Ný lög um kynrænt sjálfræði

18. júní 2019 samþykkti Alþingi ný lög um kynrænt sjálfræði. 45 þingmenn greiddu atkvæði með frumvarpinu en þrír sátu hjá. Frumvarpið er mikil réttarbót fyrir trans fólk og intersex fólk en einnig fleiri hópa, svo sem kynsegin fólk. Það á sér langa sögu og er af mörgum talið eitt það framsæknasta í sögu hinsegin fólks. Í því felst möguleiki á kynhlutlausri skráningu sem táknuð verður með X á skilríkjum, kynleiðréttingarferlið verður mannúðlegra, 15 ára og eldri geta breytt kynskráningu sinni í Þjóðskrá, óheimilt er að skilyrða breytingu kynskráningar við læknismeðferðir og allir eiga rétt á persónuskilríkjum sem samræmast breyttri skráningu. Þótt þetta sé stórt stökk fram á við saknar fólk ákvæðis um intersex einstaklinga, banns við skurðaðgerðum á börnum og að þær aðgerðir séu skráðar svo hægt sé að átta sig á fjölda þeirra.

Tótla I. Sæmundsdóttir spjallaði við Uglu Stefaníu Kristjönudóttur Jónsdóttur, formann Trans Íslands, og Kitty Anderson, formann Intersex Íslands, um tildrög frumvarpsins og hvað það raunverulega þýðir fyrir þessa hópa.

Ugla

Hvernig kom þetta til?

Við fengum inn á borð til okkar þingsályktunartillögu frá Pírötum um þriðja kynið. Hún sneri að þriðju kynskráningu og vitnað var til ýmissa annarra menningarheima þar sem slíkt er viðurkennt en það átti ekki beint tengingu við íslenskan raunveruleika eða íslenskt trans samfélag. Ég og Kittý settumst niður í bakaríi í Skipholtinu og ákváðum að stofna frumvarpshóp með fólki úr hinsegin samfélaginu og ungu fólki innan ýmissa stjórnmálahreyfinga til að vinna þetta almennilega. Úr varð síðan að við boðuðum fund með öllum stjórnmálaflokkum á Alþingi og kynntum hugmyndir um umbætur fyrir trans fólk og intersex fólk.

Okkur var mjög vel tekið og myndaður var vinnuhópur sem Vinstri græn héldu utan um. Við fengum starfsmann frá VG og Svandís Svavarsdóttir hélt utan um hópinn. Í grasrótarhópnum vorum við Kittý, Svandís, fulltrúar frá Samtökunum ʼ78 og Trans Ísland, lögfræðingur sem á trans son og kynjafræðingur. Við sömdum drögin að frumvarpinu í samráði við Þjóðskrá, Mannréttindaskrifstofu Íslands, umboðsmann barna, transteymi Landspítalans, landlækni og í raun alla sem okkur datt í hug að gætu haft með þetta málefni að gera. Það tók tvö til þrjú ár að byggja þetta upp og þetta var gríðarleg vinna. Svo féllu ríkisstjórnir, VG fór í stjórn, frumvarpið var flutt úr heilbrigðisráðuneytinu yfir í félagsmálaráðuneytið og þaðan yfir forsætisráðuneytið. Þar tók Katrín Jakobsdóttir við frumvarpinu og mælti síðar fyrir því.

Í forsætisráðuneytinu voru gerðar breytingar á frumvarpinu og intersex- kaflinn að mestu tekinn út. Það sem var óbreytt var að börn yfir sextán ára aldri fengju val um hvernig þau yrðu meðhöndluð. Breytingarnar gerðu helminginn af frumvarpinu þýðingarlausan því undirstaða þess er sjálfsákvörðunarréttur og líkamleg friðhelgi. Að fólk geti fengið aðgang að þeirri heilbrigðisþjónustu sem það kýs á sínum eigin forsendum og að öll inngrip á kyneinkennum barna séu bönnuð og aðfólk fái sjálft valdið til að ákveða hvort þau vilja einhver inngrip í sín kyneinkenni síðar meir. Hlutinn er varðar líkamlega friðhelgi var settur inn sem bráðabirgðaákvæði um að nefnd myndi skoða þetta mál og vinna það áfram en hópurinn okkar var búinn að vinna að þessu í fjögur ár með sérfræðingum og fullvinna þetta.

Við getum ímyndað okkur af hverju þessi kafli var tekinn út en vitum það ekki fyrir víst. Líklegasta ástæðan er að þarna hafi verið einhverjar lagaflækjur, að blátt bann við ónauðsynlegum aðgerðum á intersex börnum gæti gengið gegn einhverjum öðrum lögum. Önnur ástæða sem heyrist oft nefnd er að þetta myndi innihalda bann við umskurði á börnum og gæti flækst inn í deilur um það mál. Margir læknar settu sig upp á móti þeim hluta frumvarpsins sem sneri að intersex börnum en það kaldhæðnislega er að þeir læknar sem andmæltu mest þessu frumvarpi eru þeir sömu og skrifuðu undir samnorræna yfirlýsingu um að banna umskurð á börnum og óþarfa inngrip hjá ungbörnum.

Hvað þýðingu hafa þessi lög fyrir trans samfélagið á Íslandi?

Lögin um kynáttunarvanda frá 2012 urðu strax úrelt daginn sem þau voru sett. Þá voru þau samt stærsta framfaraskrefið varðandi aðgang trans fólks að heilbrigðisþjónustu sem hafði verið tekið. Þau voru framsækin í samanburði við önnur lönd en á þessum sjö árum hefur heimurinn breyst mikið og trans samfélagið líka. Ísland dróst hratt aftur úr, ekki síst af því að gömlu lögin voru bundin úreltum hugmyndum um kyn með tilheyrandi forræðishyggju.

Fólk þurfti að fara í greiningar, viðtöl og fá leyfi, einungis til að komast á hormóna. Ef einstaklingar vildu svo fá nafnabreytingu þurftu þeir að vera í formlegu ferli í 18 mánuði og lifa í réttu „kynhlutverki“ í að minnsta kosti 12 mánuði. Fólki var ráðlagt að vera í eins réttu kynhlutverki og mögulegt var. Trans mönnum var sagt að hætta að prjóna og trans konur sendar í dömuþjálfun. Þetta viðgekkst ekki einungis inni í heilbrigðiskerfinu heldur var trans samfélagið sjálft orðið gegnsýrt af ótta við að fá ekki þá þjónustu sem það þurfti. Sem dæmi má nefna að þegar ég fór á fyrsta fundinn minn hjá samtökum trans fólks 19 ára gömul var mér sagt að ég þyrfti að læra að labba upp á nýtt. Ég hugsaði að það væri alveg rökrétt, það gæti orðið erfitt að labba eftir aðgerðina. En nei, þá var mér sagt að ég ætti að labba eins og kona. Konur eiga víst að hafa öðruvísi göngulag. Þetta var sturlað ástand, það var greinilega eitthvað alvarlegt að. Ég skildi samt alveg hvaðan þetta kom, heilbrigðiskerfið var búið að ala upp í eldri trans konunum að þær gætu ekki verið alvöru konur nema ganga inn í úreltar kynjahugmyndir.

Þó að lögin hafi ekki breyst fyrr en nú hefur þjónustan samt breyst til batnaðar, hún er ekki jafn kynjuð og áður og teymið hefur reynt sitt allra besta. En nýju lögin taka fyrir þetta og sjá til þess að fólk hafi sjálfsákvörðunarrétt um hvaða meðferð það vill sækja. Heilbrigðisþjónustan hefur ekki vald til að banna þér að fara í meðferðir og þarf engar sannanir með kyntjáningu. Heilbrigðisþjónustan ber núna ábyrgð á að framkvæma grunnmat og hjálpa fólki að sækja þá þjónustu sem það þarf í næstu skrefum hjá innkirtlasérfræðingi, sálfræðingi eða hverjum þeim sem þörf er á.

Annar stór sigur var þessi kynhlutlausa skráning sem verður táknuð með X á skilríkjum til þess að koma til móts við kynsegin fólk sem hefur ekki fengið neitt vægi í umræðunni hingað til. Þetta er líka tiltölulega ný hugmynd fyrir mörgum þó að kynsegin fólk hafi alltaf verið til. Það hefur verið fjallað um flóknari kynvitund um allan heim, t.d. á Indlandi, í Afríku og Suður-Ameríku, og hún hefur verið nefnd ýmsum nöfnum. Það var ekki fyrr en Bretar fóru af stað með sína nýlendustefnu sem hugmyndir um flóknari kynvitund en tvíhyggjuna eyddust út og hurfu. Á Íslandi hefur þessi hópur svo fengið aukna umfjöllun á seinustu árum.

Annað sem hefur ekki fengið eins mikla umræðu er að flóttafólk og hælisleitendur geta fengið skilríki í samræmi við kynvitund hér á landi, burtséð frá því hvað skilríki eða pappírar úr heimalandi segja. Þetta er gríðarlega stórt skref fyrir trans fólk sem er á flótta og er mikilvægt til að tryggja að flóttafólk og hælisleitendur verði viðurkennd í lagalegum skilningi þegar þau leita hælis hérlendis.

Ef þetta frumvarp hefði farið í gegn eins og við vildum hafa það væri það framsæknasta frumvarp í heiminum og ótrúlegt fordæmi fyrir önnur lönd. Vonandi kemst þessi nefnd sem fyrst að sömu niðurstöðu og við, að kaflinn okkar um intersex börn verði samþykktur.

Í lögunum er líka kafli um börn, hvaða þýðingu hefur það?

Hingað til hefur ekkert verið í lögum sem tryggir að trans börn hafi aðgang að heilbrigðisþjónustu. Það hefur verið starfandi transteymi á BUGL (Barna- og unglingageðdeild Landspítala) en það hefur ekki haft neitt lögbundið regluverk. Núna er búið að tryggja þessum hópi aðgang að heilbrigðisþjónustu og að foreldrar geti breytt nafni og kynskráningu barna sinna. Það er einnig ákvæði um að börn geti sótt um undanþágu ef foreldrar þeirra vilja ekki virða óskir þeirra og það er þá metið sérstaklega hjá umboðsmanni barna sem sér um slík mál. Teymið á BUGL setti þó spurningamerki við þetta og taldi að það gæti skapað ágreining og erfiðleika milli barna og foreldra. Það vildi að unnið yrði frekar með foreldrum barnanna og reynt að komast að sameiginlegri niðurstöðu og við í frumvarpshópnum vorum fullkomlega sammála því. Þetta er í raun neyðarúrræði ef allt annað þrýtur.

Kittý

Hvað varð um intersex-kaflann?

Í upprunalegu frumvarpsdrögunum var kafli sem hefði tryggt líkamlega friðhelgi barna og sjálfsákvörðunarrétt þeirra, þar sem inngrip í líkama barna með ódæmigerð kyneinkenni væru gerð óheimil. Sú grein var orðuð á þann hátt að ef ekki væru brýnar heilsufarslegar ástæður fyrir einhvers konar meðferð ætti að bíða með hana þar til einstaklingurinn gæti tekið virkan þátt í ákvarðanatökunni. Gefið væri opið svigrúm til að rökstyðja heilsufarslegar ástæður en rökstuðningur sem væri byggður á félagslegum, samfélagslegum, útlitslegum eða sálfélagslegum ástæðum væri ekki lengur talinn gild rök fyrir yfirgripsmiklu inngripi í líkama barna. Við tæklum samfélagslega þætti með því að breyta samfélaginu, ekki með því að breyta börnum.

Þegar frumvarpið var tekið til meðferðar hjá forsætisráðuneytinu um áramótin var fljótlega haft samband við okkur sem höfðum komið að frumvarpsdrögunum. Okkur var sagt að ákvæðin um vernd börnum til handa og lögbundna skráningu á kyni og eðli inngripa í kyneinkenni barna hefðu verið felld út.

Það hefði þýtt að landlæknisembættinu hefði verið skylt að halda skrá yfir hversu mörg og hvers konar inngrip væru gerð. Þessu fylgir að við fáum ekki eina tækið sem í boði er til að safna upplýsingum um tíðni inngripa hjá intersex einstaklingum.

Í stað þess að taka saman þessar upplýsingar og tryggja börnum þessa vernd hérlendis var ákveðið að skipa nefnd til þess að ræða nákvæmt orðalag og leggja til lagabreytingatillögu um þetta frumvarp um kynrænt sjálfræði. Nefndinni voru ekki sett nein tímamörk þannig að hún getur verið að störfum næstu árin án þess að brjóta löggjöfina. Við hjá Intersex Íslandi hefðum viljað sjá að börnum væri tryggð þessi vernd og þau fengju sjálf að taka þessa ákvörðun sem hefur svo mikil áhrif á líf þeirra seinna. Enn óskiljanlegra finnst okkur að lögbundna skráningin hafi verið felld út.

Hafið þið einhverja leið til að meta hversu mörg inngrip eru gerð á ári eða hversu mörg börn við erum að tala um?

Árið 2015 lagði þingmaður Bjartrar framtíðar fram fyrirspurn til heilbrigðisráðherra og spurði hversu mörg börn hefðu fæðst intersex og verið látin sæta skurðaðgerðum. Svarið frá Landspítalanum var að það hefðu verið þrjú börn seinustu tíu árin. Þær upplýsingar sem verið er að veita þar eru hreinlega rangar. Í samtölum við lækna hérlendis kemur í ljós að þeir skilgreina intersex gríðarlega þröngt. Þeir sögðu mér beint út að fólk með mína líffræði væri ekki intersex. Þeirra skilgreining á intersex er í raun þau tilfelli þegar ekki er hægt að skera úr um hvaða kyn hafi fæðst. Ef við horfum á allra varlegustu tölur erlendis frá í samanburði værum við að tala um allra minnst þrjú inngrip á ári. Ef við horfum á raunhæfari tölur hljóta þessi börn að vera töluvert fleiri.

Amnesty Ísland gerði rannsókn sem heitir „No shame in diversity“ á stöðu fólks með ódæmigerð kyneinkenni á Íslandi. Niðurstaða hennar var að sumir læknar virðast framkvæma minni inngrip en aðrir og það virðist ekki vera samræmi þar á milli. Algengt er að viðhorf um kyn, kyneinkenni, kynvitund, kyntjáningu og jafnvel kynhneigð séu mjög úrelt og margir blanda þessu saman. Einn læknir í skýrslunni segir til dæmis að það sjáist ekki börn með ódæmigerð kyneinkenni á hverju ári hér á landi, að þetta sé svo sjaldgæft að það gerist ekki einu sinni á ári hverju. Í hollenskri rannsókn var niðurstaðan sú að eitt af hverjum tvö hundruð börnum væri með ódæmigerð kyneinkenni. Hjá sumum koma ódæmigerðu kyneinkennin ekki í ljós fyrr en á kynþroskaskeiði eða jafnvel aldrei. Á Íslandi eru 4.000 fæðingar á ári svo að miðað við þær tölur ættu um það bil 20 börn á ári að fæðast með ódæmigerð kyneinkenni.

Í skýrslunni frá Amnesty segir einn læknir að það séu einungis tveir valmöguleikar á Íslandi og ef eingöngu sé farið eftir útliti sé auðveldara að búa til kvenmann. Það sé mikið hugsað um möguleikann á frjósemi í báðar áttir og lögð áhersla á hana. Við valið sé tekið tillit til litningasamstæðna en fólk reiði sig ekki jafn mikið á það og áður. Reynt sé að taka bestu ákvörðunina og leggja hana fyrir foreldrana. Læknirinn segist vera mjög ánægður að vera ekki sá sem taki endanlega ákvörðun heldur leggi ábyrgðina á foreldrana. Þetta er hins vegar alls ekki svona einfalt. Val foreldranna er litað af ákvörðunum læknanna. Það var gerð rannsókn við Zürich-háskólann í Sviss 2011 og 2012 sem var svo birt 2013 þar sem ákvarðanataka foreldra var skoðuð. Foreldrunum var skipt í tvennt. Annar hópurinn fékk eingöngu læknisfræðilegar upplýsingar settar fram af læknum.

Sá hópur valdi skurðaðgerð fyrir barnið sitt í 66% tilfella. Hinn hópurinn fékk upplýsingar sem settar voru fram af sálfræðingi og tölurnar hrundu niður í 23%. Það er rugl að halda því fram að þetta sé ákvarðanataka foreldra þegar læknar leggja til meðferðarform. Foreldrar munu aldrei hika við að gera það sem læknar segja að sé besta leiðin fyrir börnin þeirra. Þess vegna liggur ábyrgðin hjá læknunum að segja foreldrum að það sé ekki nauðsynlegt að framkvæma útlitsleg eða félagsleg inngrip strax.

Frá 2015 hafa nefnd Sameinuðu þjóðanna um réttindi barna, nefnd Sameinuðu þjóðanna um pyntingar, grimmd og ómannúðlega meðferð, nefnd Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðra og nefnd Sameinuðu þjóðanna um upprætingu mismununar gegn konum samtals gefið út 44 tilmæli til mismunandi landa um að inngrip af þessu tagi séu brot á þeim samningum Sameinuðu þjóðanna sem Íslendingar hafa undirritað. Læknar þurfa að átta sig á því að það er litið á þessi inngrip allt öðrum augum nú en fyrir fimmtán árum síðan.

Finnur þú mun eftir að Intersex Ísland var stofnað og varð sýnilegra í samfélaginu?

Á vissan hátt var það að stofna Intersex Ísland ein versta ákvörðun sem ég hef nokkurn tímann tekið. Allt frá stofnun samtakanna höfum við sem erum tengd félaginu verið opin með það og talað um það í fjölmiðlum. Við erum ekki mörg en þó tvær. Ég finn mikinn mun á læknisþjónustu fyrir og eftir stofnun félagsins. Ég mætti miklu harðara viðhorfi hjá mínum læknum eftir hana og hætti að geta átt samtöl við þá. Það var eins og það hefði verið reistur veggur. Sem betur fer er ég komin með nýjan lækni núna sem virðist vera mjög hlýr og hlustar á mig þegar ég segi að hormónameðferðin sem ég sé á hafi neikvæð áhrif á heilsuna. Varaformaðurinn okkar var án læknisþjónustu í heilt ár. Það þurfti að fara til landlæknis og pressa á að hún fengi læknisþjónustu. Hormóna- og efnaskiptasérfræðingurinn sem hún var hjá hætti að taka við henni eftir stofnun félagsins. Sá læknir neitaði að láta framkvæma beinþéttnimælingu á henni þrátt fyrir að hún væri nýbúin að bráka á sér úlnliðinn. Annar læknir framkvæmdi að lokum mælinguna og hún var greind með beinþynningu. Það tók hana ár með þessa greiningu að fá aðgang að lækni. Fólk sem hefur haft samband við okkur lýsir skorti á trausti, skorti á upplýsingum og trúnaðarbresti.


Ljóst er að staða trans fólks mun gjörbreytast og batna til muna við þessa lagasetningu og hluti intersex fólks sem skilgreinir sig líka sem trans mun einnig njóta góðs af breyttu lagaumhverfi. Þessi lagasetning var löngu tímabær og mikilvægt framfaraskref. Það eru þó ákveðin vonbrigði að skrefið var ekki tekið til fulls til að tryggja réttarstöðu intersex fólks og stöðva mannréttindabrot sem eiga sér þar stað.

#1) Þjóðskrá Íslands

Þjóðskráin sendi frá sér yfirlýsingu þar sem lagasetningunni var fagnað og sagt að unnið væri að því að stofnunin gæti tekið við nýjum tilkynningum. Stofnunin gefur sér allt að 18 mánuði til að laga skráningarkerfið að skráningu hlutlauss kyns.

#2) Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra á vef Stjórnarráðsins 18. júní 2019

„Til þess að bæta réttindi fólks í raun og veru þarf pólitískt þor og pólitískan vilja. Réttindi fólks eru nefnilega því miður ekki sjálfsögð þótt árin líði eins og við sjáum þegar við horfum á stöðu mannréttinda á alþjóðavettvangi. Nýsamþykkt lög um kynrænt sjálfræði fela í sér mikilvægar breytingar á réttarstöðu hinsegin fólks og með samþykkt laganna skipar Ísland sér í fremstu röð á alþjóðavísu. Mín von er að með samþykkt þessara laga muni þörf umræða vakna í samfélaginu um það hvað þetta merkir og mikilvægi þess að tryggja mannréttindi allra hópa samfélagsins.“

#3) Sigmundur og Miðflokkurinn

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson krafðist þess í samtali við forsætisráðherra, þegar þau voru að semja um þinglok, að frumvarp um kynrænt sjálfræði yrði tekið af dagskrá Alþingis. Þetta vakti mikla athygli og reiði og álitið var að Miðflokkurinn væri að taka afstöðu gegn réttindum hinsegin fólks. Allir fulltrúar Miðflokksins sátu hjá eða voru fjarverandi við atkvæðagreiðslu um frumvarpið.

#4) Nafnabreytingar

Ný lög um kynrænt sjálfræði fela í sér rýmkun og breytingar á lögum um mannanöfn. Áður gat kona valið sér nafn af skrá yfir kvenmannsnöfn og karl valið sér nafn úr lista karlmannsnafna. Breytingin hefur í för með sér að einungis verður einn flokkur sem allir geta valið úr. Með nýjum lögum gefst fólki með hlutlausa kynskráningu auk þess kostur á að sleppa kyngreiningunni -dóttir og -son úr kenninafni eða nota endinguna -bur.

#5) Fangelsin

Fólk hefur velt upp þeim möguleika hvað gerist ef karlkyns afbrotamenn reyni að misnota nýju lögin til þess að komast frekar inn í kvennafangelsi. Páll Winkel fangelsismálastjóri telur þetta ekki verða vandamál og Fangelsismálastofnun þurfi að aðlaga sig nútímanum. Hann fundaði með Trans Íslandi og Samtökunum ʼ78 og fór með þeim yfir þann nýja veruleika sem Fangelsismálastofnun stendur frammi fyrir. Á Hólmsheiði er möguleiki á deildaskiptingu sem hann telur að muni leysa þetta vandamál ef það kemur yfirhöfuð upp.