Lætur erfiðleikana styrkja sig

Ragnar Erling Hermannsson er fæddur í Reykjavík árið 1984. Hann byrjaði að mæta á fundi hjá HIV-Íslandi seint á síðasta ári, varð fljótt virkur á þeim vettvangi og er nú kominn í stjórn félagsins. Hann tók strax vel í bón ritstjóra um að deila reynslu sinni með lesendum og í eftirfarandi viðtali ræðir hann um það að greinast og lifa með HIV, samkynhneigð, einelti, neyslu og ekki síst trúna og sjálfsvirðinguna sem hann hefur nú fundið og metur mikils.

 

Einelti og sáluhjálparinn Tina Turner

Viltu byrja á að segja aðeins frá sjálfum þér, æskunni og uppvextinum?

Móðir mín var bara 16 ára þegar ég fæddist og faðir minn að verða tvítugur og við mamma bjuggum þess vegna hjá ömmu þangað til ég var þriggja ára. Fyrirmyndir mínar sem krakki voru amma mín og frænkur og ég varð eiginlega svona lítil kerling. Það var ekki séns að fá mig til að leika við hina krakkana inni í herbergi, ég vildi bara sitja við eldhúsborðið og hlusta á kjaftaganginn. Ég apaði mikið eftir þeim og í skólanum varð ég fyrir miklu einelti af því að þetta var mitt norm, ég trúði því að svona hagaði fólk sér. Ég talaði skringilega og var líka þybbinn og ofan á allt annað var ég eldheitur Tinu Turner-aðdáandi. Hún var svona minn sáluhjálpari. Þegar ég kom heim úr skólanum og það var búið að leggja mig í einelti allan daginn fór ég og skellti Tinu Turner í tækið og hélt heilu tónleikana. Það hjálpaði mér rosalega mikið og ég hlusta ennþá á hana daglega.

Í uppreisn gegn sjálfum sér

Fólk hefur sagt að ég hafi verið fyrirferðarmikill og þurft mikla athygli og ég upplifði mikla óþolinmæði gagnvart mér. Mér fannst ég vera öðruvísi og ég fór að trúa því sem aðrir sögðu við mig þegar ég var lagður í einelti. En um kynþroskaaldurinn tók ég ómeðvitaða ákvörðun um að ég ætlaði að sýna þessu fólki að það væri ekki rétt það sem það var að segja. Ég tók í rauninni ákvörðun um að vera ekki ég sjálfur. Ég fór til að mynda með allt Tinu Turner-safnið mitt niður í Kolaport og seldi það á fimmtíukall. Ég gerði uppreisn gegn því sem ég var og þá byrjaði ég í áfengis- og fíkniefnaneyslu. Ég drakk fyrst 13 ára gamall. Vímuefnin gerðu rosalega mikið fyrir mig, kvíðinn slokknaði og óttinn líka og mér fannst ég loksins falla inn í hópinn. Það komst í rauninni ekkert annað að í mínu lífi en neysla. Framtíðarplön og menntun voru ekki inni í myndinni því það var full vinna að djamma og flýja raunveruleikann. Það var svo mikið tómarúm sem þurfti að fylla – það var svo vont að vera ég.

Ragnar Erling Hermannsson
Ragnar Erling Hermannsson

Leit að sjálfsvirðingu

Komstu út úr skápnum á þessum tíma?

Þegar ég kom út úr skápnum árið 2003 opnuðust himnarnir fyrir mér. Mér fannst það æðislega gaman og ég fór mikið út að skemmta mér. Ég var aðalglamúrpían! Stjórnleysi hefur samt alltaf verið mjög viðloðandi við mig, bæði í hegðun og hugsun og í sambandi við aðra. Ég hef til að mynda aldrei átt kærasta og ég skil það í dag, af því að ég var mjög stjórnlaus, í neyslu og ekki mjög aðlaðandi.

Ég fór í meðferð á Vog þegar ég var 19 ára og svo fór ég í Götusmiðjuna í langtímameðferð þegar ég var tvítugur. Þar heyrði ég fyrst talað um orðið „sjálfsvirðing“ og að þá sem dópuðu og drykkju mikið skorti sjálfsvirðingu. Þá fór ég mikið að velta þessum hlutum fyrir mér og hef gert síðan. Ég var edrú í tvö ár eftir að ég kom úr Götusmiðjunni, 2005–2007, en svo datt ég í það aftur. Ég var erlendis í nokkur ár en þegar ég kom heim aftur fór ég inn á Krýsuvík í vímuefnameðferð og þar tókst mér í fyrsta skipti að byggja upp þessa sjálfsvirðingu sem ég hafði verið að velta fyrir mér lengi hvernig ég ætti að eignast.

Veikur af alnæmi

Ég var alltaf rosalega hræddur við HIV og ef ég fékk blett á húðina hugsaði ég alltaf fyrst um það. Ég vissi samt í rauninni ekki mikið, til dæmis þekkti ég ekki muninn á HIV og alnæmi. Ég vissi bara að fólk dó. Ég smitaðist sjálfur erlendis og varð rosalega veikur. Ég hafði oft farið í test en á meðan ég var úti þorði ég það ekki. Það var ekki fyrr en ég var orðinn fárveikur að ég var settur í test. Ég var á spítala í tvo mánuði af því að ég var í rauninni kominn með alnæmi.

Varstu þá búinn að vera lengi með HIV-veiruna?

Já. Læknirinn talaði um fimm ár en það var nú ekki svo langt því ég fór í test þremur árum áður og það var neikvætt. En ég hafði verið í mikilli neyslu og það ýfir upp sjúkdóminn. Ég hafði farið til læknis þrisvar eða fjórum sinnum, úrvinda af veikindum, en þeir létu mig bara fá sýklalyfjasprautu í rassinn og vökva í æð og sendu mig svo heim. Það var ekki fyrr en mér var ýtt inn á spítalann í hjólastól að ég var settur í test. Ég var kominn með bletti á húðina og allan pakkann. Ég hef aldrei verið svona veikur, þetta var hræðilegt. Ég var orðinn 70 kíló en mín meðalþyngd er 90 kíló, ég var ekkert nema skinn og bein. Ég var bara að deyja.

Veirulaus og fílhraustur

Hvernig fór meðferðin fram?

Læknarnir úti björguðu mér. Þegar ég kom heim fór ég svo beint í meðferð á A3 á Landspítalanum í Fossvogi. Ég fór á Atripla lyfið en í dag er ég á þremur tegundum af lyfjum af því að ég er með aðra týpu af veirunni sem finnst ekki hér heima af því að ég smitaðist úti. Meðferðin hefur gengið ofboðslega vel og ég svaraði lyfjagjöfinni strax mjög vel. Ég var orðinn nokkuð góður 3-4 mánuðum eftir að ég kom heim og veirulaus eftir aðra 3-4 mánuði. Læknirinn minn, Sigurður Guðmundsson, segist sjaldan hafa séð nokkurn taka svona vel á móti meðferð. Ég finn ekki í dag að ég sé með neinn sjúkdóm. Ég er fílhraustur og spriklandi í ræktinni og finn ekki fyrir neinu!

Trúin og samkynhneigðin

Þú segist hafa unnið mikið í þínum málum með hjálp trúarinnar. Hafa komið upp vandamál í sambandi við þína trú og samkynhneigð?

Þegar ég var úti bjó ég um tíma á kristilegu meðferðarheimili þar sem mér var sýndur mjög mikill skilningur, þolinmæði og kærleikur. Ég var í miklum andlegum pælingum og hafði mikinn tíma til að pæla í hvernig landið lægi. Sá sem rak heimilið var prestur, ofboðslega kærleiksríkur maður. Hann sagði alltaf við mig: „Ef þú ætlar að vera hommi þá vona ég að þú verðir hamingjusamur hommi.“ Ég á þessum manni mjög mikið að þakka og verð bara klökkur þegar ég tala um það.

Það var auðvitað ekki sömu sögu að segja af öllum. Ýmsar kirkjur og trúarhópar komu inn á heimilið utan úr bæ og predikuðu að við færum til helvítis og allt það. Ég bjó þarna í fjögur ár og það er skiljanlegt að ég hafi orðið mjög ringlaður. Ég vissi ekki hvað var rétt. Eitt kvöldið sat ég undir kastaníuhnetutré og var í miklum andlegum þönkum. Ég var mjög einlægur og talaði við guð og bað hann að taka þetta frá mér ef þetta væri svona ofboðslega rangt.

Í dag trúi ég tvímælalaust á æðri máttarvöld. Ég trúi því að ef ég dæmi ekki aðra og ef ég reyni bara að koma fram við aðra eins og ég vil láta koma fram við mig, þá leyfi guð mér að vera sá sem ég vil vera. Það eru mín skilaboð til hinsegin fólks, af því að ég veit að margir eru með komplexa varðandi Biblíuna og guð. Ég gat ekki séð þegar ég las guðspjöllin að Jesú talaði sjálfur gegn samkynhneigð. Þeir einu sem Jesú dæmdi voru hræsnararnir og þeir sem voru að kenna vitlaust. Ég set ekki samasemmerki á milli þess sem Jesú boðaði og þess þegar einhver segir við mig að ég muni fara til helvítis. Ég trúi því að líf mitt í dag sé sönnun þess að guð sé ekki á móti samkynhneigð, því ef hann væri það væri líf mitt ekki jafn gott og það er.

Sjálfsfordómar

Hefurðu fundið fyrir fordómum í þinn garð eftir að þú greindist með HIV?

Ég var með mikla fordóma gagnvart sjálfum mér eftir að ég greindist með HIV en núna hef ég komist að því að maður er fyrst og fremst að dæma sjálfan sig þegar maður er að pæla í því hvað öðrum finnst. Silla félagsráðgjafi [Sigurlaug Hauksdóttir, yfirfélagsráðgjafi hjá sóttvarnasviði Landlæknisembættisins] var búin að hvetja mig til að mæta á fundi hjá HIV-Íslandi en ég sagðist ekki hafa neitt með það að gera. Ég var lengi á því að ég ætlaði að heiðra minningu þeirra sem dóu með því að vera ekkert að kvarta og fara í einhver samtök. Ég komst svo að því að ég var stútfullur af fordómum gagnvart sjálfum mér, fór að mæta á fundi og nú er ég kominn í stjórn félagsins!

Ég trúi því að við höfum um tvennt að velja þegar eitthvað svona gerist, hvort sem það er HIV eða alkóhólismi eða eitthvað annað sem við ráðum ekki við: að skríða undir sæng eða láta erfiðleikana styrkja okkur. Það er ekkert alltaf auðvelt en ég hef tekið þá ákvörðun að nýta mér þetta og taka þátt í þessu starfi til að hjálpa mér og öðrum.

Skemmtanalífið

Áður fyrr fór ég mikið á skemmtistaði og fannst gaman að fara með einhverjum heim en ég geri mér grein fyrir þeim takmörkunum sem mér eru settar í dag. Ég get ekki neitað því að ég hef fundið mikið fyrir því. Þetta eru samt mest takmarkanir sem ég hef sjálfur sett mér því læknirinn minn segir mér að ég sé ekki smitandi. En ef við horfum á jákvæðu hliðarnar; langar mig ennþá að stunda skyndikynni? Ég er kominn á það stig í dag að mig langar ekkert til þess. Síðan ég kom heim hef ég ekki farið mikið á skemmtistaði en hef mest verið að einbeita mér að mínum bata frá áfengi og fíkniefnum.

Ég hef persónulega ekki fundið fyrir áþreifanlegum fordómum gagnvart mér. Ég er mest í kringum skilningsríkt fólk sem er að reyna að koma sér út úr heimi fíknar. Í dag geri ég mikla kröfu um að líf mitt sé næringarríkt og ég er ekki í kringum fólk sem ég finn að gæti átt til einhverja svona fordóma.

Vill hjálpa öðrum

Að lokum, hvernig sérðu framtíðina fyrir þér?

Mjög bjarta! Ég er í dag í fyrsta sinn að elta drauma mína í tónlist. Ég sé fyrir mér í framtíðinni að ég geti notað mína reynslu til að hjálpa öðrum, sérstaklega einmitt hvað varðar að víkka sýn fólks. Ég skora á fólk að leita sér þekkingar í stað þess að dæma fólk, því með því að dæma aðra erum við að dæma okkur sjálf í leiðinni.