Breskt kóngafólk tekur yfir Gamla bíó föstudaginn 11. ágúst, en stórstjörnurnar Danny Beard og Black Peppa, sem bæði kepptu í fjórðu seríu RuPaul’s Drag Race UK sem fór í loftið síðasta haust, koma fram á DRAG DJÓKI Hinsegin daga. Ásamt fulltrúum bresku krúnunnar koma fram skoski boylesque-listamaðurinn Tom Harlow, dragdrottningarnar Agatha P, Gloria Hole, Gógó Starr, Jenny Purr og dragkóngurinn Milo de Mix, enda einn allra stærsti viðburður íslensku dragsenunnar. Danshöfundur er Rebecca Hidalgo.
Skeggjaða drottningin
Danny Beard kom, sá og slayaði í fjórðu seríu Drag Race UK, en drottningin er þekkt fyrir mikinn húmor, framúrskarandi spunahæfni og frumlega búninga. Þá hefur Danny einnig komið sér á framfæri á sviði sönglistar, en hán komst í undanúrslit í Britain’s Got Talent og í fjórða sæti í Karaoke Club: Drag Edition. Hán er einlægt og beinskeytt og á vafalaust eftir að vefja áhorfendum í Gamla bíói um fingur sér.
Karabíska kryddið
Black Peppa ólst upp á Sint Maarten, sem er eitt fjögurra ríkja undir Konungsveldi Hollands. Hán hefur þó búið í Birmingham í hartnær áratug og skapað sér sess sem dragdrottning. Peppa er þekkt fyrir frammistöðu sína í lip synci, en hefur einnig hlotið lof fyrir einlæga framkomu, þar sem hún deilir því hvernig uppvaxtarárin höfðu áhrif á hana, en hinseginleiki er ekki sérlega samþykktur á heimaslóðum Peppu. Það verður spennandi að sjá hvort karabíska kryddið nái ekki að bora sér rækilega inn í sál hinna íslensku Drag Race-aðdáenda.
Miðasala í fullum gangi
Miðasalan er nú í fullum gangi á tix.is. Vegna mikillar eftirspurnar verða tvær sýningar í ár og aldurstakmarkið er 18 ára. Einnig verður í boði svokallað meet and greet þar sem gestum býðst að hitta drottningarnar og taka mynd af sér með þeim.
DRAG DJÓK
Gamla bíó, Ingólfsstræti 2a
Föstudaginn 11. ágúst, kl. 19:00 & 22:00
18:00 // Meet & greet
18:30 // Húsið opnar fyrir almenna gesti
19:00 // Fyrri sýning
22:00 // Seinni sýning
Forsöluverð: 5.400 kr.
Almennt verð: 6.400 kr.
Meet & greet-verð*: 4.400 kr.
*Athugið að miði á Meet & greet gildir ekki sem miði á sýningu