Ljóðasamkeppni Hinsegin daga var haldin í sjöunda skiptið í sumar, en samkeppnin hefur verið fastur liður í hátíðarhöldum Hinsegin daga frá árinu 2016. Markmiðið er að gefa hinsegin röddum rými og hefja upp hinsegin ljóð og skáldverk. Alls bárust 39 ljóð í keppnina í ár, en dómnefnd fer yfir allar innsendar tillögur nafnlaust. Í dómnefnd sátu Viðar Eggertsson, Ásta Kristín Benediktsdóttir og Harpa Rún Kristjánsdóttir.
1.sæti: III ástarljóð
Gunnlaugur Bjarnason
Umsögn dómnefndar:
Ástarljóðin þrjú sem standa hér saman undir hæverskum en lýsandi titli og rómversku tölunum I, II og III eru áhrifamikil í einfaldleika sínum. Í því fyrsta er teflt saman endurtekningum og þversögnum en í öðru ljóðinu er skipt um gír, myndmálið er litríkt og vaggandi þar sem gluggakistur verða fjársjóðskistur er geyma ævintýri en sigla líka með elskendurna á framandi slóðir. Í síðasta ástarljóðinu er ástinni líkt við lífrænt efni sem heldur lífkeðjunni gangandi jafnvel eftir dauðann. Ljóðabálkurinn myndar þannig þrívíða lýsingu á ástinni sem flestir lesendur geta tengt við.
III ástarljóð
I
.
Þú ert lýrísk dramatísk
með stórar hendur
en feita fingur
Þú ert lýrísk dramatísk
með breitt bros
en litla spékoppa
Þú ert lýrísk dramatísk
með mikið hár
en mjóar augabrúnir
Þú ert lýrísk dramatísk
með stóra vöðva
en lítið þol
Þú ert lýrísk dramatísk
með mikinn neista
en lítinn eld
Þú ert lýrísk dramatísk
með sterka rödd
en veikt hvísl
Þú ert lýrísk dramatísk
með stór augu
en lítið blik
Þú ert lýrísk dramatísk
með harðan skráp
en mjúka miðju
II
Ég smíðaði fyrir þig glugga
Tvöfalt gler
svo þér verði ekki kalt
opnanlegt fag
til að hleypa loftinu inn
og það sem mestu máli skiptir
Stór og djúp gluggakista
sannkölluð fjársjóðskista
þar sem við getum setið
meðan við dáumst að því sem
fyrir okkur ber
Mig dreymir um að fara með þér um álfurnar
láta okkur reka um höfin í kistunni
eins og konungsbörnin í sögunni
Þegar við viljum morgunmat
siglum við upp Signu
og stoppum í bakaríi í París
Þegar við viljum sofa aðeins lengur
látum við okkur bara reka á önnur tímabelti
þar sem er ennþá nótt
Og
þegar við viljum gera það
drögum við bara fyrir
III
ég gaf þér
appelsínu
gult blóm
appelsínu
gul rós
þú fékkst hana
bara fyrir að vera
þú
dagarnir liðu
og rósin drakk
blómið stækkaði
þangað til
hún dó
eins og öll
svona blóm
eiga að gera
og þá settirðu
hana í lífræna ruslið
þannig að það gæti
eitthvað nýtt sprottið
upp
af þessari rós
þú kvaddir svo með rauðu blómi
ég klippti af því
hausinn
lagði hann
í stóra bók
til að þurrka
og eiga
að eilífu
þegar ég opnaði bókina
hrundu blöðin niður
og eina sem var eftir
blóðblettur
á kaflaskilum
2. sæti: Jafnvel þó þú sjáir mig ekki
Carlos
Umsögn dómnefndar:
Hér takast á andstæður, hávaði í þögninni, skuggar í ljósinu, sem gerir ljóðmálið gríðarlega sterkt. Ljóðmælandi er rödd hinna ósýnilegu, stríðshrjáðu og gleymdu. Rödd ljóðsins hrópar frá öllum þeim sem hafa hildi háð, í von um þau sjálfsögðu mannréttindi að fá að lifa í friði, þá, nú og alla tíð.
Jafnvel þó þú sjáir mig ekki
Þú ferð út á götuna
eins og hvern annan dag
fréttirnar fjalla um stríðin og þú grætur
ég er hér en þú sérð mig ekki
þú lokar augunum en ég er hér enn
jafnvel þótt þú viljir ekki sjá mig.
Ég flakka, leita að brosi
sem getur róað dapurt hjarta mitt
það er þreytt á að berjast
fyrir landið sem ég fór frá
fyrir fólkið sem ég missti
ég ekki vil leika með sprengjur aftur.
Ég er skuggi án nafns eða framtíðar
þeir tóku það af mér með valdi
nú ég er ósýnilegur fyrir öllum
á stað sem mér finnst skrítinn.
Héðan get ég séð reykinn
af fortíð sem brenndi húð mína
sama hversu langt í burtu ég er
ég finn ennþá fyrir sársauka
sársaukinn af ánni sem blæðir
undir himni án sólar og friðar.
Þú gerðir það sem þú gast
þú ert með hreina samvisku
en bráðum munu þau kasta mér
í gleymskuna, eins og rusl
Ég mun fara og aðrir munu koma
kannski breytist allt, en ekki fyrir mig
örlög mín eru þegar skrifuð
og þú vilt samt ekki sjá mig
án þess að vilja sjá veruleika
heims sem ég fann ekki upp
af lífi sem ég valdi ekki að lifa.
3. sæti: Þriggja ljóða samstæða: Bragfræði, Sjávarföll, Marmari
Þorvaldur S. Helgason
Umsögn dómnefndar
Þriggja ljóða samstæða. Í fyrsta ljóðinu, Bragfræði, eru meitluð, og um leið kunnug skref, tekin í líkingamáli sem þó verða fersk í einfaldleika sínum. Í öðru ljóðinu, Sjávarföll, fer ljóðmælandinn enn lengra og finnur orðum sínum stað á óvæntan hátt en þó af yfirveguðu og umfram allt skáldlegu öryggi. Í þriðja og síðasta ljóðinu, Marmari, er hugsunin meitluð í fegurstu steintegundina og lýkur þannig glæsilega. Samstæðan hefur það til að bera sem siglir ljóðum örugglega í höfn eftir úfinn sæ: Einfaldleiki. Sköpun. Fegurð.
bragfræði
ég vil þig
eins og saumnál vill þráð
húðin þín
er perlufesti
samofin svita og bleki
ferðalagið frá barmi að nafla
bara nokkrar hendingar
ég vil þig
eins og penni vill blek
líkaminn er óskrifað blað
en þú ert uppkast
að heilli ljóðabók
hriktir í stuðlum
eyrun full af hástöfum
sjávarföll
ef ég væri frumlegra skáld
myndi ég líkja tilfinningunni við eitthvað óvænt og sértækt
kríur að hausti að búa sig undir langflugið til Suður-Íshafsins
einmana jöklasóley í blindbyl uppi á hálendi
eða mótorhjól um miðja nótt, tætandi upp malbikið
á bílaplaninu hjá Byko á Granda
en það eina sem hún minnir mig á eru sjávarföllin
sem koma og fara eins og þeim sýnist
skola stundum hlutum á land
upplituðum fiskikörum og veðruðum stígvélum
eins og áminningu
um allt það sem við þykjumst ekki sjá
en þurfum að takast á við
skola stundum hlutum á haf út
molnandi ígulkerjum og rotnandi fuglshræjum
eins og áminningu
um allt það sem við getum ekki horft fram hjá
en verðum að leggja til hliðar
ligg í hálfu rúmi og hlusta
fjarar inn, fjarar út
marmari
þegar myndhöggvarar horfa á marmarablökk
sjá þeir fyrir sér styttuna inni í steininum
sumar manneskjur
sjá líkama sinn á sama hátt
þær eru þarna innst inni
og stundum
þarf bara að höggva burt grjótið
til að komast nær hjartanu