Oft er talað um glerþak kvenna á atvinnumarkaði, þak sem dregur úr möguleikum þeirra til frama. En getur verið að hið sama eigi við um hinsegin fólk á atvinnumarkaði? Hvernig er líðan hinsegin fólks á vinnustöðum? Skiptir sýnileiki hinsegin fólks á atvinnumarkaði máli? Þarf hinsegin fólk að skilja hinseginleikann eftir heima eða er í lagi að vera hinsegin í vinnunni? Hvað geta fyrirtæki gert til að vera hinsegin vinalegri? Þessi mál hafa mikið verið rætt og rannsökuð erlendis, til dæmis á Norðurlöndunum, en á Íslandi er umræðan mun skemmra á veg komin.
Á þessum hádegisviðburði, sem haldinn er í samstarfi við Nasdaq á Íslandi, verða málin rædd frá ýmsum hliðum og reynt að varpa ljósi á helstu atriði sem snúa að hinsegin fólki á vinnumarkaði. Fundurinn hefst á stuttum framsögum og í framhaldinu fara fram pallborðsumræður. Nánari upplýsingar um dagskrá, framsögufólk og þátttakendur í pallborði verða birtar þegar nær dregur.
Dagskrá
Fundurinn hefst kl. 11:30 og lýkur kl. 13.
- Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra flytur ávarp.
- „The Importance of Allies“. Aðalræðumaður Richard Taylor, Vice President, VP of Employee Experience hjá Nasdaq.
- Kynning á niðurstöðum könnunar Hinsegin daga á líðan og upplifun hinsegin fólks á atvinnumarkaði. Gunnlaugur Bragi Björnsson, formaður Hinsegin daga.
- Pallborðsumræður. Umræðum stýrir Sverrir Jónsson, skrifstofustjóri kjara- og mannauðssýslu ríkisins. Í pallborði verða:
- Hanna Katrín Friðriksson, alþingismaður.
- Hannes Páll Pálsson, einn þriggja hinsegin eigenda Pink Iceland.
- Ketill Berg Magnússon, mannauðsstjóri hjá Marel
- Svandís Anna Sigurðardóttir, sérfræðingur í málefnum hinsegin fólks á mannréttindaskrifstofu Reykjavíkurborgar.
Fræðsluviðburðir á Hinsegin dögum 2019 eru haldnir í samstarfi við Þjóðminjasafn Íslands. Á Þjóðminjasafninu má finna Regnbogaþráðinn sem er hinsegin vegvísir í um sýninguna Þjóð verður til – menning og samfélag í 1200 ár. Í vegvísinum er fjallað um hinsegin sögu á Íslandi með það að markmiði að miðla upplýsingum um hinsegin líf og tilveru, sýna hvernig hugmyndir um kyn og kynhneigð taka á sig ýmsar myndir á ólíkum tímum og ekki síst að spyrja spurninga, skoða hið ósagða og hvetja gesti til gagnrýninnar hugsunar.
Þjóðminjasafn Íslands býður gestum á viðburðum Hinsegin daga á safninu 25% afslátt af aðgöngumiða að safninu og þar með að Regnbogaþræðinum, með eða án hljóðleiðsagnar,1.500 kr. í stað 2.000 kr. Sjá nánar um Regnbogaþráðinn hér.