Áttu örsögur í skúffunni sem þrá að verða sýnilegar? Núna er rétti tíminn til að opna sig því Hinsegin dagar efna til ljóðasamkeppni í samstarfi við Sirkústjaldið, vefrit um listir og menningu. Hinsegin skáld, jafnt óreynd sem reynsluboltar, eru hvött til að senda inn ljóð eða örsögur og taka þannig þátt í að efla og auka við hina blómlegu menningu okkar.
Þátttakendur sendi texta í tölvupósti á netfangið sirkustjaldid@gmail.com fyrir 31. júlí. Dómnefnd skipuð þremur einstaklingum – fulltrúa Hinsegin daga, Sirkústjaldsins og einum óháðum aðila – fær textana nafnlausa í hendurnar og henni eru ekki veittar upplýsingar um höfunda fyrr en þrjú verðlaunaverk hafa verið valin. Úrslit verða tilkynnt á Hýrum húslestrum á Hinsegin dögum föstudaginn 5. ágúst þar sem verðlaunatextarnir verða enn fremur fluttir. Öll innsend verk verða birt á Sirkústjaldinu (www.sirkustjaldid.is) nema höfundar óski sérstaklega eftir öðru.