„Þjóðfélag sem sýnir ekki mennsku er á vondum stað“

Í tilefni afmælis Hinsegin daga er viðeigandi að líta til baka og hugsa um fólkið sem kom okkur á þann stað sem við erum á í dag. Samfélagið hefur gjörbreyst til hins betra en það sem okkur finnst sjálfsagt í dag hefur kostað þrotlausa baráttu.

Tótla I. Sæmundsdóttir fór og hitti Guðrúnu Ögmundsdóttur, eina af baráttukonunum okkar sem hefur staðið með hinsegin samfélaginu alla tíð.

Guðrún Ögmundsdóttir hefur átt margbreytilega og litríka ævi. Hún er þekktust sem baráttukona fyrir mannréttindum í störfum sínum sem félagsráðgjafi, þingkona og borgarfulltrúi auk þess að hafa unnið fyrir fjölmörg mannréttindasamtök eins og UNICEF og Alnæmissamtökin (HIV- Ísland). Hennar helstu málaflokkar hafa verið kvenréttindabaráttan og réttindi barna og fatlaðra en þar að auki hefur hún barist fyrir hinsegin réttindum áratugum saman. Hún talar frá hjartanu og leggur allt sitt í það sem hún trúir á.

Fálkaorða 17. júní 2019

Guðrún Ögmundsdóttir var sæmd riddarakrossi fyrir framlag í þágu mannúðar og jafnréttisbaráttu hinsegin fólks.

Ekkert eðlilegra

Á æskuheimili Gunnu, eins og hún er kölluð af flestum, var samkynhneigð sjálfsagður og eðlilegur þáttur í mannlífinu. Það var hommi í fjölskyldu hennar, frændi sem henni þótti dásamlega skrýtinn og hún elskaði. Hann gekk um með tösku og var alla tíð svolítið öðruvísi en aðrir. Það var einnig talað um lesbíur; það var eðlilegt og gerði ekkert til. Mamma Gunnu sagði stundum þessi væri svoleiðis og það væri allt í lagi með það. Gunnu finnst mikill gróði að hafa verið alin upp við gríðarlega víðsýni og þegar hún komst til vits og ára skildi hún að þetta var veröld sem átti jafn mikinn rétt á sér og hennar eigin. „Ástin spyr ekki hvers kyns þú ert. Fólk verður ástfangið og á að fá að vera það sjálft. Það á skilið að fá að vera í friði og það sé borin virðing fyrir því,“ segir hún og bætir við að hún hafi ákveðið að reyna að skilja fólk, hlusta á það og taka slaginn en fljótlega séð að það yrði erfitt.

Þekkingin heim

Gunna lærði félagsráðgjöf í Danmörku og þar bjó hún í kommúnu með Gísla manninum sínum, vinkonu sinni Ingibjörgu Sólrúnu og ýmsum öðrum. Hún kynntist mörgu hinsegin fólki í Danmörku og er sannfærð um að það hafi mótað viðhorf hennar til þessa hóps þar sem hún hafi tekið þar allt inn eins og svampur. Vinkonurnar, sem áttu seinna báðar eftir að verða áberandi í íslenskri pólitík, tóku heim með sér þekkingu og reynslu sem þær áttu auðvelt með að heimfæra á íslenskar aðstæður og voru ekki feimnar við að tala um það. Þær áttu báðar eftir að hafa mikil áhrif á réttindabaráttu hinsegin fólks og töluðu síðar hvor fyrir sínu frumvarpinu; öðru um staðfesta samvist og hinu um hjónaband samkynja para.

Konurnar í hreyfingunni

Það byrjaði allt þegar Gunna var ung kona í Rauðsokkahreyfingunni en rauðsokkurnar vildu að lesbíur ættu sitt pláss og athvarf innan hreyfingarinnar. Þegar þær fóru á kvennafundi erlendis hittu þær tugþúsundir lesbía og smátt og smátt opnaðist hugur þeirra og hjarta fyrir hinsegin konum. Á sama tíma voru þó ekki margar konur á Íslandi opinberlega lesbíur. Gunna hlær og rifjar upp þegar hringt var og spurt eftir lesbíum í Rauðsokkahreyfingunni. Þá var því svarað að því miður væri hún erlendis þar sem þá var einungis vitað um eina.

Kvennalistinn var stofnaður á grunni Rauðsokkahreyfingarinnar. Stefna hans var að gera konur sýnilegri í samfélaginu, stofna kvennaframboð og setja velferð barna í forgrunn. Kvennalistinn var einnig ein af fyrstu pólitísku hreyfingunum sem studdi mannréttindabaráttu samkynhneigðra, meðal annars var sérstakur kafli í stefnuskránni um réttindi þeirra. Gunna vill þó sérstaklega minnast Kristínar Kvaran frá Sjálfstæðisflokknum sem setti fyrst fram tillögu um afnám misréttis gegn samkynhneigðu fólki. „Það er mikilvægt að muna að þetta er mál sem gengur þvert á flokka og enginn einn á heiðurinn af því að lyfta þessu hlassi,“ segir Gunna.

Það voru þó ekki allir sammála um að baráttumál hinsegin kvenna ættu heima í hreyfingu Kvennalistans og sumir óttuðust að málefni þeirra yrðu of fyrirferðarmikil.

Staðfest samvist

Úr hátíðarræðunni 27. júní 2006:
Í dag eru tímamót. Tímamót þess að allir skulu jafnir fyrir lögum, hvern svo sem þeir kjósa að elska. Hommar og lesbíur fagna, þjóðin fagnar og unnendur mannréttinda og réttlætis fagna
… Umburðarlyndi og víðsýni er undirstaða allrar mennsku og menningar hjá einni þjóð. Mikil vinna er framundan þó svo að lagaleg staða sé nú í höfn.

Gunna er þekktust innan hinsegin samfélagsins sem talskona staðfestrar samvistar en það var ekki auðvelt að koma slíku máli í gegn og margir þyrnar voru á leiðinni. Árið 2003 bað hún um að gerð yrði skýrsla um sambúðarform fólks og í henni var réttindaleysi samkynhneigðra para í sambúð staðfest. Þau nutu engra réttinda í samanburði við gagnkynhneigð pör. Skýrslan var vel unnin og ítarleg og er enn þann dag í dag notuð þegar nánari skýringa á lögunum er þörf. Að sögn Gunnu var skýrslan notuð sem vopn eða tæki þegar búin var til nefnd sem átti að fara yfir málin. Sú nefnd var farsællega skipuð og meðal annars áttu Samtökin ʼ78 þar sinn fulltrúa, Þorvald Kristinsson. Vinna hópsins skilaði miklu efni sem lögfræðingar forsætisráðuneytis Davíðs Oddsonar unnu með þegar frumvarp um málið var samið.

„Þannig var svo hægt að mynda grunn til að búa til frumvarp til að rétta hlut samkynhneigðra. Þetta er eitt af þeim málum sem lýtur ekki pólitískum lögmálum; hvorki hægri né vinstri. Mál hjartans. Mál sem má ekki flýta um of og verður að vinna sig inn í sátt. Stærra en einhver einn því það varðar líf svo margra,“ segir Gunna.

Biskup Íslands, Karl Sigurbjörnsson, var mjög mótfallinn frumvarpinu sem gerði því erfitt fyrir. Í janúar 2006 lét hann hafa eftir sér í sjónvarpsviðtali: „Hjónabandið á það inni hjá þjóðinni að því sé ekki kastað á sorphaugana.“ Ekki var hægt að túlka ummælin á annan hátt en að hjónabönd hinsegin fólks gerðu hjónabönd gagnkynhneigðra merkingarlaus. Gunnu fannst hins vegar að kirkjan ætti að styðja við bakið á fólkinu sínu. Hún gerði það ekki þrátt fyrir að stór hluti þessa hóps væri í Þjóðkirkjunni. „Þjóðfélag sem ekki sýnir mennsku er á vondum stað,“ segir hún.

Þegar greiða átti atkvæði um málið á þinginu var Gunna stödd á Evrópuþinginu í Strassborg. Hún var spurð hvort hún vildi að atkvæðagreiðslunni yrði frestað þangað til hún kæmi heim en hún ákvað að gera það ekki. Þetta væri ekki hennar einnar og hún hefði trú á þinginu. „Ég treysti þeim til að ljúka þessu og kjósa fallega,“ segir hún.

Þegar hún kom svo heim var gaman að mæta á fagnaðarhátíðina en haldið var upp á lögin með hinsegin fólki og aðstandendum í Hafnarhúsinu. Geir Haarde, þáverandi forsætisráðherra, hélt ræðu til að fagna því að lögin hefðu gengið í gegn. „Mér fannst Geir sýna hvað hann var stór þá. Hann kom fram og sagði: „Þið eruð náttúrulega ekkert að bíða eftir mér, þið viljið sjá hana Gunnu.“ Svo bauð hann mér upp á svið þar sem ég hélt mína ræðu.“


Gunna hefur lengi verið áberandi í hinsegin samfélaginu og sýnt stuðning sinn í verki. Hún hefur verið ötul að mæta á samkomur og fögnuði á þeim vettvangi og hlustað á fólkið sitt. Hún er ein af þeim sem greiddi götu samfélagsins og stóð með því á erfiðustu tímunum þegar fólki var útskúfað fyrir að falla utan normsins. Hinsegin fólk á henni og öðru stuðningsfólki mikið að þakka og svo vitnað sé í hátíðarræðu hennar í Hafnarhúsinu: „Umburðarlyndi og víðsýni er undirstaða allrar mennsku og menningar hjá einni þjóð.“