Velkomin á Hinsegin daga 2019

Líklega grunaði fæsta gestina sem sóttu Stonewall Inn-barinn í Christopher-stræti í New York að kvöldi föstudagsins 27. júní 1969 hve viðburðarík og þýðingarmikil nótt var í vændum. Vissulega hafði Judy Garland verið jarðsungin fyrr um daginn og tilefnið til að drekkja sorgum sínum því ærið en þýðing næturinnar átti heldur betur eftir að verða önnur og meiri. Þessa nótt snéri hinsegin fólk í New York loks vörn í sókn og uppgötvaði um leið samtakamáttinn. Réttindabaráttan var hafin fyrir alvöru og grunnurinn lagður að pride-hátíðahöldum sem í dag þekkjast víða um heim. Í ár minnumst við þess að 50 ár eru liðin frá þessum merkilegu tímamótum sem skipt hafa sköpum fyrir öll þau réttindi og þann sýnileika sem við hinsegin fólk búum við í dag.

En ekki nóg með það. Í ár fögnum við einnig 20 ára óslitinni sögu hinsegin hátíðahalda í Reykjavík. Það var nefnilega árið 1999 sem Samtökin ʼ78 stóðu fyrir Hinsegin helgi í Reykjavík – einmitt til að minnast þess að þá voru 30 ár frá uppþotunum í Christopher-stræti. Um 1.500 gestir komu saman á Ingólfstorgi laugardaginn 26. júní og strax í kjölfarið var ákveðið að gera þyrfti slík hátíðahöld að árlegum viðburði hér í borg. Ári síðar, þegar fyrsta gleðigangan var gengin, voru gestirnir tólf þúsund talsins eða eins og Heimir Már Pétursson, einn af stofnendum Hinsegin daga, sagði í viðtali við tímarit Hinsegin daga árið 2017: „Okkar biðu um 12.000 manns. Ekki til að stríða okkur. Ekki til að berja okkur. Ekki til að gera lítið úr okkur, heldur til að ganga með okkur. Þá vissi ég að okkur hefði tekist þetta og tárin streymdu niður kinnarnar.“

Undanfarna tvo áratugi hafa Hinsegin dagar vaxið og dafnað og eru í dag ekki einungis ein fjölsóttasta hátíð landsins heldur einnig líklega alfjölmennasta pride-hátíð í heimi – sé miðað við höfðatölu. Af þessum árangri erum við að sjálfsögðu afar stolt en tökum um leið hlutverk okkar alvarlega og umgöngumst söguna af virðingu – því aðeins með því að vita hvaðan við komum finnum við leiðina þangað sem við ætlum. Og við ætlum áfram.

Við ætlum áfram í átt að fullu jafnrétti – lagalegu og samfélagslegu. Við ætlum að berjast áfram gegn öllu mótlæti – líkamsárásunum, mismununinni og öráreiti daglegs lífs. Við munum halda áfram að ræða, fræða og ögra. En við ætlum líka að gleðjast áfram. Þess vegna standa Hinsegin dagar 2019 í tíu daga, með fleiri og fjölbreyttari viðburði á dagskrá en nokkru sinni fyrr. Þannig fögnum við árangri síðustu áratuga og sýnum hvert við ætlum. Áfram.

Fyrir hönd stjórnar Hinsegin daga býð ég ykkur öll hjartanlega velkomin á hátíð ársins og vona að þið njótið sem allra best. Saman munum við mála Reykjavík í öllum litum regnbogans sem aldrei fyrr.

Gleðilega hátíð!

Gunnlaugur Bragi,
formaður Hinsegin daga