Velkomin á Hinsegin daga 2020

Eitt meginmarkmið Hinsegin daga var og er að standa að Gleðigöngunni, göngu fagnaðar, sýnileika og baráttu. Í ár fögnum við tuttugu ára afmæli göngunnar og þeim skrefum sem tekin hafa verið í átt að bættum réttindum hinsegin fólks á Íslandi. Hverju einasta skrefi ber að fagna, hverju einasta skrefi fylgir stolt. Bak við hvert skref í rétta átt er fólk sem hefur þurft að berjast fyrir tilverurétti sínum, réttinum til að elska, réttinum til að lifa samkvæmt eigin kynvitund, réttinum til að vera til, réttinum til að fá að vera það sjálft án áreitis samfélagsins.

Gleðigangan er birtingarmynd þessara skrefa. Við göngum saman sem eitt en um leið fyrir alla. Ófá okkar hafa tekið síðasta skrefið út úr skápnum í Gleðigöngunni, gengið hnarreist til móts við framtíðina, stolt í eigin skinni, steytt hnefann á móti fordómum og gefið þrúgandi stöðlum samfélagsins fingurinn. Með hverju skrefi vonumst við til að útmá skömmina sem allt of oft fylgir hinsegin fólki. Skömminni yfir því að passa ekki inn í réttu boxin – að tilheyra ekki. Vittu til, þú tilheyrir svo sannarlega samfélagi hinsegin fólks sem sér þig og virðir.

Við tileinkum hátíðina í ár því fólki sem barist hefur fyrir réttindum hinsegin fólks og þorað að taka þessi mikilvægu skref. Við tileinkum þér hátíðina í ár.

Gleðilega hátíð!

Vilhjálmur Ingi Vilhjálmsson,
Formaður Hinsegin daga