„Þetta er okkar hjartans mál“

þorvaldur-eva-heimir-a-2
Heimir Már, Eva María og Þorvaldur.

Heimir Már Pétursson var aðalhvatamaðurinn að stofnun Hinsegin daga í Reykjavík árið 2000 og sinnti stöðu framkvæmdastjóra hátíðarinnar frá upphafi til ársins 2011. Hann hefur starfað sem fréttamaður frá unga aldri, gefið út fjórar ljóðabækur og eitt ljóðablað. Þá hefur hann samið texta við lög bróður síns, Rúnars Þórs, á um 15 hljómplötur, gefið út geisladisk og annan með Þór Eldon undir nafni Hnotubrjótanna.

Þorvaldur Kristinsson var forseti Hinsegin daga frá því að félagið var stofnað árið 2000 til ársins 2012. Þorvaldur er bókmennta- og kynjafræðingur að mennt og hefur í áratugi starfað sem bókmenntaritstjóri og rithöfundur. Meðal verka hans er bókin Lárus Pálsson leikari sem hlaut Íslensku bókmenntaverðlaunin 2008. Þorvaldur var formaður Samtakanna ´78 1986–1989, 1991–1993 og 2000–2005. Árið 2004 var hann sæmdur riddarakrossi Hinnar íslensku fálkaorðu fyrir störf sín að mannréttindamálum  samkynhneigðra á Íslandi.

Eva María Þórarinsdóttir Lange hefur verið formaður Hinsegin daga frá árinu 2012. Hún er ferðamálafræðingur að mennt og plötusnælda í hjáverkum. Eva María hefur starfað í ferðaþjónustu í rúman áratug, sem landvörður, viðburðastýra og var lengst af markaðsstjóri hjá Eldingu. Hún hefur einnig sinnt kennslu í ferðamálafræðum við Háskóla Íslands. Hún á nú og rekur Pink Iceland, fyrirtæki sem sérhæfir sig í skipulagningu ferða, afþreyingar og brúðkaupa fyrir hinsegin ferðamenn.

Jón Kjartan Ágústsson skráði viðtalið.

Hvernig varð fyrsta gleðigangan til?

Heimir Már (H): Það má rekja upphaf Hinsegin daga til sumarsins 1999 þegar Samtökin ‘78 stóðu fyrir svokallaðri Hinsegin helgi á Ingólfstorgi. Sú hátíð var haldin að frumkvæði forsvarsmanna Samtakanna ‘78 sem vöknuðu upp við það einn morguninn að 30 ár voru liðin frá Stonewall-uppreisninni og vildu minnast þess með veglegum hátíðahöldum fyrir opnum tjöldum.

Þorvaldur (Þ): Það tiltæki átti sér raunar merkilegan undanfara því að 27. júní 1993 skipulagði hópur fólks úr Samtökunum ´78 göngu niður Laugaveg frá húsi félagsins á Lindargötu 49. Ári síðar tók félagið höndum saman við Félag samkynhneigðra og tvíkynhneigðra um sams konar göngu en það hafði verið stofnað árið áður eftir átök um það hvort nefna skyldi tvíkynhneigða í undirheiti Samtakanna 78. Þrátt fyrir blöðrur, blístrur og fána höfðu þessar göngur fyrst og fremst yfir sér kröfugöngusvip og líktust einna helst þeim göngum sem ég hef gengið með félögum okkar í Austur-Evrópu, það er að segja þeim sem komast leiðar sinnar án ofbeldis. Þetta voru friðsamar göngur, líklega allt of friðsamar og illa „markaðssettar“ enda töldu þær hvor um 70 manns. En þær gerðu viðstöddum afskaplega gott því leiðina til sjálfsvirðingar tökum við alltaf skref fyrir skref.
Svo varð sá áfangasigur í sögunni árið 1996 að lög um staðfesta samvist tóku gildi og allt í einu urðum við miðlæg í þjóðfélagsumræðunni. Samkynhneigðir voru ekki nálægt því eins óttaslegnir og áður, ættingjar okkar fóru að sýna stuðning í stað þess að blygðast sín fyrir afkvæmin og smám saman varð til jarðvegur fyrir annars konar hátíð og fyrirferðarmeiri.

H: Hinsegin helgin 1999 var stórglæsileg og vakti mikla athygli. Þá var engin ganga en haldin var stór útiskemmtun á Ingólfstorgi og stjórnmálamenn úr öllum flokkum mættu til að taka þátt. Það var á þessu augnabliki sem ég gerði mér grein fyrir að nú væri kominn vendipunktur í íslensku samfélagi varðandi viðhorf til samkynhneigðra. Ég sá viðburð, sem hafði einungis verið auglýstur á samskiptaneti samkynhneigðra, draga til sín 1500 manns til að syngja og gleðjast saman og mikla fjölmiðlaathygli. Þarna var enginn mættur til að gera grín að okkur. Aðstæður í þjóðfélaginu höfðu greinilega breyst; við vorum dýpra inni í skápnum en við þurftum að vera.

Skömmu eftir Hinsegin helgina talaði ég við forsvarsmenn viðburðarins og sagði að við þyrtum strax að hefja undirbúning fyrir risahátíð á næsta ári og að á þeirri hátíð þyrfti að vera „parade“ eða gleðiganga eins og ég lagði til að hún yrði kölluð á íslensku. Viðbrögðin voru blendin og sumir spurðu hvort ég væri orðinn brjálaður! Undirbúningur Hinsegin helgarinnar hafði tekið margar vikur og þau sem höfðu staðið að henni voru svo uppgefin að þau voru ekki öll tilbúin að ræða frekari hátíðahöld. Ég taldi hins vegar að þetta væri verkefni af þeirri stærðargráðu að undirbúningur yrði að hefjast undir eins. Fljótlega þar á eftir boðaði ég til undirbúningsfundar í Samtökunum ‘78.

Hvernig gekk undirbúningurinn að fyrstu gleðigöngunni?

H: Fyrsti undirbúningsfundurinn var haldinn haustið 1999. Margir trúðu einfaldlega ekki á að í svona fámennu samfélagi eins og Íslandi myndi takast að halda nægilega stóra göngu, með vögnum og atriðum, að erlendum sið. Menn sögðu að íslenskir hommar og lesbíur myndu aldrei fást til að klifra upp á vagna og láta draga sig niður Laugaveginn, syngjandi og trallandi með regnbogafánann. Svo mikil var hræðslan. Hræðsla við að við yrðum aðhlátursefni og samfélaginu okkar til skammar.

Það voru líka margar skoðanir uppi um gönguleiðina. Margir töldu of langt að ætla að labba allan Laugaveginn. Margsinnis var lagt til að stytta leiðina og ganga til dæmis frá Hallgrímskirkju, niður Skólavörðustíginn að Laugavegi 3 þar sem Samtökin ‘78 voru til húsa. Ég sagði alltaf nei! Ef við ætluðum að gera þetta yrði það gert af fullum krafti.

Úrtöluraddirnar voru margar þetta haustið en frá þeim voru margar undantekningar, eins og Þorvaldur. Hann var samt maður með báða fætur á jörðinni því hann fór strax að hugsa um peninga. Okkur var ljóst að hátíð af þessari stærðargráðu gæti falið í sér fjárhagslega áhættu sem gæti stefnt starfsemi Samtakanna ‘78 í hættu. Þess vegna lagði ég til að Hinsegin dagar yrðu sjálfstætt félag með sérkennitölu. Það var í raun gæfuspor því hátíðin þarf að vera sjálfstæð.

Þ: Það sem Heimir nefnir hér er eitt af því sem mér finnst einkenna allt grasrótarstarf; að verða að eyða tíma og kröftum í að mæta úrtöluröddum í eigin hópi. Þessar raddir eru alltaf þarna en berast heiminum sjaldnast til eyrna. Ég verð Heimi seint nógu þakklátur fyrir að setja stefnuna á göngu niður allan Laugaveginn og kröfuna á mikla skrautsýningu. Það vissi enginn hver árangurinn yrði en ég ákvað að trúa á þetta því það skiptir mig máli að trúa á það ómögulega og fara stundum fram úr sjálfum mér. Jafnvel þótt ég bíði ósigur.

þorvaldur-eva-heimir2
Eva María, Þorvaldur og Heimir Már.

H: Það er algjör tilviljun að á sama tíma kom boð til Samtakanna ‘78 um þátttöku á ársþingi InterPride sem þá var haldið í fyrsta skipti í Evrópu. InterPride eru samtök pride-hátíða í heiminum en þetta var í fyrsta sinn sem ársþing þeirra var haldið utan Bandaríkjanna. Ég var sendur sem fulltrúi Samtakanna, eða hinnar nýju hátíðar okkar, á þingið í Skotlandi og það var þarna í Glasgow sem ég fékk hugljómun um hvernig gangan gæti orðið í Reykjavík.

Hvað lærðirðu í Glasgow?

H: Ég sótti margar vinnustofur sem kenndu hvernig átti að skipuleggja gleðigöngur, hvernig átti að vinna með lögreglunni, tryggja öryggi, sækja um leyfi og svo framvegis. Þetta voru tæknileg atriði sem frændur okkar og frænkur í Bandaríkjunum voru búin að læra fyrir guðs lifandi löngu hvernig ætti að gera og búin að kenna hvert öðru. Ég lærði að við þyrftum að gefa fólki flotta titla, að við þyrftum að skipta með okkur verkum og ekki ætlast til of mikils af neinum.

Þ: Og þetta rataði inn í hefðir Hinsegin daga; þar sátu „stjórar“ á öðrum hverjum stól: Göngustjóri, sölustjóri, fjármálastjóri, gas- og blöðrustjóri, sviðsstjóri, verkstæðisstjóri, öryggisstjóri og ritstjóri svo fátt eitt sé nefnt. Þannig fundu margir til mikilvægis síns og það með réttu, allt framlag skipti máli en líka það að hver stæði við það sem hún eða hann hafði lofað að gera og stæði við sitt með stolti. Því við vorum að biðja fólk um að gera eitt og annað fyrir ekki neitt.

Hluti af þessari góðu brellu var að þefa uppi það fólk sem fann sig í grasrótarstarfinu og bjóða því ábyrgð og strax á fyrsta ári Hinsegin daga varð til „samstarfsnefnd“ sem var öllum opin. Þar nutum við góðs af því að ungliðahópur Samtakanna ´78 var óvenju öflugur á fyrstu árum aldarinnar og þau reyndust Hinsegin dögum betri en engin!

Ég gleymi því seint þegar við blésum upp fyrsta blöðrusnák gleðigöngunnar með hjálp ungliðanna uppi á 4. hæð á Laugavegi 3 og þokuðum honum svo niður stigana og út á götu klukkutíma fyrir göngu.

Enn skil ég ekki hvernig tókst að koma 24 metrum af lúðuneti, gasi og partíblöðrum niður þessa ómögulegu leið. En oft snúast manns bestu minningar um fyrirhyggjuleysið!

H: Svo rann dagurinn upp. Laugardagurinn 12. ágúst 2000. Við settum gönguna saman við Rauðarárstíg, vestan við lögreglustöðina. Allt var mjög skipulagt, búið að raða atriðunum upp og kríta staðsetningu fyrir hvern vagn. Eitt sem ég lagði mikla áherslu á var að við yrðum að útbúa að minnsta kosti 300 metra langa göngu vegna þess að það væri ekki til sú myndavél í heiminum sem næði henni allri í einu skoti. Þess vegna, sama hvernig færi og þótt enginn myndi mæta nema við, myndu allar ljósmyndir í sögunni sýna gönguna eins og hún væri risastór.

Í öllum hasarnum vorum við svo upptekin við að skipuleggja að enginn hafði rænu á að kíkja fyrir hornið á Hlemmi niður Laugaveginn til að skoða mætinguna. Almenningur, fjölskylda og vinir voru svo kurteis að þau vildu ekki ónáða okkur við samsetninguna. Þegar við lögðum svo af stað klukkan tvö á eftirmiðdegi, með mótorhjólalögregluna í fararbroddi, og komum fyrir hornið stoppaði í mér hjartað.

Okkur biðu um 12.000 manns. Ekki til að stríða okkur. Ekki til að berja okkur. Ekki til að gera lítið úr okkur, heldur til að ganga með okkur. Þá vissi ég að okkur hefði tekist þetta og tárin streymdu niður kinnarnar.

Þ: Hér áttuðum við okkur á því að nú var þjóðin loksins mætt og í mínum augum var hún að biðja um sátt. Fyrstu árin skynjaði ég það sterkt að gleðigangan var athöfn sáttar og fyrirgefningar. Eins og ég sagði áðan þá höfðu fjölskyldur okkar ekki sýnt mikla reisn og stuðning fyrr á árum; við höfðum lengi verið óhreinu börnin í íslenska ættarsamfélaginu, svo dapurlega sem það hljómar, og því varð gleðigangan tákn fyrirgefningar og sáttar án þess að það væri fært í orð. Enda var mikið um tár í göngunni fyrstu árin; við vorum að seilast til þeirrar virðingar sem við áttum sjálfsagðan rétt á.

H: Þetta er rétt sem Þorvaldur segir um sáttina. Lykilhugtak göngunnar var og hefur verið stolt – að vera stolt af því hver við erum – og við buðum ættingjum okkar að vera stolt með okkur, ekki af okkur. Enn þann dag í dag kemur alltaf eitthvert augnablik í hverri göngu þar sem ég fer að gráta af þakklæti og stolti.

Þ: Um leið má íhuga það að samfélag samkynhneigðra bar sinn hlut af sökinni á því hvað íslenska fjölskyldan var fjarlæg lengi vel. Sú var tíðin að við héldum fólkinu okkar frá okkur, gáfum því litla hlutdeild í ástum okkar og tilfinningalífi. Sú saga snýst um flókið gangverk kúgunar og sjálfskúgunar og þá varð gleðigangan, öllum að óvörum, leið til að brjótast út úr því mynstri.

Hvernig kom það til að þú fórst að vinna við hátíðina, Eva María?

Eva (E): Eins og gerist oft í hreyfingum sem snúast um hjartans mál þá sogast vinir og ættingjar inn í starf sem stendur manni nærri. Ég byrjaði út af konunni minni, Birnu, sem hafði verið þátttakandi í göngunni og hátíðinni í þónokkurn tíma. Fyrstu árin var ég í samstarfsnefnd hátíðarinnar og sinnti þar ýmsum störfum en árið 2011 bauð ég mig fram í stjórn félagsins.
Eitt sem vakti athygli mína þegar ég hóf störf var hvað veltan var lítil meðal sjálfboðaliða. Þau sem voru í stjórn og samstarfsnefndum höfðu sinnt sínum störfum í mörg ár, jafnvel áratug, og voru orðin algjörir sérfræðingar á sínu sviði.

Þ: Við vorum snemma mjög lagin við að nýta sérsvið fólks. Til dæmis var Heimir Már þaulreyndur fjölmiðlamaður sem þekkti marga og vissi þar af leiðandi hvaða boðleiðir giltu til að þoka málum áfram. Þegar Eva María hóf störf hjá ferðaþjónustufyrirtækinu Eldingu opnaðist enn önnur leið og óvænt; við fórum að bjóða upp á regnbogasiglingu um Sundin sem varð strax einn af vinsælustu viðburðum okkar.

Gleðiganga Hinsegin daga hefur verið gagnrýnd bæði fyrir að vera of fjölskylduvæn og ekki nægilega fjölskylduvæn. Hvar liggja mörkin þarna á milli?

þorvaldur-eva-heimir
Þorvaldur, Eva María og Heimir Már.

E: Í dag eru Hinsegin dagar sex daga hátíð og gleðigangan bara einn dagur í þeirri veislu. Þetta er jákvæð þróun að mínu mati því það gefur okkur tækifæri til að kafa dýpra í hinsegin menninguna á Íslandi og varpa ljósi á þætti sem rúmast ekki innan gleðigöngunnar. Þetta er samt flókið því margir gera kröfu um að gleðigangan, og hátíðin öll, eigi að þjóna öllum og höfða til allra. Sumir telja að gleðigangan eigið að vera fjölskylduhátíð en ekki hátíð með pólitískan boðskap eða nekt. Því er ég ekki sammála en hins vegar má ekki gleyma því að hátíðin er haldin undir berum himni og aðgengileg öllum, þar á meðal börnum.

Þ: Mér líður alltaf ónotalega þegar ég heyri fólk úti í bæ andskotast út í nektina fyrstu vikuna í ágúst. Ég veit ekkert fallegra en mannlega nekt, með og án aukakílóa; í henni felst mikilvægur réttur til persónulegrar tjáningar og hún er oftar en ekki ótrúlegt pólitískt afl í frelsisbaráttu hinsegin fólks. Kommentakerfi fjölmiðlanna ber fyrir sig andlega velferð barnanna okkar en ég hef aldrei heyrt börn amast við nöktu holdi á vögnum gleðigöngunnar. Eitt árið kvað ein lítil stelpa upp úr með það í viðtali í Morgunblaðinu að leðurhommarnir á vagni MSC Íslands væru langflottasta atriði gleðigöngunnar! Þar sást að vanda í þó nokkrar geirvörtur og stöku rasskinn. En vissulega er þetta mörgum viðkvæmt mál og mikilvægt að hlusta á ólíkar raddir. Mér finnst þó öllu máli skipta að við þorum að taka þessa umræðu sem snýst umfram allt um togstreituna milli heiðarlegrar líkamstjáningar og tepruskapar.

H: Það er ekki bara hér sem fólk veltir þessu fyrir sér. Í Berlín er gangan mjög nakin, sums staðar í Bandaríkjunum er hún það einnig en annars staðar ekki. Í upphafi var það stefna stjórnarinnar að leyfa ekki ber brjóst og rassa í gleðigöngunni heldur láta gleðina vera okkar megináherslu enda hefur hún reynst okkar sterkasta vopn í baráttunni fyrir sjálfsögðum mannréttindum.  

E: Mín persónulega skoðun sú að við megum ekki vera svo fjölskylduvæn að við séum að fela okkar eigin menningu. Okkar kúltúr snýst að miklu leyti um kynhneigð sem tengist líka kynlífi. Við erum sannarlega ekki að fara að leyfa þátttakendum að sýna kynfæri í göngunni en við megum heldur ekki leyfa göngunni að verða getulaus vegna þess að við séum að reyna svo mikið að falla inn í normið. Mér finnst setningin „við þurfum að rækta öfuguggann í okkur“ skipta máli í þessu samhengi. Við megum ekki gleyma hver við erum og hvaðan við komum.
Ég þarf oft að minna fólk á að ég er ekki að biðja um að fá að vera eins og það, ég er að krefjast þess að við höfum sömu mannréttindi. Þetta er hátíð hinsegin fjölskyldunnar og allir eru velkomnir sem styðja okkar málstað – á okkar forsendum.

H: Ef við eigum ekki þetta samtal munu aðrir skilgreina okkur og hvað við stöndum fyrir. Dragdrottningarnar mega til dæmis aldrei hverfa úr göngunni því það voru þær sem stóðu í fremstu víglínu í marga áratugi. Það voru þær sem voru barðar, myrtar, hrækt var á, flæmdar úr íbúðum og misstu vinnuna í þessari baráttu.

Þ: Gleymum heldur ekki menningu leðurhomma og leðurlesbía heimsins. Í þeim hópi er að finna fólk sem lagt hefur ómældan skerf til baráttunnar fyrir stolti og sýnileika, hér á landi og annars staðar.

E: Þetta er hárrétt. Annars yrði gleðigangan flöt eins og gæti allt eins verið eins og aðrar miðborgarhátíðir. Þetta er ákveðið jafnvægi sem þarf að ná og er í sífelldri vinnslu. Við megum ekki glata okkar sérstöðu.

Mun gleðigangan lifa að eilífu?

Þ: Því má velta fyrir sér. Gleðigöngur okkar tíma munu eflaust missa merkingu sína og annað taka við. Allt fölnar og deyr, ekki bara jurtirnar og manneskjurnar, og annað rís upp. Hnötturinn er á stöðugum snúningi.

H: Gleðigangan mun alltaf breytast með nýjum kynslóðum sem hafa aðra sýn á hlutina. Hvort hún lifi eða deyr veltur á því að gangan sé skipulögð og unnin af heilindum. VIð höfum til dæmis alltaf verið heppin hvað peningahliðina varðar, passað að halda þessu sem sjálfboðavinnu en ekki sem launaðri vinnu. Við höfum öll lagt allt okkar sumarfrí og orlof í þetta starf sem tryggir að peningaöflin ná ekki völdum við skipulagningu hennar. Þá eyddum við aldrei peningum nema hafa aflað þeirra fyrst. Margar gleðigöngur í útlöndum hafa farið á hliðina vegna erja um fjármál.

E: Galdurinn er að sníða sér stakk eftir vexti og eiga góðan gjaldkera sem er skynsamur. Sum árin hafa verið mögur og þá hefur hátíðin þurft að herða mittisólína og til dæmis þurft að útiloka alþjóðlega skemmtikrafta. Í þessu samhengi er mikilvægt að muna að Reykjavíkurborg styrkir okkur um fimm milljónir króna á hverju ári sem skiptir miklu máli hvað varðar rekstur hátíðarinnar. Við skilum því til baka með þakklæti og aukinni starfsemi í miðborginni. Það væri áhugavert að setja hátíðina upp í Excel og skoða hvað hún í raun og veru kostar í ólaunuðu sjálfboðaliðastarfi og hvaða tekjur hún halar inn.
Svo lengi sem gangan er grasrótarhreyfing mun hún halda velli. Ef markaðsskrifsstofur fara að stýra er voðinn vís. Það sem gerir Hinsegin daga öðruvísi er að við leyfum ekki auglýsingar í gleðigöngunni. Þetta er það fallega við göngudaginn; þar fá mannréttindi okkar og baráttan fyrir þeim að skína.

Ég man dæmi frá 17. júní eitt árið þar sem ég fór með frændsystkini mín að hoppa í KFC-hoppukastala og ég hugsaði með mér:

„Vá hvað ég er fegin að hátíðin okkar er ekki uppblásinn hamborgari.“

Hvaða merkingu hefur hátíðin fyrir ykkur?

H: Hinsegin dagar og gleðigangan eru jól, áramót og afmæli allt í senn. Ég tók þátt í því að búa þessa hátíð til og er gríðarlega stoltur af því. Ég segi oft að við sem sáum um skipulagningu hátíðarinnar höfum gert okkur grein fyrir að við værum búin að ná til allra þegar heldri frúrnar voru byrjaðar að mæta í gönguna. Oft gengur fólk upp að mér og segir að Hinsegin dagar hafi bjargað lífi þeirra. Þá finn ég að ég hef gert eitthvað sem er ekki bara fyrir mig, heldur hef ég gert eitthvað fyrir aðra, fyrir samfélagið, og að ég hef tekið þátt í að gera samfélagið á Íslandi aðeins betra en það var.

Þ: Ég skal játa að eftir því sem hátíðin varð stærri og glæsilegri og samstarfið öruggara þá fór mér stundum að leiðast þetta ævintýri. Ég nærist meira á mótlæti en ég vil stundum viðurkenna og mér finnst ég vera til á jörðinni þegar ég er á leiðinni upp brekkuna. En lífið sér maður ekki fyrir og mitt í þessum leiða varð mér eitt árið litið til hliðar á gangstéttina þar sem við göngufólkið fórum hjá og sá þar mann sem ég hafði einu sinni átt við trúnaðarsamtöl um ástir og hneigðir sem hann leyndi eins og mannsmorði og þjáðist fyrir. Einn af þeim mönnum sem alla tíð hafði haldið sig víðsfjarri samfélagi okkar hommanna. En þarna var hann mættur og kannski slóst hann í hóp þeirra sem að lokum mynduðu hala göngunnar þann daginn, ég veit það ekki. En þá vissi ég að Hinsegin dagar höfðu breytt einhverju sem skiptir mig máli.

E: Í hverri einustu gleðigöngu verður til ákveðið augnablik þar sem allar tilfinningar hátíðarinnar hellast yfir mig og ég enduruppgötva af hverju ég er að þessu og af hverju þetta starf er svona mikilvægt. Ég held að það mesta sem hátíðin gefi mér sé að vera virkur þátttakandi í því að gera heiminn að betri stað og ef ég get gert eitthvað til að við tökum tvö skref áfram en ekki aftur á bak, þá er það skylda mín sem manneskja að gera það. Þetta er okkar hjartans mál sem er ástæða þess að ég er formaður Hinsegin daga í dag.