Skilaboð til Íslendinga og allra gesta á Hinsegin dögum í Reykjavík árið 2017
Það gleður mig mjög að senda kveðju til allra þátttakenda Hinsegin daga í Reykjavík. Sendiráð Bandaríkjanna er stoltur stuðningsaðili mannréttinda hinsegin fólks og Hinsegin daga.
Í tilefni af hinsegin mánuði í Bandaríkjunum í júní 2017, sagði utanríkisráðherra Bandaríkjanna Rex Tillerson: “…Utanríkisráðuneyti Bandaríkjanna ítrekar samstöðu sína með talsmönnum mannréttinda og borgaralegum samtökum sem vinna að því að styðja við grundvallarréttindi hinsegin fólks um heim allan, svo það geti lifað með reisn og búið við frelsi…. Bandaríkin eru staðföst í stuðningi við mannréttindi og grundvallarfrelsi fyrir alla einstaklinga.”
Allir eiga að hafa rétt til að lifa með reisn og þurfa ekki að vera hótað ofbeldi og mismunun. Í ár er sjöunda árið í röð þar sem sendiráð Bandaríkjanna tekur þátt í Gleðigöngu Hinsegin daga. Við göngum fyrir þá hinsegin einstaklinga sem enn mæta ógnum ofbeldis og mismununar. Við tökum þátt, því við trúum því sem Rex Tillerson utanríkisráðherra sagði: “Þegar allir einstaklingar njóta verndar á grundvelli jafnréttis og með reisn, þá rennir það frekari stoðum undir alþjóðlegan stöðugleika.”
Við í sendiráði Bandaríkjanna höfum heillast af Hinsegin dögum og þá sérstaklega af staðfestu samtakanna í að berjast fyrir auknum rétti annarra minnihlutahópa á Íslandi sem kljást við ójöfnuð. Einn þessara hópa er fatlaðir einstaklingar. Við fögnum því að Hinsegin dagar hafi útvegað aðgengispall fyrir hátíðina til að gera þeim sem nota hjólastól kleift að sjá og njóta skemmtiatriðanna á sviðinu eins og öllum hinum. Sendiráð Bandaríkjanna hefur á undanförnum árum veitt styrk til uppsetningar aðgengispallsins og tók í fyrra þátt í kostnaði við að gera hátíðina fyllilega aðgengilega til að tryggja að allir sem vildu gætu tekið þátt. Við höldum þeim stuðningi áfram með ánægju í ár enda er slíkur stuðningur við hinsegin samfélagið og fólk með fötlun ekki bara hluti af stefnu okkar heldur er líka rétt að gera það.
Við erum einnig stolt af að halda áfram að styðja við fjölskylduhátíð Hinsegin daga, og skapa skemmtilegt, öruggt og heilbrigt umhverfi fyrir hinsegin fjölskyldur. Við hófum að styðja þennan hluta dagskrárinnar árið 2015 í tilefni af úrskurði hæstaréttar Bandaríkjanna sem varð til þess að hjónaband samkynhneigðra einstaklinga var leyft í öllum 50 ríkjum Bandaríkjanna. Sá mikilvægi dómur var sögulegur sigur fyrir hinsegin Bandaríkjamenn og tryggði þeim jafnan rétt fyrir lögunum með fullri reisn og virðingu, sem hinsegin samfélagið hafði svo lengi leitast við að ná fram.
Að lokum vil ég vekja athygli á frábærum viðburði sem er styrktur af sendiráði Bandaríkjanna og er hluti af Jazzhátíð Reykjavíkur. Það eru tónleikar með píanistanum Fred Hersch og tríói hans, en Hersch hefur hlotið tíu tilnefningar til Grammy verðlaunanna. Fred Hersch mun einnig ræða reynslu sína sem samkynhneigður einstaklingur og HIV-jákvæður jazztónlistarmaður. Fred Hersch er lifandi goðsögn og einn af risum jazzpíanóleiks með sterkar rætur í hefðunum. Frásögn hans af því að byggja upp mikilfenglegan feril samhliða því að fást við lífshættulegan sjúkdóm verður öllum innblástur.