#YouthPride
Viðburðir fyrir börn og ungmenni hafa vakið mikla lukku undanfarin ár. Mikilvægt er að einstaklingar á öllum aldri og fjölskyldur finni eitthvað við sitt hæfi. Hinsegin dagar leggja áherslu á að fjölskyldur finni sig velkomnar. Sömuleiðis er áhersla lögð á að unglingar og ungt fólk finni sinn stað á hátíðinni þar sem þessi hópur fer hratt stækkandi. Vinsælir viðburðir verða endurteknir og nokkrir nýir koma inn í dagskrá. Fjölskyldur og ungmenni ættu því auðveldlega að finna eitthvað við sitt hæfi á Hinsegin dögum í ár.
Viðburðir
Alla ungmennaviðburði má finna í dagskrá Hinsegin daga 2024. Til að sjá eingöngu ungmennaviðburði er einfaldast að velja flokkinn „Youth Pride“.
Dæmi um viðburði:
Hinsegin handverk – Mánudaginn 5. ágúst kl. 13-15
- Pride Centre (Iðnó) – Sunnusalur
Pride vikan byrjar á notalegum nótum þar sem hinsegin fjölskyldum er boðið að koma í Pride Centre og búa til armbönd og listaverk úr perlum og öðru efni. Skemmtilegur viðburður til að koma saman, spjalla, hlæja og föndra.
Kósýkvöld á Loft (18-30 ára) – Mánudaginn 5. ágúst kl. 18-23
- Loft, Bankastræti 7
Notaleg stund á Loft í upphafi Pride vikunnar. Spjall, spil og öll velkomin!
Nú og þá – Þriðjudaginn 6. ágúst kl. 14
- Pride Centre (Iðnó) – Sunnusalur
Nú og þá er verkefni sem snýst um að skapa samtal milli ólíkra kynslóða hinsegin fólks, í gegnum gamlar ljósmyndir úr hinsegin samfélaginu, sem hinsegin ungmenni á aldrinum 15-25 ára, hafa valið og endurgert.
Einn, tveir og DRAG! – Miðvikudaginn 7. ágúst kl. 14
- Pride Centre (Iðnó)
Dragsýning fyrir allan aldur og vinnustofur fyrir 12-17 ára.
Glæsileg dagskrá fyrir dragaðdáendur á öllum aldri. Litríkar uppákomur fyrir alla, m.a. bókalestur með dragdrottningunni Starínu, húllahringir með Bobbie Michelle og andlitsmálning. Hápunturinn verður dragsýning á sviði í Iðnó en í aðdraganda viðburðarins verður boðið upp á vinnustofur fyrir ungmenni sem eru að stíga sín fyrstu skref í dragheiminum.
Ungar hinsegin raddir – Miðvikudaginn 7. ágúst kl. 18
- Pride Centre (Iðnó)
Tónlistarviðburður þar sem raddir hinsegin ungmenna fá að heyrast. Fjölbreytt atriði og frábært skemmtun.
Regnbogahátíð fjölskyldunnar – Miðvikudaginn 7. ágúst kl 16:30
- Elliðaárdalur, leikvöllur
Hinsegin fjölskyldur ásamt Hinsegin dögum bjóða upp á skemmtilega dagskrá fyrir börn á öllum aldri. Leikhópurinn Lotta sýnir Bangsímon á Lottutúni í dalnum kl. 18:00 og fá gestir Regnbogahátíðarinnar 1000 kr. afslátt af miðaverði. Frítt er fyrir börn 2 ára og yngri. Vonumst til að sjá sem flestar regnbogafjölskyldur koma saman, leika sér og eiga gleðilega stund saman.
Hjólaskautapartý – Miðvikudaginn 7. ágúst kl. 20-23
- Hjólaskautahöllin, Sævarhöfða 33
Tónlist, ljós og góð stemning, fullkominn endir á deginum. Aldrei skautað áður? Engar áhyggjur, allir eru velkomnir að koma og prófa og sjálfboðaliðar okkar munu vera til staðar til að hjálpa þér!
Regnbogakökukeppni ungmenna – Föstudaginn 9. ágúst kl. 13
- Pride Centre (Iðnó) – Sunnusalur
Leynist bakari í þér? Sætt, súrt, smátt, stórt, hátt og lágt. Komið með alls konar kökur eða góðgæti í þessa skemmtilegu regnbogakökukeppni. Vinningar í boði! Veitt verða verðlaun fyrir frumlegustu kökuna, metnaðarfyllstu kökuna og mest hinsegin kökuna. Þegar verðlaun hafa verið veitt verður að sjálfsögðu kökusmakk.
Grillpartý ungmenna – Laugardaginn 10. ágúst kl. 16
- Samtökin ´78, Suðurgötu 3
Eftir geggjaða göngu og skemmtiatriði í Hljómskálagarðinum fögnum við áfram og hittumst hjá húsnæði Samtakanna ‘78. Þar verður grillað og boðið upp á alls konar góðgæti. Tónlist, grill og gleði verður aðalmálið og frábært tækifæri að fagna flottri göngu.
Unga fólkið á bak við tjöldin
Stjórn Hinsegin daga er í góðu samstarfi við unglinga og ungt fólk sem hefur brennandi áhuga á að skapa, skipuleggja og koma með hugmyndir að viðburðum og leiðum til að auka sýnileika ungs hinsegin fólks á Hinsegin dögum. Mikilvægt er að viðburðir höfði til sem flestra og því nauðsynlegt að vera í samstarfi við unga metnaðarfulla einstaklinga. Í ár var starfandi ungmennaráð sem kom með hugmyndir og sá um framkvæmd á nokkrum viðburðum fyrir ungmenni og unglinga. Þetta samstarf er mikilvægt til að geta boðið upp á fjölbreytta og áhugaverða ungmennadagskrá.