Gunnþórunn Halldórsdóttir og Guðrún Jónasson
// Höfundar: Rakel Adolphsdóttir og Sigríður Jónsdóttir
Gunnþórunn Halldórsdóttir og Guðrún Jónasson voru uppi á umbrotatímum í íslensku samfélagi þegar Reykjavík var að þróast úr þorpi í bæ. Þær voru skráðar saman til heimilis á Amtmannsstíg 5 í hálfa öld frá árinu 1908. Hér eru dregin saman nokkur brot og fróðleiksmolar um ævi og samlíf þeirra í ljósi gagna sem finna má meðal annars á Kvennasögusafni, Leikminjasafni og skjala- og upplýsingasöfnum á Landsbókasafni Íslands.
Hafa ber í huga að ekki fer vel á því að nota skilgreiningar nútímans til að lýsa samböndum fortíðarinnar, aðstæður voru allt aðrar og forsendur ólíkar því sem nú er. En hvernig sem sambandi Guðrúnar og Gunnþórunnar var háttað er fullvíst að þær voru nánar enda spannaði sambúð þeirra rúma hálfa öld og telst einstakt dæmi um það hvernig konur tóku höndum saman, ráku saman heimili, stofnuðu fjölskyldu og fyrirtæki og endursköpuðu á sinn hátt það íslenska samfélag sem þær hrærðust í.
Gunnþórunn Halldórsdóttir – leikkona og kaupkona
Gunnþórunn Halldórsdóttir fæddist í Reykjavík árið 1872. Foreldrar hennar voru Halldór Jónatansson, söðlasmiður, og Helga Jónsdóttir, húsfreyja. Hún bjó við Amtmannsstíg 5 nær alla ævi þar sem móðir hennar seldi fæði til svokallaðra kostgangara, þar á meðal pilta í Menntaskólanum handan við götuna. Á Herranótt, kynntist Gunnþórunn leiklistinni og steig hún sín fyrstu skref á leiksviði með skólapiltum. Hún varð síðan einn af stofnendum Leikfélags Reykjavíkur, 11. janúar 1897, og lék í fyrsta sinn undir merkjum félagsins í lok sama árs.
Fyrsta opinbera umfjöllunin um þennan hæfileika Gunnþórunnar birtist í tímaritinu Nýja öldin árið 1897: „Ungfrú Gunnþórunn Halldórsdóttir tekur sig mjög vel út á leiksviði, hefir fallega söngrödd og ýmsa góða hæfileika.“ Gunnþórunn varð snemma þekkt skapgerðarleikkona en fyrstu árin lék hún einnig nokkur karlmannshlutverk. Gagnrýnendur töluðu nánast undantekningarlaust vel um frammistöðu hennar á leiksviði, frá upphafi ferils til enda.
Haustið 1905 sagði Gunnþórunn skilið við Leikfélagið og lék ekki aftur með félaginu næstu tuttugu árin. Hún sneri aftur til Leikfélagsins rúmlega fimmtug og við tók annað blómaskeið í Iðnó. Í millitíðinni sat Gunnþórunn síður en svo auðum höndum heldur stofnaði hún verslun og tók að sér hvers kyns skemmtanir í borginni þar sem hún lék stutta gamanleiki og fór með gamanvísur. Oftar en ekki rann ágóði af þessum skemmtunum til góðgerðarmála. Þess má geta að hún var fyrsti leiðbeinandi eða leikstjóri Leikfélags Hafnarfjarðar árið 1908 þegar það setti Apaköttinn og Hættulegt umboð á svið, og lék hún þar líka sjálf.
Í tilefni af 65 ára afmæli Gunnþórunnar skrifaði Lárus Sigurbjörnsson, skjala- og minjavörður Reykjavíkurborgar, eftirfarandi í Vísi: „Gunnþórunn hefir ausið til beggja handa af óvenjulegri listhæfni gáfna sinna og einstæðu glaðlyndi og góðvild til alls lifandi.“ Það var svo á áttræðisafmæli hennar, sem haldið var með viðhöfn í Þjóðleikhúsinu, að Gunnþórunn lék sitt síðasta hlutverk á sviði sem einnig var eitt hennar frægasta, Vilborgu grasakonu í Gullna hliði Davíðs Stefánssonar.
Guðrún Jónasson – bæjarfulltrúi og kaupkona
Guðrún Jónasson, fædd Pétursdóttir árið 1877, fluttist ung með fjölskyldu sinni til Vesturheims og settist síðar að í Winnipeg. Þar giftist hún Jónasi Jónassyni (1867-1941), leikhús- og verslunareiganda, árið 1898 og tók upp eftirnafn hans, líkt og tíðkaðist þar.
Eftir að móðir Guðrúnar lést, upp úr aldamótum 1900, undi faðir hennar sér ekki lengur í Kanada og vildi snúa aftur heim til Íslands. Guðrún fylgdi föður sínum heim og fengu þau inni hjá Gunnþórunni og móður hennar á Amtmannsstíg 5. Guðrún ætlaði sér að snúa aftur til Vesturheims en svo fór að hún settist að hjá Gunnþórunni á Amtmannsstíg. Hún skildi aldrei formlega við Jónas og fram til ársins 1933 er einstaka sinnum minnst á hana sem eiginkonu Jónasar, einkum þegar hún sigldi til Vesturheims.
Guðrún varð síðar mikilvirkur bæjarfulltrúi og náði kjöri sem slíkur árið 1928 fyrir Íhaldsflokkinn, síðar Sjálfstæðisflokkinn, og gegndi því hlutverki í áratugi. Hennar helstu málefni snerust um að bæta kjör barna, ungmenna og mæðra þeirra svo og ýmissa kvennastétta, til dæmis ljósmæðra. Þá vann Guðrún að því að hækka styrki borgarinnar til ýmissa félagasamtaka kvenna sem starfrækt voru í Reykjavík.
Á sextugsafmæli Guðrúnar birtist þetta í Vísi: „Hefir hún verið góður liðsmaður, reynst einbeitt og fylgin sér, örugg í vörn og djörf í sókn. … Eftir frú Guðrúnu Jónasson liggur mikið starf … [hún] er hjálpsöm kona og trygglynd og munu margir verða til þess að óska henni til hamingju í dag, á þessum tímamótum í lífi hennar.“
Skjalasöfn Guðrúnar og Gunnþórunnar
Einkaskjalasöfn eru í eðli sínu brotakennd, samtíningur úr tilvist einnar manneskju eða fleiri sem oftar en ekki getur reynst erfitt að púsla saman og skilja. Árið 2008 voru Kvennasögusafni færð gögn sem tilheyrðu Guðrúnu og Gunnþórunni og bárust frá tengdadóttur þeirra. Gögnin voru ekki mikil að tölu; nokkur heiðursskjöl, eitt vegabréf, tvö jólakort, sex ljósmyndir, fjölmargar handskrifaðar gamanvísur Gunnþórunnar og, rúsínan í pylsuendanum, hárflétta Guðrúnar í stálboxi utan af sígarettum. Engin bréf fylgdu, hvorki ræður né minnisblöð, ekkert tengt rekstri þeirra heldur.
Árið 2021 barst önnur lítil, en ekki síður dýrmæt, sending: tvö bréf, ein orðsending með ljósmynd, eitt heiðursskjal, ættartala og, það besta, fjölskyldumyndband frá árinu 1956 sem kemur við sögu síðar í þessari grein.
Í árslok 2023 afhenti Ragnheiður Steindórsdóttir, leikkona, Leikminjasafni gögn foreldra sinna, leikaranna Margrétar Ólafsdóttur og Steindórs Hjörleifssonar. Þar leyndust óvænt tveir munir frá Gunnþórunni. Annars vegar kristalsskál sem vegur 1,5 kg og hinsvegar fislétt pyngja. Þetta var hinn svokallaði „Gunnþórunnarnautur“ sem Gunnþórunn bar á hestbaki yfir fjöll og firnindi til að færa vinkonu sinni og hins vegar „Pungur Gunnþórunnar Halldórsdóttur“ en þar er á ferðinni pyngjan sem Gunnþórunn bar þegar hún lék Vilborgu grasakonu í síðasta sinn.
Hughrif
Nú er ágætis augnablik til að taka kúnstpásu.
Gömul skjöl og ryk, ljósmyndir af löngu látnu fólki og leikskrár. Skjalavarsla og skjalasöfnun virðast við fyrstu sýn kannski óspennandi og fremur óaðlaðandi dægrastytting eða ævistarf. En því fer fjarri, skjalasöfn anda og lifa líkt og einstaklingarnir sem áttu gögnin. Manneskjur sem voru uppi á fyrri hluta tuttugustu aldar virðast órafjarri samtímanum en birtast ljóslifandi í gegnum munina og skjölin sem þær skildu eftir, nánast eins og vofur fortíðarinnar.
Gunnþórunn og Guðrún hafa ásótt okkur síðastliðin ár, á góðlátan en ákveðinn máta. Þær berja reglulega að dyrum á skrifstofum okkar, stundum þegar við eigum síst von á heimsókn, alltaf með nýjum svipi og með nýjar upplýsingar. Að setja saman líf fólks, byggt á örfáum gögnum, er eins og að púsla án þess að hafa fyrirmynd eða vita hversu stór myndin verður að lokum eða af hverju.
Að halda á „Gunnþórunnarnaut“ vekur upp fjölmargar spurningar sem verður líklega aldrei svarað. Hvar var skálin keypt? Af hverju þessi skál? Hvenær ferðaðist Gunnþórunn með gjöfina til vinkonu sinnar? En skálin vekur líka upp tilfinningar. Þú finnur þyngdina og veist að það hefur verið þrautin þyngri að bera skálina á hestbaki. Þú sérð litlu brotin og veist að skálin hefur verið handfjötluð oft. Þú horfir á blómaskreytingarnar og veist að skálin var valin af smekkmanneskju.
Hughrifin einskorðast ekki við hluti heldur líka staði, byggingar og jafnvel heilu hverfin. Þær bjuggu langa ævi í Þingholtunum og voru þekktar í hverfinu. Amtmannsstígur 5 stendur enn, minnisvarði um ævi þeirra og störf.
Amtmannsstígur 5 og jörðin á Nesjum
Amtmannsstígur 5 var fasti í lífi Guðrúnar og Gunnþórunnar. Líf þeirra og reiturinn í kringum húsið átti eftir að þróast í forvitnilegar áttir eins og Steinunn H. Bjarnason skrifaði í Alþýðublaðið 9. janúar 1952:
„Skömmu eftir aldamótin rifu þær mæðgur [Gunnþórunn og móðir hennar] litla húsið, sem verið hafði æskuheimili Gunnþórunnar, og byggðu annað stærra í þess stað. Það var einlyft í fyrstu, en nokkru eftir að frú Guðrún Jónasson gekk í félag við Gunnþórunni, byggðu þær stöllur aðra hæð ofan á húsið og reistu síðar steinhúsið á horni Amtmannsstígs og Þingholtsstrætis, sem nú er heimili þeirra.“
Gunnþórunn og Guðrún ráku heimilið í nær 50 ár þar sem þær önnuðust aldraða foreldra sína og ólu upp þrjú fósturbörn. Mikill gestagangur var hjá þeim sambýliskonum sem Steinunn kallar „vinurnar“ í sömu grein og voru vinnukonur hjá þeim hverju sinni. Ekki var gestagangurinn minni á Nesjum í Grafningi þar sem þær áttu jörð. Þar héldu þær ráðsmann og leigðu skika til bænda í nágrenninu og börðust líka við veiði- og berjaþjófa eins og til dæmis má sjá í auglýsingu sem birtist í Morgunblaðinu 1923.
Á Nesjum áttu þær ánægjulegar stundir með fósturbörnum sínum og barnabörnum, Gunnþórunn var þekkt fyrir að sitja alltaf á sama kassa og dorga í Þingvallavatni. Frá þessum stundum hefur varðveist fallegt sönnunargagn áðurnefnt fjölskyldumyndband, varðveitt á Kvennasögusafni, þar sem Guðrún og Gunnþórunn sjást standa saman á svölum bústaðarins og horfa yfir landareign sína.
Fyrirmyndarborgarar
Guðrún og Gunnþórunn voru atkvæðamiklar í íslensku samfélagi á fyrri hluta liðinnar aldar og tóku virkan þátt í félagasamtökum ásamt því að reka hagnaðarsöm fyrirtæki. Guðrún rak verslun í Austurstræti og Gunnþórunn í Eimskipafélagsshúsinu og þær áttu útibú á Ísafirði og í Hafnarfirði. Báðar voru meðlimir í Kvenréttindafélagi Íslands þar sem þær töluðu fyrir kosningarétti kvenna. Guðrún náði formannssætinu af Bríeti Bjarnhéðinsdóttur um stund og Gunnþórunn sat einnig í stjórn. Þá var Guðrún lengi formaður fjáröflunarnefndar Kvennaheimilisins Hallveigarstaða.
Umfjallanir um þær í blöðum og tímaritum eru fjölmargar, yfirleitt jákvæðar en þó er ekki öll sagan sögð. Guðrún var alltaf titluð „frú“ í íslenskum dagblöðum og Gunnþórunn ávallt titluð „fröken“, „ungfrú“ eða „jungfrú“. Tilkynnt var í dagblöðum um ferðalög þeirra, eins og annarra einstaklinga sem töldust fyrirfólk þeirra tíma. Þannig má rekja ferðir þeirra, hvorrar í sínu lagi og saman, innan lands og utan. En eins og gildir um aðra opinbera einstaklinga voru þær ekki óumdeildar. Þar má nefna brotthvarf Gunnþórunnar úr Leikfélagi Reykjavíkur snemma á öldinni og pólitísk átök Guðrúnar við vinstri vænginn þar sem hún talaði á móti jafnaðarstefnunni.
Guðrún og Gunnþórunn voru greinilega mikilvirkar og flokkaðar með efri stéttum í íslensku samfélagi á fyrri hluta aldarinnar. Báðar voru félagar og stjórnarmeðlimir í Góðtemplarareglunni og komu fram á skemmtikvöldum félagsins. Guðrún var formaður og stofnandi kvennadeildar Slysavarnafélags Íslands frá stofnun 1930 til dauðadags svo og Sjálfstæðiskvennafélagsins Hvatar frá stofnun 1937 til 1955. Gunnþórunn var kjörin heiðursfélagi Leikfélags Reykjavíkur árið 1938 og vann töluvert fyrir Ríkisútvarpið sem leikkona og við upplestra, þar á meðal í barnatíma útvarpsins. Báðar voru sæmdar stórriddarakrossi Hinnar íslensku fálkaorðu, Gunnþórunn árið 1945 fyrir leiklistarstörf og Guðrún fyrir störf í þágu slysavarna árið 1955.
„…svo að stutt varð á milli þeirra…“
Guðrún Jónasson andaðist 5. október 1958, 81 árs að aldri. Tilkynning um jarðarför Guðrúnar frá Dómkirkjunni birtist á forsíðu Morgunblaðsins og var athöfninni útvarpað. Borgarstjórinn í Reykjavík var á meðal þeirra sem báru kistuna. Tilkynningin var undirrituð: „Gunnþ. Halldórsdóttir og fósturbörn“. Tæplega fjórum mánuðum síðar, 15. febrúar 1959, lést Gunnþórunn, þá 87 ára. Minningargreinar bera þess merki að merkar konur hafi kvatt þennan heim. Daginn sem jarðarför Gunnþórunnar fór fram, 24. febrúar 1959, birtist grein í Morgunblaðinu eftir Lárus Sigurbjörnsson:
„Í hóp kostgangara í matsölu móður hennar [Helgu] bættist veturinn 1905 ung stúlka frá Ameríku, sem snúið hafði aftur til Íslands með föður sínum. Það var frú Guðrún Jónasson, og þar sem Gunnþórunn varð einmitt um þetta leyti viðskila við félaga sína í Leikfélagi Reykjavíkur, sem stofnað var 1897, sló Guðrún upp á því við Gunnþórunni, að þær gerðu félag með sér um verzlunarrekstur. Verzlun þeirra óx og dafnaði frá fyrsta vísi við Amtmannsstíginn, og þær stöllur fylgdust að ævilangt, alla tíð búsettar við stíginn sinn í Þingholtunum. Frú Guðrún lézt fyrir skömmu, svo að stutt varð á milli þeirra, en Þingholtin sýnu fátækari, er báðar hinar merku konur eru á braut horfnar, tregaðar af fjölmörgum bæjarmönnum en þó einkum fósturbörnum, sem þær tóku að sér og önnuðust af móðurlegri umhyggju.“
Vinur, stöllur, stallsystur, vinkonur…
Samlífi Guðrúnar og Gunnþórunnar var lýst á marga vegu á opinberum vettvangi í 50 ára sambúð. Þær voru kallaðar vinur, stöllur, stallsystur, vinkonur… Hér fer þó best á því að leyfa þessum merkilegu konum að eiga síðasta orðið og skilgreina sig sjálfar: Í bréfi sem þær sendu einu af barnabarni sínu skrifa þær einfaldlega undir – „ömmurnar þínar“.
Hinsegin skjalasafn
Hinsegin skjalasöfn eiga sér langa sögu og eiga rætur að rekja til einstaklinga og grasrótarfélaga. Sérsöfn og sérfræðiþekking eru nauðsynleg til að varðveita, rannsaka og miðla jaðarsögum.
Höfundar hvetja til stofnunar hinsegin skjalasafns á Íslandi.
Höfundar þakka Þorvaldi Kristinssyni fyrir ómetanlega aðstoð.
Heimildir
- KSS 77. Guðrún Jónasson.
- KSS 78. Gunnþórunn Halldórsdóttir.
- KSS 2021/19. Guðrún Jónasson og Gunnþórunn Halldórsdóttir.
- LMÍ 2023/14. Margrét Ólafsdóttir og Steindór Hjörleifsson.
- Ljósmyndasafn Íslands.
- Skjalasafn Ríkisútvarpsins.
- www.kvennasogusafn.is
- www.leikminjasafn.is
- www.timarit.is
- www.huldukonur.is