Orð eru til alls fyrst

HÖFUNDUR: UGLA STEFANÍA KRISTJÖNUDÓTTIR JÓNSDÓTTIR

A person sits in a rainbow colored staircase

Eftir rómantískt deit þar sem tveir karlmenn fögnuðu fjögurra ára sambandsafmæli urðu þeir varir við hóp af ungum karlmönnum sem geltu á eftir þeim þegar þeir stigu inn í leigubíl. „Geltu á þessi helvíti”, segir einn þeirra og upp skerst mikill hlátur.

Sömu sögu hefur hópur hinsegin ungmenna og foreldrar þeirra að segja, en í sláandi viðtali í Kastljósi fyrr á árinu lýstu þau niðurlægjandi og ítrekuðu áreiti sem þau urðu fyrir af hálfu jafnaldra sinna — sem hefur leitt til þess að mörg þeirra fara ekki úr húsi af ótta við frekara áreiti.

Fyrr á árinu byrjaði hinsegin fólk að fá skilaboð og símtöl frá ungum karlmönnum sem sögðust vera „hommabanasveitin“ og hótuðu hinsegin fólki ofbeldi og sögðu að það ætti að senda þau í útrýmingarbúðir.

Svona atvik verða ekki til í tómarúmi. Þau eiga sér sögu, eru uppsöfnuð og oft fyrirsjáanleg.

UGLA STEFANÍA


Þetta eru aðeins örfá dæmi sem lýsa veruleika hinsegin fólks á Íslandi, sem verður ennþá fyrir gríðarlega miklum fordómum og jafnvel ofbeldi hérlendis. Kannanir á vegum Samtakanna ‘78 sýna að líðan hinsegin ungmenna í skólum er mun verri en  annarra ungmenna og eru mörg dæmi til um alvarlegt einelti sem hinsegin ungmenni verða fyrir í skólum landsins.

Svona atvik verða ekki til í tómarúmi. Þau eiga sér sögu, eru uppsöfnuð og oft fyrirsjáanleg.

Á undanförnum árum hefur hatursorðræða í garð hinsegin fólks aukist til muna víðsvegar um heim og er Ísland þar engin undantekning. Undanfarin misseri og ár hafa verið gefnar út greinar, tekin viðtöl og viðhöfð orðræða á samfélagsmiðlum sem reynir að grafa undan réttindabaráttu hinsegin fólks, og þá sérstaklega trans fólks. Ýmsar leiðir eru farnar og eru sumar meira afgerandi en aðrar.

Einnig hafa verið stofnuð „samtök“ að breskri fyrirmynd sem einblína á það að berjast gegn réttindum trans fólks, á sama tíma og ákveðinn flokkur sem er hægt og rólega að fjara út á þingi keppist við að flytja fordómafulla og afvegaleiðandi orðræðu inn á Alþingi og í opinberri umræðu.

Hatursorðræða hefur því oft verið nefnd í þessu samhengi, enda um orðræðu að ræða sem ýtir undir fjandsemi og tortryggni í garð hinsegin fólks. En hvað er eiginlega hatursorðræða og hvernig virkar hún?

Ekki er til nein algild skilgreining á hatursorðræðu en samkvæmt íslenskum lögum er það talið varða við lög að hæðast að, smána eða ógna fólki með ummælum eða tjáningu — þar með talið á grundvelli kynhneigðar og kynvitundar.

Það er  afar sjaldgæft að fólk á Íslandi sé sakfellt fyrir hatursorðræðu en árið 2017 voru tveir karlmenn sakfelldir fyrir hatursorðræðu gegn hinsegin fólki eftir að Samtökin ‘78 kærðu mjög gróf og fordómafull ummæli þeirra. Ummælin féllu í tengslum við samning Hafnarfjarðarbæjar við Samtökin ‘78 um fræðslu í skólum, en þar lýstu þeir hinsegin fólki sem kynvillingum og barnaníðingum sem ætluðu sér að innræta ungum börnum með hinseginleika sínum.

Hatursorðræða er slungin og getur verið erfitt að koma auga á hana ef þú þekkir ekki til hópsins sem um ræðir eða hefur ekki upplifað hana á eigin skinni. Oft á tíðum felur fólk einnig sín raunverulegu skilaboð með svokölluðum „hundaflautum“ þar sem fordómar og andúð eru klædd í búning áhyggja, öryggis og „skynsemi“.

En málfrelsi þýðir ekki að fólk sé hafið yfir gagnrýni og er tal um slaufunarmenningu því oft á tíðum afskaplega þýðingarlítið.

UGLA STEFANÍA


Þegar bent er á að ákveðin orðræða sé fordómafull eða jafnvel hatursorðræða þá er ekki langt í sjálfskipaða sérfræðinga sem hamast við að úthrópa fólk sem andstæðinga málfrelsis og að þau séu að reyna að „slaufa“ fólki eða þagga niður í þeim. Ekki er langt í hinn klassíska frasa „má ekkert lengur?“ í slíkum umræðum.

En málfrelsi þýðir ekki að fólk sé hafið yfir gagnrýni og er tal um slaufunarmenningu því oft á tíðum afskaplega þýðingarlítið. Oftar en ekki er um að ræða fólk sem neitar að viðurkenna að ákveðin orðræða sé fordómafull, þrátt fyrir að fólk sem tilheyrir viðeigandi hópi segi að hún sé það vissulega.

Fólk sem er sagt vera fórnarlömb slaufunarmenningar á oft á tíðum ekki í miklum vandræðum með að koma skoðunum sínum á framfæri, enda eru þau oftar en ekki í öllum helstu fjölmiðlum síns lands eða jafnvel heims, þar sem skoðanir þeirra eru bornar á torg fyrir heiminn. Tal um slaufunarmenningu er því í besta falli afvegaleiðing þar sem öll athyglin er færð frá hópnum sem verður fyrir barðinu á henni og  yfir áþað hversu mikið fórnarlamb viðkomandi einstaklingur er sem tjáði fordómafullar skoðanir sínar. Aðstæðum er því snúið í andhverfu sína þar sem gerendur eru gerðir að fórnarlömbum.

Gagnrýni á skoðanir fólks, sér í lagi þegar þær eru fordómafullar, er mikilvægur liður í okkar lýðræði og málfrelsi. Það er mikilvægt að við sem samfélag fordæmum slíka orðræðu, enda hefur sagan kennt okkur að hatursorðræða og fordómar leiða til alvarlegri atburða og ofbeldis.

Það að kynda undir hatri og mismunun snýst nefnilega ekkert um málfrelsi. Hatursfull orðræða sem niðurlægir og ræðst að hópum fólks eða á einstakling er ekkert annað en ofbeldi. Ef við leyfum slíkri orðræðu að standa óáreitt og án afleiðinga þá grasserar hún og leiðir til grófari fordóma, áreitis og jafnvel ofbeldis.

Ef við ætlum að skapa réttlátt, fallegt og öruggt samfélag þá verðum við að vera tilbúin að setja skýr mörk um hvað telst ásættanleg orðræða á opinberum vettvangi og ákveða hvernig við ætlum að bregðast við orðræðu sem elur á fjandsemi og andúð.

UGLA STEFANÍA

Um leið og við leyfum henni að viðgangast, hvort sem er um að ræða greinar á netinu, fordómafulla orðræðu á Alþingi eða gelt út á götu, þá erum við að færa mörkin um hvað telst ásættanlegt og hvað ekki. Slíkt grefur ekki aðeins undan öryggi fólks í samfélaginu, heldur ógnar frelsi, lýðræði og friðhelgi fólks.

Í mínum huga er það því mikilvægt að við tökum skýra afstöðu gegn hatursorðræðu, enda áhrif hennar augljós og sýnileg. Slík orðræða grefur undan réttindastöðu fólks, hefur áhrif á þeirra andlegu líðan og býr til hindranir í nærumhverfi þeirra. Það gerir þeim erfitt að fóta  sig  í samfélaginu af ótta við fordóma og áreiti.

Ef við ætlum að skapa réttlátt, fallegt og öruggt samfélag þá verðum við að vera tilbúin að setja skýr mörk um hvað telst ásættanleg orðræða á opinberum vettvangi og ákveða hvernig við ætlum að bregðast við orðræðu sem elur á fjandsemi og andúð.

Það hefur í raun aldrei verið mikilvægara en nú til að koma í veg fyrir ógnvænlega þróun sem hefur átt sér stað undanfarin ár víðsvegar um Evrópu. Við þurfum ekki að fara lengra en til Noregs þar sem hræðileg og ógnvekjandi skotárás átti sér stað á hinsegin bar í Osló — þar sem fólk var skotið fyrir það eitt að vera hinsegin. Slík voðaverk gerast ekki upp úr þurru og eru afleiðing hatursfullrar orðræðu og innrætingar sem hefur heltekið huga einstaklingsins sem framdi verkið.

Við skulum ekki bíða eftir því að slíkt verði raunveruleikinn á Íslandi. Komum í veg fyrir það strax og berjumst öll sem eitt gegn því að hatursfull orðræða í garð hinsegin fólks og annarra minnihlutahópa fái að viðgangast án afleiðinga.

Baráttunni er svo sannarlega hvergi nærri lokið.