hefði orðið flestum vonbrigði hafði það ekki verið til einskis. Samhliða mótmælum og byltingum „vorsins“ varð í mörgum löndum sprenging í ýmiss konar starfsemi baráttu- og félagasamtaka.

Allt í einu þorði fólk að tala um hlutina. Málefni samkynhneigðra, trans og hinsegin fólks þar á meðal. Einn samkynhneigður Egypti sagði í skýrslu HRW að á dögum mótmælanna á Tahrir-torgi í Kaíró hefði hann heyrt af stofnun sex eða sjö samtaka hinsegin fólks. „Arabíska vorið bjó mig til,“ sagði viðmælandinn líka. „Upp úr 2011 var eins og það væri ekkert sem kalla mætti fjall, það var ekkert sem ekki var hægt að sigra.“


11. maí 2001 voru 52 egypskir karlar handteknir eftir gleðskap um borð í ferjunni Queen Boat sem lá við Nílarbakka. Allir voru ákærðir fyrir „siðspillingu“ — samkynhneigð — og tæpur helmingur þeirra á endanum dæmdur í þriggja til fimm ára fangelsi og þrælkunarvinnu. Queen Boat-málið vakti athygli í egypsku pressunni — en aðallega hneykslan. Alls engin samtök eða einstaklingar stigu fram og töluðu máli hinna handteknu „siðspilla“. Nú er öldin önnur. Samtök hinsegin fólks eru starfrækt í velflestum Arabalöndum. Þau eru misformleg, misopinská, mishávær. En þau eru til og þau vinna mörg saman þvert á landamæri og eru sömuleiðis í tengslum við önnur baráttusamtök í heimalöndum sínum, sem styrkir stöðu þeirra.

Ekki löngu eftir að herferð egypskra yfirvalda gegn hinsegin fólki í kjölfar Mashrou’ Leila-tónleikana hófst haustið 2017 tóku 50 samtök víðs vegar að sig saman og gáfu út yfirlýsingu sem fordæmdi aðgerðirnar. Slíkt hefði verið óhugsandi árið 2001. Víðar en í Egyptalandi hefur einhver árangur náðst. Árið 2015 mættu, til dæmis, 56 marokkóskir lögfræðingar í dómssal þar í landi til að styðja málstað trans konu sem múgur fólks hafði ráðist á og gengið í skrokk á. Vissulega er langt í land. En ekki eintómt svartnætti.

Enn föst í fangelsinu
„Það verður gleðiganga í Egyptalandi. Á endanum. Það tekur bara tíma.“ Þetta sagði Ahmed Alaa við útsendara Buzzfeed News sem mætti með honum í gleðigönguna í Toronto í Kanada 2018. Þar gat Alaa aftur veifað regnbogafánanum, óttalaus. Hann og Sarah Hegazi flúðu bæði heimalandið eftir fangelsisdvölina og fengu hæli í Kanada, Alaa með hjálp samtakanna Rainbow Railroad, sem hjálpa hinsegin fólki að flýja lönd þar sem það sætir ofsóknum. Sarah Hegazi hélt áfram baráttu úr útlegðinni. Hún skrifaði reglulega greinar í arabísk rit — ekki bara um málefni hinsegin fólks, heldur um kvenréttindi og stéttabaráttu, gegn kapítalisma og heimsvaldastefnu, hún skrifaði um mannréttindi og samfélagsmál á víðum grundvelli, og hún orti ljóð og var að skrifa bók. En hún átti erfitt með að finna sig í kanadísku samfélagi. Þar hún gat lifað lífi sínu óttalaust en minningar úr fangelsinu ásóttu hana, hún glímdi við þunglyndi, kvíða og martraðir. Hún var greind með áfallastreituröskun. Meðferð bar lítinn árangur. „Ég vil komast yfir þetta og ég vil gleyma,“ sagði hún í viðtali við kanadíska ríkisútvarpið CBC árið 2018. „En nei, ég er enn föst í fangelsinu“.

Rúmu ári eftir tónleikana í Kaíró skrifaði hún um líðan sína í arabískt vefrit: „Ég stamaði — ég var hrædd. Ég gat ekki farið út úr herberginu mínu, ég forðaðist mannamót, forðaðist að koma fram í fjölmiðlum, því ég missti svo oft fókus og fannst ég týnd, yfirkomin af löngun í þögn. Þetta var ofbeldið sem ríkisvaldið beitti mig, með blessun hins „náttúrulega trúaða“ samfélags.“ Og hún var einmana. Saknaði fjölskyldu og vina heima í Egyptalandi. Móðir hennar lést og hún gat ekki farið heim. „Heima er ekki land eða landamæri. Það er fólkið sem þú elskar. Hér í Kanada hef ég engan, enga fjölskyldu, enga vini. Svo ég er ekki hamingjusöm hér,“ játaði hún í viðtalinu við CBC.

Hana dreymdi um að snúa á endanum aftur og halda baráttunni áfram, verða samfélaginu til góðs, en treysti sér ekki til þess. „Hvernig á ég að komast af í samfélagi sem er byggt á hatri á öllum sem eru ekki karlkyns, gagnkynhneigður Súnní-múslimi eða stuðningsmaður stjórnvalda? Allir aðrir eru kúgaðir,“ sagði hún. „Ég hef ekki gleymt misréttinu sem gróf svarta holu í sál mína og skildi hana eftir blæðandi — holu sem læknum hefur ekki tekist að græða.“

Hún reyndi tvisvar að svipta sig lífi, og í þriðja sinn tókst henni það. Þrettánda júní 2020 fannst Sarah Hegazi látin á heimili sínu í Toronto. Hún var þrítug.

Vinur hennar Ahmed Alaa býr enn í Kanada og hefur heitið því að halda áfram að berjast í hennar nafni. Eins og margir hafa raunar gert eftir andlát hennar. Haldnar voru minningarathafnir um Söruh Hegazi víða um heim — í Lundúnum, Berlín, New York, Beirút. Hamed Sinno, söngvari Mashrou’ Leila, tók þátt í athöfninni í New York — hann ákvað nýlega að flytja frá Líbanon — og fór þar með nokkrar ljóðlínur eftir Hegazi.

„Himinninn er sætari en jörðin. Ég vel himininn, ekki jörðina.“ Svo skrifaði Sarah Hegazi með síðustu myndinni sem hún birti á Instagram, nokkrum klukkustundum fyrir andlátið. Í stílabók hripaði hún svo einhverju síðar þrjár stuttar orðsendingar að skilnaði. Eina til systkina sinna og aðra til vina. Og þriðju sem hún stílaði einfaldlega á heiminn: „Þú varst andskoti grimmur. En ég fyrirgef þér.“