Strengjabrúður kerfisins

Trans fólk og intersex fólk eru þeir hópar innan hinsegin samfélagsins sem einna mest samskipti þurfa að hafa við heilbrigðiskerfið, ýmist sökum þess að einstaklingar sækjast eftir því að fá hormónagjöf og gangast undir skurðaðgerðir eða af því að slíkum aðgerðum hefur verið beitt og glíma þarf við afleiðingar þess. Báðir hópar eru því að miklu leyti háðir því hversu vel heilbrigðiskerfið í hverju landi er í stakk búið að sinna þeirra þörfum og hve mikill vilji er fyrir hendi til að gera það með þarfir einstaklingsins í fyrirrúmi. Ritstjórn fékk Kitty Anderson, formann félagsins Intersex Ísland, og Uglu Stefaníu Jónsdóttur, fjölmiðlafulltrúa Trans Íslands, til að setjast niður og ræða þessi mál og stöðuna á Íslandi.

Tvær hliðar á sama peningi

Ugla: Það má segja að við séum tvær hliðar á sama peningnum. Við erum báðar að berjast við kynjakerfið og hugmyndir samfélagsins um hvernig karl- og kvenlíkamar eiga að líta út. Finnst þér það ekki?

Kitty: Jú, einmitt. Baráttumálin eru samt gjörólík og þarfirnar mismunandi. Intersex hópar berjast gegn læknisfræðilegum inngripum og aðgerðum á líkömum einstaklinga nema fullt og upplýst samþykki liggi fyrir.

Ugla: Já, á meðan trans fólk berst fyrir því að fá yfirhöfuð aðgang að heilbrigðiskerfinu.

Kitty: Einstaklingar með ódæmigerð kyneinkenni eru oft settir í ákveðið ferli áður en þeir eru komnir með aldur til þess að geta tjáð sig um það sem er verið að gera við líkama þeirra.

Ugla: Á sama tíma er trans fólk neytt til að sýna og sanna kynvitund sína fyrir geðlæknum, skurðlæknum, sálfræðingum og hormónasérfræðingum áður en það getur fengið hormóna, komist í aðgerðir og annað slíkt.

Ugla Stefanía Jónsdóttir
Ugla Stefanía Jónsdóttir

Strengjabrúður

Ugla: Trans fólk hefur bara aðgang að heilbrigðiskerfinu ef það gengst undir ströng skilyrði kynjakerfisins. Það þarf að sanna að það uppfylli ákveðin skilyrði um hvað er að vera karl eða kona og er jafnvel sent í „dömuþjálfun“ til iðjuþjálfa, sem gengur út á að kenna viðkomandi að hegða sér, hreyfa sig og gera hlutina „eins og kona“. Þetta er svolítið eins og færiband þar sem við framleiðum „hina fullkomnu konu“ og „hinn fullkomna karl“.

Fólk sem upplifir sig hins vegar ekki eingöngu sem karl eða konu, heldur sem bæði eða algjörlega utan þessarar tvíhyggju, hefur lítinn sem engan aðgang að hormónum, breytingu á kynskráningu eða nafnabreytingum. Það er svolítið eins og heilbrigðiskerfið sé strengjabrúðumeistarinn og við séum brúður sem kerfið spilar með að vild – eða ekki.

Kitty: Ég tengi algjörlega við þessa tilfinningu að vera eins og strengjabrúða. Læknismeðferð mín á fullorðinsárum hefur einkennst af því að ég þarf að bregðast „rétt“ við heilbrigðiskerfinu og ég er hrædd um að ef ég geri eitthvað vitlaust hafi það áhrif á þá þjónustu sem ég fæ. Sú þjónusta hefur verið mjög upp og ofan. Hormónaskammturinn minn hefur til dæmis verið minnkaður án þess að ég fái að ræða það við lækninn minn. Í rúm sex ár hef ég verið að vinna að því að komast til Bretlands til sérfræðings sem veit hvað hann er að gera en án árangurs. Alltaf ætla læknarnir mínir að ráðfæra sig við kollega sína erlendis – lækna sem hafa aldrei hitt mig og ég fæ ekki einu sinni vita hvað heita – og læknisheimsókn eftir læknisheimsókn líður án þess að staðið sé við það sem mér er sagt að verði gert. Ég fæ sjaldnast að vita hvaða læknar hafa áhrif á meðferðina mína eða hvaða upplýsingar þeim eru veittar. Í hvert skipti sem ég fer til læknis er ég skíthrædd um að meira verði krukkað í meðferðina mína og ég veit aldrei hvaða spotta verður kippt í.

Það grátbroslega við þetta allt er að þessi meðferð hefði verið óþörf ef sá hluti líkama míns sem sér um hormónaframleiðsluna hefði ekki verið fjarlægður við þriggja mánaða aldur. Í dag þarf ég að panta tíma hjá sérfræðingum til að fá lyfseðil fyrir nauðsynlegum hormónum, sprauta mig á þriggja vikna fresti, bera á mig gel daglega og ég þarf að sjálfsögðu að greiða þetta að hluta til sjálf.

Skortur á þekkingu

Ugla: Trans fólk talar oft um að hafa upplifað sig sem trans strax í barnæsku, þó að margir finni það löngu síðar. Á Íslandi er ekki margt í boði fyrir trans börn og einstaklingum er ekki treyst til að segja fyllilega til um eigin upplifun fyrr en þeir verða 18 ára. Börn og unglingar geta farið í ákveðið ferli í gegnum BUGL og fengið stopphormóna sem hægja á áhrifum kynhormóna, og þar með kynþroska, þangað til þau verða eldri. Samkvæmt því sem ég hef heyrt frá trans börnum og foreldrum þeirra er þessu ferli og vinnureglunum í kringum það þó verulega ábótavant.

Sjálf áttaði ég mig á því að ég væri trans mjög ung en ég rak mig í sífellu á veggi innan heilbrigðiskerfisins sem ég gat ekki útskýrt af því að ég hafði ekki þekkinguna til þess. Ég þurfti, og þarf enn í dag, að útskýra fyrir læknum og heilbrigðisstarfsfólki hvað það er að vera trans og hvernig þetta virkar allt saman. Maður hefði haldið að fyrst heilbrigðiskerfið skikkar fólk til að fylgja einhverjum reglum væri allavega einhver grunnþekking til staðar. Það er augljóst að upplifun trans fólks er ekki í fyrirrúmi hér.

Kitty Anderson
Kitty Anderson

Kitty: Ég var ekki talin nógu gömul til að fá að vita neitt um minn líkama fyrr en ég var orðin tólf ára. Þá flaug ég til Reykjavíkur þar sem farið var með mig til sérfræðings. Á þeim tíma var löngu búið að fjarlægja eistun mín og því þurfti ég hormónagjöf. Við tóku reglulegar heimsóknir til læknis, endalausar blóðprufur og læknirinn minn, eldri maður, þurfti alltaf að þukla á brjóstunum á mér í hverri heimsókn. Ég skildi það ekki en mér var aldrei sagt að ég mætti segja nei. Alltaf var ég svo minnt á að ég ætti ekki að segja neinum frá því sem væri að mér. Ég fór inn á BUGL þrettán ára gömul og meira að segja þá var mér sagt að það væri óráðlegt að segja frá því hvað væri í gangi. Ég var send til geðlæknis sem ég mátti ekki segja frá sjálfri mér; það var spes upplifun.

Þegar fram liðu stundir fór ég að sækja mér þekkingu erlendis. Ég fór 22 ára gömul á mína fyrstu ráðstefnu og komst þar að því að sú upplýsingagjöf sem ég hafði fengið frá lækninum mínum væri til skammar og að nær öll meðferðin sem ég fór í hefði verið að öllu óþörf. Þekkingin er bara ekki til staðar hér á landi og það er verið að vinna eftir löngu úreltum kenningum sem Sameinuðu þjóðirnar og Alþjóðaheilbrigðisstofnunin hafa meðal annars gagnrýnt harðlega.

Óþörf inngrip fordæmd

Ugla: Þetta er einmitt áhugavert í sambandi við skýrslu sem Alþjóðaheilbrigðisstofnunin gaf út en þar er kallað eftir því að óþarfa inngrip í líkama intersex fólks verði bönnuð og ófrjósemisaðgerðir á trans fólki eru fordæmdar. Það er nefnilega þannig í mörgum löndum að trans fólk þarf að undirgangast ófrjósemisaðgerðir til að geta farið í kynleiðréttingarferli og það er jafnvel skikkað til að skilja við maka sinn í kjölfarið. Sum lönd gera einnig þá kröfu að þú þurfir að fara í kynfæraaðgerð til að geta fengið nýja kynskráningu og breytt nafni þínu lagalega.

Kitty: Ýmsar aðrar alþjóðlegar stofnanir hafa verið að tala fyrir breytingum á meðferð intersex einstaklinga. Evrópuráðið gaf út skýrslu þar sem staða intersex fólks í Evrópu er rakin og settar eru fram tillögur um hvað þurfi að bæta. Þar á meðal er að koma í veg fyrir óþörf læknisfræðileg inngrip og tryggja líkamlega friðhelgi okkar.

Átti að vera hommi

Kitty: Þótt rannsóknir og skýrslur séu mikilvægar skiptir upplifun einstaklinganna sjálfra ekki síður máli. Hvernig upplifðir þú þitt leiðréttingarferli?

Ugla: Áður fyrr voru allir sannfærðir um að ég væri samkynhneigður karlmaður og ég fékk uppnefni í tengslum við það strax í 2. bekk. Ég var kölluð kelling og sögð „hommalegur“ í niðrandi merkingu. Þegar ég varð eldri fóru af stað alls kyns kjaftasögur um að ég væri hommi þrátt fyrir að ég hefði aldrei talað um það eða upplifað mig þannig. Þetta varð svo alvarlegra og náði hámarki í framhaldsskóla þar sem þessi þrýstingur kom ekki aðeins frá bekkjarfélögum og samfélaginu almennt heldur líka frá hinsegin samfélaginu sem vildi troða mér í eitthvert mót. Það voru allir sannfærðir um að ég væri hommi og ætti bara eftir að átta mig á því.
Kitty: Þannig að allir í kring um þig voru í raun búnir að ákveða hver þú værir og efuðust um getu þína til sjálfskilgreiningar?

„Það voru allir sannfærðir um að ég væri hommi og ætti bara eftir að átta mig á því“

Ugla: Já, einmitt. Það var eins og mín eigin upplifun skipti ekki máli vegna þess að „þau vissu betur“. Þess vegna finnst mér gríðarlega óþægilegt þegar fólk talar um að það hafi nú vitað hitt og þetta varðandi kynhneigð eða kynvitund einhvers, vegna þess að í mínu tilfelli voru þessar hugmyndir svo fjarri lagi og þær voru meiðandi, særandi og þvingandi.

„Hin fullkomna kona“

Ugla: Þegar ég kom svo út úr skápnum sem trans var eins og það væri verið að þvinga mig í annan kassa. Ég fékk alls kyns skilaboð frá öðru trans fólki og þeim sem sáu um mitt ferli um hvernig væri ásættanlegt að ég hegðaði mér sem kona. Mér fannst það alltaf pínu óþægilegt en kunni ekki alveg að skýra það þannig að ég spilaði með. Ég var þegar orðin meistari í því að leika hlutverk og blekkja fólk og vissi hvernig ég átti að uppfylla ákveðin skilyrði. Ég varð því konan sem búist var við að ég yrði – ég málaði mig, gerði hefðbundna stelpulega hluti, afneitaði áhugamálum sem samræmdust ekki því sem var kvenlegt, sagði réttu hlutina og varð „hin fullkomna kona“. Af þessum sökum gekk ég mjög hratt í gegnum ferlið og fékk því framgengt sem ég þurfti, vegna þess að ég vissi nákvæmlega hvað fólk vildi heyra og hvernig ég ætti að komast að orði til að fá mínu framgengt. Þetta þýðir samt alls ekki að ég hafi gengið í gegnum kynleiðréttingarferlið á röngum forsendum, heldur einfaldlega að ég vissi hvað ég þyrfti að gera og segja til að geta gengið auðveldlega í gegnum ferlið og fengið aðgang að kerfinu.

Síðar meir áttaði ég mig svo á því hversu upptekin ég var af þessu og að ég væri farin að þróast í átt sem mér líkaði ekki. Enn og aftur fékk ég ekki að vera ég, heldur var ég að uppfylla einhverjar kröfur sem voru gerðar til mín. Eitt örlagaríkt sumar í kjölfar samræðna við náinn vin ákvað ég að ég þyrfti að einbeita mér að því að vera ég. Ég hætti að mála mig, fór að spila tölvuleiki aftur (sem er það besta sem ég veit), stunda íþróttir og leyfa mér að gera það sem ég vildi virkilega gera. Þetta hljómar kannski fáránlega en svo sterkar voru þessar kröfur. Það var ekki „stelpulegt“ að spila tölvuleiki og fólk dró kynvitund mína í efa út frá einhverju svo ómerkilegu.

Kitty og Ugla

Kennt að vera gagnkynhneigð kona

Kitty: Það er mjög áhugavert að heyra þig tala um að kunna að leika ákveðin hlutverk til þess að fá þjónustu. Mín reynsla var dálítið á þann veg að mér var kennt að ég væri gagnkynhneigð kona. Það er reyndar mjög algengt; okkur intersex einstaklingum er úthlutað félagslegu kynhlutverki og við vorum, allavega hér áður fyrr, alin upp til að verða gagnkynhneigðir einstaklingar af því kyni sem okkur var úthlutað. Ég lærði ung að vissir hlutir voru ekki til umræðu hjá læknum. Kynhneigð og kynvitund voru til dæmis hlutir sem voru aldrei nokkurn tímann ræddir við mig og ég lærði fljótt að það væri best að vekja ekki máls á hugsunum mínum og pælingum varðandi þessa þætti. Það var gengið svo langt í því að gefa mér ekki upplýsingar sem gætu haft áhrif á pælingar varðandi kyn að það var ekki fyrr en ég fór 22 ára gömul á ráðstefnu erlendis að ég fékk að vita að ég hefði fæðst með eistu.

Ugla: Vissu foreldrar þínir ekki af því?

Kitty: Reyndar fengu foreldrar mínir ekki þessar upplýsingar heldur. Að vissu leyti held ég að það hafi verið ágætt að pabbi minn vissi þetta ekki. Foreldrar mínir skildu þegar ég var tíu ára og þá fluttum við aftur heim til Íslands með mömmu. Í síðasta skiptið sem ég fór að heimsækja pabba var hann rosalega upptekinn af því að ég væri ekki nógu kvenleg og skammaði mig fyrir hluti eins og klæðaburð og klippingu. Í þessari ferð gekk hann frekar langt í því að stjórna því hvernig ég væri, enda ákvað ég þá að fara ekki aftur til hans. Það virtist alltaf skipta hann töluverðu máli að ég væri stelpuleg stelpa. Hjá mömmu fékk ég hins vegar bara að vera eins og mér sýndist. Það var líka dálítið skrítið að hér heima, úti á landi þar sem við bjuggum, var ég alveg nógu mikil stelpa en í Bretlandi var skipting kynhlutverka svo mikið sterkari að mér fannst erfitt að uppfylla það sem til var ætlast af mér. Ég sat ekki rétt, ég gekk ekki rétt, fötin voru ekki rétt og þar sem ég, líkt og margar íslenskar stelpur, klippti mig stutt eftir fermingu var hárið á mér ekki heldur „rétt“.

Hættar að hugsa um álit annarra

Ugla: Það er ótrúlegt hvað samfélagið er upptekið af því hver maður er. Fólk setur sig jafnvel í dómarasæti og telur sig geta sagt til um hvernig fólk eigi að vera eða hver sjálfsmynd fólks sé. Ég kýs stundum að kalla þetta fólk „sjálfskipaða sérfræðinga“. Í rauninni snýst þetta bara um hvernig maður skilgreinir sig sjálfur. Ég kæri mig kollótta um hvað einhverri manneskju úti í bæ finnst – hennar álit eða samþykki hefur ekki áhrif á hver ég er.

Kitty: Ég einmitt ákvað um 18 ára aldur að hætta að láta aðra og álit annarra á mér skipta mig máli. Þá hætti ég að fela hver ég væri. Ég segi ekkert við alla: „Hæ, ég heiti Kitty, ég er intersex“ heldur snerist þetta meira um að ég hætti að passa hvað ég sagði. Ef umræðan fór að snúast um blæðingar eða barneignir, sem gerist alveg merkilega oft, var ég ekkert að fela það að hvorugt átti við um mig eða af hverju. Ólíkt því sem læknarnir sögðu mér tók enginn þessu illa; samfélagið var ekki jafn skilningslaust og læknarnir höfðu kennt mér. Og þótt það hefði gerst, þá er það ekki mitt vandamál, ekki lengur.

 

Trans (transgender) er regnhlífarhugtak yfir ólíka hópafólks sem á það sameiginlegt að kynvitund þess, kyntjáning eða -upplifun er á skjön við það kyn sem því var úthlutað við fæðingu. Þar undir fellur meðal annars trans fólk sem upplifir sig sem „hitt“ kynið og fer í kynleiðréttingarferli og kynsegin fólk (genderqueer, genderfluid, non-binary) sem upplifir sig hvorki sem karl né konu heldur sem hvort tveggja eða einhvers staðar þar á milli.

Intersex er líka regnhlífarhugtak sem nær yfir fólk með ódæmigerð kyneinkenni, það er meðfædd líkamleg einkenni sem ekki samræmast stöðluðum hugmyndum um karl- og kvenkyn. Intersex einstaklingar fæðast sem sagt með kyneinkenni sem eru ekki algjörlega karl- eða kvenkyns, sambland af karl- og kvenkyni eða hvorki karl- né kvenkyns. Sumar algengar intersex formgerðir eru greindar á meðgöngu og margar eru sjáanlegar við fæðingu. Ýmsir intersex eiginleikar koma þó síðar í ljós, til dæmis við kynþroska, þegar reynt er að geta barn, eða fyrir einskæra tilviljun.