Velkomin öll á Hinsegin daga í Reykjavík

Það hefur verið afar ánægjulegt að fylgjast með samfélaginu taka við sér á nýjan leik eftir vetrarkófið en vendingar undanfarinna vikna sýna okkur að tími samkomutakmarkana, óvissu og yfirvofandi smithættu er ekki með öllu liðinn. Undanfarið ár höfum við sjálfsagt öll fundið fyrir einhvers konar einangrun og saknað samverustunda og hversdagslegra hluta eins og að spjalla við fólk á förnum vegi eða hlusta á kliðinn inni á fjölsetnu kaffihúsi. Hjá mörgum rifjuðust upp erfiðar minningar um þann tíma þegar við börðumst við annars konar veiru. Blessunarlega er mannfallið hvergi nær í líkingu við það sem þá var. Þessi tími kófsins hefur einnig minnt okkur á hvað samfélagið okkar og samverustundir skipta miklu máli, að fá að vera innan um fólk sem maður samsamar sér með og finna fyrir því að maður tilheyri stærri heild.

Þema hátíðarinnar í ár er Hinsegin á öllum aldri. Aldursbreidd þeirra sem lifa sínu lífi, í stolti og út úr skápnum, hefur aldrei verið meiri. Með sýnileika, samtali og fræðslu um hinsegin málefni í samfélaginu höfum við skapað betri aðstæður fyrir börn og ungmenni til þess að koma fyrr út úr skápnum. Þau hafa frelsi til þess að átta sig á því hver þau eru og takast á við tilfinningar sínar í samtali við vini og fjölskyldu, sem er ómetanlegt. En við þurfum líka að huga að því að þau sem eru komin á efri ár ævi sinnar fái að eyða ævikvöldinu í gleði og stolti, geti tekið virkan þátt í félagslífi hinsegin fólks og hrökklist ekki aftur inn í skápinn vegna bágborinna aðstæðna og skilningsleysis á stofnunum og dvalarheimilum. Það er okkar að búa svo um hlutina að við öll getum verið við sjálf, frá æsku til elli.

Fyrir hönd stjórnar Hinsegin daga í Reykjavík vil ég bjóða ykkur hjartanlega velkomin á hátíðina. Að vanda er margt í boði á hátíðinni í ár, fræðsla, menning og skemmtun, auk þess sem vonir standa til að Gleðigangan hlykkist á ný í gegnum miðborgina. Í ljósi aðstæðna viljum við vekja athygli á dagskrársíðunni okkar, hinsegindagar.is/dagskra, þar sem hægt er að fylgjast með hvað er í gangi hverju sinni.


Sjáumst hýr og kát á Hinsegin dögum.

Ásgeir Helgi Magnússon, formaður Hinsegin daga, hann, 39 ára