Velkomin á Hinsegin daga 2018

Kæru vinir!

Baráttugleðin er yfirskrift Hinsegin daga 2018. Með því er vísað til þeirrar þrotlausu baráttu sem hinsegin fólk á Íslandi hefur háð á síðustu árum og áratugum. Baráttu fyrir sjálfsögðum réttindum í íslensku samfélagi. Á þessum tímamótum munum við því líta um öxl. Horfa yfir farinn veg og minnast liðinna atburða, bæði erfiðra og gleðilegra. Við munum þó ekki leyfa okkur að festast í fortíðinni því það þýðir ekkert. Þess í stað setjum við kúrsinn fram á við, brýnum raust okkar og höldum áfram baráttu á góðum grunni öflugra brautryðjenda.

En baráttugleðin er lýsandi í fleiri en einum skilningi. Orðið fangar nefnilega ekki bara baráttuna heldur einnig gleðina. Í tímarit Hinsegin daga 2013 skrifaði rithöfundurinn Lilja Sigurðardóttir grein og sagði: „Við erum alveg helvíti hress. Hjá okkur ríkir stanslaust stuð, biturðinni er skolað niður með regnbogalitum kokteil, kröfugangan gerir einungis kröfu um gleði, meira að segja baráttusöngvarnir okkar eru diskó.“ Þar er meðal annars vísað til samkenndarinnar og húmorsins sem gjarnan hefur einkennt hinsegin samfélagið okkar – að minnsta kosti utan frá séð. „Þessi óforskammaði húmor, gleðin sem einu sinni var aðferð til að lifa af við óbærilegar aðstæður, hún er núna bara til að njóta,“ sagði Lilja. Okkar leið til að lifa af. Baráttan til að knýja fram breytingar og gleðin til að brynja okkur fyrir fjandsamlegum viðbrögðum. Baráttugleðin.

Gleðin hefur samt ekki alltaf náð langt undir yfirborðið. Í gegnum tíðina hefur hinsegin samfélagið orðið fyrir mikilli og sársaukafullri blóðtöku. Einstaklingar úr okkar röðum hafa látist af völdum ofbeldis og sjúkdóma. Enn í dag er okkar fólk líklegra til að falla fyrir eigin hendi en aðrir. Þó ekki væri fyrir aðrar sakir en þessar er ljóst að sýnileiki okkar, fræðsla og góðar fyrirmyndir skipta miklu og geta hreinlega verið lífsspursmál. Barátta okkar er ekki háð að ástæðulausu.

Fögnum þeim árangri sem náðst hefur. Þökkum þeim sem ruddu brautina og minnumst þeirra sem helst hafa úr lestinni og geta ekki glaðst með okkur í dag. Höldum svo áfram að sýna heiminum hvað fjölbreytileikinn er fallegur – með gleðina að vopni.

stjorn-hopmynd2Gleðilega hátíð!

Stjórn Hinsegin daga 2018:

Gunnlaugur Bragi Björnsson, formaður
Helga Haraldsdóttir, meðstjórnandi
Karen Ósk Magnúsdóttir, gjaldkeri
Ragnar Veigar Guðmundsson, meðstjórnandi
Vilhjálmur Ingi Vilhjálmsson, ritari