„Við ætluðum ekki að víkja“

Stonewall-barinn við Christopher-stræti í júní 1969, á tíma óeirðanna. Í glugganum má sjá hvatningu frá Mattachine Society í New York um að hómósexúal fólk haldi ró sinni á götum Greenwich Village. Hin hófsama nálgun Mattachine Society hafði hins vegar engan hljómgrunn þegar þarna var komið sögu.

„Okkur leið öllum eins; við vorum búin að fá nóg af þessu kjaftæði. Það var ekkert sérstakt sem einhver sagði við einhvern annan, það var frekar eins og allt sem gerst hafði árin á undan hefði leitt til þess að það dró til tíðinda þetta ákveðna kvöld á þessum ákveðna stað og þetta voru ekki skipulögð mótmæli.

Allir voru samstíga í að snúa aldrei aftur til fyrri tíma. Þetta var kornið sem fyllti mælinn. Það var kominn tími til að endurheimta það sem alltaf hafði verið tekið frá okkur. Þarna var alls konar fólk og af alls konar ástæðum, þarna var botnlaus heift, reiði, sorg, allt í einni blöndu og allt fann þetta sér farveg. Lögreglan bar mesta ábyrgð á eyðileggingunni. Við vorum satt best að segja bara að reyna að komast aftur inn og verða frjáls. Og okkur leið eins og við værum loksins frjáls, eða að minnsta kosti hefðum frelsi til að sýna að við krefðumst frelsis. Við ætluðum ekki að ganga bljúg um í nóttinni og láta þá ýta okkur fram og til baka – í fyrsta skipti ákváðum við að nóg væri komið og við ákváðum það af öllu afli og þess vegna varð lögreglan svona undrandi. Það lá eitthvað í loftinu, frelsi sem var svo löngu tímabært og við ætluðum okkur að berjast fyrir því. Sú barátta tók á sig ólíkar myndir en niðurstaðan var sú sama hjá öllum: Við ætluðum ekki að víkja og við gerðum það ekki.“

Þessi orð eins fastagests Stonewall- kráarinnar í New York, Michael Faders, lýsa vel stemmningunni fyrir utan krána júnínótt eina fyrir 50 árum. Gestirnir neituðu að hlýða lögreglunni, sem hafði birst þar í þúsundasta skipti til að „sópa út“ þeim lýð sem hún taldi halda sig þar. En lýðurinn hafði fengið nóg, kastaði öllu lauslegu í lögregluna og krafðist þess að fá að vera í friði á sínum stað. En þótt mikill baráttuhugur hafi verið í gestum og óeirðir haldið áfram næstu daga óraði sjálfsagt engan þeirra fyrir því að síðar yrði oft vitnað til þessa kvölds sem upphafs virkrar baráttu fyrir réttindum hinsegin fólks, a.m.k. í Bandaríkjunum. Og áhrifanna gætti sannarlega víðar í hinum vestræna heimi.


Skáldið og homminn Allen Ginsberg fór á Stonewall-barinn kvöldið eftir uppþotið. Hann var uppnuminn yfir frelsisandanum: „Gay power! Er það ekki stórkostlegt! Það var kominn tími til að við stæðum með sjálfum okkur!“

Þegar hann gekk heim af barnum um kvöldið sagði hann við kunningja sinn: „Veistu, strákarnir þarna voru allir svo fallegir. Þeir eru ekki lengur með þennan særða svip, sem einkenndi alla hommana fyrir 10 árum.“

Óvænt árás eftir miðnætti

Stonewall-barinn við Christopher-stræti í New York var ekki merkilegt öldurhús. Þetta var lítill og þröngur bar, rekinn af mafíunni. Ekkert rennandi vatn var á barnum, salernin stífluðust í sífellu og enga neyðarútganga var þar að finna. Barinn hafði það þó fram yfir flesta aðra að þar var allt hinsegin fólk velkomið og þar mátti dansa. Kúnnahópurinn var reyndar ekki kallaður „hinsegin“ eða„queer“ fyrir hálfri öld. Þarna voru margir hommar og töluvert færri lesbíur, dragdrottningar fjölmenntu gjarnan og þangað sótti heimilislaust, ungt fólk, sem hafðist við í almenningsgarði stutt frá. Barinn var ekki með vínveitingaleyfi en það kom auðvitað ekki í veg fyrir að mafían seldi þar áfengi. Að nafninu til var Stonewall einkaklúbbur og látið var eins og gestir kæmu með sitt eigið áfengi. Meginbirgðir kvöldsins voru hins vegar gjarnan geymdar í bifreið einhvers staðar í nágrenninu til að koma í veg fyrir að lögreglan næði öllu saman þegar hún kæmi til að sópa út óþjóðalýðnum. Vikulegar mútugreiðslur til lögreglunnar komu í veg fyrir að eigendurnir væru sóttir til saka fyrir ólöglega sölu áfengis en kúnnahópurinn naut engrar verndar.

Vegna tengsla mafíunnar við lögregluna vissu eigendur Stonewall oftast nær hvenær búast mátti við henni á staðinn. En þennan dag, um kl. 1 eftir miðnætti aðfaranótt laugardagsins 28. júní 1969, voru eigendur og gestir hinir rólegustu.

Lögreglan hafði komið á staðinn fjórum dögum fyrr og yfirleitt lét hún sér nægja að koma mánaðarlega eða svo. Og þar að auki gátu menn verið nokkuð öruggir með að lögreglan léti ekki sjá sig eftir miðnættið. En nú brá nýrra við.

Í dæmigerðri rassíu lögreglunnar voru öll ljós á staðnum kveikt og viðskiptavinir urðu að raða sér upp og sýna lögreglunni skilríki. Þeir sem ekki höfðu skilríki voru handteknir. Og allir sem voru í dragi voru handteknir, hvað sem öllum skilríkjum leið. Konur og karlar urðu að sæta því að kannað væri hvort þau væru ekki í a.m.k. þremur flíkum sem hæfðu líkamlegu kyni þeirra, annars voru þau handtekin. Þau lög giltu raunar víðar en í New York að einstaklingum var bannað að klæðast fatnaði sem ekki passaði við líkamlegt kyn þeirra samkvæmt óskeikulu mati lögreglunnar.

Vikurnar áður en lögreglan lét til skarar skríða á Stonewall höfðu slíkar árásir á bari verið óvenju tíðar. Samt sem áður kom það öllum á óvart þegar lögreglan birtist þar skyndilega. En nú lá eitthvað í loftinu. Gestirnir voru ekki lengur tilbúnir að láta leiða sig út eins og lömb til slátrunar. Vissulega tókst lögreglunni að koma þeim út af barnum en þar lauk samanburðinum við hefðbundna aðgerð lögreglunnar.

Ein sagan segir svo frá að lögreglan hafi tekið fantalega á þeim handteknu, sem hún var að troða inn í bíla sína. Þannig hafi lögreglumaður slegið lesbíu í höfuðið með kylfu og hún hrópað til áhorfenda að gera eitthvað. Þá hafi allt fuðrað upp í átökum.

Ungir heimilislausir piltar, sem höfðust við í Christopher-garðinum, tóku virkan þátt í uppreisninni við Stonewall-barinn fyrstu nóttina.

„Guð minn góður, byltingin er hafin!“

Ein þekktasta baráttukona þessa tíma, dragdrottningin Silvia Rivera, eins og hún kallaði sig, lýsti kvöldinu svona: „Það næsta sem við vitum er að ljósin eru kveikt og hey! Það er áhlaup! Þeir byrjuðu að leiða drottningarnar út í röð og vísa þeim inn í lögreglubílana og þeir höfðu tekið skammbyssurnar úr slíðrum. Svo flugu Molotov-kokteilarnir. Og ég hugsaði: „Guð minn góður, byltingin er hafin! Guði sé lof! Þið hafið komið fram við okkur eins og skít í öll þessi ár! Ónei, nú er komið að okkur!“

Vinkona hennar, Marsha P. Johnson, var í fararbroddi dragdrottninganna þetta kvöld og næstu árin. Hún sagði svo frá: „Þegar ég kom niður í bæ stóð allt í ljósum logum. Og við vorum á götunum, veltum bílum um koll og, almáttugur, stöðvuðum umferð, öskrandi og kallandi og allt!“

Lögreglan hafði aldrei lent í öðru eins. Þarna var hópur fólks sem yfirleitt hafði stillt sér upp í röð, sýnt skilríkin og flýtt sér á braut eða gengið handjárnað um borð í lögreglubíla. Núna neitaði fólkið að hlýða lögreglu. Og ekki nóg með það. Hópurinn sem kominn var út á gangstétt lét öllu lauslegu rigna yfir lögregluna. Smápeningum, grjóti og múrsteinum. Og reyndi að ryðjast inn á barinn sinn aftur. Lögreglan var fáliðuð, þurfti að hörfa aftur inn á barinn og óskaði eftir aðstoð. Óeirðalögregla, grá fyrir járnum, flýtti sér á staðinn, stillti sér upp í þétta röð og gekk hægt en ákveðið að mótmælendunum til að ryðja götuna. En hópurinn ætlaði sér ekki að hopa. Dragdrottningarnar stilltu sér upp í fremstu röð, kræktu saman handleggjum og dönsuðu can-can. Þær sveifluðu fótunum taktfast hátt í loft upp og sungu. Óeirðalögreglan átti ekkert svar – nema draga fram kylfurnar.

Einhver hringdi í stærstu dagblöð New York og lét þau vita að dregið hefði til tíðinda á Christopher-stræti. Þau birtu fréttir daginn eftir en því miður hefur aðeins ein ljósmynd varðveist frá þessu kvöldi. Hún sýnir hóp heimilislausra unglinga takast á við lögreglu.

Hverfa ekki lengur auðmjúk á braut

Kvöldið eftir hafði ekkert dregið úr baráttuandanum og fólk hópaðist saman á Christopher-stræti. Fólk sem áður hafði þurft að banka á dyr Stonewall og vera vegið og metið í gægjugati áður en því var hleypt inn, var núna „out and proud“, kysstist á götum úti, afneitaði hvorki sér né öðrum. Lögreglan kom á staðinn og var miklu fjölmennari en kvöldið áður en taldi samt þann kost vænstan að kalla aftur á óeirðalögreglu. Aftur stilltu drottningarnar sér upp fremstar og dönsuðu. Lögreglan ætlaði að yfirbuga hópinn með því að handtaka drottningarnar en um leið og ein var gripin réðst allur hópurinn fram til að frelsa hana.

Uppreisnin á Christopher-stræti stóð alls í sex daga, ekki eingöngu við Stonewall- barinn heldur einnig í nálægum götum og Christopher-garðinum skammt frá.

Einn óeirðadaginn var Marsha P. Johnson tekin tali af fréttamanni sjónvarpsstöðvar. Inngangur fréttarinnar var á þessa leið: „Heimurinn þarf nú að horfast í augu við það sem hann hefur reynt að hunsa. Hómósexúal fólk hverfur ekki lengur auðmjúkt á braut þegar það verður fyrir fyrirlitningu, háði eða hatri. „Gay Power“ fólk nútímans berst fyrir fullu efnahagslegu og lagalegu jafnræði og viðurkenningu.“ Að því búnu sneri fréttamaðurinn sér að dragdrottningunni og spurði hvers vegna hún væri þarna. Og það stóð ekki á svarinu: „Elskan mín, ég vil gay-réttindin mín núna. Ég held að það sé tími til kominn að gay bræður og systur öðlist réttindi,“ sagði Marsha. „Og alveg sérstaklega konurnar,“ bætti hún við og blikkaði í myndavélina.

Baráttudrottningarnar Silvia Rivera og Marsha P. Johnson, fyrsta og önnur frá vinstri, á mótmælafundi nokkrum árum eftir Stonewall. Þær voru í fararbroddi aktívista og stofnuðu STAR-samtökin árið 1970, róttækan hóp sem veitti hinsegin unglingum og kynlífsstarfsmönnum húsaskjól.

„Vissulega gerðist eitthvað sérstakt þessa nótt“

Átökin við Stonewall voru ekki fyrstu mótmæli hinsegin fólks í Bandaríkjunum, fjarri því. Ýmis samtök höfðu áður sett upp mótmælafundi, gengið kröfugöngur og gert ýmislegt til að reyna að þoka málum í réttindaátt. Allt undirbjó það jarðveginn. Árið 1969 var loks komið að uppskerunni. Ungt fólk var almennt í uppreisn gegn stöðnuðu samfélagi, mótmæli gegn stríðinu í Víetnam voru daglegt brauð, konur börðust af hörku fyrir jafnrétti og réttindabarátta svartra var í algleymingi. Einn sagnfræðingur líkti atburðunum við Stonewall við það þegar Rosa Parks neitaði að færa sig í sæti fyrir svarta aftast í strætisvagninum í Montgomery í Alabama árið 1955. Sá atburður markaði vatnaskil í baráttu svartra. Og Stonewall var sambærileg tímamót í sögu hinsegin fólks. Lesbíska baráttukonan Joan Nestle orðaði það svo fyrir aldarfjórðungi:„Ég lít sannarlega ekki svo á að saga homma og lesbía hafi byrjað við Stonewall … ég lít ekki svo á að andófið hafi byrjað þar. Það sem blasir við mér er söguleg samþætting ólíkra afla. Sjöundi áratugurinn breytti því hvað fólk var tilbúið til að þola í þessu samfélagi og hvað fólk neitaði að láta lengur yfir sig ganga … Vissulega gerðist eitthvað sérstakt þessa nótt árið 1969 og við höfum ýtt undir þá tilfinningu vegna þess að við höfum þörf fyrir að finna upphafspunkt, eins og ég kalla það … en þetta er flóknara en svo að hægt sé að fullyrða að allt hafi byrjað við Stonewall.“

Réttur tími í sögunni, nýir vindar blésu, aukin vitund um mannréttindi. Hvernig sem þessir þættir fléttuðust saman var ljóst að ekki varð aftur snúið. Áhrif átakanna við Stonewall voru ótrúlega mikil á ótrúlega stuttum tíma. Ýmis samtök aktívista spruttu upp á næstu vikum og mánuðum í Bandaríkjunum, miklu herskárri og meira áberandi en nokkur dæmi voru um áður. Byltingin var hafin og hún varð ekki stöðvuð.


Athugasemd: Orðaval í þessari grein miðast við það orðfæri sem tíðkaðist á þeim tíma sem atburðirnir gerðust, bæði innan og utan hópa hinsegin fólks. Þá var „homosexual“ regnhlífarhugtak yfir marga hópa, sem án efa myndu sumir fylkjast undir annan fána í dag. Sama á við um „drag queens“ eða „transvestites“ þeirra tíma, eflaust voru í þeirra hópi margir sem á okkar tíma myndu skilgreina sig trans. Á sjöunda áratugnum var hinsegin fólki ekki lýst, og það lýsti sér ekki, sem sís, dulkynja, eigerva, flæðigerva o.s.frv.