Dagar dragsins

Hér er litið á íslensku dragsenuna og þróun hennar seinustu tvo áratugi. Rætt er við Georg Erlingsson Merritt, skipuleggjanda Draggkeppni Íslands árin 1999 til 2015, og Sigurð Heimi Starr Guðjónsson, sem er einn af stofnendum fjöllistahópsins Drag- Súgs og hefur gert garðinn frægan sem dragdrottningin Gógó Starr. Höfundur greinar er Sólveig Johnsen.

Drag er góð skemmtun

Á Íslandi og víðar hefur drag lengi verið viðloðandi skemmtanalíf hinsegin fólks. Í dag fylgist stór og fjölbreyttur hópur fólks með dragi og hefur það hlotið auknar vinsældir á alþjóðlegum vettvangi í tengslum við bandarísku raunveruleikaþættina RuPaul‘s Drag Race, sem hafa verið sýndir frá árinu 2009. Aukinn sýnileiki hinsegin fólks og opnari umræða hefur orðið til þess að dragmenning á Íslandi hefur þróast úr því að vera tiltölulega lítill, falinn og lokaður menningarkimi í að höfða til breiðs hóps áhorfenda, bæði innan hinsegin samfélagsins og utan þess. Í dag eru dragviðburðir af ýmsu tagi fastur liður í skemmtanalífi Reykjavíkur og mikill metnaður ræður för í dragsenunni, sem í ár átti í fyrsta sinn fulltrúa á stærstu dragráðstefnu heims, RuPaul‘s DragCon í Los Angeles.

Þegar litið er yfir sögu drags á Íslandi er ljóst að þótt það hafi lengi verið til staðar í skemmtanalífinu hafa tilviljanakenndar orkusprautur hleypt lífi í senuna á mismunandi tímum og gert dragi hátt undir höfði. Þar má til dæmis nefna draghópinn Dýfurnar, sem tróð upp á hinum líflega skemmtistað 22 um hverja helgi í lok níunda áratugarins, og metnaðarfullar dragsýningar sem haldnar voru á Moulin Rouge í byrjun þess tíunda. Draggkeppni Íslands var síðan stofnuð árið 1997 og markaði ákveðin kaflaskil í sögu drags hér á landi þar sem hún jók sýnileika þess mjög en keppnin var haldin árlega (fyrir utan hlé árið 2004) fram til ársins 2015. Eftir það var fjöllistahópurinn Drag-Súgur stofnaður og hann hefur verið helsti drifkrafturinn í uppbyggingu íslensku dragsenunnar síðan. Í dag er áhorfendahópurinn stór og draglistafólk af ýmsum kynjum og kynhneigðum hefur brotist langt út fyrir þann ramma sem þekktist á Íslandi fyrir tveimur áratugum síðan.

34715078_10216430800629620_123443175472758784_n
Georg Merritt Erlingsson aka Keiko. Mynd úr einkasafni.

Draggkeppni Íslands og aukinn sýnileiki

Draggkeppni Íslands var haldin í fyrsta sinn á skemmtistaðnum Nellý‘s Café árið 1997. Georg Merritt Erlingsson tók þátt í keppninni ári síðar sem dragdrottningin Keiko og bar sigur úr býtum. Hann tók síðan við skipulagningu keppninnar árið 1999 og hefur haldið utan um hana allar götur síðan en keppnin var seinast haldin árið 2015. Að sögn Georgs var lítil dragmenning til staðar á Íslandi á þeim tíma þegar keppnin varð til og viss ládeyða hafði ríkt eftir að Moulin Rouge-tímabilinu lauk. Keppnin skapaði umræðu um drag og eðli þess, hún þróaðist smám saman, stækkaði og aðlagaðist dragmenningu á alþjóðavettvangi. „Það hefði ekki verið hægt að hoppa beint út í djúpu laugina, beint í það sem er í gangi í dag. En í þá tíð leyfðum við okkur jafnframt að gera ýmislegt sem væri ekki vel séð í dag,“ útskýrir Georg en það hversu tíðarandinn er breyttur sést skýrt í dragmenningu landsins.
Lykilatriði í þeim áhrifum sem Draggkeppni Íslands hefur haft er aukinn sýnileiki. Fyrst var keppnin haldin á skemmtistöðum en hún sprengdi þá utan af sér einn á fætur öðrum. Gæðastaðallinn hækkaði, metnaðurinn jókst og keppnin sjálf stækkaði. Svo fór að hún var haldin í langtum stærra húsnæði og laðaði að sér mun fleiri áhorfendur en í upphafi, m.a. í Eldborgarsal Hörpu. Fjölmiðlar fylgdust grannt með, ljósmyndarar slógust um að fá að taka myndir á keppninni og sjónvarpsþættir Skjás Eins – Djúpa Laugin og Sílikon – buðu draglistafólki til sín. Þetta hafði í för með sér að ungt fólk kynntist dragi í auknum mæli og margir grunn- og menntaskólar fóru að halda sínar eigin dragkeppnir. Á fyrstu árum Draggkeppninnar voru áhorfendur að miklu leyti vinir og vandamenn keppenda, ásamt fólki sem var virkt í skemmtanalífinu. „Seinna meir var þetta orðin öll flóran, frændur og frænkur, afar og ömmur að mæta. Ég hef meira að segja leyft unglingum að koma með foreldrum sínum á keppnisdegi og fylgjast með undirbúningnum baksviðs, undir leiðsögn, þannig að þau skilji betur hvað er í gangi og opni augun meira. Það er hollt fyrir bæði börn og foreldra,“ segir Georg.
Einnig varð drag sýnilegra á götum úti: „Árið 1997 var Menningarnótt í Reykjavík líka að hefjast, þannig að margt spennandi gerðist í einu. Allt í einu birtist fullt af fólki sem hafði ekki verið sýnilegt út á við áður, fólk var úti á götu í fullu dragi, svipað og er að gerast í dag.“ Skemmtistaðurinn 22 var að sögn Georgs eins og félagsheimili á þessum tíma og allt þar til staðurinn lokaði – þar hittist ungt hinsegin fólk og myndaði samfélag. Á Spotlight voru sömuleiðis haldnir ýmiskonar viðburðir og þemakvöld þar sem fólk klæddi sig upp; afskaplega lífleg hinsegin sena var þar til staðar um tíma: „Þar var hálfgerð Studio 54-stemming.“ Georg segir umræðuna hafa opnast mikið og smám saman hafi almenningur tekið við sér og fengið aukinn skilning á eðli drags. „Við þurftum að kynna okkur og svara sömu spurningunum aftur og aftur, til dæmis í fjölmiðlum,“ útskýrir hann. „Þróunin hefur verið mikil síðan og fólk hefur smám saman áttað sig betur á hvernig hlutirnir virka. Draggkeppnin hefur vakið mikla athygli og verið góður stökkpallur fyrir ansi marga, titillinn er ákveðinn stimpill sem hægt er að nota til að vekja athygli á sér og fá viðurkenningu.“

34771882_10216431131317887_4957875294611439616_n
Myndir úr Draggkeppni Íslands. Ljósmyndarar: Brjánn Baldursson og Gísli Friðrik.

Aukinn fjölbreytileiki á sviðinu

Fyrstu árin sem keppnin var haldin voru það eingöngu drottningar sem tóku þátt. Einn titill var í boði, Draggdrottning Íslands. Árið 2005 voru síðan dragkóngar einnig boðnir velkomnir í keppnina og Draggkóngur Íslands krýndur í fyrsta sinn. Skipulaginu var í kjölfarið breytt og tveir titlar hafðir í boði, Draggdrottning Íslands og Draggkóngur Íslands, þannig að ekki þyrfti að velja á milli.„Það voru ekki allir hrifnir af því að kóngar væru orðnir áberandi,“ segir Georg „en mér var alveg sama um það, þeir voru komnir til að vera. Þeir komu inn með drag af nýju tagi og voru margir mjög frumlegir.“
Kvenkyns drottningar (stundum kallaðar bio-drottningar), sem spilað hafa stórt hlutverk í dragsenu Íslands seinustu 2–3 ár, komu aldrei við sögu sem keppendur í Draggkeppninni. Þær tóku þó þátt í skemmtiatriðum og sem aukaleikarar eða dansarar í atriðum keppenda. „Það var helst um 2015 sem ég fékk á tilfinninguna að fólk gæti verið móttækilegt fyrir kvenkyns drottningum,“ segir Georg en þar sem hann flutti frá Íslandi skömmu síðar varð ekki úr því að keppnin væri haldin á ný með kvenkyns drottningar meðal keppenda. „Það var aldrei sértitill fyrir þær og það var raunar ákveðið skipulagsatriði því það er ekki gott að hafa of marga titla. Ég hefði líklega leyst það með því að hafa áfram tvo titla, keppt væri í að vera kóngur eða drottning og kyn keppandans væri algjört aukaatriði. Ef kvenkyns drottning hefði unnið hefði það bara verið skemmtileg fjölmiðlaumræða. Drag hefur í mínum huga ekki eitt einasta boundary.“

34752159_10216431159638595_5756956429638434816_n
Myndir úr Draggkeppni Íslands. Ljósmyndarar: Brjánn Baldursson og Gísli Friðrik.

Drag, hefðir og pólitík

Georg segist álíta draghugtakið afar víðtækt.„Þú ert að skapa aðra útgáfu af sjálfum þér, framlengingu eða alter-egó. Það eru margar leiðir til að skilgreina hvað er rétt eða gott í þessu og hægt að fara í hvaða átt sem er, fólk er að læra á sjálft sig og fólkið í kringum sig, það er að tjá sig.“ Hann segir jafnframt að svið sé ekki alltaf nauðsynlegt, þótt drag sé í eðli sínu sviðslistaform. „Þú getur labbað niður götuna eða hreinlega sest inn á kaffihús og fengið þér kaffi og skapað ákveðna yfirlýsingu með því.“
Georg var meðlimur í Hommaleikhúsinu Hégóma, sem var með reglulegar sýningar á árunum 2004–5, m.a. dragkabarett á hverju laugardagskvöldi í rúma fjóra mánuði sumarið 2004, með ný atriði í hvert sinn. Hópurinn gaf auk þess út plötu með eigin sönglögum og Georg telur víst að nálgun þeirra myndi mæta mikilli mótspyrnu í dag: „Við gengum fram af fólki og ýttum á mörkin alls staðar.“ Tíðarandinn hafi breyst síðan og nú séu mun skýrari mörk milli þess sem er í lagi og þess sem er það ekki. Með draginu sé hins vegar hægt að fá fólk til að hugsa og hlæja: „Drag er til þess að sparka í andlitið á fólki, það fær fólk til að hlæja, það er hægt að gera grín að öllu.“
Drag getur líka verið pólitískt og Georg segir frá áhrifamiklu atriði hans og Skjaldar Eyfjörð á stóra sviðinu á Hinsegin dögum árið 2004. Þá höfðu samkynja hjónabönd ekki enn verið leyfð á Íslandi og atriðið snerist um að benda á þetta misrétti. Þeir gengu inn á sviðið hönd í hönd, Skjöldur í fullu dragi og Georg í jakkafötum, „Broadway-style“, syngjandi: „Ef ég mætti giftast þér“. Þeir voru svo gefnir saman á sviðinu á meðan dragdrottningar fleygðu glitrandi konfetti út um allt. „Þetta var mjög fallegt,“ segir Georg en þess má geta að samkynja hjónabönd voru ekki leyfð í íslenskum lögum fyrr en 27. júní 2010.

NOTA AÐALMYND
Myndir af sýningum Drag-Súgs, eftir Kaspars Bekeris.

Dragdrottning að norðan kemur til Reykjavíkur

Sigurður Heimir Starr Guðjónsson er áberandi í íslensku dragsenunni í dag sem dragdrottningin Gógó Starr. Hann er tuttugu og fjögurra ára gamall og kemur frá Akureyri, þar sem hann stofnaði ásamt fleirum Dragkeppni Norðurlands árið 2011. „Þetta byrjaði í rauninni sem „flipp“ í vinahópnum en síðan bara mættu áhorfendur þannig að við ákváðum að gera þetta árlega og búa til alvöru skemmtun,“ útskýrir Sigurður.

Hann byrjaði af fullri alvöru í dragi eftir þetta, vann Dragkeppni Norðurlands árið 2013 og flutti til Reykjavíkur ári síðar. „Ég hafði stórborgardrauma um Reykjavík, fjölskyldan fór sjaldan suður og ég þekkti mjög fáa,“ segir hann. „Ég var viss um að hér væri allt í gangi, allt menningarlífið og öll hinseginsenan, hellingur af dragi og hér gæti ég komið fram og fundið minn stað. Þegar ég kom suður áttaði ég mig á að þetta var ekki raunin, það var ekki raunveruleg dragsena til staðar. Það var vissulega Draggkeppni Íslands einu sinni á ári en lítið var í gangi í hinsegin lífinu árið um kring og aðeins einn hinsegin skemmtistaður – regnbogaskreyttur en að öðru leyti bara venjulegur dansstaður.“ Þegar Sigurður hafði komið sér fyrir einsetti hann sér að vinna Draggkeppni Íslands og nýta titilinn til þess að hrista upp í hinseginsenu borgarinnar. Það gekk eftir og Gógó Starr varð Draggdrottning Íslands árið 2015. Keppnin hefur ekki verið haldin síðan og Sigurður heldur því enn titlinum.

Drag-Súgur verður til

Skömmu áður en Draggkeppni Íslands 2015 fór fram stofnaði Ólafur Helgi Móberg, einnig þekktur sem dragdrottningin Starina, Facebook-hóp sem kallaðist Hommaspjallið. Þar kom upp umræða um skort á hinsegin viðburðum, sem varð til þess að skipulagðir voru hittingar á kaffihúsum þar sem yngri og eldri meðlimir senunnar gætu komið saman, tengst og deilt upplýsingum. Þar komst Sigurður í kynni við virka meðlimi hinsegin samfélagsins. Hann sjálfur, Hafsteinn Himinljómi Regínuson og Þórhallur Hafþórsson ákváðu að láta slag standa og halda eigin dragviðburð í nóvember það sama ár undir heitinu Drag-Súgur. Þeir smöluðu saman um tíu manns til þess að taka þátt í sýningunni og fengu sjálfan Pál Óskar til þess að leggja hönd á plóg. „Við vissum ekkert hvert þetta myndi fara, við vildum bjóða alla velkomna og auglýsa eins vel og við gætum en á sama tíma einbeita okkur líka að hinsegin senunni og dragsýningunni sem hinsegin viðburði. Þetta sprakk svo alveg út og varð að mánaðarlegum viðburði sem er enn í gangi í dag,“ segir Sigurður.

Í fyrstu var talsvert um lifandi tónlist og andi kabarettsins sveif yfir vötnum en smám saman þróaðist Drag-Súgur í að vera nær eingöngu dragsýning. Gríðarmargir hafa áhuga á að taka þátt og koma fram, sem varð til þess að sett var á laggirnar önnur mánaðarleg sýning, svokallað Drag-Lab, þar sem aðgangur er ókeypis og tilraunastarfsemi í hávegum höfð.„Þar er fólk að þjálfa sig í að koma fram, prufa eitthvað nýtt og sumir eru að koma fram í algjörlega fyrsta skipti. Þetta er magnað,“ segir Sigurður. Hann segir gæðastaðalinn hafa hækkað stöðugt og sífellt meiri metnaður sé lagður í sýningar Drag-Súgs en hópurinn hefur komið fram við ýmis tækifæri auk reglubundinna sýninga, m.a. á afar veglegum sýningum á Hinsegin dögum: „Mér finnst gæðastaðallinn í íslensku skemmtanalífi almennt vera mjög hár, fólk veit hvað það vill og veit hvað það er að borga fyrir. Það vill gæðaskemmtun og það er það sem við gerum.“ Í kjölfar vinsælda Drag-Súgs hafa fleiri reglulegir dragviðburðir bæst við hinsegin skemmtanalíf Reykjavíkur: Lip-Sync Karaoke er haldið vikulega, fólk horfir saman á RuPaul‘s Drag Race og reglulega kemur erlent draglistafólk fram á skemmtistöðum borgarinnar.

IMG_4472
Myndir af sýningum Drag-Súgs, eftir Kaspars Bekeris.

Opnara samfélag endurspeglast í dragsenunni

Sigurður segir vinsældir drags ná út fyrir hinsegin senuna og rúmlega það. „Mér finnst að síðan 2014–15 hafi meginstraumurinn farið að sýna dragi meiri athygli. Við reiknuðum með að áhorfendahópurinn okkar í Drag-Súgi yrði bara frekar lítill hópur af hinsegin fólki en svo var strax allt troðfullt af öðru fólki, sérstaklega gagnkynhneigðum konum sem höfðu mikinn áhuga á dragi og sáu dragsýninguna fyrst og fremst sem góða skemmtun. Það var ekki fyrr en um ári seinna, þegar Drag- Súgur hafði fest sig í sessi, sem hinsegin samfélagið fór að verða áberandi í áhorfendahópnum líka.“ Að sögn Sigurðar hefur sífellt yngra fólk einnig áhuga á dragi, sérstaklega í gegnum samfélagsmiðlana, en þetta telur hann afar jákvæða þróun. Drag sé orðið frekar viðurkennt í íslensku samfélagi og fólk þurfi ekki að vera hinsegin til þess að mæta á dragsýningar eða koma fram í dragi. Hann segir þó meiri líkur á því að fólk velji þetta listform ef það er hinsegin, þetta sé að miklu leyti spurning um tengingu við eigin kyngervi, vilja til að leika með það og gera skemmtun úr því, fyrir aðra til að njóta. Drag sé því fullkomlega opið fyrir öllum kynjum, kynhlutverkum, ímyndum og kynhneigðum.

Litríkt listafólk og fjölbreytt nálgun

Í dragsenu dagsins í dag lifir og hrærist fólk af ýmsu tagi; dragdrottningar og dragkóngar af hvaða kyni sem er ásamt öðru hinsegin listafólki, til dæmis tónlistarfólki sem blandar kynusla eða dragi inn í tónlist sína og sviðsframkomu. Mörkin eru fljótandi og senan er í sífelldri þróun. Sigurður lýsir mismunandi nálgun listafólks að forminu: „Í dragheiminum einbeita sumir sér aðallega að útlitinu og glamúrnum, aðrir að því að gera gott grín. Flest erum við þó að leika okkur einhvers staðar þarna á milli. Fólk leikur sér með karaktertýpu, tekur hana langt eða stutt og setur hana í mismunandi samhengi. Sumir syngja, aðrir lipsync-a, sumir dansa og aðrir ekki, sumir gera líkamlegt grín, aðrir eru bara ótrúlega „gordjöss“. Fólk nýtir aðrar tengingar, reynslu eða hæfileika, til dæmis hljóðfæraleik, dans eða bara að kunna mjög vel að spila bingó!“

Dragpersónur listafólksins eru í sumum tilvikum framlengingar af þeim sjálfum og í öðrum eitthvað alveg nýtt og ólíkt þeirra eigin persónuleika. Fólk prufar sig áfram með eiginleika og persónutýpur sem annars fá ekki að líta dagsins ljós og brýtur niður staðalímyndir um kyngervi og kynhlutverk í leiðinni. „Ég áttaði mig ekki á því alveg í byrjun en Gógó Starr varð til sem algjör framlenging af mér sjálfum, ég var að leyfa mér að vera ég allur og meira til,“ segir Sigurður. „Þegar ég lít til baka sé ég að ég lærði mjög mikið um sjálfan mig og af sjálfum mér í gegnum dragið og af því að vera Gógó, vera með sjálfsöryggi through the roof, koma fram og hafa gaman og leyfa mér að njóta mín í mínum líkama. Að taka þetta allt yfir í mitt daglega líf gerði mjög mikið fyrir mig, í dag er Gógó aðeins dempaðri karakter en hún var fyrst og Siggi í sínu daglega lífi er miklu ýktari karakter heldur en áður, þannig að bilið á milli er orðið miklu styttra.“

IMG_0388
Myndir af sýningum Drag-Súgs, eftir Kaspars Bekeris.

Stórar hugsjónir

Sigurður hefur talsvert komið fram í Bandaríkjunum og segir dragsenuna þar geta verið einsleita á hverjum stað fyrir sig, til dæmis sé afar sjaldgæft að kóngar og drottningar komi fram á sömu sýningunum, en hér á Íslandi mætist alls konar á sama stað. Dragsýning hér sé bara „sjúklega góð fjöllistasýning“ og framleiðslan á mjög faglegum nótum. „Við viljum gera stór atriði, ef við höfum stórt svið viljum við bakgrunnsdansara, leikmuni, konfetti-sprengjur og að allt sé mjög stórt. Við hugsum stórt, enda auðvitað stærst í heimi,“ útskýrir hann kankvís. „Drag er bara enn eitt sviðslistaformið, og það er svo mikið sem fer í drag. Þetta er ekki bara að skella á sig hárkollu og hoppa upp á svið. Á bak við hvert atriði liggja miklar pælingar og hellingur af vinnu, æfingum og fleiru. Tími fer auk þess í förðun, búninga, sviðsetningu, ljós og ég veit ekki hvað og hvað.“

Framtíð íslensku dragsenunnar er án efa björt og litrík. Sigurður segir áberandi í dragsögunni að gluggar opnist og lokist með vissu millibili en í hvert sinn sem nýr gluggi opnist sé allt stærra og kraftmeira en fyrr. „Ég sé fyrir mér að senan muni halda áfram að vaxa, opnast og verða fjölbreyttari. Síðan mun mögulega bólan springa og koma aftur í enn stærra formi.“ Hann sjálfur hefur nú starfað sem dragdrottning í fullu starfi í rúmt ár en slíkt hefði sennilega verið erfitt eða ómögulegt fyrir tíu árum síðan. „Það gerir mann gjörsamlega örmagna, að gefa sig allan í eitthvað í langan tíma, það tekur mikla orku og ekki er hægt að endast að eilífu. Þess vegna er svo frábært að geta gefið öðru fólki innblástur og rétt kyndilinn áfram,“ segir hann að lokum.

Dragviðburðir í dag:
Drag-Súgur og Drag-Lab eru mánaðarlegir viðburðir á Gauknum. Draghópurinn House of Strike heldur reglulega sýningar á Húrra. Lip-Sync Karaoke fer fram alla sunnudaga á Kiki Queer Bar. Einnig kemur erlent draglistafólk reglulega fram á Loft Hosteli, drag kemur oft við sögu í sýningum Reykjavík Kabarett og sjálfstæðir viðburðir skjóta upp kollinum víðs vegar um bæinn.