Brot úr sögu samkynhneigðra

Þorvaldur Kristinsson
Þorvaldur Kristinsson

„T.d. var svo ástatt í sveit minni að þar dó allt að því helmingur barna á fyrsta ári, flestallir höfðu beinkröm, sumir sjóndaprir (syfilis), sumir alkoholistar, en hommi var enginn svo vitað sé nema Ólafur gossari, svo sem um hann er skráð. Lesbía þorði engin að vera. Um þessar og aðrar aberrationir ástalífsins var fátt skráð, ég ætla það finnist ekki framar á pakkhúsloftum, og hafi aldrei verið á þeim neinum.“

Þannig minnist Málfríður Einarsdóttir samkynhneigðar í Borgarfirði um og upp úr aldamótunum 1900. Lesbíur og hommar hafa alltaf verið til en menning þeirra og sjálfsvitund í nútímanum átti sér til skamms tíma enga vaxtarmöguleika nema í borgum. Er furða þótt fáum sögum fari af hommunum í Borgarfirði. Það segir sína sögu að þegar sögukona minnist slíkra er umrenningur og utangarðsmaður á ferð.

Árið 1925 samdi Halldór Laxness langa grein suður á Sikiley sem hann birti í íslensku tímariti og kallaði „Af menníngarástandi“. Rétt rúmlega tvítugur uppreisnargjarn heimsmaður var að gera sér leik að því að máta menningu Íslendinga við þá Evrópumenningu sem hann hafði kynnst:

„Og þar sem menningin átti ekki neina fulltrúa á Íslandi frammeftir síðustu öld, fyrir utan hafnaríslendinga, en nokkra flakkara uppum sveitir og latínuskólaræfilinn á hrakhólum … þá hefur Reykjavík í skjótri svipan eignast hvaðeina sem heimsborg hentar, ekki aðeins háskóla og kvikmyndahús, heldur einnig fútboll og hómósexúalisma.“

Auðvitað þjónar stríðnisleg athugasemd Halldórs ögruninni einni saman. Árið 1925 átti Ísland enga borg, Reykjavík var kaupstaður 22.000 íbúa og líkast til hefur skáldið unga getað talið samkynhneigða sem ekki leyndu tilfinningum sínum á fingrum annarrar handar. Af heimildum má ætla að þegar hann tekur upp á því að eigna Reykjavík samkynhneigða menningu hafi hann í huga kunningja sinn Þórð Sigtryggsson sem seinna varð honum nokkur fyrirmynd þegar hleypa skyldi lífi í organistann í Atómstöðinni.

ENGIN BORG Á ÍSLANDI
Hinar tvær grundvallarandstæður í samfélagsgerð Vesturlanda á nýöld, metropolis og provins, borgina og sveitina, var hvergi að finna á Íslandi fram eftir 20. öld. En það er einmitt hinn metrópólítanski þáttur, stórborgin, sem gerir samkynhneigðu fólki kleift að skýla forboðnum ástum og nálgast hvert annað. Auðvitað skorti Ísland ekki lesbíur eða homma, en þau sem voru svo heppin að átta sig á eigin samkynhneigð í samfélagi sem sló algjörri þögn um tilfinningar þeirra, pökkuðu niður í koffortið og hreiðruðu um sig í stórborgum heimsins. Um það eru dæmi frá öðrum áratug aldarinnar og fram yfir 1980. Og samkynhneigðir frá Íslandi fóru víða, flestir einhleypir og fæstum háðir. Af þeim fara sögur í London, New York, Kaupmannahöfn og víðar, meðal annars í Berlín á fjórða áratug aldarinnar þar sem samfélag lesbía og homma var hvað blómlegast í Evrópu uns Hitler greip til sinna alþekktu ráða.

GEGN ÓEÐLINU
Þó að hugtakið homosexualität yrði fyrst til í læknisfræði á meginlandi Evrópu um 1870 þá er fordæming og refsing fyrir sódómíu miklu eldri, en forðum merkti hugtakið í senn kynmök við dýr og eigið kyn. Með iðnbyltingunni og vaxandi þörf hins kapitalíska samfélags til að kortleggja, skrá, lækna og hemja mannlífið á 19. öld, færðist refsirétturinn í aukana og sá það smám saman höfuðtilgang sinn að verja óspillta æsku fyrir ósómanum, frávikunum. Þeir sem framfylgdu lögum og rétti gengu reglulega til verka þó að með nokkrum hléum væri. Nærtækt er að minnast ofsókna gegn samkynhneigðum í hinni gömlu höfuðborg Íslendinga Kaupmannahöfn. Þar sættu hommar ofsóknum um aldamótin 1900 og síðasta ofsóknarbylgja í Norður-Evrópu reið einmitt yfir Kaupmannahöfn svo seint sem á árunum 1955–1965 með sérstökum lagasetningum sem ætlað var að hræða karlmenn frá því að stofna til náins samneytis og ásta hver við annan.

Samkynhneigður veruleiki á Íslandi fortíðarinnar er og verður nokkur ráðgáta. Hann er ekki til umræðu fram eftir 20. öld nema fyrir tilviljun, en gægist þó reglulega fram. Ekki var til orð yfir samkynhneigð á íslensku fyrr en nýyrðið kynvilla birtist í dagblaði árið 1908. Árið 1924 gerðust svo þau tíðindi að dæmt var eftir hegningarlögum frá 1869 þegar Guðmundur Sigurjónsson Hofdal var dæmdur af undirrétti Reykjavíkur til átta mánaða betrunarhúsvinnu fyrir brot á 178. gr. hegningarlaganna. Guðmundur var þekktur íþróttamaður og glímukappi, sem meðal annars sýndi á Ólympíuleikunum 1908, og játaði fúslega fyrir rétti að hafa átt „holdlegt samræði við aðra karla“ síðustu 15–18 ár. Guðmundi var veitt uppreisn æru með konungsbréfi 1935, fimm árum eftir að hliðstæð ákvæði hegningarlaga höfðu verið afnumin í Danmörk. Þetta mun vera eina sinn sem 178. gr. hegningarlaganna frá 1869 var beitt og refsað fyrir samkynhneigð mök fullveðja manna. Lögin giltu hér á landi í rúm sjötíu ár, til 1940. Síðan þá hefur ekki verið unnt að refsa fólki fyrir kynmök við einstakling af sama kyni, séu þau af fúsum og frjálsum vilja beggja.

SKUGGATILVERA
Þrátt fyrir stöku heimildir um samlíf samkynhneigðra og veikan vísi að hópmyndun í Reykjavík eftir síðari heimsstyrjöldina, einkum á 6. og 7. áratugnum, lifðu hommar og lesbíur skuggatilveru á Íslandi, sjálfsvitund þeirra var veik, þekkingin á eigin sögu og menningu hverfandi, en þau sem helst státuðu af sjálfsbjargarviðleitni lögðu upp í siglingu til að kynnast ævintýrum stórborganna. Margt af þessu fólki sneri aldrei aftur til Íslands. Dvöl hernámsliðanna á Íslandi á styrjaldarárunum hleypti þó umtalsverðu fjöri í samkynhneigt ástarlíf karlmanna og af þeim ævintýrum má lesa frásagnir í eldri dagskrárritum Hinsegin daga (sjá dagskrárritið 2008 hér á vefsíðunni). En hópvitundin lét á sér standa. Um 1950 var ungur maður, Elías Mar, í fyrsta sinn á ferð erlendis. Á Ráðhústorginu í Kaupmannahöfn hitti hann kvöld nokkurt pilt og með þeim tókust ástir eitt sumar. Sá sagði Elíasi frá því að hommar þar í landi gæfu út tímarit og þegar þeir hittust aftur færði hann Íslendingnum tímaritið Vennen. Íslendingurinn hafði aldrei heyrt annað eins – að til væru sérstök tímarit fyrir homma.

UPPREISN ÆSKUNNAR
Upp úr miðri 20. öld breyttist margt í skilningi okkar á grundvallarþörfum einstaklingsins. Æskumenning var nýtt hugtak sjötta áratugarins, orðin til í borgarsamfélagi miðstéttarinnar þar sem ekki reyndist lengur þörf fyrir vinnuafl barna. Svartir í Bandaríkjunum og menntaðar miðstéttarkonur beggja vegna Atlantshafs leituðu að nýjum sjálfskilningi sem átti eftir að gjörbreyta svipmóti samfélags þeirra. Samkynhneigðir voru auðvitað leiddir til vitundar um sjálfa sig í návígi við þessar hræringar. Til dæmis sóttu hommar og lesbíur í Bandaríkjunum beinlínis lærdóm og þekkingu á baráttuaðferðum með því að ganga til liðs við frelsishreyfingar svartra þar í landi á sjötta og sjöunda tug aldarinnar. Engu minni urðu áhrif kvennahreyfingarinnar nýju á samkynhneigða, bæði konur og karla, sem tileinkuðu sér ýmsar röksemdafærslur þeirra og yfirfærðu á sinn eigin veruleika.

Formenn Samtakanna '78 frá upphafi til ársins 2010. Efri röð f.v.: Margrét Pála Ólafsdóttir, Guðni Baldurssin, Matthías Matthíasson, Lana Kolbrún Eddudóttir, Sitjandi f.v.: Þorvaldur Kristinsson, Percy Stefánsson, Guðrún Gísladóttir, Hrafnhildur Gunnarsdóttir, Frosti Jónsson.
Formenn Samtakanna ’78 frá upphafi til ársins 2010. Efri röð f.v.: Margrét Pála Ólafsdóttir, Guðni Baldurssin, Matthías Matthíasson, Lana Kolbrún Eddudóttir, Sitjandi f.v.: Þorvaldur Kristinsson, Percy Stefánsson, Guðrún Gísladóttir, Hrafnhildur Gunnarsdóttir, Frosti Jónsson.

Samkynhneigðir á Íslandi fréttu seint af Stonewall-uppreisninni í New York, götuátökunum milli lögreglu og homma sumarið 1969 sem talin eru marka upphaf nýrra tíma. En Íslendingarnir höfðu löngu áttað sig á því nýja landslagi sem við blasti í skemmtana- og næturlífi stórborganna. Upp úr 1970 varð allt í einu svo auðvelt að rata til sinna líka. Þessum þjóðfélagshræringum fylgdi líka vaxandi sýnileiki þeirra í Reykjavík með tilheyrandi andúð og fjandskap sem nokkur úr hópi homma og lesbía brugðust við og spörkuðu frá sér. Það er í því sparki sem sýnileg saga þeirra verður til.

BARÁTTA BRAUTRYÐJENDA

Samtökin ’78 voru stofnuð í maí 1978. Helsti hvatamaður að stofnun þeirra var leikarinn og tónlistarmaðurinn Hörður Torfason, sem fyrstur Íslendinga lýsti opinberlega yfir kynhneigð sinni í viðtali í tímariti haustið 1975. Hörður segir svo frá aðdragandanum að stofnun félagins: „Ég hafði nær stanslaust unnið að þessu máli frá því í september 1977 og hvatt menn til dáða og útskýrt fyrir þeim í hverju það væri fólgið að við stofnuðum baráttufélag, ekki aðeins gegn ríkjandi viðhorfum heldur og ekki síður til að efla sjálfsvitund okkar og sjálfsvirðingu. Það gekk á ýmsu þennan tíma, en alltaf verður mér eftirminnilegast svarið sem ég fékk í dyragættinni hjá einum strákanna og lýsti vel ástandinu að mínu mati þegar hann sneri upp á sig og sagði snúðugt: „Ég þarf sko ekki að ganga í eitthvert helvítis félag til að fá mér drátt.“ Svo skellti hann á mig hurðinni.“

Í fyrstu stefnuskrá Samtakanna ’78 segir m.a.: „Við lesbíur og hommar á Íslandi viljum miðla þekkingu til hómósexúal einstaklinga og efla með þeim skilning þeirra á sjálfum sér og treysta afstöðu þeirra til sjálfra sín. Við viljum miðla þekkingu á málefnum okkar til alls samfélagsins svo að það öðlist skilning á þeim og á því að við erum eðlilegur hluti af samfélaginu. Við viljum njóta fyllstu réttinda, siðferðilegra og lagalegra án nokkurs manngreinarálits, en förum ekki fram á nein forréttindi.

Svar Andrésar Björnssonar, útvarpsstjóra, við beiðni Samtakanna '78 um lestur útvarpsauglýsingar.
Svar Andrésar Björnssonar, útvarpsstjóra, við beiðni Samtakanna ’78 um lestur útvarpsauglýsingar.

ALLIR VELKOMNIR – NEMA HOMMAR OG LESBÍUR
Þetta voru mörgum erfiðir tímar enda fátt um fyrirmyndir. Samfélagsumræðan var á einn veg. Dæmigerð var auglýsing laust fyrir 1980 þar sem eitt af stærstu bókaforlögum landsins kynnti nýja íslenska skáldsögu þar sem „spilling nútímans nær hámarki í morði og kynvillu“, og eftir að ýmsir skemmtistaðir höfðu meinað yfirlýstum lesbíum og hommum aðgang auglýsti nýr skemmtistaður í Reykjavík í blöðum að allir væru velkomnir – nema lesbíur og hommar, gagngert til að afla jákvæðrar athygli og vinsælda.

Samtökunum ’78 var meinað að auglýsa í útvarpi með því að nota orðin lesbía og hommi. Samkynhneigð var hvergi til umræðu í íslensku skólakerfi fyrr en Samtökin ’78 tóku að bjóða upp á fræðslufundi í framhaldsskólum um 1980 að beiðni nemenda og kennara. Einnig þar voru gerðar tilraunir til að hindra upplýsingastreymi. Árið 1983 bannaði skólastjóri Hjúkrunarskóla Íslands fræðslufund sem nemendur höfðu beðið um eftir að samkynhneigður nemandi flosnaði upp í námi vegna aðkasts frá félögum. Ráðuneytistjóri í menntamálaráðuneyti lýsti opinberlega yfir að hann myndi hafa gert ráðstafanir til að hindra slíkar heimsóknir hefði hann vitað af þeim. Þegar ráðuneytið var innt eftir því hvort þetta væri opinber stefna þess barst ekkert svar.

Í SKUGGA DREPSÓTTAR
Alnæmi var reiðarslag fyrir lítið og veikburða samfélag samkynhneigðra á Íslandi sem í stundarbjartsýni héldu að þeir væru á góðri leið með að eignast virðingu samborgaranna. Hlutfall HIV-jákvæðra meðal homma reyndist svipað og á öðrum Norðurlöndum og fátt um varnir. Árum saman var engin lyf að hafa sem gátu haldið alnæmi í skefjum, en það átti þó eftir að breytast. Það sem um tíma virtist ætla að ganga að hreyfingunni dauðri breyttist þó á fáum misserum um og upp úr 1990 í styrk og öryggi sem síðan hefur vaxið með hverjum áratug.

Um leið hafði það ómetanlega þýðingu að þegar einokun ríkisins á ljósvakamiðlun var aflétt með lögum árið 1985 kom ný kynslóð fjölmiðlafólks til starfa sem reyndist hafa fordómalausan áhuga á málefnum samkynhneigðra. Sá stóri hópur homma og lesbía sem á skömmum tíma á níunda áratugnum kom hiklaust fram í fjölmiðlum og tjáði sig af öryggi um líf okkar, reynslu og mannréttindi, kom samkynhneigðum sjálfum kannski mest á óvart, fólk af öllum stigum og úr öllum stéttum þjóðfélagsins – nema úr hinum opinbera pólitíska geira. Þar máttum við bíða enn um sinn. Það var ekki fyrr en undir aldamót að samkynhneigt fólk á vettvangi stjórnmála tók smám saman að gefa kynhneigð sína til kynna án þess að sjá í því ögrun við pólitíska velgengni sína.

Á GÖTUM ÚTI
Smám saman jókst sýnileikinn ár frá ári og birtist loks skýrast um síðustu aldamót í útihátíðahöldum hinsegin fólks í Reykjavík. Samtökin ´78 efndu til fyrstu kröfugöngunnar í Reykjavík árið 1993 og var þá gengið niður Laugaveg, síðan upp Hverfisgötu og safnast saman í kvikmyndahúsinu Regnboganum þar sem göngufólk horfði á kvikmyndina The Times of Harvey Milk. Ári síðar, 1994, sameinuðust Samtökin ´78 og Félagið, félag samkynhneigðra og tvíkynhneigðra, um kröfugöngu með sama sniði sem endaði á útihátíð við Lindargötu þar sem félögin höfðu bæði aðstöðu sína. Alls tóku um 70 manns þátt í þessum viðburðum hvort ár en fjölmiðlar veittu þeim sáralitla athygli. Nú varð hlé á tilraunum til útihátíða því að undirtektir og þátttaka höfðu engan veginn mætt væntingum. Tími fagnaðar á götum úti var enn ekki upp runninn, til þess virtist sá hópur of smár sem vogaði sér að leggja upp í slíkt ferðalag.

Enn var þó blásið til hátíðahalda fimm árum síðar þegar Samtökin ´78 efndu til Hinsegin helgi, sem svo var nefnd, í lok júní 1999. Þar bar hæst útitónleika á Ingólfstorgi sem um 1500 manns sóttu. Einnig tók forystufólk nokkurra stjórnmálaflokka þar til máls og boðið var til kvikmyndasýninga og dansleikjar þá helgi.

Velgengni hátíðahaldanna sumarið 1999 varð til þess að nokkur félög samkynhneigðra og tvíkynhneigðra tóku höndum saman sumarið 2000, stofnuðu félagið Hinsegin daga í Reykjavík og gengu frá Hlemmi niður á Ingólfstorg í gleðigöngu, en svo hafði forsvarsfólk hátíðahaldanna ákveðið að nefna viðburðinn. Flestum að óvörum mættu rúmlega 5000 manns í miðborgina til að taka þátt hátíðinni og verða vitni að gleðigöngunni og útitónleikunum á Ingólfstorgi enda var viðburðurinn rækilega kynntur í fjölmiðlum í þetta sinn. Ári síðar voru þátttakendur um 17.000 og árið 2002 voru þeir farnir að nálgast 30.000. Nú safnast um 70–80.000 manns til hátíðarinnar í miðborginni í byrjun ágúst.

JAFNRÉTTI FYRIR LÖGUM
Baráttan fyrir bættri löggjöf hófst upp úr 1982 og hefur ætíð tekið mið af hræringum í löggjafarmálum á Norðurlöndum. Miklu máli skipti þegar Alþingi samþykkti ný lög um samræðisaldur 1992 þar sem kveðið var á um eitt aldursmark, 14 ár (sem varð 15 ár 2007). Þau leystu af hólmi lög frá 1940 þar sem mönnum hafði verið mismunað með tilliti til kynhneigðar. Í hálfa öld höfðu sérákvæði um samræðisaldur, 18 ár (og við vissar aðstæður 21 ár) legið á samkynhneigðum eins og grýla. En baráttan fyrir réttlátri löggjöf skilaði þó stærstum sigri með lögum um staðfesta samvist 1996 og verndarákvæðum í hegningarlögum sama ár. Varla hefur nokkur lagasetning í sögu hinsegin fólks haft jafn mikil áhrif á almenningsálitið og lögin um staðfesta samvist – ekki síst hvað varðar stuðning aðstandenda. Enn einn áfangasigur vannst þegar stjúpættleiðingar samkynhneigðra para voru lögleiddar árið 2000. Mikilvægar réttarbætur unnust síðan árið 2006 þegar réttur fólks til allra ættleiðinga varð sá sami án tillits til kynhneigðar og konur fengu rétt til tæknifrjóvgunar án tillits til hjúskaparstöðu sinnar. Árið 2008 var prestum og forstöðumönnum trúfélaga heimilað að staðfesta samband samkynhneigðra, og árið 2010 samþykkti Alþingi ein hjúskaparlög fyrir alla án þess að kyn maka væri frekar tilgreint. Þar með voru felld úr gildi eldri lög um staðfesta samvist samkynhneigðra frá 1996. Sumarið 2012 voru lög sem varða réttarstöðu transfólks samþykkt á Alþingi og marka þau fyrstu spor í þá átt að tryggja mikilvæg mannréttindi hóps sem lengi hefur átt undir högg að sækja.

Sú samræða löggjafarvaldsins og almenningsálitsins sem átt hefur sér stað á Íslandi hefur fært hinsegin fólki á Íslandi betra líf en nokkurn grunaði vorið 1978 þegar Samtökin ´78 voru stofnuð. Skoðanakannanir koma þægilega á óvart. Í alþjóðlegri könnun sem birtist árið 1990 kom fram að Íslendingar höfðu talsvert umburðarlyndari afstöðu til lesbía og homma en aðrar þjóðir og svipaðar niðurstöður hafa síðar verið staðfestar nokkrum sinnum.

Hefði Ólafur gossari bara vitað!

© Þorvaldur Kristinsson 2014