„Maður verður að koma til dyranna eins og maður er klæddur“

Listakonan Tora Victoria Stiefel er trans aktívisti og listmálari. Hún fæddist í Vesturbæ Reykjavíkur á sjöunda áratug síðustu aldar og hefur alla tíð stundað listsköpun af einhverju tagi. Hún tók þátt í dagskrá Hinsegin daga 2016 með sýningunni Umbreytingu sem snerti á hinsegin upplifun og kynvitund.

Tora 2Byrjum á byrjuninni. Hvar ólstu upp? 

Ég ólst upp í Vesturbænum í Reykjavíkur.

Á heimasíðu þinni kemur fram að þú sért listamaður, trans, heimspekingur, hagfræðingur og skáld. Hvernig titlar þú þig?

Ég er fyrst og fremst listamaður og hef alltaf verið skapandi. Sem krakki var ég alltaf teiknandi og snemma fór ég að læra á hljóðfæri. Fyrst lærði ég á gítar og síðan var ég í skólahljómsveit Melaskóla megnið af tímanum sem ég var þar. Á unglingsárunum fór ég að læra á bassa og stofnaði síðan pönkhljómsveitina Trúðinn. Ég er einnig leikarabarn og ólst hálfpartinn upp í Þjóðleikhúsinu þar sem mamma var leikkona í 36 ár. Auðvitað var mér slengt upp á svið í alls kyns aukahlutverk, bæði í barnaleikritum og í „fullorðins“ uppfærslum. Þannig að list og sköpun hefur alltaf verið aðalatriði hjá mér.

Að segja að ég sé heimspekingur er aðeins of mikið í lagt. Ég fór í Myndlista- og handíðaskóla Íslands strax eftir stúdentspróf frá Menntaskólanum við Hamrahlíð en hætti eftir fyrsta árið.

Tíminn var ekki réttur fyrir mig. Persónulega var þetta átakatími hjá mér. Ég hafði ekki viðurkennt það fyrir umheiminum, og varla fyrir sjálfri mér, að ég væri trans. Auðvitað gat ég ekki annað á endanum en sem ung manneskja vildi ég bara vera „normal“. Því stofnaði ég fjölskyldu, eignaðist barn og gifti mig.

En að lifa lífi í blekkingu gengur ekki upp. Því sprakk allt í loft upp í kringum mig. Ég skildi við eiginkonuna og fór í þveröfuga átt við það sem hjarta mitt sagði mér. Heimspekinámið í Háskóla Íslands var einfaldlega liður í því að reyna að finna sjálfa mig, sættast og fá einhvers konar botn í þessa tilveru. Á þessum tíma hófst líka skipuleg leit á sviði andlegra fræða. Jóga hafði alltaf átt hug minn en á þessum árum fór ég „hring“ í trúarbragðaleit: að búddisma, kristni og alls kyns andlegum fræðum.

Milli tvítugs og þrítugs starfaði ég fyrst og fremst sem listamaður og hélt fjölmargar sýningar, bæði einkasýningar og samsýningar. Ég tók þátt í að setja á stofn sjálfstæða listahátíð í Reykjavík ásamt öðru skemmtilegu listafólki – en ég var enn í skápnum og það var að verða meira og meira þrúgandi. Sem leið út úr þeirri meinloku ákvað ég að flytjast búferlum til Danmerkur árið 1998. Það er gott að hafa það í huga, fyrir unga fólkið sérstaklega, að á þeim árum sem ég var að alast upp var ekkert talað um trans fólk í Reykjavík eða hvað það er að vera trans. Nánast allt sem snéri að transmálefnum var litað af vanþekkingu og háði. Anna Kristjáns kom fram á sjónarsviðið á þessum árum. Hún var opin með allt sitt ferli og sína persónu og hún var mér mikil hvatning.

Í Danmörku gat ég byrjað að koma út úr skápnum, falið mig í fjöldanum á ókunnum stað. Það að ég fór í viðskiptanám í Danmörku var í raun tilviljun fremur en nokkuð annað. Það var kannski hluti af því að lifa tvöföldu lífi – mínu eigin lífi og svo því sem ég vildi sýna öðrum. Ég setti því dæmið svona upp: opinberlega er ég viðskiptafræðingur (í raun hef ég titilinn markaðshagfræðingur) og á bara nokkuð venjulegt líf en eftir að ég stimpla mig út úr vinnunni og kem heim fæ ÉG að vera ég og blómstra, vera og skapa list.

Og í dag segist ég vera skáld – myndskáld, sem er einhvern veginn frjálsara en að segjast vera listamaður, því ég skálda myndir.

Leikhúsumhverfi hljómar eins og fullkomin umgjörð fyrir upprennandi listamann?

Leikhúsið gaf mér vissulega veglegt veganesti fyrir framtíðina. Að fá að kynnast öllu því frábæra listafólki sem ég kynntist í uppeldinu var gefandi og jú – örugglega eitthvað sem gaf mér sjálfstraust og ákveðna sýn sem ég hef fylgt síðan.

Kannski má segja að sú reynsla hafi nýst mér best áður en ég kom út úr skápnum, því þá lék ég rulluna mína óaðfinnanlega. Þegar ég var yngri faldi ég það hver ég var ákaflega vel og „lék“ ákveðið hlutverk fyrir umheiminn. Það var ekki góður tími og mér leið ákaflega illa en þetta voru ákveðin varnarviðbrögð og leikhæfileikarnir komu vissulega að góðum notum. Minn þroski kom eiginlega fyrst með þeirri ákvörðun að hætta að leika og leyfa mér að vera ég – það var þroskaskref og þá fyrst má segja að ég hafi byrjað að feta leiðina að hamingju og þroska.

Hjónaskilnaðir geta valdið einstaklingum og fjölskyldum þeirra mikilli vanlíðan og streitu. Að þurfa samtímis að takast á við nýja trans sjálfsmynd hljómar nánast ógerlegt. Hvar fannstu styrkinn og hugrekkið til að takast á við þessar áskoranir?

Ég kom ekki út sem trans fyrr en rúmum áratug eftir að ég skildi. Ég var í nokkrum samböndum milli þess og áður en ég kom út úr skápnum. Aldrei sagði ég mínum kærustum frá því að ég væri trans í byrjun. Það kom vissulega oftast í ljós þegar á leið og oftar en ekki varð það til þess að samböndin brustu – það er ekki hægt að byggja sambönd á lygi, maður verður að koma til dyranna eins og maður er klæddur.

Það var svo meðvituð ákvörðun að vera ein þegar ég var að takast á við það að koma út úr skápnum. Þegar maður tekst á við slíkt, hvort sem maður er trans, samkynhneigð eða eitthvað annað, þá hefur maður ekki mikið pláss fyrir aðra manneskju í sínu lífi. Það gengur einfaldlega of mikið á í sálinni.

Hjá mér var ákvörðunin um að koma út langt í frá einhver skyndiákvörðun. Ég hafði velt henni fyrir mér í áratugi. Oftast fengið þá niðurstöðu að halda mig inni í skápnum og eiga það einungis með sjálfri mér hver ég væri. En það varð stöðugt meira þrúgandi og að lokum var það mikill léttir að ákveða að viðurkenna hver ég væri og vera opin með það. Það má kannski segja að það kalli á ákveðið hugrekki en léttirinn er svo mikill að það yfirtekur allt. Jú, maður missir vini og ákveðnir aðilar hætta að yrða á mann, sumir missa virðingu fyrir manni og það eru aðrar áskoranir eins og varðandi atvinnumöguleika og hvernig fólk kemur almennt fram við mann en ég hef alltaf skrifað það á fordóma og vanþekkingu. Þeir aðilar sem hafa sagt skilið við mig vegna þess að ég er trans eru einstaklingar sem ég sakna ekki í dag.

En ef það er eitthvað öðru fremur sem hefur gefið mér styrk þá er það móðir mín sem alltaf hefur staðið við hlið mér og stutt mig þegar ég þurfti hvað mest á að halda og svo er það auðvitað listin – það hefur verið í gegnum listina sem ég hef fengið ómældan styrk og sjálfstraust til að takast á við líf mitt. Sýningin síðasta sumar á Hinsegin dögum var mikilvægur hlekkur í því.

Var einhver ákveðinn tímapunktur þar sem þú sagðir við sjálfa þig: „Núna er ég orðin starfandi listamaður!“

Eftir að sambúð minni lauk ákvað ég að gerast listamaður og hef haldið mig við það síðan. Viðurkenning hefur síðan verið eitthvað sem ég – og aðrir listamenn – verð að berjast fyrir með því að vinna einfaldlega. Það eru verkin sem tala. En það skal sagt hér að þegar ég hóf nám við Listaháskóla Íslands árið 2015 varð enn ein hugarfarsbreytingin hjá mér. LHÍ er á margan hátt betri skóli en forverinn MHÍ var. Í MHÍ var verið að draga úr nemendum og allt var þar í gamaldags skorðum. Í LHÍ eru nemendur hvattir til að skapa og koma sér á framfæri frá fyrsta degi og þeim sagt að með því að gerast nemendur við LHÍ séu þeir þar með orðnir listamenn.

Eftir að hafa velt listamannshugtakinu fyrir mér alla mína ævi hef ég komist á þá skoðun að Listamaðurinn sé „erkitýpa“ – maður fæðist einfaldlega þannig (svona líkt og það að vera trans). Margir reyna að berjast gegn því með miður góðum árangri en blómlegt og hamingjusamt líf fæst einungis með því að viðurkenna hver og hvað maður er og fylgja því.

Hverjir eru áhrifavaldar þínir?

Áhrifavaldarnir koma víða að. Ef við höldum okkur við myndlist þá hefur það breyst í gegnum tíðina hverjir hafa verið mestu áhrifavaldarnir. Erró var mér mikil uppspretta sem krakki. Hans líf var, og er, mér mikill innblástur sem og auðvitað Kjarval. Síðar varð Sigurður Guðmundsson mér mikill innblástur og er enn. Sama má segja um Ólaf Elíasson. Þegar Odd Nerdrum fluttist til Íslands varð hann mér mikil fyrirmynd. Og auðvitað Andy Warhol. En í dag eru það Marchel Duchamp og Bill Viola. En þetta eru bara svona nokkur dæmi – í rauninni fæ ég innblástur nánast hvaðan sem verða vill.

Þú hélst sýningu á Hinsegin dögum 2016 sem var titluð Umbreyting. Hver var tilurð sýningarinnar og efnistök?

Já, þetta var mér afar mikilvæg sýning. Hún hafði verið að gerjast í sál minni lengi. Titillinn vísar til þeirrar umbreytingar sem ég hef gengið í gegnum sem auðvitað er lituð af því að vera trans; í felum fyrstu þrjátíu ár ævinnar og svo opin í dag. Þegar ég var að koma út úr skápnum – ég man þetta eins og það hefði gerst í gær – settist ég fyrir framan tölvuna og skráði hikandi inn leitarorðið „transvestite“. Niðurstaðan var með hreinum ólíkindum. Fleiri hundruð þúsund niðurstöður! Ég var ekki lengur ein í heiminum, við vorum svo mörg. Internetið er magnað fyrirbæri. Nú gat ég fræðst og það sem meira var, ég gat sett mig í samband við annað trans fólk.

En fljótlega þegar maður fer í rannsóknarvinnu á trans fólki poppa upp pornósíður. Það kom í ljós að trans fólk, sérstaklega M2F (konur sem fæðast í karllíkama en fara í kynleiðréttingu), hefur sérstaka kategóríu í pornóheiminum sem oft er kölluð „shemale“ eða „ladyboy“. Það sem sló mig sérstaklega við þessa uppgötvun var að þarna voru á ferð gullfallegar konur, sexí og sláandi – með typpi. Ég fann viðtöl við sumar þessara kvenna þar sem þær voru að lýsa lífi sínu og starfi. Það sem ég hjó hvað mest eftir var að þær voru undantekningalaust sáttar við líkama sinn. Auðvitað hafa þær gengið í gegnum hormónameðferð og einhverjar lýtaaðgerðir en kynfærin voru engin skömm. Oft töluðu þær um að þær hefðu „lady-stick“, „big-clit“ eða einfaldlega „dick“. Hér voru einfaldlega konur á ferðinni sem höfðu typpi og voru bara stoltar af því.

Í framhaldinu fór ég svo í rannsóknarvinnu á „þriðja-kyninu“ sem er mun algengara í samfélagslegu samhengi en maður gæti haldið hafandi alist upp á litla Íslandi. Þegar ég svo flyst aftur til Íslands í byrjun aldarinnar set ég mig í samband við lítið nýstofnað félag á Íslandi sem hét, og heitir, Trans Ísland. Það var svona lítill hópur, aðallega M2F, sem var hugsaður sem stuðnings- og hagsmunahópur þeirra sem hugðust fara í það sem seinna var farið að kalla kynleiðréttingu. En það sem sló mig hvað mest eftir að ég fór að starfa með þessum hópi var einfeldnin varðandi transmálefni. Þetta var svo „svart-hvítt“. Annaðhvort var málið að fara í kynleiðréttingu, og þá í skurðaðgerð á kynfærunum, eða þú varst „bara“ transvestite – svona hobbí fígúra. Ég fór að aggítera fyrir því að málið væri ekki svona einfalt og talaði mikið fyrir því að um væri að ræða litróf þar sem allur skalinn væri undir.

Þegar ég svo var kosin formaður félagsins átti ég nokkur samskipti við þá nýstofnað teymi Landspítalans sem hafði með málefni trans fólks að gera. Hafa ber í huga að á þessum árum var enn verið að tala um trans í samhengi geðrænna sjúkdómsskilgreininga.

Það sem aðallega skiptir máli í þessu samhengi er skilgreining Landspítalateymisins á því hvað það væri að vera trans. Hún gekk í stórum dráttum út á að ef manneskja fyrirliti kynfæri sín, gæti ekki horft á þau og hataði þau, þá væri viðkomandi trans og ætti þar með rétt á aðstoð kerfisins.

Í ljósi minna rannsókna og eigin vitundar gekk þetta einfaldlega ekki upp. Ég var sannfærð um að oft væri verið að þvinga einstaklinga í aðgerð sem myndi ekki leiða til lausnar fyrir þá.

Hafandi fæðst með typpi og verandi listamaður fór ég auðvitað að rannsaka þetta líffæri. Ég fór að teikna typpi og mála, rétt eins og listamaður rannsakar fjölda annarra fyrirbæra. Ég hóf ítarlega skoðun á þessum líkamshluta, sem auðvitað var viðleitni til að sættast við sjálfa mig sem „typpa-veru“. Ég vildi sýna að konur gætu verið fallegar og eðlilegar, jafnvel með typpi og það væri í rauninni alveg sjálfsagt. Ég setti þetta upp í listrænu samhengi: „konur með typpi“. Þetta varð því ákaflega persónuleg sýning og ég gat ekki séð hana fyrir mér á neinum öðrum stað en í samhengi Hinsegin daga, því hinsegin samfélagið á Íslandi hefur átt hvað stærstan þátt í því að ég hef getað sæst við sjálfa mig og lifað því lífi sem mér er mikilvægt og nauðsynlegt.

Finnst þér umhverfi trans fólks á Íslandi í dag ennþá einkennast af svart-hvítum viðhorfum?

Það hefur margt gerst í málefnum trans fólks, ekki bara á Íslandi. Það virðist vera mikil vitundarvakning og þekking og umburðarlyndi hefur aukist til muna bara í minni tíð. Hér á Íslandi hefur viðhorfið breyst mikið, ekki síst þegar kemur að fagfólki sem sér um málefni trans fólks á vegum Landspítalans. Það hafa svo sannarlega bæst við gráir tónar í umræðuna og við höfum þokast langt áleiðis. Viðhorfið er í raun allt annað og betra nú en t.d. þegar ég var að koma út fyrir tuttugu árum.

Í lýsingu á sýningunni sagði meðal annars að hinsegin myndlist væri á mörkum þess að teljast sæmileg, hvað þá fyrir alla! Hvað áttirðu við með þessu?

Ég held að hinsegin myndlist geti verið fyrir alla, hvað svo sem það er, en í okkar samfélagi í dag er myndræn framsetning á kynfærum ekki fyrir alla. Sérstaklega þykir það ósæmandi fyrir börn. Hvort það er gott eða slæmt skal ósagt látið. En ég get allavega sagt að þeir foreldrar sem komu með börn sín á sýninguna sendu þau strax út og vildu ekki láta þau sjá verkin. Það sem ég meinti var að þessi sýning væri einungis fyrir þá sem væru vaxnir upp úr því að sjá eitthvað „ljótt“ og „ósæmilegt“ við kynfæri og ég vildi ekki troða þessum verkum upp á fólk sem ekki vildi sjá þau.

Tora 3Viðfangsefni myndverka þinna er oft kyn og hvað aðskilur kynin. Við fyrstu sýn eru mannslíkamar einnig áberandi. Er þetta leið fyrir þig til að tjá hugsanir sem annars væri erfitt að tjá með orðum?

Klárlega. Ég hef oft rætt um það uppi í Listaháskóla að ég valdi myndlist sem minn tjáningarmáta vegna þess að ég á betra með að tjá mig með myndum en orðum. Myndir segja líka meira eins og orðatiltækið segir – myndir segja meira en þúsund orð. Myndmál er al-mannlegt, alþjóðlegt, og eins og allir vita sem tala fleiri en eitt tungumál er oft ekki hægt að segja ákveðna hluti á einu tungumáli sem hægt er að tjá með öðru. Myndmálið getur sagt svo miklu meira og nákvæmar en orðin ein. Orð ná einfaldlega ekki yfir allt. Þess vegna erum við t.d. stöðugt að búa til nýyrði, ekki síst þegar kemur að trans tilveru. Slík tilvera hefur ekki verið viðurkennd á Íslandi til þessa og þ.a.l. skortir orð og orðræðu um það.

Hinsegin listamenn eru oft stimplaðir sem slíkir og umræða um þá snýst oft, og kannski aðallega, um hinsegin sjálfsmynd þeirra. Rekast einhvern tímann saman innra með þér þau sjónarmið að vilja annars vegar deila reynslu þinni í gegnum listsköpun og hins vegar ósk um að trans reynsla þín sé ekki það eina sem fjallað er um?

Hér er ég til dæmis í viðtali – en væntanlega ekki fyrst og fremst sem listamaður heldur sem trans eða trans-listamaður. Oft hefur það reynst mér þungbært að vera listamaður og vilja tala um list mína sem slíka en umræðan fer oft út í að ræða um mig sem trans og þá reynslu. Ég reyni yfirleitt ekki að stýra þeirri umræðu, leyfi henni bara að renna áfram. Það er mér líka mikilvægt að ræða trans málefni. Ég hef verið talsmaður trans fólks og er stolt af því. Umræðan er nauðsynleg og ég hef oft óskað þess að einhver eins og ég hefði tekið af skarið fyrr svo að ég hefði notið þess að alast upp sem venjuleg manneskja í samfélaginu þrátt fyrir að vera trans. Það hefur verið mitt markmið með því að tala opinskátt um mig sem trans að skapa þá tilveru fyrir þau sem á eftir mér koma.

En að vera trans og vera listamaður er tvennt. Þetta er eins og að vera rauðhærð og vera læknir. Auðvitað er hvort tveggja óaðskiljanlegur hluti af tilverunni en eitt hefur í raun ekkert með hitt að gera. Á einhvern hátt endurspeglast líf listamannsins alltaf í listsköpuninni en ég fjalla að sjálfsögðu um margt annað og meira en að vera trans. Listin var mér ómetanleg aðstoð við að sættast við mig sem manneskju, og já, sem trans manneskju, í baráttunni við að vera í afneitun og í skápnum. Ég nota listina til að komast frá hinu og þessu og til að komast til botns í hlutunum. Ég hef þ.a.l. fjallað talsvert um tilveru trans manneskjunnar í minni list en fyrst og fremst fjalla ég um lífið eins og það kemur mér fyrir sjónir. Núna fjallar mín list fremur um almennar mannlegar tilfinningar og upplifun.

Undanfarna tólf mánuði hafa tvær fréttir skapað feiknamiklar umræður um stöðu íslenskrar myndlistar og listamanna á Íslandi, annars vegar salan á Ásmundarsal Listasafns ASÍ og hins vegar kaup og kjör listamanna sem setja upp sýningar á opinberum listasöfnum. Sem starfandi listamaður, hver er þín sýn á þennan málaflokk?

Mér þykir, eins og flestum myndlistarmönnum, mikil eftirsjá af Ásmundarsal. Rýmið var frábært sem og staðsetningin og Ásmundarsalur hefur verið mikilvægur vettvangur fyrir íslenska myndlist í áratugi. Við vonuðumst mörg til þess að hægt væri að halda áfram myndlistarstarfsemi þar en nú hefur Marshallhúsið verið opnað með Kling og Bang og Nýlistasafninu og því ber svo sannarlega að fagna. Nýir tímar og nýr vettvangur. Það eru spennandi tímar framundan og ég held að það sé bara gott að vera ungur og upprennandi myndlistarmaður í dag. Ísland er í tísku og umheimurinn hefur tekið eftir því að hér er kraumandi sköpunargáfa nánast alls staðar og þá er sama hvort um ræðir myndlist, ritlist, tónlist, kvikmyndalist eða annað.

Varðandi hugmyndir um laun til handa listafólki þegar það vinnur að sýningarhaldi þá sé ég það sem mjög jákvætt skref. Það er jú þannig að þegar unnið er að slíkum viðburðum þá fá flestallir laun fyrir sína vinnu nema oftast nær myndlistarmennirnir sjálfir og það er ekki sanngjarnt. Myndlistin er jú það sem fólk er að koma til að sjá.

Hvaða ráð myndir þú gefa ungu fólki sem hefur áhuga á listum og listsköpun?

Alltaf þessi klassík: fylgja hjartanu og ekki láta neitt koma í veg fyrir það. Ekki reyna að þóknast öðrum, gerðu það sem þú vilt. Þetta er þitt líf og þú átt bara þetta eina líf. Þú ert hér til að upplifa til fulls og eina skylda þín er að finna hamingjuna.

Að lokum, hvað er næst á dagskrá hjá þér?

Næst á dagskrá hjá mér er að klára BA-gráðuna frá Listaháskóla Íslands og svo er stefnan sett á meistaragráðu í framhaldinu. Ég er einnig að vinna að spennandi verkefni varðandi ferðaþjónustu fyrir hinsegin fólk. Það er allt í startholunum svo best er að segja ekki of mikið en það mun væntanlega taka stóran hluta af mínum tíma. Síðan hef ég verið að vinna að bók sem byggð er á reynslu minni í allnokkurn tíma og ég hlakka til að geta einbeitt mér að því verkefni þegar tækifæri gefst. Og svo er innst í skúffunni tónlistarsköpun. Ég auglýsti á Hinseginspjallinu á Facebook eftir fólki til að stofna hinsegin hljómsveit og það voru margir til í tuskið – það er ekki loku fyrir það skotið að ég muni setja það af stað í vetur. Og að lokum hef ég alltaf ætlað mér að stofna listamannarekið gallerí, sem er eitthvað sem ég klárlega geri þegar réttu aðstæðurnar skapast.