„Ég var sú eina í þingsalnum með þessa reynslu að baki“

Hanna Katrín 3

Hanna Katrín Friðriksson var fréttamaður hjá Morgunblaðinu í næstum tíu ár og er með BA-gráðu í heimspeki og hagfræði frá Háskóla Íslands. Hún flutti með eiginkonu sinni til Bandaríkjanna um aldamótin 2000 þar sem hún lauk MBA-prófi frá University of California Davis. Hún hefur starfað sem aðstoðarmaður ráðherra, verið stundakennari í Háskólanum í Reykjavík og Háskólanum á Bifröst og unnið fyrir Icepharma og Eimskip. Hún tók þátt í stofnun stjórnmálaaflsins Viðreisnar og hefur setið á þingi fyrir flokkinn frá hausti 2016, þar sem hún hefur meðal annars beitt sér fyrir jafnlaunavottun og málefnum hinsegin eldra fólks.

Byrjum á deginum í dag: Hvað er að gerast í þinginu næstu daga og vikur?

Þingið fór í sumarfrí um mánaðamótin maí/júní. Það þýðir þó ekki að þingmenn séu almennt farnir í frí þá, því í júní eru fastanefndir þingsins enn að störfum og nóg að gera þar. Júlí er sumarfrí að mestu leyti og í ágúst hefst svo undirbúningur næsta þings.

Þú situr núna á þingi fyrir Viðreisn en hafðir áður haft afskipti af Alþingi þegar þú varst aðstoðarmaður heilbrigðisráðherra 2007–2009. Geturðu sagt aðeins frá því hvaða væntingar þú hafðir til þingsetunnar áður en þú varst kjörin á þing og hver raunveruleikinn er eftir að hafa starfað á þingi í nokkra mánuði? Hvað er það sem almenningur gerir sér ekki grein fyrir um þingið?

Úff, ég gæti haft mjög mörg orð um væntingar vs. raunveruleika. Staðreyndin er sú að þau tæpu tvö ár sem ég starfaði sem aðstoðarmaður heilbrigðisráðherra fyrir um tíu árum síðan gáfu mér dýrmæta innsýn í opinbera stjórnsýslu. Eins fékk ég góða tilfinningu fyrir samspili löggjafarvalds og framkvæmdavalds. Sem aðstoðarmaður ráðherra hafði ég hins vegar lítið af þingstörfunum sjálfum að segja og kom t.d. sjaldan í þinghúsið á þessum árum.

Ákvörðun mína um að bjóða mig fram til þings fyrir Viðreisn bar mjög skjótt að. Ég er ein þeirra fjölmörgu sem höfðu um töluvert skeið unnið að stofnun nýs frjálslynds jafnréttissinnaðs stjórnmálaafls hægra megin við hina hefðbundnu pólitísku miðlínu. Í maí 2016 varð draumur okkar að veruleika þegar við stofnuðum Viðreisn formlega en það var ekki fyrr en undir lok ágústmánaðar sem ég tók endanlega ákvörðun um að hella mér út í stjórnmálin af fullum krafti. Þær vikur og mánuðir sem fylgdu í kjölfarið snerust eingöngu um Viðreisn, stefnumálin og svo sjálfa kosningabaráttuna. Allar hugleiðingar um sjálft þingstarfið biðu þar til eftir kosningar og ég stóð frammi fyrir þeim veruleika að vera þingmaður.

Vinnuumhverfið á þingi er eðlisólíkt flestu öðru. Fólk sem velur sér þessa vinnu á það vissulega flest sameiginlegt að forðast ekki athygli en það er engu að síður töluvert stökk að vera skyndilega orðin opinber manneskja. Vinnuálagið er gríðarlega mikið á köflum með rólegri tíma inn á milli. Þingfundirnir sjálfir segja þó bara hálfa söguna, því stór hluti starfsins felst í nefndafundum, öflun og lestri upplýsinga af ýmsum toga, sérhæfingu í tilteknum málum, samskiptum við fólk, skrifum, tillögugerð og svona mætti lengi telja. Það er alls ekki þannig að þeir sem mest ber á í fjölmiðlum hverju sinni séu þeir sem mest skilja eftir sig.

Svo myndast þarna oft persónuleg tengsl og vinátta sem gengur þvert á pólitískar skoðanir og samstarf. Það er verulega dýrmætt í svona umhverfi.

Þingsetan hófst eftir frekar óvenjulegt kjörtímabil og erfiðar stjórnarviðræður. Þegar þú lítur til baka yfir síðasta ár, hvað stendur upp úr?

Fyrir mig persónulega er það einfaldlega sú ákvörðun að láta vaða. Ég var lengi vel þeirrar skoðunar að ég ætti frekar að vera í aftursætinu, halda áfram að móta starf Viðreisnar með félögum mínum og styðja þannig við þá sem færu í framboð. Ég var í góðu og spennandi starfi hjá öflugu fyrirtæki og hafði ekkert endilega hugsað mér að gera breytingu þar á. En ég sé alls ekki eftir því að hafa tekið slaginn. Ég er mjög stolt af því að vera hluti af þeim sterka samheldna hópi sem þingflokkur Viðreisnar og nánasta bakland hans er.

Þingstörfin á þessu kjörtímabili hafa að langmestu leyti snúist um efnahagsmál. Horfurnar eru bjartar, atvinnuástand gott og fólk finnur fyrir auknum kaupmætti. Við þurfum að reyna að tryggja að sem flestir njóti góðs af þessu ástandi á sama tíma og við erum á varðbergi vegna hugsanlegrar niðursveiflu. Krónan gerir okkur auðvitað erfitt fyrir, eins og fyrri daginn, enda er endurskoðun á peningastefnu þjóðarinnar meðal þeirra stóru verkefna sem eru í gangi.

Af einstökum þingmálum langar mig sérstaklega að nefna jafnlaunavottunina. Viðreisn lofaði að hún yrði fyrsta mál á dagskrá flokksins á þingi og við stóðum við það. Ég er sannfærð um að jafnlaunavottunin á eftir að sanna gildi sitt, ekki bara til að jafna laun kynja á vinnumarkaði heldur líka til að greina betur þau öfl sem ráða, meðvitað og ómeðvitað, þegar samið er um kaup og kjör. Það kemur öllum til góðs að við áttum okkur á því.

Hanna Katrín 1
Hvernig skýrirðu fyrir kjósendum þínum málamiðlanir sem þarf að sættast við þegar um er að ræða stjórnarviðræður milli þriggja flokka? Á sér stað eitthvert samtal innra með manni í slíkum aðstæðum?

Innra samtal er sannarlega góð lýsing. Það var ekki einfalt að fara í gegnum þetta ferli í fyrsta skipti með nýjan flokk. Viðreisn er með nokkur stór og metnaðarfull mál á dagskrá. Eðli málsins samkvæmt þurftum við að gera málamiðlanir í stjórnarmyndunarviðræðunum og eins er ljóst að það tekur lungann úr kjörtímabilinu að hrinda þeim málum í framkvæmd sem komust inn í stjórnarsáttmálann.

Þegar svo er háttað er ómetanlegt að finna fyrir annars vegar skilningi og stuðningi baklandsins en jafnframt pressunni sem kemur þaðan. Viðreisn hefur skýran tilgang og við sem stöndum í framlínunni erum minnt á það daglega af þessu sterka baklandi. Auðvitað eru takmörk fyrir því hversu langt flokkar geta teygt sig í samstarfi en við hefðum aldrei tekið þátt í þessum stjórnarmeirihluta nema af því að við töldum stefnumálum okkar betur borgið innan hans en utan.

Hvað myndir þú segja við ungt fólk sem hefur efasemdir um þátttöku í stjórnmálum og opinberri umræðu?

Fyrir fólk sem hefur áhuga á umhverfinu í kringum sig liggur þátttaka í stjórnmálum beint við. Sumir vilja vera í baklandinu, aðrir í framlínunni, þar verður hver og einn að finna sinn stað. Besta leiðin til að tryggja að skoðanir þínar og baráttumál komist á dagskrá er að halda þeim sjálf/sjálfur/sjálft á lofti. Og þó að oft þurfi að kyngja málamiðlunum þá er það staðreynd að margt gott þokast áfram; það eru mikil tækifæri til að koma hlutum í verk á þingi.

Ég hef alltaf haft mikinn áhuga á stjórnmálum í sinni víðustu mynd, samfélaginu og fólki almennt. Flestir minna nánustu vina hafa lengi þóst vita að ég myndi á endanum hella mér út í slaginn. Og þeir höfðu rétt fyrir sér.

Þú hefur tjáð þig á þinginu um málefni hinsegin eldri borgara. Hvernig er staðan í þessum málaflokki og hvert vilt þú sjá hann stefna? Hvernig myndir þú vilja eldast sem hinsegin eldri borgari á Íslandi?

Í grófum dráttum má kannski segja að hinsegin eldri borgarar séu birtingarmynd þess breytta veruleika sem við stöndum frammi fyrir sem þjóðfélag þegar kemur að málefnum eldri borgara. Það er fráleitt að koma fram við eldra fólk eins og um einsleitan hóp sé að ræða.

Við vitum að það vantar mikið upp á fagþekkingu á málefnum eldra hinsegin fólks, sem kom t.d. skýrt í ljós í nýlegri starfsáætlun um málefni eldri borgara, þar sem ekki var minnst einu orði á hinsegin fólk. Ég bind miklar vonir við samstarfshóp Samtakanna ‘78 um þessi málefni og lofa að beita mér eins og ég mögulega get fyrir úrbótum. Það er sárara en tárum taki ef hinsegin fólk á erfitt með að fóta sig, t.d. á öldrunarheimili, vegna þess að þar skortir alla þekkingu og skilning. Við þurfum að fylgja réttindabaráttunni eftir alla ævina; það er skelfileg tilhugsun ef eldra hinsegin fólk telur sig eiga þann kost skástan að fara aftur í felur. Ég er ekkert frábrugðin öðrum að því leyti að ég vil fá að halda í sjálfsákvörðunarrétt minn og eldast eins og ég hef lifað. Stolt og á eigin forsendum.

Þú ert menntuð í heimspeki, hagfræði og með MBA-próf og hefur starfað m.a. sem fréttamaður og framkvæmdastjóri. Hvernig liggja þessir þræðir saman og hvenær á þessu skeiði fórstu að gera þér grein fyrir að þú laðaðist að konum?

Ég er hreinlega ekki viss um að það sé til ákveðið svar við því hvernig þessir þræðir liggja saman. Ég hef fjölbreytt áhugamál og hef alltaf gert mér far um að uppfylla einhverja þörf eða svala forvitni frekar en að standa í einhverri framtíðarhönnun. Kannski liggja þessir þræðir akkúrat saman núna í þingmennskunni. Það er allavega ljóst að flest það sem ég hef fengist við í gegnum tíðina og sú þekking og reynsla sem ég hef viðað að mér gagnast mér þar.

Einfalda svarið við spurningunni um hvenær ég gerði mér grein fyrir því að ég laðaðist að kvenfólki er að það var þegar ég varð ástfangin af núverandi konunni minni, Ragnhildi Sverrisdóttur, veturinn 1993–1994. Við höfðum þá unnið saman um nokkurra ára skeið sem blaðamenn á Morgunblaðinu og héldum raunar áfram að starfa þar saman einhver ár eftir að samband okkar hófst.

Voru einhverjar lesbíur eða hommar í þínu nánasta umhverfi sem voru fyrirmyndir á tímabilinu þegar þú varst að koma út?

Nei, ekki í allra nánasta umhverfi. Ég þekkti reyndar lesbíur í stærri kunningjahópnum. En það var þó frekar þannig að ég vissi af hinsegin fólki en að ég þekkti beinlínis til þess. Sýnileikinn var nú fjarri því að vera jafnmikill fyrir aldarfjórðungi og núna; gleðigangan byrjaði t.d. ekki fyrr en 1999.

Skiptir það máli að vera opinber lesbía á þingi? Hvað finnst þér um þá fullyrðingu að kynhneigð skipti ekki máli heldur einungis einstaklingurinn og málefnin?

Sýnileiki skiptir gríðarlegu máli; hann er frumforsenda upplýsingar og samræðu og á honum hefur barátta Samtakanna ‘78 byggt frá upphafi. Ég upplifi ekki fordóma af neinu tagi á þingi og greini ekki hvort einhver blæbrigði sé að finna í því hvernig samstarfsfólk mitt ávarpar mig miðað við aðra. Það er frekar að fólk fagni fjölbreytileikanum á meðal þingmanna. Þingið á auðvitað að endurspegla þjóðfélagið. Hérna áður fyrr var þingið mjög langt frá því að endurspegla nokkuð annað en miðaldra karlaklíku en núna hefur orðið mikil breyting þar á. Ég er stolt af því að vera einn liturinn í þeim regnboga.

Kyn skiptir máli, kynhneigð skiptir máli, kynvitund skiptir máli. Við eigum ekki að ímynda okkur að það sem skilgreinir einstaklinga á ákaflega persónulegan hátt skipti engu máli. Við eigum hins vegar að tryggja að fólki sé ekki mismunað á grundvelli þessa munar. Við erum ólík en höfum öll sama rétt.

Hanna Katrín 2Hefurðu þurft að taka þátt í umræðum um málefni hinsegin fólks; málefni sem jafnvel gætu einungis snert við þér en ekki öðrum þingmönnum? Hvernig tilfinning er það?

Málefni hinsegin eldra fólks snertu auðvitað við mér, þótt ég hafi ekki náð þeim virðulega aldri að falla í þeirra hóp. Núna í vor var svo samþykkt þingsályktunartillaga Svandísar Svavarsdóttur o.fl. um jafnræði í skráningu foreldratengsla en sú tillaga er einfaldlega liður í því að gera hinsegin foreldra jafnsetta öðrum foreldrum.

Ég rifjaði upp af því tilefni að ég þurfti á sínum tíma að gefa konu minni leyfi til að stjúpættleiða dætur okkar svo hún teldist líka móðir þeirra. Ég gerði mér grein fyrir að ég var sú eina í þingsalnum sem hafði þessa reynslu að baki; ég var glöð að geta deilt henni og ég varð enn glaðari þegar þingið samþykkti tillöguna einróma.

Þegar ég fæddi tvíburadætur okkar Ragnhildar, Elísabetu og Margréti, árið 2001 vorum við í staðfestri samvist, sem var eins og menn muna eins konar hjónabandslíki samkynhneigðra á þeim tíma. Þrátt fyrir það taldist Ragnhildur ekki sjálfkrafa vera annað foreldrið. Ég þurfti náðarsamlegast að veita henni leyfi til þess að stjúpættleiða stelpurnar okkar. Þessari stjúpættleiðingu fylgdu ítarleg viðtöl hjá Barnavernd og heimsóknir fulltrúa Barnaverndar heim til okkar til þess að kanna hvort heimili konunnar sem var að ættleiða væri í lagi. Þetta var óneitanlega nokkuð sérstök upplifun, enda var þetta sama heimili og ég bjó á og dætur okkar tvær. Þetta var svolítið undarlegt, vandræðalegt, stundum fyndið, en á köflum óttalega nöturlegt. Við þökkuðum oft okkar sæla, ég og konan mín, fyrir að vera þó orðnar það gamlar og reyndar að við gátum staðist þetta án þess einfaldlega að finnast þessar móttökur nærri því óbærilegar

Ég ætla þó að taka fram, svo það sé yfir allan vafa hafið, að starfsmenn Barnaverndar voru ekkert nema elskulegheitin. Þar á bæ þurftu menn einfaldlega að takast á við þá staðreynd að dætur okkar höfðu fæðst annarri konunni af tveimur í staðfestri samvist og enginn faðir var nefndur til sögunnar. Barnaverndin hér í Reykjavík hafði ekki á þeim tíma þurft að kljást við svonalagað áður, enda voru lög sem heimiluðu stjúpættleiðingar barna fólks í staðfestri samvist aðeins ársgömul þegar þetta var. Þar vorum við í fararbroddi, svo því sé til haga haldið, en Ísland var annað landið í heiminum á eftir Danmörku til að lögfesta þann rétt.

Núna er það liðin tíð að önnur móðirin þurfi að gefa hinni leyfi til að stjúpættleiða börnin sín. Fimm árum eftir að Elísabet og Margrét fæddust, eða árið 2006, voru lögfestar reglur um foreldri barns tveggja kvenna sem getið er með tæknifrjóvgun þar sem segir að kona sem samþykkt hefur að tæknifrjóvgun fari fram á eiginkonu sinni, telst foreldri barns sem þannig er getið.
Þessi upprifjun er ágætt dæmi um að réttindi hinsegin fólks hafa ekki stokkið alsköpuð fram á einum degi. Það hafa komið stór stökk en inn á milli mjakast hlutirnir vart áfram. Stundum hefur tíminn leitt í ljós að það sem þótti ágæt regla þegar hún var sett reynist þegar fram líða stundir ýta undir mismunun. Þá er ekkert að gera nema kippa því í liðinn. Við þurfum að halda vöku okkar svo réttlætið nái fram að ganga en skapi ekki nýtt óréttlæti.

Þrátt fyrir þann mikla stuðning sem réttindabarátta hinsegin fólks hefur notið hér á landi er ég samt dálítið óróleg og vil að þingið drífi í að lögfesta það sem upp á vantar. Ef við lítum út fyrir landsteinana eru mörg dæmi um uggvænlega þróun þar sem öfgaöfl af ýmsu tagi hafa náð eða eru nálægt því að ná fótfestu. Við vitum hvað fylgir því liði; hertar aðgerðir gegn frelsi og velferð kvenna, þrengt að réttindum hinsegin fólks, ráðist gegn dómurum, kennurum, fjölmiðlafólki og öðrum sem ekki eru nægilega leiðitamir, fyrir utan útlendingahatrið.

Ég trúi því að þessi öfl fari aldrei með sigur. Frelsið, frjálslyndið, víðsýnin og jafnréttið verða sterkari. En það gerist ekki fyrirhafnarlaust og við verðum auðvitað að muna lærdóm sögunnar. Vindáttin í samfélaginu getur breyst á skömmum tíma og þá getur verið of seint að koma sér í var. Það er mun erfiðara að vinda ofan af lagasetningu en stemmningu. Þess vegna mun ég varpa öndinni aðeins léttar í haust þegar við náum að afgreiða frumvarp um jafna meðferð á vinnumarkaði, óháð m.a. kynhneigð og kynvitund. Ég verð samt ekki í rónni fyrr en við stöndum aftur a.m.k. jafnfætis nágrannalöndunum í réttindamálum hinsegin fólks. Til þess að svo verði þarf að leysa fleiri verkefni. Við þurfum m.a. lög sem tryggja stöðu trans fólks, sem enn þarf að sæta sjúkdómsgreiningu og læknismeðferð til að fá nafni og kyni breytt í Þjóðskrá. Og við þurfum að tryggja rétt intersex barna. Þessi vinna er í gangi og við sjáum afraksturinn vonandi líka í haust.

Við höfum kannski orðið værukær á síðustu árum; haldið að flest réttindi væru tryggð og ekki gætt að okkur. En það má ekki slaka á. Ég vil búa í samfélagi þar sem allir njóta fullra mannréttinda. Það gerist ekki af sjálfu sér. Það gerist bara ef við vinnum saman að því marki.