Lítið teymi skapandi ungmenna hefur nú hafið störf hjá Hinsegin dögum, en þeirra hlutverk er að skapa og flytja listræna gjörninga á hátíðinni í ár. Þátttakendur í verkefninu Litróf: skapandi sumarstörf hinsegin ungmenna, eru á aldrinum 14-17 ára og koma úr öllum áttum hinna skapandi greina; spila á hljóðfæri, dansa, stunda leiklist, teikna, farða, skrifa og pæla. Það verður þeirra að ákveða hvað þau taka sér fyrir hendur, undir styrkri leiðsögn Kimi Taylor, sem er hinsegin uppistandari og listakona.
Fyrsta deginum sínum vörðu listastálpin í að kynnast hverju öðru, skoða væntingar sínar og horfa á hinseginleikann frá linsu símamyndavélarinnar. Við hlökkum til að sjá hvað þessi skapandi ungmenni hafa á prjónunum fyrir okkur í ágúst!
Verkefnið er styrkt af Barnamenningarsjóði Íslands.