Út fyrir sviga: Myndlist og Samtökin ’78

Myndlistar- og sögusýningin Út fyrir sviga: Myndlist og Samtökin ´78 er samstarfsverkefni Dr. Yndu Gestsson listfræðings og Borgarskjalasafns Reykjavíkur, en safnið varðveitir skjalasafn Samtakanna ´78 og fleiri söfn hinsegin fólks. Í safni Samtakanna ´78 er mikilvægur hluti hinsegin listasögunnar varðveittur.

Þegar litið er yfir sögu Samtakanna ´78 kemur í ljós að á vegum þeirra og hinsegin listafólks hefur verið haldinn fjöldi myndlistarsýninga sem flestar eiga það sameiginlegt að hafa ekki ratað út fyrir hinsegin samfélagið og orðið hluti af opinberri listasögu íslensku þjóðarinnar. 

Sýningin leggur áherslu á verk íslensks hinsegin myndlistarfólks. Lögð er áhersla á verk eftir tíu íslenskar listamanneskjur sem sýnt hafa verk sín í húsakynnum samtakanna eða í opinberum sýningarrýmum frá 1984 og fram á þessa öld. Einnig eru kynntir til leiks Norðmennirnir Kjetil Berge og Göran Ohldieck sem ætluðu að opna sýningu í Norræna húsinu í janúar árið 1983 en var meinað að sýna þar þegar í ljós kom að þeir fjölluðu um samkynhneigð í verkum sínum.

Í þeim myndverkum og skjölum sem hér eru sýnd er gestum boðið í ferðalag þar sem listafólkið og verk þeirra eru tekin út fyrir sviga í þeirri samfélagsjöfnu sem leitast við að gera listræna framleiðslu hinsegin fólks ósýnilega eða afgreiða hana sem smekkleysu eða klám. 

Hér er fylgt aðferð sem femíniskar listakonur annarar bylgju femínista beittu markvisst, en það var að taka sig útfyrir sviga í altumlykjandi samfelagsjöfnu feðraveldisins og skapa sér sinn eigin sjónheim sem sótti efni í reynslu þeirra af aldalangri kúgun og útilokun og nota hana sér til valdeflingar. Með þessu móti urðu þær sýnilegar, pólitískar og ögruðu valdinu. 

Sýningin dregur fram hvernig menningarleg verðmæti hafa orðið til í hinsegin samfélaginu og bendir á nauðsyn þess að hlúð sé að þeim og þau gerð sýnileg.

Verkin sem hér eru sýnd eru afar fjölbreytt varðandi efnistök, innihald og tækni en tjá hvert á sinn hátt sársauka, kúgun, en einnig stolt og gleði sem fylgir því að geta um frjálst höfuð strokið.

Athugið!

Sýningin stendur fram yfir Hinsegin daga í ár eða til 18. ágúst næstkomandi. Sýningin er opin alla daga á opnunartíma Grófarhúss. 

  • Mánudaga – fimmtudaga 10:00 – 19:00.
  • Föstudaga 11:00 – 18:00.
  • Laugardaga og sunnudaga 13:00 – 17:00.

Aðgangur er ókeypis og öll velkomin.