Tíminn breytist og mennirnir með

Höfundur: Guðjón Ragnar Jónasson

Tuttugu ár virðast sem heil eilífð og í hugum yngra fólks eru Hinsegin dagar jafn sjálfsagðir og sautjándi júní. Hátíðina bar jafnan upp á sama dag og Fiskidaginn mikla á Dalvík. Í upphafi höfðu fjölmiðlar mun meiri áhuga á svarfdælskri fiskisúpu en hátíð hinsegin fólks. Þegar á leið varð hér breyting á og Hinsegin dagar styrktu sig í sessi eftir því sem árin liðu. Þess var heldur ekki langt að bíða að sjálfur borgarstjórinn í Reykjavík tæki að spígspora á peysufötum á götum borgarinnar. Fyrsta verk Guðna Th. Jóhannessonar forseta eftir að hann tók við embætti árið 2016 var að ávarpa hátíðina. Svona breytist nú tíminn og mennirnir með.

Upphaf Hinsegin daga má rekja til vel heppnaðra útitónleika á Ingólfstorgi í ágúst 1999. Ný öld var að renna upp sem ekki gat annað en orðið betri en sú gamla, altént hvað varðaði málefni hinsegin fólks. Kannski má segja að hinir ágætu Hinsegin dagar hafi verið merkasti boðberi nýrrar aldar á áþekkan hátt og framfarahugur og aldamótaljóð Einars Ben römmuðu inn öldina sem þarna var að renna sitt skeið á enda.

Nýir tímar voru greinilega að renna upp. Gleðin sem alla tíð hefur einkennt Hinsegin daga skipti hér mestu. Það var eins og hópurinn hefði gert samkomulag við þjóðina um að hætta að líta á sig sem jaðarsett hjábörn þessa heims. Sjálfsvirðingin hafði eflst og segja má að jaðarinn hafi ákveðið að færa sig inn á miðjuna og sammælst um að hætta að biðjast afsökunar á tilveru sinni.

Þegar skyggnst er til baka þá er mér efst í huga þakklæti fyrir að hafa fengið tækifæri til að taka þátt í Hinsegin dögum þó svo að sá beiski bikar, að halda utan um budduna, hafi orðið minn. Fundirnir í samstarfsnefnd um Hinsegin daga í árdaga voru oft langir og stundum erfiðir, ólík sjónarmið voru uppi og fundað var vikulega. Fjármögnun hátíðarinnar var í upphafi erfið. Fyrirtækin stóðu ekki í biðröð eftir að auglýsa en ekki leið þó á löngu uns tryggingafélag og banki styrktu Hinsegin daga með rausnarlegu framlagi.

Verslunar- og veitingahúsaeigendur í miðbænum reyndust fyrstu árin mikilvægt hryggjarstykki við fjármögnun hátíðarinnar. Þeir keyptu auglýsingar og regnbogafána af Hinsegin dögum og þekktir lista- og stjórnmálamenn lögðu sín lóð á vogarskálarnar þegar kom að fánasölunni. Hér gafst þeim líka kjörið tækifæri til að komast í beint og milliliðalaust samband við kjósendur sína og/eða aðdáendur.

Ólíkt því sem þekktist víða annars staðar í heiminum urðu Hinsegin dagar í Reykjavík að fjölskylduhátíð þar sem ekki sást vín á nokkrum manni. Salan á regnbogavarningnum var að mínu mati mikilvæg, sér í lagi fyrir manninn sem hélt utan um budduna. Samþykki og stuðningur samfélagsins skiptu þó meiru sem birtist skýrast í því að fjölskyldur þessa lands veifuðu nú regnbogafánum. Orð Gunnars á Hlíðarenda við Njál á Bergþórshvoli ná vel utan um tilfinningar mínar, gamla gjaldkerans, þegar hann rifjar upp veru sína í samstarfsnefnd Hinsegin daga: „Góðar eru gjafir þínar, en meira þykir mér verð vinátta þín og sona þinn.“