Bókmenntir á Hinsegin dögum

 

Með hjartslátt í leginu

„Bíddu,“ hvíslaðir þú, „bíddu og skríddu,“ og á sumarhimni grillti í fyrstu sólargeislana sem muldruðu lygar um framtíð sem aldrei verður. Fullnægð með hjartslátt í leginu tókstu um sveitta hönd mína eftir leynifundinn á fatlaðraklósettinu á skemmtistaðnum og sagðir að klukkan væri alltof margt þegar mér fannst hún vera of lítið. Ég mála mynd af þér á eldhúsvegginn, skrifa til þín ljóð sem ríma svo þú sjáir að ég bý yfir meiri einlægni og dýpt en hinir sem segjast elska þig.

Ég hrópaði háfleygt og tilgerðarlega svo leigubílstjórinn komst við (eða var hann hneykslaður?): Syndin er falleg þegar hún kemur frá sönnum stað! Þú fálmaðir flóttalega eftir hurðarhúninum á heimili þínu, varir mínar rauðar af túrblóðinu þínu svo hárið klístraðist við blóðuga kinnina, en þú snerir þér undan og hvíslaðir „bíddu,“ kreistir sveitta höndina „skríddu,“ svo kvaddir þú og bættir við „feldu þig“.

Með túrblóðinu mínu mála ég mynd af þér á svefnherbergisvegginn, finn lyktina af járni í munnvikum og sólarupphituðum leðursætum í leigubíl á árum áður í morgungeislum, kyssi varir á blóðrauðum vegg á meðan sólin muldrar lygar um framtíð sem aldrei verður.

 

Hamraborg í rigningu

Ég hata Blindrabókasafnið því þar keluðum við stundum í bílakjallaranum uppvið ruslafötur og ég skáldaði sögur af eftirlifendunum úr flugslysi og bað þig að þrýsta lífbeininu uppvið mig svo ég fyndi betur lyktina af sætum blautum stráum áður en þau breytast í hey. Mig langar að horfa með þér á vetrarsport eða heimsendamyndir og að þurfa ekki að vera lengur hrædd því ég veit að þú vaknar líka stundum á nóttunni við að snjórinn lokar húsinu og einhver stendur yfir þér og stynur að guð sé góður.

Núna er enginn annar í kjallaranum en bílljósin birta leifturmyndir af augnhvítunni þinni í pollunum og rúðuþurrkurnar eru reiðar svo ég hugsa um að bíta í geirvörturnar þínar á köldu dýnunni og hlusta á þig rymja í eyra mitt orðum sem ég skil ekki en ég er alein því það er enginn ósýnilegur í aftursætinu lengur og saltið í maganum ryður sér aftur leið upp í kok.

 

Sögurnar birtust áður fyrr á þessu ári í vefljóðagalleríinu „2015 er gildra“