Samstarfsnefndin samtaka

Samstarfsnefnd Hinsegin daga eftir vinnufund í febrúar

Samstarfsnefnd Hinsegin daga starfar nú með breyttu sniði, en auglýst var eftir áhugasömum þátttakendum í upphafi árs. Nefndin samanstendur af sex undirráðum, sem starfa hvert á sínu sviði. Fulltrúi stjórnar starfar með hverju ráði, auk ráðsmeðlima, sem eru 3-5 í hverju ráði. Ráðin sex skiptast í tvö svið, dagskrártengd ráð; félagsdagskrá, fræðsludagskrá og hátíðardagskrá, og svo rekstrartengd ráð; miðlun, tækni og fjármál.

Fleiri herðar og fjölbreyttari sjónarhorn

Einstaklingarnir 24 sem fylla samstarfsnefndina koma frá ýmsum kimum hinsegin samfélagsins. Sum hafa verið mjög virk í hinsegintengdri starfsemi, á meðan önnur eru að taka sín fyrstu skref í virkri þátttöku innan samfélagsins. Í ráðinu er fólk af ýmsum kynjum, af allavega sex þjóðernum og fjölbreyttan bakgrunn á vinnumarkaði. „Með því að fá fleira fólk að borðinu, fáum við fjölbreyttari skoðanir og sjónarmið, sem gerir ekkert nema að styrkja hátíðina,“ segir Inga Auðbjörg K. Straumland, framkvæmdastýra Hinsegin daga. „Þá eru allar boðleiðir talsvert skýrari, sem og verkaskipting öll. En við erum auðvitað líka bara að prófa okkur áfram með þetta fyrirkomulag og vafalaust eitthvað sem við gerum öðruvísi á næsta ári.“

Fjölskyldudagskrá og félagsheimili

Á næstu hátíð munu skipuleggjendur halda áfram að þróa ungmenna- og fjölskyldudagskrá, ásamt því að Regnbogaráðstefnan verður á sínum stað með breyttu sniði. Þá verður Iðnó í hlutverki PRIDE CENTER, þar sem hinsegin fólki gefst kostur á að setjast niður með félögum sínum, maula köku og ræða dægurmálin. Kaupfélagið verður á sama stað, svo ekkert okkar þarf að fara regnbogalaust í Gleðigönguna, sem fer fram 12. ágúst þetta árið.

Upplýsingar um hver sitja í samstarfsnefnd Hinsegin daga er að finna neðst á síðunni Um okkur.