Helga Haraldsdóttir var kjörin formaður á aðalfundi Hinsegin daga þann 23. nóvember. Helga settist fyrst í stjórn Hinsegin daga árið 2018 og hefur átt mikinn þátt í að móta hátíðina síðustu ár. Síðasta starfsárið hefur hún stýrt hátíðardagskrárteymi félagsins, sem sér um stórviðburði hátíðarinnar, svo sem opnunarhátíð, útihátíð og lokahóf. Helga er yfirkokkur á Mat og drykk og rekur eigið fyrirtæki, Kandís. Við óskum Helgu til hamingju með nýtt hlutverk.
Gunnlaugur lætur af störfum
Helga tekur við keflinu af Gunnlaugi Braga Björnssyni, sem hefur setið í stjórn Hinsegin daga síðan 2013, fyrst sem gjaldkeri en hefur svo veitt félaginu forystu síðan 2018, með stuttu hléi 2020-2021. Gunnlaugur hefur átt ríkan þátt í að byggja upp hátíðina og gera hana að þeirri umfangsmiklu og fjölbreyttu hátíð sem hún er í dag. Hann hefur lagt af hendi ómetanlega sjálfboðaliðavinnu og verið einstaklega óeigingjarn á tíma sinn. Við erum Gunnlaugi þakklát fyrir hans framlag til hinsegin samfélagsins og hlökkum til að sjá hvað hann gerir næst.
Ný stjórn tekur við
Auk Gunnlaugs láta Róberta Andersen og Ragnar Veigar Guðmundsson af störfum. Þrír nýir stjórnarmeðlimir voru kjörnir í þeirra stað og þau eru: Ragnheiður Ásta Þorvarðardóttir, Alexander Aron Guðjónsson og Sigríður Ásdís Þórhallsdóttir. Við þökkum Róbertu og Ragnari kærlega fyrir þeirra frábæru störf og bjóðum Ragnheiði, Alexander og Siggu Dísu velkomin.
Samtökin ’78 og Trans Ísland hljóta styrki
Í ljósi góðrar fjárhagsstöðu hátíðarinnar ákvað stjórn Hinsegin daga að veita Samtökunum ’78 styrk að upphæð 1.000.000 kr. og Trans Ísland 500.000 kr. Vonandi nýtist þessi stuðningur vel í áframhaldandi baráttu þessara góðu systurfélaga okkar. Þá vill félagið koma á framfæri miklum þökkum til Samtakanna ’78 og Trans Ísland fyrir samstarfið á liðnum árum. Það er ómetanlegt að vinna með þessum faglegu og mikilvægu félagasamtökum.