Hinsegin fjölskyldur

Hinsegin fjölskyldur eru orðnar mjög margbreytilegar og möguleikar hinsegin fólks til að eignast börn hafa aukist hratt. Hinsegin fjölskyldur hafa alltaf verið til en verið lítið sýnilegar, bæði vegna lagabókstafa og fordóma í samfélag- inu. Árið 2006 voru samþykkt lög sem tryggðu fólki aðgang að tæknifrjóvgun óháð hjúskaparstöðu og á sama tíma var rétturinn til frumættleiðinga tryggður óháð kynhneigð. Það er hins vegar stutt síðan að eina leið hinsegin fólks til að eignast börn var að eiga þau áður en það kom út úr skápnum.

Í dag eru tækifærin fleiri; tæknifrjóvgun, fóstur, frumættleiðingar og barneignir vina. Helst hallar enn á hinsegin karlmenn en eitthvað virðist vera að birta til þar. Upplýsingar um barneignamöguleika hafa verið tak- markaðar og fólk er oft feimið við að leita sér upplýsinga. Tótla I. Sæmundsdóttir hitti nokkra hinsegin foreldra sem sögðu frá því hvernig fjölskylda þeirra varð til.

Sigga Birna og Hilmar kynntust í gegnum sameiginlegan vin árið 2005. Þau voru búin að þekkjast í nokkur ár þegar þau fóru að ræða barneignir. Sigga Birna var fertug þegar sonur þeirra fæddist og ferlið tók fimm ár. Hana langaði til að eignast barn og vildi ekki gera það ein. Henni fannst mikilvægt að barnið ætti tvo foreldra og það hentaði henni vel að deila barni með öðrum. Hilmar hafði ekki leitt hugann mikið að þessum möguleika fyrr en Sigga Birna hafði orð á honum. Hann var einhleypur hommi og aldrei verið í sérstökum foreldrahugleiðingum. Þegar þau fóru að ræða saman um sæðisgjöf áttaði hann sig að hann vildi verða jafnmikill þátttakandi í lífi barnsins og Sigga.

Upphafið
hilmar-sigga-kariÞað tók fimm ár að búa Kára Val til og álagið var mikið. Til að byrja með reyndu þau sjálf heima með sprautum en þegar það gekk ekki fóru þau til Art Medica í tæknifrjóvgun. Þar tóku við þrjú ár með tilheyrandi hormónameðferðum. Sigga Birna varð tvisvar ólétt en missti fóstrið í bæði skiptin. Á meðan þetta ferli var í gangi héldu þau áfram að reyna heima við og þannig varð Kári Valur til.H: Fólk er mjög forvitið um það hvernig við bjuggum hann til. Spyr hvernig við höfum farið að þessu og hvort við höfum sofið saman sem við gerðum ekki, til að það sé á hreinu.

S: Þetta togast á í manni, fræðsluhlutverkið og einkalífið. Ég er til í að ræða við fólk um þetta allt saman á mínum forsendum. Enginn á samt kröfu á að ræða við mig um hvernig barnið mitt varð til. Alveg eins og ég á enga kröfu á að spyrja gagnkynhneigt fólk hvernig þeirra börn urðu til.

Það einfaldaði málið töluvert að Kári Valur varð ekki til á Art Medica því ef svo hefði verið hefði Hilmar þurft að ættleiða son sinn með tilheyrandi úttekt og tímafreku ferli. Í staðinn gat Sigga Birna einfaldlega kennt honum drenginn og hann gengist við honum hjá Þjóðskrá.

Fólk hafði miklar skoðanir á því hvernig þessu fjölskyldumynstri ætti að vera háttað en skilaboðin sem foreldrarnir fengu voru mismunandi. Siggu Birnu var sagt að hún myndi ekki vilja deila barninu með öðrum þegar það væri komið. Hún gaf ekki mikið út á það, þekkti sjálfa sig vel og hefur aldrei séð eftir þessu fyrirkomulagi. Hún og Hilmar vinna mjög vel saman og það hefur alltaf hentað þeim öllum vel að skipta tíma Kára Vals jafnt á milli þeirra beggja. Hilmar heyrði það hins vegar frá ýmsum að það væri bráðnauðsynlegt að gera samninga um umgengni strax í upphafi svo að hann myndi hafa rétt til barnsins.

Samningar og skipulagning

H: Samningarnir þurfa ekki að vera formlegir. Við vissum að við værum með lík gildi um uppeldi barna. Manneskjan er stöðugt í samningaviðræðum um allt milli himins og jarðar. Hvern einasta dag. Tilveran er ein allsherjar málamiðlun við samferðarfólkið og þetta er hluti þess.

S: Við gerðum aldrei samninga um neitt. Við ræddum tvo hluti fyrirfram. Í fyrsta lagi gerði Hilmar kröfu um að barnið væri ekki skírt og mér var alveg sama um það.

H: Mér finnst eðlilegt að fólk sem er utan trúfélaga sleppi því að skíra börnin sín inn í söfnuð. Margir gera þetta vegna hefðar og félagsþrýstings og ég gat ekki hugsað mér það.

S: Í öðru lagi ákváðum við að við mættum alltaf búa í hvaða landi sem er. Við getum ekki haldið hvort öðru hér, það er mikilvægt að hafa frelsi til að flytja.

Ein af forsendunum fyrir barneigninni var að forræðinu væri skipt jafnt á milli foreldranna og Kári Valur yrði til jafns hjá þeim báðum. Fyrirkomulagið hentar þeim öllum vel.

S: Það er ekki sjálfsagt að það henti öllum börnum að fara svona ung að vera til jafns á tveimur heimilum. Það virkaði vel fyrir hann og af því að hann var ekki einungis á brjósti gat hann snemma farið að sofa heima hjá Hilmari.

H: Fólk gerir ráð fyrir að hann sé minna hjá mér af því að ég er karlmaður. Eins og ég hefði bara áhuga á að vera með hann aðra hverja helgi. Samfélagið okkar er enn svo kynjað. Mér er líka oft „hjálpað“ þegar ég er einn að brasa með vagn eða kerru. Mæður vorkenna aumingjans manninum að vera einn að sjá um barnið. Ég sé ekki fyrir mér að Sigga fengi þessi tilboð um hjálp.

Þau segjast ekki hafa átt djúpar samræður um uppeldi en telja að þetta snúist aðallega um traust. Þau treysta hvort öðru fullkomlega þegar barnið er hjá hinu foreldrinu. Þau ræða þó saman um reglur þegar þær eru orðnar misjafnar eftir heimilum þó að fátt sé niðurnjörvað.

Mammí

Þegar þau tóku ákvörðunina um að eignast Kára Val voru þau bæði einhleyp. Stuttu síðar kynntist Sigga Birna konu sem heitir Faye. Þær fóru að vera saman og Faye var með Siggu Birnu og Hilmari í gegnum allt ferlið og fæðinguna. Kári á því mömmu, pabba og mammí. Sigga Birna og Faye hættu saman þegar Kári var tveggja ára en hann heldur góðu sambandi við Faye. Þau tala saman í síma og á Skype og hittast þrisvar til fjórum sinnum á ári. Það er sterkt samband á milli þeirra en Faye gegnir þó ekki beint móðurhlutverki. Hún var heimavinnandi þegar fæðingarorlofi Hilmars og Siggu lauk og tók því við Kára og var með hann heima. Þau tengdust vel á þessum tíma og Kára Val finnst hann líka eiga heimili hjá Faye í Grikklandi og á Englandi.

S: Henni þykir ótrúlega vænt um hann og þó að hann sé ekki beint sonur hennar er hann strákurinn hennar. Við vorum mikið hjá henni úti fyrsta árið hans og komum heim öðru hvoru á milli. Hilmar heimsótti okkur tvisvar, bæði í Englandi og Grikklandi. Ég er ótrúlega heppin að Hilmar hafi leyft mér að fara með hann út, það hefði ekki hver sem er gert það og látið þetta virka.

H: Það er traust á milli okkar og það er auðvitað forsenda fyrir því að þetta gangi upp.

Ef Sigga Birna og Faye hefðu verið áfram saman hefði Faye samt ekki getað orðið löglegt foreldri Kára Vals því að lögin gera eingöngu ráð fyrir tveimur foreldrum. Hilmar hefði þurft að gefa upp sinn rétt sem foreldri og Faye hefði þá getað stjúpættleitt Kára. Þau eru sammála um að þetta sé galli í kerfinu sem snerti oft hinsegin fjölskyldur.

Fjölskyldurnar

Hilmar er að vestan og stærstur hluti nærfjölskyldu hans býr þar en Sigga á öflugt bakland í Reykjavík. Til að byrja með var Hilmar feiminn og nýtti sér ekki þetta bakland Siggu til að fá hjálp með Kára Val. Honum leið eins og einstæðu foreldri þær vikur sem hann var einn með hann. Nú hefur það breyst og þeim er boðið í fjölskylduboð hjá fjölskyldum beggja og eru orðin samrýmd fjölskylda – fjölskyldan hans Kára Vals. Þau eyða miklum tíma saman. Hilmar og Sigga eru bæði einhleyp í dag og njóta þess að gera ýmislegt saman með stráknum sínum.

S: Við þurfum að réttlæta fyrir fólki að við séum hinsegin fjölskylda. Fólk sér okkur saman; mömmu, pabba og barn og gerir ráð fyrir því að við séum gagnkynhneigð kjarnafjölskylda. Þegar við tölum um mömmu- og pabbahús gerir fólk ráð fyrir að við séum skilin en ég vil að hann viti að við erum hinsegin. Ég segi honum oft að mamma hans sé lesbía og pabbi hans sé hommi.

H: Þegar fólk hugsar um hinsegin fjölskyldur sér það fyrir sér tvo karla eða tvær konur að ala upp börn saman en hinsegin fjölskyldur geta verið alls konar. Að sama skapi er fólk ekki endilega hinsegin þó að fjölskyldumunstrið sé flókið.

Sólveig Rós er tvíkynhneigð kona og Alexander Björn er gagnkynhneigður trans maður. Þau eru búin að vera saman í tvö ár og ætla að gifta sig í sumar. Þau búa saman í lítilli notalegri íbúð á Stúdentagörðunum. Sólveig er fræðslustýra Samtakanna ‘78 og Alexander er að læra félagsráðgjöf. Þau urðu foreldrar í júlí 2017 þegar þau eignuðust saman dótturina Ylfu Líf.

Í upphafi

Sólveig og Alexander kynntust í eftirpartýi eftir aðalfund Samtakanna ‘78. Sólveig komst að því í partýinu að Alexander hafði aldrei séð bíómyndinaMeð allt á hreinu, svo að þau hittust stuttu seinna til að horfa á hana. Því má þakka Stuðmönnum, eða áhugaleysi um þá, fyrir sambandið. Þau höfðu bæði verið í samböndum þar sem barneignir voru ekki í boði svo að þau ræddu mjög snemma í sambandinu áhuga sinn á barneignum og fóru fljótt að huga að þeim.

alex2S: Við gátum ekki farið að huga að barneignum þegar við vorum ekki einu sinni búin að vera saman í mánuð. Svo þegar mánuður var liðinn var sú afsökun farin og þá þýddi ekkert annað en fara að ræða barneignir af alvöru.

Þau voru nýbyrjuð saman þegar þau fóru af stað í ferlið, bjuggu ekki saman og áttu ekki krónu. Þetta getur verið rándýrt ferli og tekið mikið á fólk en þau voru heppin, það þurfti ekki margar tilraunir áður en Ylfa varð til. Þegar þau hófu ferlið voru þau bæði með eggjastokka og leg svo að þau fengu gjafasæði til að hjálpa þeim að búa barnið til. Þau leituðu aðstoðar IVF og voru mjög ánægð með þjónustuna sem þau fengu þar. Sólveig Rós gekk með barnið og þau notuðu hennar eggfrumur.

Eggin hans Alex

Þarna var möguleiki á að nota eggfrumur Alexanders. Í kynleiðréttingarferlinu er spurt hvort trans menn vilji láta frysta eggin sín til að eiga möguleika á að nota þau seinna. Þeir þurfa svo sjálfir að ganga eftir því að það sé gert en það er mjög stutt síðan þetta varð möguleiki á Íslandi. Alexander er ekki lengur með eggjastokka en á þessum tíma var hann með virkar eggfrumur. Sólveig vildi nota þær en hann hafði engan áhuga á því.

S: Mér fannst leiðinlegt að hans frábæru genetísku eiginleikar færu ekki áfram til barnanna okkar því að þetta yrði ekki í boði að eilífu. Um leið og hann hélt áfram í kynleiðréttingarferlinu hætti það að vera möguleiki.

A: Ég hefði þurft að hætta hormónameðferð sem ég var byrjaður á og bíða eftir að hormónastarfsemin sem ég er fæddur með færi í gang aftur. Svo hefðum við þurft að fara til Svíþjóðar til að láta taka og frysta eggfrumurnar. Ég var búinn að ákveða fyrir löngu síðan að ég hefði enga þörf fyrir að barnið mitt væri genetískt tengt mér, það yrði alltaf barnið mitt.

S: Það er til hreyfing trans manna erlendis sem ganga með börn sín og finna ekki þörf fyrir að taka hormóna eða taka sér pásu í ferlinu. Það er í raun mjög áhugavert af því að samfélagið sér þetta sem það kvenlegasta sem þú getur gert, en þetta eru karlmenn sem ögra og ýta á þann þægindaramma.

A: Mig langaði ekki að ganga með barn, jafnvel áður en ég var búinn að átta mig á því að ég væri trans, en mig langaði að eiga barn.

S: Mig hefur alltaf langað til að ganga með börn. Ég á fullt af yngri systkinum, passaði börn lengi og hef unnið á leikskólum. Ég hef alltaf dýrkað börn.

A: Ég hef ekki verið tilbúinn fyrr en nýlega til að ala upp barn en ég hef alltaf ætlað að eignast börn.

Hinsegin að innan

Sólveig og Alexander eru í svolítið sérstakri stöðu þar sem þau eru hinsegin fjölskylda en líta ekki út fyrir að vera það. Þau falla fullkomlega inn í gagnkynheigða sís boxið á pappírum og í útliti. Ylfa var til dæmis feðruð beint í Þjóðskrá og tengd föður sínum í Íslendingabók en ef hún hefði fæðst fyrir nafnbreytingu og kynskrárbreytingu Alexanders hefðu þau þurft að skrá hana sérstaklega og feðra hana eins og konur í samkynja samböndum þurfa enn að gera.

A: Mér finnst mikilvægt að ala hana upp í fjölbreytileika og að hún sé hluti af regnbogafjölskyldu. Þó að við séum karl, kona og barn þá erum við alltaf hinsegin. Hún mun alltaf vita hver við erum.

S: Það verður aldrei leyndarmál hvernig hún varð til og hún mun vita það frá upphafi.

Þau eru búin að ákveða að það verði alltaf talað opinskátt um sæðisgjafann og þau eru byrjuð á því þótt Ylfa skilji kannski ekki margt enn þá. Þau völdu gjafa sem var líkur Alex hvað varðar háralit og augnalit og honum er oft sagt hvað Ylfa sé lík honum. Þeim finnst hinseginleikinn vera mjög stór hluti af sér og skrítið að fólk viti ekki að þau séu hinsegin.

S: Þetta er samt svolítið flókið því að út á við mun Ylfa ekkert endilega finna fyrir því að hún eða hennar fjölskylda sé öðruvísi. Kannski mun hún ekkert endilega vilja skilgreina sína fjölskyldu sem hinsegin og þá getum við ekkert verið að þröngva því upp á hana. Hún verður að velja það sjálf.

A: Það væri samt svo leiðinlegt því að þetta er risastór hluti af minni sjálfsmynd að vera hinsegin. Ég var 18 ára þegar ég kom út sem lesbía og svo varð ég trans maður.

S: Við erum bæði fyrrverandi lesbíur. Þetta er uppáhaldsbrandarinn minn.

A: Mér finnst mikilvægt að barnið mitt viti að ég sé hinsegin og að maki minn skilji það.

S: Það er í raun heppni að við erum bæði hinsegin. Ég hef átt kærasta sem eru gagnkynhneigðir og sís og Alex gæti verið með hvaða konu sem er, en við tengjum bæði við að vera hinsegin.

S: Það er yndislegt að eiga barn.

A: Það er líka yndislegt að vera hinsegin.

Sæþór og Ágúst hafa verið áberandi í hópi hinsegin foreldra enda eru fáir feður í hópnum. Þeir hafa skrifað greinar fyrir ýmsar síður um hvernig það sé að vera pabbar og hafa verið opnir um fjölskyldu sína út á við. Við vildum vita hvernig þeir urðu fjölskylda og hverjir möguleikar tveggja karlmanna á Íslandi til að eignast börn séu.

agust-sæþorSæþór og Ágúst

Þeir hittust á netinu árið 2006. Sæþór er bandarískur, upprunalega frá Virginíu og bjó í Los Angeles á þeim tíma en Ágúst var nýlega kominn heim til Íslands frá Þýskalandi. Þeir byrjuðu að tala saman á MSN, í tölvupósti og á Skype. Sæþór kom svo í heimsókn á gamlársdag 2006 og þeir hafa verið saman síðan. Þeir keyptu sér hús í Reykjavík árið 2010 og fóru fljótlega að hugsa um barneignir.

S: Vinir okkar voru allir að eignast börn og það er líka svo mikið af börnum í fjölskyldunni hans Ágústar svo við fórum snemma að skoða leiðir til þess að eignast börn.

Eina raunhæfa leiðin fyrir tvo karlmenn til að eignast barn á þessum tíma var að fara í gegnum fósturkerfið eða eignast barn með vinkonu. Þeir völdu fyrri kostinn.

Fósturkerfið

Það gekk eins og í sögu að fá heimilið samþykkt og fljótlega var hringt í þá og þeir fengu til sín börn. Fyrst fengu þeir 5 og 7 ára bræður sem þeir höfðu í þrjá mánuði. Þá fóru bræðurnir til baka til fjölskyldu sinnar en lentu fljótlega aftur í fósturkerfinu.

S: Kynforeldrar fá endalausa sénsa. Það er ekki verið að hugsa um hvað er börnunum fyrir bestu. Ef það er það besta fyrir börnin að alast upp annars staðar en hjá kynforeldrum sínum þá verður kerfið að sjá til þess en ekki vera endalaust að fara fram og til baka með þau. Við gátum ekki tekið við þeim aftur og aftur. Við vorum komnir með svefnplön, reglur og komnir með þá í rútínu en svo fóru þeir aftur á heimili þar sem var enginn grunnur og allt sem við vorum búnir að vinna að var eyðilagt.

Á: Svo var þetta sárt og erfitt fyrir okkur að vita ekki hvort hugsað var um þá eða hvað væri að gerast. Maður þarf sem fósturforeldri að kunna að halda og sleppa. Elska börnin en vera viðbúinn að þau fari frá manni. Það er skorið á öll tengsl við börnin sem maður hefur verið að sjá um.

S: Þetta er ekki gott fyrir börnin, þau eiga rétt á að viðhalda tengslum við þá sem hafa verið að sjá um þau.

Ágúst og Sæþór urðu í framhaldinu stuðningsforeldrar eins árs drengs og fósturforeldrar hans í framhaldi af því. Þeir héldu að þetta yrði varanlegt fóstur og að þeir ættu loksins barn. Móðirin skipti svo um skoðun og lét strákinn til ömmu hans.

S: Amman sagðist geta tekið hann svo að við áttum allt í einu að pakka niður dótinu hans og hann átti að flytja til hennar.

Á: Við hefðum örugglega ekki farið út í þetta ef við hefðum vitað að þetta væri svona óljóst. Móðirin var greinilega búin að vera að tala við bæði okkur og ömmuna um að taka drenginn í varanlegt fóstur. Hún var örugglega að gera það sem hún taldi barninu fyrir bestu en það hefði verið sanngjarnara ef við hefðum haft allar upplýsingarnar.

Þeir eru sammála um að bakgrunnur barna sé gríðarlega mikilvægur. Börnin sem eru í fósturkerfinu koma úr erfiðum aðstæðum og hafa átt erfitt og þau vantar oft grunnþætti úr uppeldinu.

S: Það hjálpar allt en ég hef oft hugsað hvort það sé nóg að koma inn þegar börnin eru orðin stór. Komast þau yfir allt sem þau hafa að baki?

Á: Örugglega ekki alveg en auðvitað hjálpar allt. Ég hef einungis góða reynslu af barnaverndarkerfinu sem slíku. Það hefur verið erfitt og sárt að láta börnin frá sér en mér hefur alltaf fundist fólkið sem hefur unnið við þetta vera með okkur í liði.

S: Það hefur stutt okkur mikið með börnin, hjálpað okkur þegar það hefur verið erfitt og sagt okkur að við séum að gera rétt

Ágúst og Sæþór skoðuðu möguleika á ættleiðingu frá Bandaríkjunum, heimalandi Sæþórs, en gáfust fljótlega upp á því vegna gríðarlegs kostnaðar og lagalegra erfiðleika við að skrásetja barnið á Íslandi.

S: 100.000 börn í Bandaríkjunum bíða ættleiðingar en kostnaðurinn er gríðarlegur. Bandaríkjamenn fá hluta af kostnaðinum greiddan til baka í skattaafslætti en við borgum náttúrulega skatta á Íslandi þannig að það hefði aldrei komið til baka til okkar.

Ótrúleg heppni

Sæþór bjó til aðgang að breskri heimasíðu þar sem fólk getur annars vegar fundið eggja- og sæðisgjafa og hins vegar komist í samband við annað fólk sem er einnig að reyna að eignast börn. Hann var að leita að íslenskri konu á síðunni í þeirri von að þeir gætu kynnst konu sem vildi eignast með þeim börn. Því miður fundu þeir eingöngu konur sem voru að gefa egg en vildu ekki ganga með barn. Hins vegar hafði áströlsk kona að nafni Lauren samband við þá í gegnum heimasíðuna. Hún var búin að eiga þau börn sem hana langaði til að eiga en vildi ganga með annað barn. Þau áttu upphaflega í samskiptum í tölvupósti og á Skype en að lokum kom hún í heimsókn til Íslands til að sjá hvort það væri góð tenging þeirra á milli og hvort þau vildu gera þetta saman.

S: Þetta var eins og að hitta gamlan vin frá fyrsta degi. Við erum með líkan bakgrunn úr kirkjusamfélagi, hún frá Ástralíu og ég frá Virginíu, og bæði vorum við með vonda reynslu af því.

Á: Þetta var gert með öllum fyrirvörum til að byrja með en svo kom hún í heimsókn og það var frábært.

S: Þetta var alvöru samband. Ég vildi ekki eignast barn með staðgöngumóður þar sem við myndum borga henni peninga og svo yrði ekkert meir. Við erum að gera þetta saman.

Lauren vildi aldrei skrifa undir neina pappíra eða tala um peninga. Hún vildi að það væri mjög skýrt að þetta snérist um tengsl þeirra á milli og hlakkaði til að fjölskyldurnar þeirra tengdust. Hún átti fyrir fjórar stelpur í Ástralíu og vildi að Sæþór og Ágúst tækju að sér forsjá þeirra ef eitthvað myndi klikka í fæðingunni. Það voru einu pappírarnir sem voru undirritaðir um þessa tengingu. 

Þegar Lauren var á Íslandi hefði hún átt að vera á réttum stað í tíðahringnum en langar flugferðir og álag á líkamann snéri öllu við þannig að svo fór ekki. Næst ákváðu þau að hittast í Ástralíu. Þau áttu saman jól á ströndinni en ekki gekk að geta barn í þeirri tilraun. Næst fór Ágúst einn út til Ástralíu og þá gekk það. Fyrstu sex mánuði meðgöngunnar var Lauren í Ástralíu en Sæþór og Ágúst voru heima á Íslandi. Síðustu þrjá mánuðina fór Lauren svo í ferðalag um Evrópu með það að markmiði að enda hjá þeim á Íslandi seinasta mánuðinn.

S: Í þrjár vikur á ferðalaginu var hún netlaus og við heyrðum ekkert í henni. Það var mjög stressandi.

Á: Hún er mjög áhyggjulaus týpa og vissi ekki að við værum skíthræddir um hana.

Lauren valdi heimafæðingu svo að Sæþór og Ágúst fóru og fundu heimafæðingarljósmóður fyrir hana sem reyndist þeim mikill stuðningur. Lauren átti Daníel Val í stofunni heima hjá þeim og þeir eignuðust son.

alex3Viðtökur í kerfinu
Á: Þetta er í raun meðhöndlað í kerfinu sem framhjáhald. Við vorum giftir og ég eignaðist barn með konu. Lauren fékk forræði yfir Daníel og við þurftum að sanna að hún væri ekki gift. Hefði hún verið gift hefði maðurinn hennar haft helmingsforsjá yfir Daníel þrátt fyrir að hann ætti ekkert í honum. Við fórum til sýslumanns og sóttum um breytingu á forsjá og Lauren fór daginn eftir heim til Ástralíu. Þetta hafði örugglega ekki gerst áður því að það er mjög óvenjulegt að kona gefi eftir forsjá barns. Venjulega er þessu öfugt farið.

S: Mér fannst þetta hómófóbískt ferli. Þegar þau komu til að breyta forsjánni voru þau viss um að þetta ætti að vera öfugt og við fengum öðruvísi meðhöndlun í kerfinu en aðrir. Ef við hefðum verið að breyta skráningu í hina áttina, það er að segja að hún fengi 100% forsjá, hefðum við ekki séð þau meir. Við hefðum fengið stimpla á blað og labbað út en af því að við vildum forsjá varð þetta meiriháttar ferli.

Á: Það þurfti að fara fram mat og umsögn frá sálfræðingi um það hvort þetta væri barninu fyrir bestu. Sálfræðingurinn spurði hins vegar einungis um ástæður okkar fyrir barneignum en ekki um líðan og velferð barnsins. Í skýrslunni okkar stóð hins vegar að það væri grunur um eitthvað ólöglegt (staðgöngumæðrun) svo að kannski var þetta það mildasta sem þau gátu gert.

S: Það er samt verið að koma öðruvísi fram við okkur en aðra. Sami aðili hringdi bæði í ljósmóðurina okkar og heimahjúkrunarfræðinginn til að reyna að fá þær til að segja orðið staðgöngumóðirsem hefði orðið til þess að við lentum í vandræðum.

Þetta varð til þess að Ágúst og Sæþór gátu hvorki fengið heilsutryggingu né vegabréf fyrir Daníel til að byrja með. Það hefði skapað vandræði ef eitthvað hefði komið upp á en það gerðist sem betur fer ekki.

S: Okkur langaði til að fara með hann út til foreldra minna en gátum hvorki gert plön né sótt um ríkisborgararétt fyrir hann til að byrja með.

S: Þetta er augljóst þegar um 100% staðgöngumæðrun er að ræða. Maður fer til læknis, það eru notuð egg frá annarri konu, staðgöngumóðurinni er borgað fyrir og það er mikil gagnaslóð. Svo eru dæmi um konu sem verður ólétt eftir mann, kynnist öðrum manni og ákveður að ala upp barnið með honum með samþykki allra. Það er í raun eins og við erum að gera. En hvar er línan? Hvenær verður þetta staðgöngumæðrun? Þegar það er læknir sem býr til barnið? Er það þegar þú notar egg úr annarri konu eða þegar henni er greitt fyrir? Eða er það af því að í þessu dæmi eru við tveir karlmenn? Hvað með samkynhneigða vini sem eignast börn saman?

Á: Það er svo sem dómstóla að ákveða það. Við vildum reyndar flytja út til Ástralíu til að vera nær Lauren en það er erfitt að komast inn í landið. Daníel Valur fengi ríkisborgararétt en ekki við.

Lauren er skráð móðir Daníels á pappírum þó að Sæþór og Ágúst séu með forræði og þeir ráðfæra sig við hana. Þau hafa samband, hún fylgist með drengnum og þó að hann kalli hana mömmu er hún eins og frænka hans. Lauren þurfti að gefa umsögn til að Sæþór fengi forsjá yfir Daníel. Sæþór er ekki búinn að ættleiða Daníel Val en er með sameiginlegt forræði yfir honum. Ættleiðing var einfaldlega meira vesen og þeir sáu ekki ástæðu til þess.

S: Við erum að reyna að kaupa lóð nálægt Lauren svo við getum byggt hús fyrir Daníel Val í framtíðinni og átt stað til að búa á nálægt henni þegar við erum í heimsókn.

Fleiri fósturbörn

Þegar Daníel Valur var tveggja ára fengu Ágúst og Sæþór símtal frá Barnaverndarstofu og þeim var boðið að taka í fóstur 17 ára strák sem hefur núna búið hjá þeim í tvö ár. Hann fékk framlengingu í fósturkerfinu til tvítugs og kaus sjálfur að vera áfram hjá þeim. Barnavernd er með forsjá yfir honum en Sæþór og Ágúst eru umönnunaraðilar. Þeir sáu fyrir sér að geta stutt hann og komið honum inn í fullorðinsárin en þetta er oft viðkvæmur tími hjá fósturbörnum sem eiga það á hættu að þurfa að standa á eigin fótum við 18 ára aldur þegar þau detta út úr fósturkerfinu.

Á: Hann er sjálfstæður og fullorðinn og þarf miklu minna á okkur að halda en áður. Það var erfitt áður en hann var 18 ára því að ég hafði stöðugar áhyggjur af honum en átti erfitt með að skipta mér mikið af honum. Ég var alltaf á tánum og að hringja í hann. Svo jafnaði það sig, hann róaðist inn í aðstæður, varð 18 ára og þar með sjálfstæður. Við erum ekki að reyna að stjórna honum lengur.

S: Við prófuðum að gera meira með honum fyrst þegar hann kom, reyndum að kenna honum að elda og svona. Okkur langaði að vera meira eins og pabbar hans en hann vildi það ekki. Það var orðið of seint fyrir það, hann var orðinn fullorðinn.

Á: Hann hefur alltaf verið mjög góður, vinalegur og fínn að öllu leyti. Við erum að reyna að hjálpa honum að verða fullorðinn, búnir að kenna honum að þvo sinn eiginn þvott og svona. Ég sagði honum þegar hann varð 18 ára að ég myndi ekki gera það lengur. Það er ábyrgt að kenna honum að sjá um sig.

Nú er í vinnslu fyrsta ættleiðing hinsegin foreldra á Íslandi á barni frá öðru landi.

Hinsegin pör hafa áður sótt um að fá að ættleiða en Íslensk ættleiðing hefur aldrei áður átt í formlegu sambandi við land sem leyfir ættleiðingar til hinsegin fólks. Við hittum Kristin Ingvarsson, framkvæmdastjóra Íslenskrar ættleiðingar, og spurðum hann um stöðuna í dag og hvers vegna ekkert hafi gerst fyrr en árið 2018.

Fyrsta hinsegin ættleiðingin frá öðru landi

Til þess að hægt sé að ættleiða börn frá öðru landi þarf að huga að ýmsu. Fyrst er sótt um hjá Íslenskri ættleiðingu, starfsfólkið þar sendir pappíra til sýslumanns sem sendir gögn til barnaverndar. Barnavernd gerir úttekt á umsækjendum og sendir hana til sýslumanns sem tekur síðan afstöðu. Þetta er kallað forsamþykki. Á Íslandi hafa hinsegin pör getað ættleitt frá árinu 2006 en upprunalöndin hafa ekki heimilað það, því fæst lönd leyfa hinsegin fólki að ættleiða börn.

Þar til fyrir tveimur árum var Suður-Afríka eitt af örfáum löndum sem leyfði hinsegin pörum að ættleiða börn. Mörg ár eru síðan Ísland sótti um ættleiðingarsamning við Suður-Afríku en umsóknin hefur ekki verið tekin til greina, líklega hefur ekki verið þörf fyrir nýja ættleiðingarsamninga þar í landi. Samtökin ‘78 og Íslensk ættleiðing hafa átt fulltrúa í samvinnuhópi sem hefur unnið að þessum málum en lítið hefur áunnist þar vegna stöðunnar á alþjóðavettvangi.

Suður-Ameríka breytir um takt

4. nóvember 2015 kvað Hæstiréttur Kólumbíu upp dóm um að hinsegin fólk mætti ættleiða og það gerðist áður en hjónabönd samkynja para voru leyfð í landinu. Það þýðir að ekki má gera upp á milli samkynja og gagnkynja para við ættleiðingu. Fyrsta hinsegin parið til að ættleiða frá Kólumbíu var frá Svíþjóð. Nú eru allavega tvær ættleiðingar komnar í gegn í Svíþjóð og ættleiðingarfélög í Kólumbía er búin að gefa það út að hinsegin fólk megi ættleiða.

Kristinn: Einhverra hluta vegna fer eitthvað að gerast í Suður-Ameríku. Nokkur lönd eru búin að opna á ættleiðingar samkynja para innanlands. Ég held að þetta byrji þannig. Svo ef þörfin skapast fer þetta inn í löggjöfina gagnvart ættleiðingum erlendis. Allt í ættleiðingamálaflokknum tekur tíma.

Og er ekki allt að fyllast af umsóknum hjá ykkur?

Kristinn: Nei, það kom mér mjög á óvart vegna þess að við erum búin að upplifa mikla pressu að koma á ættleiðingarsambandi við lönd sem leyfa ættleiðingar til hinsegin fólks en svo er enginn að sækja um hjá okkur eftir að við settum út frétt um að það væri komið í gegn.

Nú er komið ár síðan að Íslensk ættleiðing gaf út að ættleiðingar til samkynja foreldra væru leyfðar í Kólumbíu og eitt par, tveir karlmenn, er búið að sækja um. Þeir eru staddir á fyrsta stigi ferlisins sem er að fá forsamþykki hérna heima áður en hægt er að para þá við barn í Kólumbíu. Það ætti ekki að vera nein fyrirstaða fyrir því og vonandi fá þessir menn að ættleiða sem allra fyrst.

Einhleypir

Öll lönd sem Ísland á í ættleiðingar- sambandi við leyfa ættleiðingar til einhleypra. Flest takmarka slíkt við einhleypar konur en sum lönd leyfa þó ættleiðingar til einhleypra karla, t.d. Búlgaría. Væri þá ekki hægt að fara inn í ferlið einn? Er einhvern tímann spurt um kynhneigð fólks?

Kristinn: Þegar fólk fer í ættleiðingarferli er rannsakað mjög ítarlega hvort það sé hæft til að ala upp barn. Fjárhagurinn er skoðaður, fjölskyldan, heimilið og allar aðstæður. Við höfum nokkrum sinnum fengið spurningu um hvort samkynja hjón gætu ekki bara skilið og sótt um sem einhleypir, en það er mjög hæpið að það kæmi aldrei fram í þessari rannsókn. Ég þekki ekki til þess hvort sé spurt um kynhneigð í úttekt barnaverndar. Í umsókn til upprunalands er á ný óskað eftir ítarlegum upplýsingum um umsækjendur, það er á endanum upprunalandið sem samþykkir umsókn umsækjenda á biðlista hjá sér. Svo er fylgst með áfram og reglulega sendar upplýsingar um hag og stöðu barnanna til upprunalandsins. Félagsráðgjafar koma í heimsókn og skrifa skýrslur sem eru sendar út. Það yrði kannski ekki brugðist við í fyrsta skipti en ef það væri ítrekað að koma upp að fólk væri að falsa stöðu sína til að eignast börn yrði klippt á samskipti á milli landanna.

Upprunalöndin reyna að kanna umsækjendur eftir bestu getu með því að óska eftir gögnum í umsóknarferlinu og eru það þeirra reglur sem ráða ferðinni. Til dæmis óska yfirvöld í Kína eftir því að einhleypar konur skrifa undir yfirlýsingu um að þær séu gagnkynhneigðar. Rússar slitu viðræðum við Íslenska ættleiðingu vegna þess að Íslendingar leyfa ættleiðingar til samkynja para.

Kristinn: Börn eiga rétt á að eiga foreldra, en fullorðnir eiga ekki rétt á að eiga börn. Ættleiðingar eru í grunninn barnaverndarmál. Hagsmunir barnsins eru í fyrirrúmi og eru öll lög, reglugerðir, samningar og sáttmálar um ættleiðingar með fókus á réttindi barnsins.

Ef við missum sjónar á því að tala um hagsmuni barnsins og förum að tala um réttindi umsækjenda hætta allir að hlusta á okkur. Upprunalandinu er alveg sama um væntingar umsækjenda. Þetta er barnaverndarmál hjá þeim og þeim er alveg sama þó að einhver út í heimi sé að bíða eftir barni. Við þekkjum það vel hvað það getur reynt á að geta ekki eignast börn ef maður þráir það, en eins og áður sagði, þá eigum við ekki rétt á því að verða foreldrar, barnið á rétt á foreldrum.