Ljóðasamkeppni Hinsegin daga

Föstudaginn 6. ágúst s.l. voru úrslit Ljóðasamkeppni Hinsegin daga tilkynnt á bókmenntaviðburði Hinsegin daga, Hýrum húslestrum. Í ár sátu í dómnefnd þau Ásdís Óladóttir, Felix Bergsson og Gerður Kristný.

Þetta er í sjötta sinn sem ljóðasamkeppnin er haldin en með henni leitast Hinsegin dagar við að vera vettvangur fyrir skáldskap sem hverfist um hinsegin líf og tilveru og vera öruggt rými fyrir hinsegin skáld.

Hér má lesa ljóðin sem voru í 1.-3. sæti ásamt rökstuðningi dómnefndar.

1. verðlaun

Ljóðið er ákaflega sterkt og meitlað. Tungumálinu er beitt af krafti og dregin upp sterk mynd af innri og ytri baráttu fólks sem þráir ást, viðurkenningu, öryggi og samfélag. Höfundur er líka húmoristi og stóðu dómnefndarmenn sig að því að flissa yfir ákveðnum línum en finna svo kalt vatn renna milli skinns og hörunds í þeim næstu. Ljóðið skilur mikið eftir fyrir lesandann til að pæla og hægt er að koma að því aftur og aftur. Glæsilega gert.

Steinveggur Inn

Höfundur: Brynhildur Yrsa Valkyrja (hún)

Þvalur kroppur þinn
löðrandi í svita
dregur að sér
ilminn af norskum
hlyn sem skotið
hefur rótum sínum
undir heitu malbikinu
og minnir
á einhvern hátt
á fjölbreytileikann
sem ber að fagna

Tendrar í sígarettu
þurrkar svita
kæfir stunu
sem geymir
allan sársaukann
er kraumar
innra með þér
kvíðann
sem hlekkjaður
er við þig
sparkar í steinvölu
og lætur
sem þú sjáir ekki
skuggaverurnar
sem fylla götuna

– Þú úti í dimmri nóttinni

Bros mitt
inni á reykmettuðum stað
leitar að hjarta
til að hitta
beint í mark
augu mín flökta
þreytulega
skora varir á hólm
varir sem segja mér
að koma með sér út
í aftursætið
á svarthvítum bíl
blikkandi ljós
og ekkert framundan
nema óvissa
nagandi óvissa

– Ég inni á myrkum barnum

Tveir og tveir
gangandi um staðinn
kylfa á lofti
starandi augnaráð
sem ætlað er
að beygja mig og þig
í duftið
komdu hér
farðu þar
inn og út um gluggann
eins og
þetta sé leikur
sem hægt er að stoppa
inn og út úr skápnum

– Þið með vald til að drepa í voninni

Dregin út
fyrir allra augum
dregin í átt að bílnum
stekk af stað
í veikri von
en gómuð aftur
og aftur
sárbið um hjálp
olía á eld
lognið á undan
storminum

– Ég ekkert án ykkar

Sá yðar
sem syndlaus er
kastið fyrsta steininum
steinn í bíl
olía á eld
ekki aftur snúið
einn neisti
tendrar
bál í hjörtum
hjörtum, sem hönd
í hönd
brjóta niður múra

Saman getum
við gert allt
allt sem okkur hugnast

Saman getum við
Saman getum
Saman

Við saman

2. verðlaun

Í ljóðinu er brugðið upp hlýrri hversdagsstemmningu. Þótt vetur ríki nær kuldinn ekki að hemja tjarnir ástarinnar. Skáldið kemur auga á fegurðina í ástandi sem mörgum finnst óbærilegt og deilir henni með okkur.

Til Helgu í samkomubanni

Höfundur: Eir Ólafsbur (hán)

Það eina sem skyggir á stjörnurnar
er gufan af kakói á gleraugum
og andardráttur okkar.
Það er kalt,
en stundum bítur kuldinn ekki.
Stundum er kuldinn huggandi,
og í kvöld vefur hann teppinu þéttar að okkur.
Þetta er nefnilega ekkert venjulegt kvöld,
það hangir í loftinu.
Þetta kvöld er tileinkað okkur,
svo við sitjum og hlustum á synfóníu öldugljáfurs
og þagnar.
Þetta kvöld tekur aldrei enda,
ekki þegar við stöndum upp,
ekki þegar morgnar.
Svona kvöld enda ekki.

3. verðlaun

Í ljóðinu leikur höfundur sér að dásamlegum en oftast erfiðum hversdeginum og lífinu sem svo margar hinsegin fjölskyldur hafa valið sér, einkanlega í seinni tíð. Aðalsöguhetjan er þreytt, með þurrar hendur, sand í skónum og óhreint hár en líf hennar er samt uppfullt af ævintýrum sem litlar sálir færa henni. Þegar svo ástin kemur til sögunnar verður allt svo miklu miklu auðveldara.

Þriggja barna mæður

Höfundur: Díana Rós A. Rivera (hún)

Vildi að ég gæti gert þér lífið auðveldara
blásið í þig gleði
kysst í þig orku
strokið burtu þreytu
gert 10 hluti í einu
svo þú fáir andartak fyrir þig
inni bílskúr með kaffi og hund.

Þriggja barna mæður eru 
þurrar á höndum
eftir óteljandi endalausa handþvotta,
með skítugt hár alltaf á leiðinni í sturtu,
hata þvottakörfuna og 
sand undir iljum
inni í stofu,
með hávaða í eyrum sem aldrei tekur enda og 
mislitlar manneskjur
sem taka allt plássið í rýminu,
í lífinu,
og breyta því í klístraða óreiðu
dillandi hlátur.

Og hitt foreldrið er hinum megin við hafið,
sem er hversdagurinn,
veifar
vill komast til þín 
en er búið að gleyma
hvernig á að synda,
í smá stund.

Svo legg ég 
af stað til þín
leggst með þér undir hlýtt teppið,
sem er hversdagurinn,
og við leiðumst og höldum áfram,
eitt skref í einu.